Lærdómur frá Ritningunni: Amos 1:1-9:15
Dauði þjóðar
„VER viðbúinn að mæta Guði þínum,“ segir „[Jehóva], Guð allsherjar“ við Ísraelsþjóðina. (Amos 4:12, 13) Og ástæðan? Ísraelsmenn voru blindaðir af velgengni sinni, höfðu gleymt lögmáli hans og voru sekir um að saurga hið helga land hans með skurðgoðadýrkun, siðleysi, blóðsúthellingum og ofbeldi.
Amos er vakinn upp sem spámaður Jehóva til að flytja varnaðarboðskap, ekki einvörðungu sinni eigin þjóð, Júda, heldur sérstaklega norðurríkinu Ísrael. Hann fordæmir Ísrael fyrir sjálfsþæginn lífsmáta og segir fyrir að hann muni verða að líða undir lok fyrir höndum óvinaþjóða. Bók Amosar, sem skrifuð var einhvern tíma á árabilinu 829 til 804 f.o.t., gefur innsýn í hæfileika Guðs til að sjá ógæfu fyrir og hún býður fram tímabæra viðvörun.
Brennandi eyðing óvina Guðs
Enginn getur umflúið dóma Guðs. Svo sannarlega fengu þjóðirnar sem byggðu Damaskus (Sýrland), Gasa (Filisteu), Týrus, Edóm, Ammon, Móab og Júda að reyna það! Jehóva mun „eigi snúa aftur með það“ að refsa þeim fyrir ranga breytni sína. Samt sem áður þjónaði ógæfa þeirra, sem sögð var fyrir, eingöngu því að ítreka dóminn sem Ísrael stóð frammi fyrir vegna þess að hann hafði ekki haldið sáttmálasamband sitt við Guð í heiðri eða hlýtt lögum hans. — Amos 1:1-2:16.
Hlýðið varnaðarorðum Guðs. „Yður eina læt ég mér annt um fremur öllum kynstofnum jarðarinnar,“ segir Jehóva við Ísrael. (Amos 3:2) En syndum stráð braut Ísraelsmanna sýndi fyrirlitningu gagnvart nafni Guðs og drottinvaldi. Margir voru ákveðnir í að verða ríkir, búa í áhyggjulausum munaði og eiga sér ‚vetrarhöll til viðbótar við sumarhöllina‘ á kostnað sinna eigin bræðra. (Amos 3:15) Þeir hlunnfóru fátæka á eigingjarnan hátt með því að svíkja vog. Þeir höfðu yfirgefið sanna guðsdýrkun og það þýddi að þeir áttu yfir höfði sér refsingu Guðs. Þó ‚myndi Jehóva Guð ekkert gera án þess að opinbera þjónum sínum það fyrst.‘ Amos segir því fyrir dóma Jehóva og aðvarar menn: „Ver viðbúinn að mæta Guði þínum.“ — Amos 3:1-4:13.
Jehóva er hjálpræði
Guð mun sýna miskunn þeim sem iðrast. Jehóva höfðar til Ísraelsmanna: „Leitið mín, til þess að þér megið lífi halda.“ (Amos 5:4) „Hatið hið illa og elskið hið góða.“ (Amos 5:15) En þeir skeyttu engu um slík tilmæli. Fráhvarfsmenn kusu fremur að fara til Betel og Gilgal, sem voru höfuðstöðvar skurðgoðadýrkunar, til að færa falsguðum fórnir. (Amos 5:26; 1. Konungabók 12:28-30) Á skreyttum legubekkjum úr fílabeini svolgruðu sjálfumglaðir illvirkjar eðalvín og ofdekruðu sjálfa sig í mat og olíu. (Amos 5:11; 6:4-6) ‚Dagur Jehóva‘ nálgast og Guð hefur „svarið við sjálfan sig“ að eyða Ísrael. (Amos 5:18; 6:8) Jehóva mun vekja upp þjóð til að kúga Ísrael og reka í útlegð. — Amos 5:1-6:14.
Óttist Jehóva, ekki andstæðinga. Hægt hefði verið að eyða Ísrael með engisprettufaraldri eða með eldi sem engu eirir. Amos ákallaði Guð fyrir hönd Ísraels og Jehóva „iðraði“ þessa dóms síns, svo að hann var ekki fullnaður með þessum hætti. En líkt og smiður notar lóð til að ganga úr skugga um að veggur sé lóðréttur mun Jehóva „eigi lengur umbera“ Ísrael. (Amos 7:1-8) Þjóðin skal lögð í eyði. Amasía, sem var prestur kálfadýrkenda, reiðist boðskap spámannsins heiftarlega og sakar Amos ranglega um landráð og skipar honum að ‚hafa sig á burt til Júdalands og spá ekki framar‘ í Betel. (Amos 7:12, 13) Hrökklast Amos burt undan þessum hótunum? Nei! Óhræddur segir hann fyrir dauða Amasía og ógæfu fjölskyldu hans. Líkt og ávextir eru tíndir á uppskerutíma, eins er nú kominn reikningsskilatími Jehóva við Ísrael. Þaðan er engrar undankomu auðið. — Amos 7:1-8:14.
