Megi „friður Guðs“ varðveita hjarta þitt
„[Jehóva] upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið!“ — 4. MÓSEBÓK 6:26.
1. Hvað skrifaði Páll Tímóteusi skömmu fyrir dauða sinn og hverju lýsir það?
ÁRIÐ 65 var Páll postuli fangi í Róm. Þótt Páll ætti bráðlega að deyja voveiflega fyrir hendi rómversks böðuls hafði hann frið í huga og hjarta. Það má sjá af orðum hans til ungs vinar, Tímóteusar: „Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna. Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins, sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi.“ — 2. Tímóteusarbréf 4:7, 8.
2. Hvað hafði varðveitt hjarta Páls gegnum viðburðaríka ævi allt til dauða?
2 Hvers vegna gat Páll verið svona rólegur er dauðinn blasti við? Vegna þess að „friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi,“ varðveitti hjarta hans. (Filippíbréfið 4:7) Þessi sami friður hafði verndað hann öll hin miklu athafnaár sem liðin voru frá því að hann hafði tekið kristna trú. Hann hafði styrkt hann í gegnum skrílsárásir, fangavist, húðstrýkingar, og eins þegar hann var grýttur. Þessi friður hafði gefið honum kraft er hann barðist gegn fráhvarfi frá trúnni og áhrifum þeirra sem héldu fram siðum og háttum Gyðinga. Friður Guðs hafði líka hjálpað honum að berjast gegn ósýnilegum, illum öndum. Ljóst er að hann styrkti hann allt til enda. — 2. Korintubréf 10:4, 5; 11:21-27; Efesusbréfið 6:11, 12.
3. Hvaða spurningum er varpað fram varðandi frið Guðs?
3 Þessi friður reyndist Páli geysisterkt afl! Getum við kynnst þessum friði? Getur hann stuðlað að því að varðveita hjörtu okkar og styrkt okkur í „trúarinnar góðu baráttu“ á okkar ‚örðugu tímum‘? — 1. Tímóteusarbréf 6:12; 2. Tímóteusarbréf 3:1.
Friður við Guð — hvernig hann tapaðist
4. Nefndu nokkrar merkingar orðsins „friður“ í Biblíunni.
4 Orðið „friður“ hefur margar merkingar í Biblíunni. Hér fara á eftir nokkrar samkvæmt upptalningu The New International Dictionary of New Testament Theology: „Út í gegnum Gamla testamentið lýsir [shalom] (friður) velsæld í víðasta skilningi orðsins (Dóm. 19:20); velmegun (Sálm. 73:3), jafnvel þegar talað er um hina guðlausu; líkamshreysti (Jes. 57:18[, 19]; Sálm. 38:3[4]); ánægju . . . (1. Mós. 15:15 o.s.frv.); góðu sambandi milli þjóða og manna ( . . . Dóm. 4:17; 1. Kron. 12:17, 18); hjálpræði ( . . . Jer. 29:11; sjá Jer. 14:13).“ Mikilvægast er friðsamlegt samband við Jehóva, en án þess getur annar friður í besta lagi verið stundlegur og takmarkaður. — 2. Korintubréf 13:11.
5. Hvernig var friði sköpunarverks Guðs spillt í upphafi?
5 Í upphafi átti öll sköpunin algeran frið við Jehóva. Guð hafði fullt tilefni til að lýsa yfir að öll sköpunarverk hans væru harla góð. Englarnir á himnum ráku upp fagnaðaróp við það að sjá þau. (1. Mósebók 1:31; Jobsbók 38:4-7) Því miður entist þessi alheimsfriður ekki. Hann var rofinn þegar andavera, nú þekkt sem Satan, tældi yngstu vitsmunaveruna, sem Guð hafði skapað, Evu, til að óhlýðnast Guði. Eiginmaður Evu, Adam, fór að dæmi hennar og þegar þrír uppreisnarseggir léku lausum hala var sundurlyndi í alheiminum. — 1. Mósebok 3:1-6.
6. Hvað hafði friðarmissir við Guð í för með sér fyrir mannkynið?
6 Það hafði hörmulegar afleiðingar fyrir Adam og Evu að glata friði sínum við Guð, þvı að nú byrjuðu þau að hrörna smám saman og dóu að lokum. Í stað þess að njóta friðar í paradís þurfti Adam að strita við að yrkja óundirbúna jörðina utan Edenar til að sjá fyrir vaxandi fjölskyldu sinni. Í stað þess að ala af sér fullkomið mannkyn í friði og ánægju ól Eva ófullkomin börn með miklum þjáningum. Friðarmissir við Guð leiddi til afbrýði og ofbeldis meðal manna. Kain drap Abel, bróður sinn, og þegar kom fram að flóðinu var öll jörðin full af ofbeldi. (1. Mósebók 3:7-4:16; 5:5; 6:11, 12) Er fyrstu foreldrar okkar dóu fóru þeir svo sannarlega ekki ánægðir í gröfina, „í friði“ eins og Abraham gerði mörg hundruð árum síðar. — 1. Mósebók 15:15.
