Dagur Jehóva er nálægur
„Heyrið þetta, þér öldungar, og hlustið, allir íbúar landsins!“ — JÓEL 1:2.
1, 2. Hvaða aðstæður í Júda voru kveikja þess að Jehóva innblés Jóel að bera fram kröftugan spádóm sinn?
„Æ, SÁ dagur! Því að dagur [Jehóva] er nálægur, og hann kemur sem eyðing frá hinum Almáttka.“ Hvílík yfirlýsing! Þetta var boðskapur Guðs til þjóðar sinnar sem spámaðurinn Jóel flutti.
2 Orðin í Jóelsbók 1:15 voru færð í letur í Júda, sennilega um árið 820 f.o.t. Iðgrænar hæðir prýddu landið. Gnægð var af ávöxtum og korni. Beitiland var víðáttumikið og grösugt. Samt var eitthvað alvarlegt að. Baalsdýrkun stóð með blóma í Jerúsalem og Júda. Fólkið stundaði drykkjusvall frammi fyrir þessum falsguði. (Samanber 2. Kroníkubók 21:4-6, 11.) Ætlaði Jehóva að láta allt þetta viðgangast?
3. Hverju varaði Jehóva við og hvað eiga þjóðirnar að búa sig undir?
3 Jóelsbók tekur af öll tvímæli. Jehóva Guð ætlaði að réttlæta drottinvald sitt og upphefja heilagt nafn sitt. Hinn mikli dagur Jehóva var nálægur. Þá ætlaði hann að fullnægja dómi á öllum þjóðunum í „Jósafatsdal.“ (Jóel 3:17) Þær skulu vígbúast gegn hinum alvalda Jehóva. Hinn mikli dagur Jehóva blasir líka við okkur. Við skulum því líta nánar á spádómsorð Jóels um okkar daga og um liðna tíð.
Skordýrainnrás
4. Hve mikill átti atburðurinn að verða sem Jóel varaði við?
4 Jehóva segir fyrir munn spámanns síns: „Heyrið þetta, þér öldungar, og hlustið, allir íbúar landsins! Hefir slíkt nokkurn tíma til borið á yðar dögum eða á dögum feðra yðar? Segið börnum yðar frá því og börn yðar sínum börnum og börn þeirra komandi kynslóð.“ (Jóel 1:2, 3) Öldungarnir og öll þjóðin mátti eiga von á atburði ólíkum öllu öðru sem gerst hafði á æviskeiði þeirra eða á dögum forfeðra þeirra. Hann væri svo óvenjulegur að frá honum yrði sagt í þriðja ættlið. Hvaða markverði atburður var þetta? Til þess að komast að því skulum við gera okkur í hugarlund að við séum uppi á dögum Jóels.
5, 6. (a) Lýstu plágunni sem Jóel spáir. (b) Hver framkallaði þessa plágu?
5 Hlustið! Jóel heyrir gný í fjarska. Himinninn sortnar og hrollvekjandi gnýrinn hækkar um leið og myrkrið færist yfir. Ský leggst yfir landið, einna líkast reyk. Þetta er milljónaher skordýra. Og eyðingin, sem þau valda, er gríðarleg! Lítum nú á Jóel 1:4. Í innrásarhernum er ekki einungis átvargur eða vængjaðar flökkuengisprettur því að flysjarinn er líka með í för eða banhungraðar, ófleygar engisprettur. Engispretturnar berast skyndilega að með vindinum og hljóðið í þeim er eins og í glamrandi stríðsvögnum. (Jóel 2:5) Græðgi þeirra er slík að á örskömmum tíma geta milljónir þeirra breytt landi á við paradís í eyðimörk.
