Hvers væntir Jehóva af okkur?
„Hvað heimtar Drottinn annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum?“ — MÍKA 6:8.
1, 2. Hvers vegna gætu sumir þjónar Guðs verið daprir en hvað ætti að vera uppörvandi fyrir þá?
VERA er trúföst kristin kona. Hún er um 75 ára gömul og heilsuveil. „Stundum horfi ég út um gluggann,“ segir hún, „og sé trúsystkini mín prédika hús úr húsi. Þá fæ ég tár í augun af því að mig langar til að vera með þeim, en heilsunnar vegna er það takmarkað sem ég get gert í þjónustu Jehóva.“
2 Hefur þér einhvern tíma liðið svona? Allir sem elska Jehóva vilja auðvitað ganga í nafni hans og uppfylla kröfur hans. En hvað er til ráða ef heilsunni hrakar, við erum komin á efri ár eða höfum fyrir fjölskyldu að sjá? Kannski finnst okkur þetta hindra að við getum gert allt sem við þráum í hjarta okkar að gera í þjónustu Guðs. Ef svo er finnst okkur örugglega uppörvandi að skoða innblásin orð Míka í 6. og 7. kafla spádómsbókar hans. Í þessum köflum er lögð áhersla á að kröfur Jehóva eru sanngjarnar og að það er vel hægt að rísa undir þeim.
Guð fer vel með fólk sitt
3. Hvernig kemur Jehóva fram við hina uppreisnargjörnu Ísraelsmenn?
3 Lítum fyrst á Míka 6:3-5 og tökum eftir því hvernig Jehóva kemur fram við fólk sitt. Við munum að Ísraelsmenn voru uppreisnargjarnir á dögum Míka. Engu að síður ávarpar Jehóva þá mjög hlýlega með orðunum „þjóð mín“. Hann ásakar þá ekki harðlega heldur reynir að ná til hjartna þeirra er hann spyr: „Hvað hefi ég gjört þér?“ Hann hvetur þá jafnvel til að ‚vitna gegn sér‘.
4. Hvaða áhrif ætti umhyggja Guðs að hafa á okkur?
4 Jehóva er okkur sannarlega góð fyrirmynd. Hann sýnir jafnvel uppreisnargjörnum Ísraelsmönnum og Júdamönnum á dögum Míka þá umhyggju að kalla þá ‚þjóð sína‘. Við ættum sannarlega að vera góðviljuð og umhyggjusöm gagnvart þeim sem tilheyra söfnuðinum. Auðvitað getur verið erfitt að láta sér lynda við suma og einstaka maður getur verið veikburða í trúnni. En ef þeir elska Jehóva viljum við hjálpa þeim og sýna þeim umhyggju og meðaumkun.
5. Hver er kjarninn í Míka 6:6, 7?
5 Snúum okkur nú að Míka 6:6, 7. Spámaðurinn varpar fram nokkrum spurningum: „Með hvað á ég að koma fram fyrir Drottin, beygja mig fyrir Guði á hæðum? Á ég að koma fram fyrir hann með brennifórnir, með ársgamla kálfa? Hefir Drottinn þóknun á þúsundum hrúta, á tíþúsundum olífuolíulækja? Á ég að fórna frumgetnum syni mínum fyrir misgjörð mína, ávexti kviðar míns sem syndafórn sálar minnar?“ Nei, það er ekki hægt að þóknast Jehóva með ,þúsundum hrúta og tíþúsundum olífuolíulækja‘. En það er hægt að þóknast honum með öðrum hætti. Hvernig?
Við verðum að ástunda réttlæti
6. Hvaða þrjár kröfur Guðs koma fram í Míka 6:8?
6 Í Míka 6:8 dregur spámaðurinn saman það sem Jehóva ætlast til af okkur. Míka spyr: „Hvað heimtar Drottinn annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum?“ Þessar þrjár kröfur ná yfir tilfinningar okkar, hugsanir og verk. Við þurfum að láta okkur annt um að sýna þessa eiginleika, hugleiða hvernig við sýnum þá og gera eitthvað til þess. Skoðum þessar þrjár kröfur.