7. (a) Hvaða spádóm bar Guð fram sem benti til fullkominnar endurreisnar friðarins? (b) Hversu áhrifamikill varð óvinur Guðs, Satan?
7 Eftir að Adam og Eva glötuðu friði sínum er í fyrsta sinn minnst á fjandskap í Biblíunni. Guð talaði til Satans og sagði: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ (1. Mósebók 3:15) Áhrif Satans jukust svo er tímar liðu að Jóhannes postuli gat sagt: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Heimur undir stjórn Satans er svo sannarlega ekki í friði við Guð. Því var við hæfi að lærisveinninn Jakob skyldi aðvara kristna menn: „Vitið þér ekki, að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði?“ — Jakobsbréfið 4:4.
Í friði í fjandsamlegum heimi
8, 9. Hvernig gátu menn átt frið við Guð eftir synd Adams?
8 Er Guð nefndi fyrst orðið ‚fjandskapur‘ í Edengarðinum sagði hann einnig fyrir hvernig alger friður yrði endurreistur handa sköpunarverkinu. Hið fyrirheitna sæði konu Guðs myndi merja höfuð hins upphaflega friðarspillis. Þeir sem iðkuðu trú á það fyrirheit áttu friðsamleg samskipti við Guð alla tíð síðan. Hjá Abraham þróuðust þessi samskipti upp í vináttu. — 2. Kroníkubók 20:7; Jakobsbréfið 2:23.
9 Á dögum Móse gerði Jehóva börn Ísraels, sonarsonar Abrahams, að þjóð. Hann bauð þessari þjóð frið sinn eins og sjá má af blessuninni sem Aron, æðsti presturinn, lýsti yfir þjóðinni: „[Jehóva] blessi þig og varðveiti þig! [Jehóva] láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur! [Jehóva] upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þer frið!“ (4. Mósebók 6:24-26) Friður Jehóva myndi hafa ríkulega umbun í för með sér en hann var skilyrðum háður.
10, 11. Hverju var friður Ísraels við Guð háður og hvað myndi hann hafa í för með sér?
10 Jehóva sagði þjóðinni: „Ef þér breytið eftir mínum setningum og varðveitið mínar skipanir og haldið þær, þá skal ég jafnan senda yður regn á réttum tíma, og landið mun gefa ávöxt sinn og trén á mörkinni bera aldin sín. Ég vil gefa frið í landinu, og þér skuluð leggjast til hvíldar og enginn skal hræða yður. Óargadýrum vil ég eyða úr landinu, og sverð skal ekki fara um land yðar. Og ég mun ganga meðal yðar, og vera Guð yðar, og þér skuluð vera mín þjóð.“ (3. Mósebók 26:3, 4, 6, 12) Ísrael gat notið friðar á þann hátt að þjóðin væri ohult fyrir óvinum sínum, byggi við nægtir og ætti náið samband við Jehóva. Það var þó háð þvı að hún héldi lögmál Jehóva. — Sálmur 119:165.
11 Gegnum sögu þjóðarinnar áttu þeir Ísraelsmenn, sem reyndu í trúfesti að halda lög Jehóva, frið við hann, og það hafði oft í för með sér margar aðrar blessanir. Á fyrstu stjórnarárum Salómons konungs hafði friður við Guð í for með sér efnalega velsæld auk hvíldar frá stríði við nágranna Ísraels. Biblían lýsir þeim tíma svo: „Júda og Ísrael bjuggu öruggir, hver maður undir sínu víntré og fíkjutré, allt frá Dan til Beerseba, alla ævi Salómons.“ (1. Konungabók 4:25) Jafnvel þegar fjandskapur braust út milli þeirra og grannþjóðanna nutu trúfastir Ísraelsmenn eftir sem áður þess friðar sem raunverulega skipti máli, friðar við Guð. Þannig skrifaði Davíð konungur sem var kunnur stríðsmaður: „Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, [Jehóva], lætur mig búa óhultan í náðum.“ — Sálmur 4:9.