6 Lirfa náttfiðrilda og annarra fiðrilda er líka á ferðinni, kölluð nagarinn. Gríðarstórir herflokkar af hungruðum lirfum geta hakkað í sig gróðurlaufið bita eftir bita, lauf eftir lauf, uns grænkan er næstum horfin af plöntunum. Og það litla sem þá er eftir éta engispretturnar að mestu. Og það sem engispretturnar leifa á jarðvargurinn eftir að klára, en þar er átt við hraðfara kakkalakka. En taktu eftir: Í 2. kafla Jóelsbókar, 11. versi, kallar Guð engisprettuherinn ‚herlið sitt.‘ Já, hann framkallaði engisprettupláguna sem átti að gereyða landið og valda alvarlegri hungursneyð. Hvenær? Rétt á undan ‚degi Jehóva.‘
„Vaknið, þér ofdrykkjumenn“
7. (a) Hvernig var ástand trúarleiðtoga Júda? (b) Hvernig eru leiðtogar kristna heimsins líkt á sig komnir og trúarleiðtogar Júda?
7 Athyglinni er beint að trúarleiðtogum Júda, fyrirlitlegum hópi manna, þegar fyrirskipað er: „Vaknið, þér ofdrykkjumenn, og grátið! Kveinið allir þér, sem vín drekkið, yfir því að vínberjaleginum er kippt burt frá munni yðar.“ (Jóel 1:5) Já, andlegum ofdrykkjumönnum Júda var sagt að ‚vakna,‘ að láta renna af sér. En ímyndaðu þér ekki að þetta sé aðeins liðin saga. Á þessari stundu, fyrir hinn mikla dag Jehóva, eru klerkar kristna heimsins í táknrænni merkingu svo drukknir af ‚víni‘ að þeir vita varla af þessari fyrirskipun hins hæsta. Þeir verða svo sannarlega forviða þegar þeir vakna af andlegri vímu sinni á hinum mikla og óttalega degi Jehóva!
8, 9. (a) Hvernig lýsir Jóel engisprettunum og áhrifum plágunnar? (b) Hverja tákna engispretturnar nú á dögum?
8 Sjáðu hinn mikla engisprettuher! „Voldug þjóð og ótöluleg hefir farið yfir land mitt, tennur hennar eru sem ljónstennur og jaxlar hennar sem dýrsins óarga. Hún hefir eytt víntré mín og brotið fíkjutré mín, hún hefir flegið allan börk af þeim og varpað þeim um koll, greinar þeirra urðu hvítar. Kveina þú eins og mær, sem klæðist sorgarbúningi vegna unnusta æsku sinnar.“ — Jóel 1:6-8.
9 Er þetta bara spádómur um engisprettuþjóð sem gerir innrás í Júda? Nei, þetta á sér dýpri merkingu. Bæði í Jóel 1:6 og Opinberunarbókinni 9:7 tákna engisprettur þjóð Guðs. Engisprettuher nútímans er enginn annar en her smurðra engisprettna Jehóva ásamt einum 5.600.000 ‚annarra sauða‘ Jesú. (Jóhannes 10:16) Ertu ekki ánægður að tilheyra þessum aragrúa tilbiðjenda Jehóva?
10. Hvaða áhrif hefur engisprettuplágan á Júda?
10 Í Jóel 1:9-12 lesum við um afleiðingar engisprettuplágunnar. Hver hryðjan af annarri gereyðir landið. Án korns, víns og olíu geta svikulir prestar ekki haldið áfram starfi sínu. Meira að segja akrarnir drúpa vegna þess að engispretturnar hafa eytt korninu og trén eru ávaxtalaus. Þar sem vínviðurinn er ónýtur er ekkert vín handa vínsvelgjunum, tilbiðjendum Baals sem voru þar að auki andlegir ofdrykkjumenn.
„Harmið, þér prestar“
11, 12. (a) Hverjir segjast vera prestar Guðs nú á dögum? (b) Hvaða áhrif hefur engisprettuplága nútímans á trúarleiðtoga kristna heimsins?