7, 8. (a) Hvað merkir það að „gjöra rétt“? (b) Hvers konar ranglæti er í algleymingi á dögum Míka?
7 „Að gjöra rétt“ merkir að ástunda réttlæti. Aðferðir Guðs eru mælikvarði réttlætisins. En samtíðarmenn Míka ástunda ekki réttlæti heldur óréttlæti. Á hvaða vegu? Lítum á Míka 6:10. Í lok versins er talað um að kaupmenn noti „svikinn mæli“, það er að segja of lítinn. Í versi 11 er bætt við að þeir séu með „svikna vogarsteina“. Og samkvæmt versi 12 ,fer tunga þeirra með svik‘. Svikull mælir, svikul vog og svikult tal ræður því ríkjum í viðskiptum á dögum Míka.
8 Óréttlætið einskorðast ekki við markaðstorgið. Það er líka algengt í réttarsalnum. Míka 7:3 talar um að ‚höfðinginn heimti og dómarinn dæmi gegn endurgjaldi‘. Dómurum er mútað svo að þeir felli óréttláta dóma yfir saklausu fólki. „Stórmennið“ eða áhrifamaðurinn tekur þátt í glæpunum. Míka segir reyndar að höfðinginn, dómarinn og stórmennið ,flæki málið‘ í þeim skilningi að vonskuverk þeirra eru skipulögð.
9. Hvaða áhrif hefur ranglæti hinna óguðlegu í Júda og Ísrael?
9 Ranglæti hinna óguðlegu leiðtoga snertir alla í Júda og Ísrael. Míka 7:5 bendir á að óréttlætið valdi vantrausti milli kunningja, vina og jafnvel hjóna. Í 6. versi kemur fram að það hafi leitt til þess að nánir ættingjar, eins og synir og feður og dætur og mæður, fyrirlíta hver annan.
10. Hvernig hegða kristnir menn sér í óréttlæti umheimsins?
10 Hvað um okkar tíma? Er ástandið ekki svipað? Líkt og Míka erum við umkringd óréttlæti, vantrausti og upplausn í samfélaginu og fjölskyldunni. En þó að þjónar Guðs búi í ranglátum heimi mega þeir ekki leyfa óréttlæti heimsins að síast inn í kristna söfnuðinn. Við höldum á loft heiðarleika og ráðvendni og sýnum hvort tveggja í daglega lífinu. Við ‚breytum vel‘ og heiðarlega í öllu. (Hebreabréfið 13:18) Það fylgir því mikil blessun að ástunda réttlæti vegna þess að það skapar bræðrafélag sem byggist á trausti.
Hvernig fólk ‚heyrir Jehóva kalla‘
11. Hvernig uppfyllist Míka 7:12?
11 Míka spáir því að réttlætið eigi eftir að ná til alls konar manna þó að óréttlætið sé mikið sem stendur. Hann segir að fólki verði safnað saman „frá hafi til hafs og frá fjalli til fjalls“ til að tilbiðja Jehóva. (Míka 7:12) Í lokauppfyllingu spádómsins nú á tímum er það ekki ein ákveðin þjóð sem nýtur góðs af óhlutdrægu réttlæti Guðs heldur einstaklingar af öllum þjóðum. (Jesaja 42:1) Hvernig?
12. Hvernig heyra menn rödd Jehóva nú á tímum?
12 Svarið er að finna aðeins fyrr í spádómi Míka. Þar segir í 6. kafla og 9. versi: „Heyr, Drottinn kallar til borgarinnar, og það er viska að óttast nafn hans.“ Hvernig getur fólk af öllum þjóðum ‚heyrt Jehóva kalla‘ og hvernig tengist það því að ástunda réttlæti? Fólk heyrir auðvitað ekki rödd Guðs bókstaflega. Hins vegar heyrir fólk af öllum kynþáttum og þjóðfélagsstigum rödd Jehóva í boðunarstarfinu sem fram fer um allan heim. Þeir sem hlusta „óttast nafn hans“ og bera lotningu fyrir því. Við ‚gerum rétt‘ með því að þjóna sem kostgæfir boðberar Guðsríkis — með því að kunngera öllum nafn Guðs án hlutdrægni.
