Lærdómur frá Ritningunni: Míka 1:1-7:20
Réttlæti Jehóva og nafn upphafið
SPÁMAÐURINN Míka var uppi á áttundu öld f.o.t., en það voru tímar hjáguðadýrkunar og ranglætis í Ísrael og Júda. Aðstæður þá líktust svo mjög þeim sem eru allsráðandi núna að boðskapur Míka og viðvaranir eru vel viðeigandi á okkar tímum. Og hin jákvæðu tíðindi, sem hann flytur okkur einnig, gefa okkur sanna von í heimi þar sem Satan ræður ríkjum. — 1. Jóhannesarbréf 5:19.
Boðskap Míka má kannski best draga saman í eftirfarandi þrem setningum: „Vei þeim, sem . . . hafa illt með höndum . . . og framkvæma það.“ „Hvað heimtar [Jehóva] annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum?“ „Vér göngum í nafni [Jehóva], Guðs vors, æ og ævinlega.“ — Míka 2:1; 6:8; 4:5.
Skurðgoðadýrkun fordæmd
Jehóva umber ekki misgjörðamenn endalaust. Uppreisn og skurðgoðadýrkun er skefjalaus í Ísrael og Júda. Þess vegna gengur Jehóva fram sem vitni gegn þeim. Skurðgoð þeirra verða moluð. Skurðgoðadýrkendurnir verða ‚sköllóttir sem gammur‘ og verða reknir í útlegð. — 1:1-16.
Jehóva er Guð vonarinnar fyrir hina trúföstu. Kúgarar, sem leggja á ráðin um illt, eru fordæmdir sem þjófar og ræningjar. Ógæfa mun koma yfir þá. Þó er ‚leifum Ísraels‘ heitið endurreisn. Jehóva lofar að safna þeim saman „eins og sauðfé í rétt.“ — 2:1-13.
Jehóva ætlast til að þeir sem axla ábyrgð meðal þjóna hans iðki réttlæti. Sagt er við hina hrottafengnu leiðtoga Ísraels: „Er það ekki yðar að vita, hvað rétt er? En þeir hata hið góða og elska hið illa, flá skinnið af mönnum og holdið af beinum þeirra.“ „Fullur af krafti, af anda [Jehóva], og af rétti og styrkleika“ boðar Míka dóm Guðs yfir þeim. Ranglátir höfðingjar, segir hann, dæma fyrir mútur, prestarnir fræða fyrir kaup og spámennirnir spá fyrir peninga. Þess vegna skal „Jerúsalem verða að rúst.“ — 3:1-12.
Vonarboðskapur
Sönn guðsdýrkun mun verða iðkuð um alla jörðina. Míka spáir að „á hinum síðustu dögum“ muni fólk af mörgum þjóðum verða frætt um vegu Jehóva. Guð mun dæma meðal lýða og styrjaldir verða ekki framar. Sannir dýrkendur Jehóva munu ‚ganga í nafni Jehóva, Guðs síns, æ og ævinlega.‘ Þrátt fyrir útlegð og þjáningar verður þjóð hans frelsuð undan valdi óvina sinna. — 4:1-13.
Við getum borið traust til frelsarans sem Guð lofar. Stjórnandi frá Betlehem mun gæta þeirra sem fjárhirðir í krafti Jehóva. Sögð er fyrir ‚frelsun frá Assýringum.‘ Leifar sannra guðsdýrkenda munu verða sem hressandi dögg og ríkulegar regnskúrir og fölsk trúarbörgð og djöfladýrkun í sérhverri mynd verða upprætt. — 4:14-5:14.
Réttlæti Jehóva mun ríkja hvarvetna
Jehóva ætlast til að fólk hans fylgi sanngjörnum og réttlátum stöðlum hans. Hvað hefur hann gert til að verðskulda hirðuleysislega tilbeiðslu? Hann hefur gert vel við fólk sitt. ‚Og hvað heimtar Jehóva á móti annað en að þú gerir rétt, ástundir kærleika og fram gangir í lítillæti fyrir Guði þínum?‘ Þeir sem halda áfram illskuverkum, ofbeldi og arðráni geta aðeins búist við hörðum dómi af hans hendi. — 6:1-16.
Við ættum að treysta á réttlæti Jehóva og miskunn. Ættingjar munu jafnvel verða óvinir, en Míka segir: „Ég vil mæna til [Jehóva], bíða eftir Guði hjálpræðis míns! Guð minn mun heyra mig!“ Spámaðurinn treystir á réttlæti Jehóva, því hann veit að Guð ‚heldur eigi fast við reiði sína eilíflega, heldur hefir unun af að vera miskunnsamur.‘ — 7:1-20.
Lærdómur fyrir okkur: Jehóva ætlast til að fólk hans iðki réttlæti. Í reynd verður kristinn maður að spyrja sjálfan sig þegar um viðskipti er að ræða: Get ég verið siðferðilega hreinn með „ranga vog og svikna vogarsteina í sjóði mínum?“ (6:11) Núna á síðustu dögum verða allir þjónar Jehóva að leggja fram sinn skerf til sameiningar jarðnesks skipulags hans og taka við kennslu frá honum um veg friðarins. Við ættum að gera allt sem við getum til að upphefja nafn Jehóva og efla sanna tilbeiðslu. — 2:12; 4:1-4.