11 Heyrið boðskap Guðs til þessara afvegaleiddu presta: „Gyrðist hærusekk og harmið, þér prestar! Kveinið, þér altarisþjónar!“ (Jóel 1:13) Í fyrri uppfyllingu spádóms Jóels þjónuðu levítaprestarnir við altarið. En hvað um lokauppfyllinguna? Nú á tímum hafa klerkar kristna heimsins tekið sér það vald að þjóna við altari Guðs og segjast vera þjónar hans eða „prestar.“ En hvað gerist núna þegar engisprettur Guðs eru komnar á kreik?
12 „Prestar“ kristna heimsins verða örvæntingarfullir þegar þeir sjá þjóð Jehóva Guðs að verki og heyra viðvörunina um dóm hans. Þeir berja sér á brjóst í gremju og bræði vegna hrikalegra áhrifa boðskaparins um ríkið. Og þeir kveina þegar hjörðin yfirgefur þá. Þar sem haglendi þeirra er upp urið mega þeir eyða nóttinni í hærusekk og harma tekjutap sitt. Innan skamms missa þeir vinnuna líka! Reyndar segir Guð þeim að harma allar nætur því að eyðing þeirra sé í nánd.
13. Bregst kristni heimurinn í heild vel við viðvörun Jehóva?
13 Samkvæmt Jóel 1:14 er eina von þeirra að iðrast og hrópa „á hjálp til Jehóva.“ (NW) Getum við vænst þess að klerkastétt kristna heimsins í heild snúi sér til Jehóva? Auðvitað ekki. Einstakir menn úr þeirra hópi geta tekið viðvörun Jehóva til sín. En andleg hungursneyð þessara trúarleiðtoga og sóknarbarna þeirra mun á heildina litið, halda áfram. Spámaðurinn Amos spáði: „Sjá, þeir dagar munu koma, — segir [Jehóva] Guð, — að ég mun senda hungur inn í landið, ekki hungur eftir brauði né þorsta eftir vatni, heldur eftir því að heyra orð [Jehóva].“ (Amos 8:11) Við erum aftur á móti þakklát fyrir þá ríkulegu andlegu veislu sem Guð býr okkur í kærleika sínum fyrir atbeina ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ — Matteus 24:45-47.
14. Forboði hvers er engisprettuplágan?
14 Engisprettuplágan var og er fyrirboði einhvers annars. Hvers? Jóel segir okkur það berum orðum: „Æ, sá dagur! Því að dagur [Jehóva] er nálægur, og hann kemur sem eyðing frá hinum Almáttka.“ (Jóel 1:15) Leifturárásir engisprettuhers Guðs um heim allan á okkar tímum gefa greinilega til kynna að hinn mikli og ógurlegi dagur Jehóva sé nálægur. Allir hjartahreinir menn hljóta að þrá þennan sérstaka uppgjörsdag þegar dómi Guðs verður fullnægt á hinum illu og hann fer með sigur af hólmi sem alheimsdrottinn.
15. Hver eru viðbrögð þeirra sem gefa viðvörun Guðs gaum?
15 Eins og fram kemur í Jóel 1:16-20 var fæðan hrifin burt úr Júda til forna. Fögnuðurinn hvarf líka. Vörugeymslur stóðu tómar og rífa þurfti hlöður. Nautgripir rásuðu stefnulaust um í leit að bithaga og sauðahjarðir drápust vegna þess að engispretturnar höfðu eytt öllum gróðri í landinu. Hvílík ógæfa! Hvað varð um Jóel við þessar aðstæður? Samkvæmt 19. versi sagði hann: „Til þín, [Jehóva], kalla ég.“ Nú á tímum gefa margir gaum að viðvörun Jehóva Guðs og ákalla hann í trú.