Við verðum að ástunda kærleika
13. Hver er munurinn á kærleika og ástúðlegri umhyggju?
13 Snúum okkur nú að annarri kröfunni sem nefnd er í Míka 6:8. Jehóva ætlast til þess að við ‚ástundum kærleika‘. Í biblíuþýðingunni New World Translation er talað um að „elska umhyggju“, en hebreska orðið, sem þýtt er umhyggja, getur líka merkt „ástúðleg umhyggja“ eða „tryggur kærleikur“. Ástúðleg umhyggja er virk, meðaumkunarsöm umhyggja og tillitssemi. Það er munur á ástúðlegri umhyggju og kærleika. ,Kærleikur‘ er víðara hugtak því að það er hægt að elska bæði hluti og óhlutlæg fyrirbæri. Í Biblíunni er til dæmis talað um að ,elska visku‘ og ,elska peninga‘. (Orðskviðirnir 29:3; Prédikarinn 5:9) Ástúðleg umhyggja er hins vegar alltaf notað um fólk og þá sérstaklega þjóna Guðs. Míka 7:20 talar þess vegna um þá ,miskunn [„ástúðlegu umhyggju“, NW] sem Abraham var auðsýnd‘ en hann þjónaði Jehóva Guði.
14, 15. Hvernig birtist ástúðleg umhyggja og hvaða dæmi höfum við um það?
14 Í Míka 7:18 segir spámaðurinn að Jehóva ,hafi unun af miskunnsemi‘ það er að segja ástúðlegri umhyggju. Í Míka 6:8 er okkur sagt að elska ástúðlega umhyggju, ekki aðeins að sýna hana. Hvað lærum við af þessum ritningargreinum? Við sýnum ástúðlega umhyggju fúslega og frjálslega vegna þess að okkur langar til þess. Líkt og Jehóva höfum við ánægju eða yndi af því að sýna þeim sem þurfandi eru ástúðlega umhyggju.
15 Ástúðleg umhyggja er eitt aðalsmerki þjóna Guðs nú á dögum. Tökum eitt dæmi: Í júní árið 2001 olli hitabeltisstormur gríðarlegum flóðum í Texas í Bandaríkjunum með þeim afleiðingum að tugþúsundir húsa skemmdust, þar á meðal hundruð heimila votta Jehóva. Tíu þúsund vottar gáfu fúslega af tíma sínum og kröftum til að hjálpa þurfandi trúbræðrum sínum. Sjálfboðaliðarnir unnu linnulaust um daga, nætur og helgar í meira en hálft ár við að endurbyggja 8 ríkissali og meira en 700 heimili trúsystkina sinna. Þeir sem gátu ekki tekið þátt í sjálfu uppbyggingarstarfinu gáfu matvæli, byggingarefni og peninga. Hvers vegna komu þúsundir votta Jehóva trúsystkinum sínum til aðstoðar? Vegna þess að þeir „elska umhyggju“. Það er einstaklega uppörvandi til að vita að trúsystkini okkar um allan heim sýna þessa ástúðlegu umhyggju í verki! Já, það er gleðilegt en ekki byrði að uppfylla kröfuna um að „elska umhyggju“!
