Lærdómur frá Ritningunni: Óbadía 1-21
Viðvaranir Guðs sem snerta þig
„HVER sá er snertir yður, snertir augastein minn.“ (Sakaría 2:12) Þessi ógnvænlegu orð eru varnaðarboð til allra: Jehóva tekur eftir hvernig þjóðirnar fara með þjóna hans. En hvað verður um þjóð sem lætur sig slíka aðvörun Guðs engu skipta og vinnur þjónum Guðs tjón? Stysta bók Hebresku ritninganna, Óbadía, svarar því.
Ógæfa fyrir Edóm
Enginn getur umflúið dóm Jehóva. Spádómur Óbadía, sem borinn var fram um árið 607 f.o.t., sagði fyrir brottrekstur Edómíta úr landi sínu þrátt fyrir að þeir virtust standa nær öruggum fótum hátt „meðal stjarnanna.“ Og þótt ekki séu sögð nánari deili á þessum biblíuritara rís hann undir nafni sínu sem merkir „þjónn Jehóva.“ Hvernig? Með því að boða gereyðingardóm. Þegar Edóm fellur munu sáttmálsbundir vinir hans ræna hann og rupla. Hinir vitru og voldugu meðal Edómíta munu ekki einu sinni komast af. — Vers 1-9.
Guð leiðir ógæfu yfir þá sem eru sekir um ofbeldi gegn þjónum hans. Hver er ástæðan fyrir ógæfu Edómíta? Síendurtekið ofbeldi gegn sonum Jakobs, bræðrum þeirra. Edómítar voru afkomendur Esaús og því skyldir Ísraelsmönnum. Samt sem áður eru þeir sakaðir um að ræna ættmenn sína, fagna meinfýsnislega yfir falli Jerúsalem og kóróna það síðan með því að framselja þá sem eftir lifðu í hendur óvinarins. Með þeim hætti hafa Edómítar innsiglað dóm sinn. — Vers 10-16.
Hús Jakobs endurreist
Loforð Jehóva eru alltaf áreiðanleg. Á dögum Óbadía veitti Jehóva vissu fyrir því að þjónar hans myndu endurheimta land sitt og meira til. Ísrael yrði ekki lengur sundurskipt land. Hús Jakobs, tveggjaættkvíslaríkið Júda, myndi sameinast húsi Jósefs, og eyða Edóm og leggja undir sig land hans líkt og eldur eyðir hálmi. Óbadía lýkur máli sínu í uppörvandi tón og lýsir yfir að Ísraelsmenn muni sameinast í tilbeiðslu sinni á Guði er þeir hafa snúið aftur til föðurlands síns og vera þegnar hans. Sannarlega mun konungdómurinn verða hjá Jehóva. — Vers 17-21.
Lærdómur fyrir okkur: Viðvaranir, sem menn taka ekki mark á, eru þeim til tjóns. Þannig ætti umbúðalaus viðvörun Óbadía til Edóms að enduróma í eyrum þeirra sem standa gegn Guði nú á tímum: Þeim sem berjast gegn Jehóva og þjónum hans verður útskúfað að eilífu.
Lærdómur frá Ritningunni: Jónas 1:1-4:11
FORÐASTU ógæfu! Hljóttu miskunn! Hvernig? Með því að gefa gaum sannri sögu sem er meira en 2800 ára gömul — Jónasarbók. Bókina skrifaði spámaðurinn Jónas frá Galíleu um árið 844 f.o.t. og hún er full af andlegu innsæi.
Jónas hleypst á brott
Við ættum að treysta að Jehóva styðji okkur í þjónustu hans. Jónas flýr þó verkefni, sem Guð fékk honum, í stað þess að reiða sig á styrk frá Jehóva. Að vísu var verkefni hans ekki auðvelt. Hann átti að vara hina blygðunarlausu og syndugu Nínívebúa við ógæfu sem kæmi frá Guði. En Jónas leggur af stað í þveröfuga átt og leggur úr höfn til Tarsis sem nú heitir Spánn. Á leiðinni brestur á slíkur stormur að skip og skipshöfn virðist ætla að farast. Jónas gerir þá játningu sína, skipverjar varpa honum fyrir borð og sjórinn kyrrist. Stór fiskur gleypir spámanninn. — 1:1-2:1.