[Rammi á blaðsíðu 30]
RITNINGARGREINAR SKOÐAÐAR
○ 1:16 — Skalli var í Ísrael tengdur skömm, sorg og neyð. (Jesaja 3:24-26; 15:2, 3; Jeremía 47:5) Meðal sumra heiðingjaþjóða var siður að raka á sér höfuðið þegar menn syrgðu látna ástvini. Þótt skalli af eðlilegum orsökum væri ekki álitinn óhreinn samkvæmt lögmálinu áttu Ísraelsmenn ekki að raka á sér höfuðið þegar þeir syrgðu, vegna þess að þeir voru ‚Jehóva Guði helgaður lýður.‘ (5. Mósebók 14:1, 2) Samt sem áður sagði Míka Ísrael og Júda að raka af sér hárið vegna syndsamlegrar skurðgoðadýrkunar sem gerði menn óhæfa til að vera heilög þjóð og olli því að afkomendur þeirra verðskulduðu ánauð. Hebreska orðið, sem þýtt er „gammur,“ getur átt við gæsagamm sem hefur aðeins lítið eitt af mjúkum dún á höfðinu.
○ 2:12 — Þessi orð rætast nú á dögum á hinum andlega Ísrael. (Galatabréfið 6:16) Einkum frá 1919 fram til þessa dags hefur leiðinni verið haldið opinni fyrir hinar smurðu leifar til að flýja úr ánauð falskra trúarbragða, Babýlon hinni miklu. (Opinberunarbókin 18:2) Eins og Míka sagði fyrir var þeim safnað saman eins og „sauðfé í rétt, eins og hjörð í haga.“ Frá 1935 hefur sameinast þeim „mikill múgur“ af ‚öðrum sauðum‘ með þeim afleiðingum að það hefur sannarlega orðið „kliður mikill af mannmergðinni.“ — Opinberunarbókin 7:9; Jóhannes 10:16.
○ 3:1-3 — Hér eru dregnar upp skarpar andstæður milli Jehóva, góða hirðisins, og grimmra leiðtoga þjóðar hans til forna á dögum Míka. Þeir brugðust því hlutverki að vernda hjörðina með því að ástunda réttlæti. Þeir arðrændu grimmilega hina táknrænu sauði með því bæði að rýja þá inn að skinni og „flá skinnið af þeim“ í ofanálag — líkt og úlfar. Hinir illu hirðar meinuðu fólki að njóta réttlætis og létu það þola ‚manndráp.‘ (3:10) Með röngum dómum voru hinir varnarlausu flæmdir af heimilum sínum og frá lífsviðurværi sínu. — 2:2; samanber Esekíel 34:1-5.
○ 4:3 — Hinir ‚mörgu lýðir‘ og ‚voldugu þjóðir‘ eru ekki pólitískar þjóðir og stjórnir þeirra. Hér er um að ræða einstaklinga af öllum þjóðum, fólk sem brýst úr viðjum þjóðernishyggjunnar og snýr sér að sameinaðri þjónustu á fjalli sannrar tilbeiðslu sem kennt er við Jehóva. (Jesaja 2:2-4) Jehóva mun ‚dæma og skera úr málum‘ á andlegan hátt fyrir þessa trúuðu menn sem taka afstöðu með Guðsríki. Þessir einstaklingar hins mikla múgs fylgja úrskurðum Guðs og smíða plógjárn úr sverðum sínum og lifa þess vegna í friði við aðra votta um Jehóva.
○ 5:1 — Betlehem Efrata var líklega nefnd svo vegna þess að til voru tvær borgir með nafninu Betlehem. Míka nefnir þá sem var í Júda, rétt sunnan við Jerúsalem. Hin borgin var í norðri, í landi Sebúlons. (Jósúa 19:10, 15) „Efrata“ eða ‚Efrat‘ var gamalt nafn á Betlehem í Júda eða svæðinu þar í kring. (1. Mósebók 48:7; Rutarbók 4:11) Svona ítarleg skilgreining undirstrikar nákvæmni fyrirheita Guðs varðandi Messías.
○ 6:8 — Míka var ekki að gera lítið úr því að friðþægt skyldi fyrir syndir með fórnum, heldur var hann að draga fram það sem var í raun dýrmætt í augum Jehóva. (Samanber 5. Mósebók 10:12.) Ættu fórnirnar að vera Jehóva þóknanlegar varð syndarinn að láta í ljós eiginleika eins og réttlæti, góðvild og hógværð. Jehóva skyggnist eftir sömu eiginleikum hjá okkur nú á tímum í þjónustu okkar. — 1. Korintubréf 13:4-8.
○ 7:4 — Þyrnirinn og þyrnigerðið geta rifið bæði klæði manns og hold. Míka var með þessu að lýsa siðferðilegri hnignun þjóðarinnar á hans dögum. Hann átti auðsjáanlega við það að jafnvel hinn besti á meðal vegvilltra Ísraelsmanna væri jafnskaðlegur eða særandi eins og þyrnir eða þyrnigerði fyrir þá sem kæmu of nærri honum.
[Mynd á blaðsíðu 29]
Míka sagði fyrir fæðingarstað Jesú.