Gakktu fram í lítillæti fyrir Guði
16. Hvaða dæmi má taka til að sýna fram á að við þurfum að ganga fram í lítillæti fyrir Guði?
16 Þriðja krafan í Míka 6:8 er að „fram ganga í lítillæti fyrir Guði“. Þetta merkir að gera sér grein fyrir takmörkum sínum og reiða sig á Guð. Tökum dæmi: Sjáðu fyrir þér litla stúlku sem er á ferð í óveðri með föður sínum. Hún veit að styrkur hennar er takmarkaður en hún treystir á föður sinn og rígheldur í hönd hans. Við verðum líka að skilja takmörk okkar en treysta á himneskan föður okkar. Hvernig getum við viðhaldið þessu trausti? Til dæmis með því að hafa hugfast hvers vegna það er viturlegt að halda sig nálægt Guði. Míka minnir á þrjár ástæður: Jehóva frelsar okkur, leiðbeinir og verndar.
17. Hvernig frelsaði Jehóva þjóð sína forðum daga, leiðbeindi henni og verndaði hana?
17 Guð segir samkvæmt Míka 6:4, 5: „Ég leiddi þig . . . út af Egyptalandi.“ Já, Jehóva frelsaði Ísrael. Hann heldur áfram: „[Ég] sendi þér Móse, Aron og Mirjam.“ Hann notaði Móse og Aron til að leiðbeina þjóðinni og Mirjam fór fyrir konum Ísraels í sigurdansi. (2. Mósebók 7:1, 2; 15:1, 19-21; 5. Mósebók 34:10) Þannig notaði Jehóva þjóna sína til að veita leiðsögn. Í 5. versi minnir hann Ísraelsmenn á að hann hafi verndað þá gegn andstæðingum hennar, þeim Balak og Bíleam, og einnig að hann hafi verndað þá síðasta spölinn frá Sittím í Móab til Gilgal í fyrirheitna landinu.
18. Hvernig frelsar Guð okkur, leiðbeinir og verndar?
18 Ef við göngum með Guði frelsar hann okkur frá heimi Satans, leiðbeinir okkur í orði sínu og fyrir milligöngu skipulagsins og verndar okkur sem hóp þegar andstæðingar gera árás. Við höfum því ærna ástæðu til að halda fast í hönd föðurins á himnum er við göngum með honum gegnum síðasta óveðurskaflann á leiðinni inn í hinn réttláta nýja heim sem er mun mikilfenglegri en fyrirheitna landið til forna.
19. Hvernig er lítillæti tengt takmörkum okkar?
19 Að ganga fram í lítillæti fyrir Guði hjálpar okkur að sjá aðstæður okkar í réttu ljósi því að lítillæti er meðal annars það að þekkja takmörk sín. Elli eða heilsubrestur getur sett okkur einhverjar skorður í þjónustu Guðs. En í stað þess að verða niðurdregin skulum við hafa hugfast að Jehóva fer ekki fram á það sem við eigum ekki til heldur tekur við fórnum okkar sem við færum í samræmi við það sem við eigum til. (2. Korintubréf 8:12) Jehóva ætlast til þess að við þjónum sér heilshugar og gerum það sem aðstæður okkar leyfa. (Kólossubréfið 3:23) Hann umbunar okkur ríkulega ef við gerum okkar besta og leggjum okkur einlæglega fram í þjónustu hans. — Orðskviðirnir 10:22.
Biðlund er til blessunar
20. Hvaða vitneskja ætti að hjálpa okkur að sýna biðlund líkt og Míka?
20 Við getum ekki annað en hugsað eins og Míka þegar við finnum fyrir blessun Guðs. Hann segir: „Ég vil mæna til Drottins, bíða eftir Guði hjálpræðis míns!“ (Míka 7:7) Hvernig tengist þetta því að ganga í lítillæti með Guði? Ef við sýnum biðlund eða þolinmæði verðum við ekki vonsvikin yfir því að dagur Jehóva skuli vera ókominn. (Orðskviðirnir 13:12) Auðvitað þráum við öll að þessi vondi heimur líði undir lok. En þúsundir manna byrja að ganga með Guði í hverri viku. Það er því ærin ástæða til að vera þolinmóð. Gamalreyndur vottur segir: „Þegar ég lít um öxl yfir 55 ár í boðunarstarfinu er ég sannfærður um að ég hef engu tapað með því að bíða eftir Jehóva. Þvert á móti hefur það komið í veg fyrir mikið hugarangur.“ Hefur þú fundið fyrir þessu líka?