Betri friðargrundvöllur
12. Hvernig höfnuðu Ísraelsmenn að lokum friði við Guð?
12 Loks kom sæðið, sem átti að endurreisa fullkominn frið, í persónu Jesú og englar sungu við fæðingu hans: „Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“ (Lúkas 2:14) Jesús kom fram í Ísrael en þrátt fyrir sáttmálssamband sitt við Guð hafnaði þjóðin sem heild honum og framseldi hann Rómverjum til lífláts. Skömmu fyrir dauða sinn grét Jesús yfir Jerúsalem og sagði: „Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi, hvað til friðar heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum.“ (Lúkas 19:42; Jóhannes 1:11) Ísraelsmenn glötuðu með öllu friði sínum við Guð vegna þess að þeir höfnuðu Jesú.
13. Hvaða nýja leið opnaði Jehóva fyrir menn til að njóta friðar við sig?
13 Tilgangi Guðs var þó ekki kollsteypt. Jesús var reistur upp frá dauðum og bar fram fyrir Jehóva verðmæti síns fullkomna lífs til lausnargjalds fyrir réttsinnaða menn. (Hebreabréfið 9:11-14) Fórn Jesú opnaði nýja og betri leið handa mönnum — bæði Ísraelsmönnum að holdinu og öðrum þjóðum — til að eignast frið við Guð. Páll sagði í bréfi til kristinna manna í Róm: „Vér vorum óvinir Guðs og urðum sættir við hann með dauða sonar hans.“ (Rómverjabréfið 5:10) Á fyrstu öldinni voru þeir sem eignuðust frið við Guð með þessum hætti smurðir með heilögum anda sem kjörsynir Guðs og meðlimir nýrrar, andlegrar þjóðar sem kölluð var „Ísrael Guðs.“ — Galatabréfið 6:16; Jóhannes 1:12, 13; 2. Korintubréf 1:21, 22; 1. Pétursbréf 2:9.
14, 15. Lýstu friði Guðs og útskýrðu hvernig hann verndar kristna menn, jafnvel þótt þeir séu skotspónn Satans.
14 Fjandskapur Satans og heims hans myndi bitna á þessum nýju, andlegu Ísraelsmönnum. (Jóhannes 17:14) Samt sem áður myndu þeir njóta ‚friðar frá Guði föður og Kristi Jesú, Drottni vorum.‘ (2. Tímóteusarbréf 1:2) Jesús sagði þeim: „Þetta hef ég talað við yður, svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ — Jóhannes 16:33.
15 Þetta er sá friður sem hjálpaði Páli og kristnum bræðrum hans að halda út gegnum allar þær þrengingar sem urðu á vegi þeirra. Hann endurspeglar kyrrlátt og friðsælt samband við Guð sem er mögulegt vegna fórnar Jesú. Hann veitir hugarró þeim sem hafa hann er þeir finna fyrir umhyggju Jehóva. Barn sem hvílir í örmum ástríks föður finnur til sams konar friðar, óbifanlegrar vissu um að það njóti gæslu þess sem elskar það. Páll hvatti Filippímenn: „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ — Filippíbréfið 4:6, 7.
16. Hvaða áhrif hafði friður við Guð á samband kristinna manna á fyrstu öld hver við annan?
16 Hatur og sundurlyndi er ein afleiðing þess að maðurinn glataði friði sínum við Guð. Það að öðlast frið við Guð hafði hið gagnstæða í för með sér fyrir kristna menn: frið og einingu þeirra á meðal, það sem Páll kallaði „einingu andans í bandi friðarins.“ (Efesusbréfið 4:3) Þeir ‚voru samhuga og friðsamir og Guð kærleikans og friðarins var með þeim.‘ Enn fremur prédikuðu þeir ‚fagnaðarboðin um Krist‘ sem var í reynd fagnaðarerindið um hjálpræði ‚friðar sona,‘ þeirra sem tóku við fagnaðarerindinu. — 2. Korintubréf 13:11; Postulasagan 10:36; Lúkas 10:5, 6.
Friðarsáttmáli
17. Hvað hefur Guð gert við þjóna sína á okkar dögum?
17 Er slíkur friður finnanlegur nú á dögum? Já. Frá stofnsetningu Guðsríkis í höndum hin dýrlega gerða Jesú Krists árið 1914 hefur Jehóva safnað út úr þessum heimi þeim sem eftir eru af Ísrael Guðs og gert við þá friðarsáttmála. Þannig uppfyllti hann loforð sitt sem hann gaf fyrir munn spámannsins Esekíels: „Og ég mun gjöra við þá friðarsáttmála, það skal vera eilífur sáttmáli við þá, og ég mun láta þá búa að staðaldri í landinu og fjölga þeim og setja helgidóm minn meðal þeirra að eilífu.“ (Esekíel 37:26) Jehóva gerði þennan sáttmála við smurða kristna menn sem iðka trú á fórn Jesú líkt og bræður þeirra á fyrstu öld. Þeir hafa verið hreinsaðir af andlegri mengun, vígst himneskum föður sínum og kappkosta að fylgja boðorðum hans, einkum þó að ganga um víða veröld fram fyrir skjöldu í prédikun fagnaðarerindisins um stofnsett ríki Guðs. — Matteus 24:14.