Þeir sem treysta Jehóva eiga sér von. „Og þó vil ég ekki með öllu afmá Jakobs niðja,“ segir Jehóva. Það er enn von fyrir einhverja af afkomendum Jakobs, en ekki fyrir syndarana. Eyðing þeirra er fullvís. Samt sem áður mun Jehóva ‚snúa við högum lýðs síns,‘ Ísraels. — Amos 9:1-15.
Lærdómur fyrir nútímamenn: Þeir sem gera sig að óvinum Guðs verða dæmdir til dauða. En hver sá sem tekur til sín varnaðarorð Guðs um að iðrast hlýtur miskunn Jehóva og heldur lífi. Ef við óttumst Guð munum við ekki leyfa andstæðingum hans að koma í veg fyrir að við gerum vilja hans.
[Rammi á blaðsíðu 20]
RITNINGARGREINAR SKOÐAÐAR:
○ 1:5 — Borgir til forna voru umgirtar háum múrum með risastórum hliðum. Hliðunum var læst með löngum slagbröndum úr járni eða eiri. Að „brjóta slagbrand Damaskus“ merkti að höfuðborg Sýrlands myndi falla í hendur Assýringa. Það yrði eins og ekki væri hægt að loka borgarhliðunum vegna þess að slagbrandar þeirra hefðu verið brotnir. — 2. Konungabók 16:8, 9.
○ 4:1 — Konurnar í Samaríu, sem elskuðu munaðarlífið, voru kallaðar „Basans kvígur.“ Bithagar Basans voru mjög gróskumiklir og þar var alinn úrvals búpeningur. (5. Mósebók 32:14; Esekíel 39:18) Þessar eigingjörnu „Basans kvígur“ hvöttu bersýnilega eiginmenn sína til að kúga fé út úr hinum fátæku til að fylla með ‚fílabeinshallir‘ sínar. (Amos 3:15) En slíkar gerðir leiddu til réttlátrar refsingar af hendi Guðs.
○ 4:6 — Orðatiltækið ‚hreinar tennur‘ skýrist af samsvarandi orðalagi í síðari hluta málsgreinarinnar, ‚skortur á mat.‘ Hér virðist því átt við hungursneyð þegar tennur manna yrðu hreinar vegna þess að ekkert væri til að borða. Ljóst er að Jehóva hafði látið í ljós vanþóknun sína á tíuættkvíslaríkinu, sem dýrkaði skurðgoð, með því að senda hungur í landið eins og hann hafði varað við löngu áður. (5. Mósebók 28:48) En hvorki þessi merki um dóm Guðs né önnur náðu hjörtum þessa fólks sem stöðugt braut sáttmála hans. — Amos 4:6, 8-11.
○ 5:2 — Þegar Amos bar fram spádóm sinn hafði hvorki Ísraelsþjóðin né land hennar verið yfirbugað eða svívirt af erlendu valdi. Þess vegna var hún persónukennd sem mey. En aðeins fáeinum árum síðar féll mærin Ísrael í hendur Assýringa og var ‚herleidd austur fyrir Damaskus.‘ (Amos 5:27) Amos var svo sannfærður um eyðingu Ísraels vegna ótryggðar hans að hann lýsir henni sem sé hún þegar um garð gengin.
○ 7:1 — ‚Konungssláttur‘ vísar að öllum líkindum til skatta og annarra gjalda sem konungur lagði á til að afla tekna fyrir fóðri handa skepnum sínum og fæðu handa riddaraliði. Fyrst þurfti að gjalda konunginum skatt en síðan gat fólkið hirt ‚hána‘ eða gróðurinn til eigin nota. En áður en því tækist það komu engisprettur og átu upp þessa síðari sáningu.
○ 8:2 — Sumarávextirnir voru tíndir í lok uppskerutímans. Lok landbúnaðarársins táknuðu þannig að Ísrael hefði gengið veginn á enda. „Ég vil eigi lengur umbera hann,“ lýsti Jehóva yfir. Nú var að því komið að hann fullnægði dómi sínum.
○ 9:7 — Jehóva útvaldi Ísraelsmenn vegna trúrra forfeðra þeirra, frelsaði forfeður þeirra úr fjötrum Egypta og færði þá til Kanaans. En þeir höfðu enga ástæðu til að stæra sig af því vegna þess að með illskuverkum sínum settu þeir sig í sömu spor og Blálendingar. (Samanber Rómverjabréfið 2:25.) Á sama hátt var frelsun þeirra úr Egyptalandi engu meiri trygging fyrir velþóknun Guðs en sú staðreynd að Filistar og Sýrlendingar skyldu búa á öðrum stöðum en áður fyrr. Þótt þeir væru afkomendur hinna trúföstu ættfeðra bjargaði það ekki Ísraelsmönnum. Þóknanleg staða gagnvart Guði byggðist á auðsveipni við vilja hans. — Amos 9:8-10; Postulasagan 10:34, 35.