21, 22. Hvernig rætist Míka 7:14 á okkar tímum?
21 Það er tvímælalaust til góðs fyrir okkur að ganga með Guði. Eins og við lesum í Míka 7:14 líkir Míka fólki Guðs við sauði sem dvelja öruggir hjá fjárhirðinum. Í meiri uppfyllingu spádómsins á okkar tímum eru leifar hins andlega Ísraels, ásamt ‚öðrum sauðum‘, öruggar hjá traustum hirði sínum, Jehóva. Þeir „byggja einir sér kjarrskóginn innan um aldingarðana“ og eru andlega aðgreindir frá heiminum sem er bæði hættulegur og ófriðlegur. — Jóhannes 10:16; 5. Mósebók 33:28; Jeremía 49:31; Galatabréfið 6:16.
22 Fólk Guðs býr við mikla hagsæld eins og einnig er sagt fyrir í Míka 7:14. Míka segir um sauði Guðs, það er að segja fólk hans: „Lát þá ganga í Basanshaglendi og í Gíleað“. Fólk Guðs nú á dögum býr við mikla andlega velsæld, ekki ósvipað og sauðfé dafnaði vel á frjósömum beitilöndum í Basan og Gíleað. Það er enn ein blessun þeirra sem ganga lítillátir með Guði. — 4. Mósebók 32:1; 5. Mósebók 32:14.
23. Hvaða lærdóm getum við dregið af Míka 7:18, 19?
23 Í Míka 7:18, 19 leggur spámaðurinn áherslu á að Jehóva langi til að fyrirgefa þeim sem iðrast. Átjánda versið segir að Jehóva ,fyrirgefi misgjörðir‘ og ,sýkni af syndum‘. (Biblíurit, ný þýðing 1994) Og 19. versið segir að hann ‚varpi öllum syndum þeirra í djúp hafsins‘. Hvaða lærdóm getum við dregið af þessu? Við getum spurt okkur hvort við líkjum eftir Jehóva að þessu leyti. Fyrirgefum við þeim sem hafa gert eitthvað á hlut okkar? Ef þeir iðrast og vilja bæta fyrir það sem þeir hafa gert ætti okkur að langa til að líkja eftir Jehóva sem er fús til að fyrirgefa algerlega og endanlega.
24. Hvaða gagn hefur þú haft af spádómi Míka?
24 Hvaða gagn höfum við haft af því að fjalla um spádóm Míka? Hann hefur minnt okkur á að Jehóva gefur þeim sanna von sem koma til hans. (Míka 2:1-13) Hann hefur hvatt okkur til að gera allt sem við getum til að efla sanna tilbeiðslu þannig að við getum gengið í nafni Guðs að eilífu. (Míka 4:1-4) Og hann hefur fullvissað okkur um að við getum staðist kröfur Jehóva óháð aðstæðum okkar. Já, spádómur Míka er okkur sannarlega hvatning til að ganga í nafni Jehóva.
Hvert er svarið?
• Til hvers ætlast Jehóva af okkur samkvæmt Míka 6:8?
• Hvað er nauðsynlegt til að ‚gera rétt‘?
• Hvernig getum við sýnt að við ‚elskum góðvild‘?
• Hvað er fólgið í því að ‚fram ganga í lítillæti fyrir Guði‘?
[Myndir á blaðsíðu 19]
Míka lifði í samræmi við kröfur Jehóva þrátt fyrir illskuna umhverfis. Þú getur það líka.
[Mynd á blaðsíðu 21]
Ástundaðu réttlæti með því að vitna fyrir fólki af öllum stéttum.
[Myndir á blaðsíðu 21]
Sýndu að þú elskir góðvild með því að sinna þörfum annarra.
[Mynd á blaðsíðu 21]
Gerðu það sem þú getur en virtu takmörk þín.