‚Dagur Jehóva kemur‘
16. Af hverju ættu „íbúar landsins“ að nötra?
16 Hlustaðu á eftirfarandi boð frá Guði: „Þeytið lúðurinn í Síon og æpið óp á mínu heilaga fjalli, svo að allir íbúar landsins nötri.“ (Jóel 2:1) Hvers vegna átti að bregðast þannig við? Spádómurinn svarar: „Því að dagur [Jehóva] kemur, já, hann er í nánd, dagur myrkurs og dimmu, dagur skýþykknis og skýsorta. Eins og sorti breiðist yfir fjallahnjúkana.“ (Jóel 2:1, 2) Hinn mikli dagur Jehóva er geysilega mikilvægur.
17. Hvaða áhrif hafði engisprettuplágan á landið og Júdamenn?
17 Hugsaðu þér hversu áhrifamikil sýn spámannsins hefur verið þegar hann sá vægðarlausar engispretturnar breyta landi á við aldingarðinn Eden í algera auðn. Lestu lýsinguna á engisprettuhernum: „Ásýndum eru þeir sem hestar að sjá, og þeir eru fráir sem riddarar. Eins og glamrandi vagnar stökkva þeir yfir fjallahnjúkana, eins og eldslogi, sem snarkar í hálmleggjum, eins og voldug þjóð, sem búin er til bardaga. Fyrir henni skjálfa þjóðirnar, öll andlit blikna.“ (Jóel 2:4-6) Þegar engisprettuplágan reið yfir á tímum Jóels jókst angist Baalsdýrkendanna og þeir fölnuðu af kvíða.
18, 19. Hvernig hefur starfsemi fólks Guðs nú á dögum verið eins og engisprettuplága?
18 Ekkert stöðvaði óþreytandi og agaðar engispretturnar. Þær hlupu „sem hetjur“ og klifu jafnvel borgarveggi. ‚Jafnvel móti skotspjótum þeyttust þær áfram án þess að stöðva ferð sína.‘ (Jóel 2:7, 8) Þetta er einstaklega skýr spádómsmynd af táknrænum engisprettuher Guðs nú á tímum sem lætur ekkert stöðva ferð sína. Enginn mótstaða eða ‚veggur‘ stöðvar þá. Þeir falla ekki frá ráðvendni sinni gagnvart Guði. Fyrr mæta þeir dauða sínum eins og þúsundir votta sem féllu fyrir „skotspjótum“ þegar þeir neituðu að hylla Hitler í stjórnartíð nasista í Þýskalandi.
19 Nútímaengisprettuher Guðs hefur borið rækilega vitni í ‚borg‘ kristna heimsins. (Jóel 2:9) Þjónar Guðs hafa gert það um allan heim. Þeir stíga enn yfir allar hindranir og koma inn á milljónir heimila, taka fólk tali á götum úti, tala við það í síma og ná sambandi við það á alls konar vegu þegar þeir flytja boðskap Jehóva. Þeir hafa dreift biblíuritum í milljarðatali og eiga enn eftir að dreifa miklu fleirum í linnulausu boðunarstarfi — bæði opinberlega og hús úr húsi. — Postulasagan 20:20, 21.
20. Hver styður við bakið á engisprettum nútímans og með hvaða árangri?
20 Jóel 2:10 bendir á að gríðarmikið engisprettuger sé eins og ský sem getur skyggt á sól, tungl og stjörnur. (Samanber Jesaja 60:8.) Leikur nokkur vafi á hver stendur að baki þessum her? Við heyrum þessi orð Jóels 2:11 yfirgnæfa engisprettugnýinn: „[Jehóva] lætur raust sína þruma fyrir öndverðu liði sínu. Því að herlið hans er afar mikið, því að voldugur er sá, sem framkvæmir hans boð. Já, mikill er dagur [Jehóva] og mjög ógurlegur, hver getur afborið hann?“ Já, Jehóva Guð er núna að senda fram engisprettuherlið sitt — áður en hinn mikli dagur hans kemur.