Þjónar Guðs geta treyst því að hann svari bænum þeirra. Jónas ákallar Jehóva til hjálpar inni í fiskinum, og þakkar Jehóva í bæn fyrir björgun úr hinni votu gröf og lofar að standa við heit sitt. Að lokum spýr fiskurinn honum á þurrt land. — 2:2-11.
Jónas fer til Níníve
Skjóttu þér ekki undan verkefnum frá Jehóva. Spámaðurinn, sem áður var svo ófús, virðist nú hafa lært sína lexíu og prédikar í ‚hinni miklu borg.‘ Jónas ber fram einfalda en hnitmiðaða viðvörun: „Að fjörutíu dögum liðnum skal Níníve verða í eyði lögð.“ Svo undarlega fer að Nínívebúar iðrast og sleppa undan ógæfunni. — 3:1-10.
Maðurinn getur ekki takmarkað miskunn Guðs. Jónas verður ævareiður yfir því að Níníve skuli hlíft. En Jehóva notar plöntu til að kenna Jónasi að hann sýni miskunn ef honum sýnist svo. — 4:1-11.
Lærdómur fyrir okkur: Hægt er að afstýra ógæfu með því að hlýða spádómum Guðs! Líktu eftir Nínívebúum. Hlustaðu auðmjúkur á Jesú Krist sem er spámaður meiri en Jónas. — Lúkas 11:32.
[Rammi á blaðsíðu 20]
RITNINGARGREINAR SKOÐAÐAR
○ Óbadía vers 7 — Á biblíutímanum jafngilti það nánast vináttusáttmála að ‚eta brauð‘ saman. Hvílík kaldhæðni! Babýloníumenn, „sambandsmenn“ Edómíta, áttu eftir að eyða þeim. Að vísu leyfðu Babýloníumenn á tímum Nebúkadnesars Edómítum að fá hlut í herfangi Júda eftir að Jerúsalem var lögð í eyði. En Nabónídus, sem síðar varð konungur Babýlonar, batt í eitt skipti fyrir öll enda á viðskipta- og kaupsýslumetnað Edóms.
○ Vers 10 — Edóm var dæmdur til að verða „að eilífu upprættur“ vegna svæsins haturs og tilfinningaleysis gagnvart bræðraþjóð sinni, „Júda sonum.“ (Vers 12) Slíkur þjóðardauði hafði í för með sér að ríki Edómíta með sérstakri stjórn og íbúum á ákveðnum stað myndi hverfa af sjónarsviðinu. Núna eru engir menn til af edómsku þjóðerni; þeir eru orðnir ‚eins og þeir hefðu aldrei til verið.‘ — Vers 16.
[Rammi á blaðsíðu 21]
RITNINGARGREINAR SKOÐAÐAR
○ Jónas 2:1 — Búrhvalur er nægilega haus- og kokstór til að geta gleypt mann í heilu lagi. Þótt hvalir séu sjaldséðir í Miðjarðarhafi höfðu hvalveiðimenn einu sinni viðlegu í Joppa. Stóri hvíti hákarlinn er þekktur fyrir að elta skip á Miðjarðarhafi og éta hvaðeina sem kastað er fyrir borð. Hann gæti líka gleypt mann í heilu lagi. Hvað Jónas varðaði notaði Guð „stórfisk,“ ef til vill skepnu sem nútímavísindi þekkja ekki.
○ 2:2, 3 — Jónas hafði ekki ákjósanlegustu skilyrði til að yrkja ljóð meðan hann var í „kviði fisksins,“ en síðar setti hann reynslu sína á blað. Innst í hjarta hans spruttu upp orð sem endurómuðu orð sálmanna og túlkuðu tilfinningar hans. — Berðu saman 2:3 og Sálm 120:1 og Sálm 130:1; og 2:6 við Sálm 69:2.
○ 3:3 — Stærð Níníveborgar er ekkert ýkt. Þótt múrarnir umhverfis borgina hafi aðeins verið um 13 kílómetrar að ummáli er ljóst að til hennar töldust einnig úthverfin svo að um 40 kílómetrar kunna að hafa verið endanna í milli.
○ 3:10 — Hebreska orðið, sem þýtt er „iðraðist,“ merkir að „skipta um skoðun vegna fyrri (eða fyrirhugaðra) verka.“ Þannig getur Jehóva „iðrast“ eða skipt um skoðun gagnvart því að refsa villuráfandi mönnum, þegar þeir iðrast í einlægni.