18. Hvernig hafa sumir af þjóðunum brugðist við þeirri uppgötvun að nafn Guðs hvíldi á Ísrael Guðs?
18 Spádómurinn heldur áfram: „Og bústaður minn skal vera hjá þeim, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð. Og þjóðirnar skulu viðurkenna, að ég er [Jehóva], sem helga Ísrael.“ (Esekíel 37:27, 28) Í samræmi við þessi orð hafa hundruð þúsundir manna, já, milljónir manna af ‚þjóðunum‘ gert sér ljóst að nafn Jehóva hvílir yfir Ísrael Guðs. (Sakaría 8:23) Þeir hafa þyrpst út úr ollum þjóðum til að þjóna Jehóva með andlegri þjóð hans og myndað hinn ‚mikla múg‘ sem Opinberunarbókin sá fyrir. Þeir „hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins“ og munu lifa af þrenginguna miklu inn í friðsælan, nýjan heim. — Opinberunarbókin 7:9, 14.
19. Hvaða friðar njóta þjónar Guðs núna?
19 Í sameiningu njóta Ísrael Guðs og múgurinn mikli andlegs friðar sem er sambærilegur við frið Ísraelsþjóðarinnar undir stjórn Salómons konungs. Míka spáði um þá: „[Þeir] munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar. Hver mun búa undir sínu víntré og undir sínu fíkjutré og enginn hræða þá.“ (Míka 4:3, 4; Jesaja 2:2-4) Þeir hafa, í samræmi við þetta, snúið baki við stríði og átökum og táknrænt talað smíðað plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Þannig ríkir friðsælt bræðralag út um allt alþjóðasamfélag þeirra, óháð þjóðerni, tungumáli, kynþætti eða félagslegum uppruna. Og þeir njóta þess að vita að Jehóva gætir þeirra og verndar. ‚Enginn skelfir þá.‘ Svo sannarlega ‚veitir Jehóva lýð sínum styrkleika, blessar Jehóva lýð sinn með friði.‘ — Sálmur 29:11.
20, 21. (a) Hvers vegna verðum við að vinna að varðveislu friðarins við Guð? (b) Hvað getum við sagt um tilraunir Satans til að spilla friði þjóna Guðs?
20 En eins og var á fyrstu öld hefur friður þjóna Guðs vakið upp fjandskap Satans. Satan var varpað niður af himnum eftir stofnsetningu Guðsríkis árið 1914 og hefur síðan háð stríð „við aðra afkomendur [konunnar].“ (Opinberunarbókin 12:17) Jafnvel a sinni tíð aðvaraði Páll: „Baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur . . . við andaverur vonskunnar í himingeimnum.“ (Efesusbréfið 6:12) Þessi aðvörun er brýn nuna þegar athafnasvæði Satans er takmarkað við nágrenni jarðar.
21 Satan hefur árangurslaust beitt öllum ráðum til að reyna að spilla friði þjóna Guðs. Árið 1919 voru færri en 10.000 sem kappkostuðu að þjóna Guði í trúfesti. Núna eru yfir 4 milljónir manna sem sigra heiminn með trú sinni. (1. Jóhannesarbréf 5:4) Fyrir þá er friður við Guð og hver annan veruleiki, þótt þeir þurfi að þola fjandskap Satans og sæðis hans. En í ljósi þessa fjandskapar, okkar eigin ófullkomleika og þeirra ‚örðugu tíða‘ sem við lifum, verðum við að vinna kappsamlega að varðveislu friðarins. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Í greininni á eftir munum við skoða hvað það felur í sér.
Getur þú svarað?
◻ Hvers vegna glataði maðurinn upphaflega friði sínum við Guð?
◻ Hverju var friður Ísraels við Guð háður?
◻ Á hverju byggist friður við Guð nú á dögum?
◻ Hvað er „friður Guðs“ sem varðveitir hjörtu okkar?
◻ Hvaða meiri blessunar njótum við ef við eigum frið við Guð?