‚Ekki er Jehóva seinn á sér‘
21. Hvað gerist þegar ‚dagur Jehóva kemur eins og þjófur‘?
21 Pétur postuli talaði einnig um hinn mikla dag Jehóva líkt og Jóel gerði. Hann skrifaði: „Dagur [Jehóva] mun koma sem þjófur, og þá munu himnarnir með miklum gný líða undir lok, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna.“ (2. Pétursbréf 3:10) Vegna áhrifa Satans djöfulsins ríkja hinar illu stjórnir eða ‚himnar‘ yfir ‚jörðinni,‘ það er að segja mannkyni sem er fjarlægt Guði. (Efesusbréfið 6:12; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Þessir táknrænu himnar og jörð fá ekki staðist reiðihita Jehóva á hinum mikla degi hans. Í stað þeirra kemur ‚eftir fyrirheiti hans nýr himinn og ný jörð, þar sem réttlæti býr.‘ — 2. Pétursbréf 3:13.
22, 23. (a) Hvernig ættum við að bregðast við miskunn og þolinmæði Jehóva? (b) Hvernig ættum við að bregðast við nálægð dags Jehóva?
22 Við gætum misst sjónar á mikilvægi okkar tíma vegna alls þess sem glepur og reynir á trú okkar. En engispretturnar táknrænu láta ekkert stöðva sig og margir taka við boðskapnum um ríkið. Enda þótt Guð hafi gefið þessu sinn tíma ættum við ekki að misskilja þolinmæði hans sem seinagang. „Ekki er [Jehóva] seinn á sér með fyrirheitið, þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við yður, þar eð hann vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.“ — 2. Pétursbréf 3:9.
23 Á meðan við bíðum hins mikla dags Jehóva skulum við taka til okkar orð Péturs í 2. Pétursbréfi 3:11, 12: „Þar eð allt þetta ferst þannig, hversu ber yður þá ekki að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni, þannig að þér væntið eftir og flýtið fyrir komu [dags Jehóva], en vegna hans munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita.“ Þessi heilaga breytni og guðrækni felur vissulega í sér að við fylgjum engisprettuher Jehóva eftir með því að eiga reglulegan og markvissan þátt í prédikun fagnaðarerindisins um Guðsríki áður en endirinn kemur. — Markús 13:10.
24, 25. (a) Hvernig bregst þú við þeim sérréttindum að taka þátt í starfi engisprettuhers Jehóva? (b) Hvaða mikilvægrar spurningar spyr Jóel?
24 Engisprettuher Jehóva Guðs hættir ekki starfi sínu fyrr en hinn mikli og ógurlegi dagur Jehóva rennur upp. Tilvist þessa óstöðvandi engisprettuherliðs er framúrskarandi sönnun þess að dagur Jehóva sé nærri. Ertu ekki ánægður að þjóna með smurðum engisprettum Jehóva og félögum þeirra í lokaáhlaupinu áður en hinn mikli og ógurlegi dagur hans rennur upp?
25 Og dagur Jehóva verður mikill! Þess vegna kemur ekki á óvart að spurt skuli: „Hver getur afborið hann?“ (Jóel 2:11) Við skoðum þessa spurningu og fleiri í næstu tveim greinum.
Geturðu svarað?
◻ Af hverju varaði Jehóva við skordýraplágu í Júda?
◻ Hverjir eru engisprettur Jehóva í nútímauppfyllingu spádóms Jóels?
◻ Hvernig bregðast leiðtogar kristna heimsins við engisprettuplágunni og hvernig geta sumir þeirra umflúið afleiðingar hennar?
◻ Hve umfangsmikil hefur engisprettuplágan verið á 20. öldinni og hve lengi stendur hún?
[Mynd á blaðsíðu 19]
Skordýraplágan var fyrirboði enn verri ógæfu.
[Rétthafi]
Nakið tré: FAO/G. Singh
[Mynd á blaðsíðu 20]
Jehóva Guð stendur að baki engisprettuplágu nútímans.
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 18]
Engispretta: FAO/G. Tortoli; engisprettuger: FAO/Desert Locust Survey