Guðræðisleg stjórnun á tímum kristninnar
„[Það er] ákvörðun [hans], . . . að safna öllu því, sem er á himnum, og því, sem er á jörðu, undir eitt höfuð í Kristi.“ — EFESUSBRÉFIÐ 1:9, 10.
1, 2. (a) Hvernig fór samansöfnun ‚þess sem er á himnum‘ fram frá og með árinu 33? (b) Hvernig hafa smurðir kristnir menn sýnt anda Móse og Elía síðan 1914?
SAMANSÖFNUN ‚þess sem er á himnum‘ hófst árið 33 þegar „Ísrael Guðs“ varð til. (Galatabréfið 6:16; Jesaja 43:10; 1. Pétursbréf 2:9, 10) Eftir fyrstu öld okkar tímatals hægði á samansöfnuninni þegar sannkristnir menn (sem Jesús kallaði ‚hveiti‘) kaffærðust í „illgresi“ fráhvarfsins sem Satan sáði. En þegar ‚endalokin‘ nálguðust kom hinn sanni Ísrael Guðs aftur fyrir manna sjónir og árið 1919 var hann settur yfir allar eigur Jesú.a — Matteus 13:24-30, 36-43; 24:45-47; Daníel 12:4.
2 Á dögum fyrri heimsstyrjaldarinnar unnu smurðir kristnir menn mikil verk líkt og Móse og Elía höfðu gert.b (Opinberunarbókin 11:5, 6) Frá 1919 hafa þeir prédikað fagnaðarerindið með hugrekki Elía í fjandsamlegum heimi. (Matteus 24:9-14) Og frá 1922 hafa þeir boðað dóma Jehóva yfir mannkyni alveg eins og Móse kallaði plágur hans yfir Egyptaland fortíðar. (Opinberunarbókin 15:1; 16:2-17) Leifar þessara smurðu kristnu manna nú á tímum eru kjarni nýheimssamfélags votta Jehóva.
Stjórnandi ráð að verki
3. Hvaða atburðir sýna að frumkristni söfnuðurinn var vel skipulagður?
3 Smurðir fylgjendur Jesú skipulögðu starf sitt vel allt frá upphafi. Þegar lærisveinunum fjölgaði voru stofnaðir söfnuðir á ýmsum stöðum og öldungar útnefndir. (Títusarbréfið 1:5) Eftir árið 33 gegndu postularnir 12 hlutverki stjórnandi ráðs og tóku djarfmannlega forystu í boðunarstarfinu. (Postulasagan 4:33, 35, 37; 5:18, 29) Þeir skipulögðu dreifingu matvæla til þurfandi safnaðarmanna og sendu Pétur og Jóhannes til Samaríu til að fylgja eftir áhuga sem þeir fréttu af þar. (Postulasagan 6:1-6; 8:6-8, 14-17) Barnabas fór með Pál til þeirra til að láta staðfesta að þessi fyrrverandi ofsækjandi væri nú fylgjandi Jesú. (Postulasagan 9:27; Galatabréfið 1:18, 19) Og eftir að Pétur hafði prédikað fyrir Kornelíusi og heimilisfólki hans sneri hann aftur til Jerúsalem og greindi postulunum og öðrum bræðrum í Júdeu frá því hvaða bendingu heilagur andi hefði gefið um vilja Guðs í þessu máli. — Postulasagan 11:1-18.
4. Hvaða tilraun var gerð til að drepa Pétur en hvernig var lífi hans bjargað?
4 Þá var gerð gróf aðför að hinu stjórnandi ráði. Pétur var hnepptur í fangelsi og það var aðeins vegna afskipta engils sem hann komst lífs af. (Postulasagan 12:3-11) Fyrst þá kom einhver annar en postularnir 12 fram í ábyrgðarstöðu í Jerúsalem. Þegar Pétri var sleppt úr fangelsi bað hann hóp manna, sem saman var kominn á heimili móður Jóhannesar Markúsar, að „segja Jakobi [hálfbróður Jesú] og bræðrunum frá þessu.“ — Postulasagan 12:17.
5. Hvernig breyttist samsetning hins stjórnandi ráðs eftir píslarvættisdauða Jakobs?
5 Áður en þetta gerðist hafði komið í ljós að velja þyrfti einhvern annan til að ‚taka embætti‘ Júdasar Ískaríots, svikula postulans sem svipti sig lífi. Velja þurfti til postula mann sem hafði verið með Jesú í þjónustu hans og verið vottur að dauða hans og upprisu. En þegar Jakob, bróðir Jóhannesar var líflátinn, var enginn valinn í hans stað sem einn hinna 12. (Postulasagan 1:20-26; 12:1, 2) Næst þegar talað er um hið stjórnandi ráð kemur í ljós að það hefur verið fjölgað í því. Þegar ágreiningur kom upp um það hvort heiðingjar, sem fylgdu Jesú, ættu að halda Móselögmálið var hann lagður fyrir ‚postulana og öldungana í Jerúsalem‘ til úrskurðar. (Postulasagan 15:2, 6, 20, 22, 23; 16:4) Af hverju eru ‚öldungar‘ nú orðnir hluti hins stjórnandi ráðs? Biblían lætur það ósagt en það hafði augljósa kosti í för með sér. Dauði Jakobs og fangelsun Péturs hafði sýnt að postularnir gætu lent í fangelsi eða týnt lífi einn góðan veðurdag. Ef slík staða kæmi upp gat seta annarra hæfra öldunga, sem voru reyndir í störfum hins stjórnandi ráðs, tryggt skipulega og áframhaldandi umsjón.
6. Hvernig hélt hið stjórnandi ráð áfram að starfa í Jerúsalem, jafnvel þótt þeir sem sátu upphaflega í því væru ekki lengur í borginni?
6 Þegar Páll kom til Jerúsalem um árið 56 gaf hann Jakobi skýrslu og „allir öldungarnir komu þangað,“ segir Biblían. (Postulasagan 21:18) Af hverju er ekkert minnst á postulana á þessum fundi? Sem fyrr lætur Biblían það ósagt, en sagnaritarinn Evsebíus greindi frá því síðar að einhvern tíma fyrir árið 66 hafi „þeir postular, sem eftir voru, hrakist frá Júdeu sökum stöðugrar morðhættu. En til að kenna boðskap sinn ferðuðust þeir til allra landa í krafti Krists.“ (Eusebius, 3. bók, 5, v. 2.) Orð Evsebíusar tilheyra að vísu ekki hinni innblásnu frásögu, en þau eru engu að síður í samræmi við hana. Til dæmis var Pétur í Babýlon árið 62 — fjarri Jerúsalem. (1. Pétursbréf 5:13) En árið 56 var hið stjórnandi ráð greinilega starfandi í Jerúsalem, og sennilega var svo allt fram til ársins 66.
Stjórnun nú á tímum
7. Hvaða munur er á samsetningu hins stjórnandi ráðs nú og á fyrstu öld?
7 Frá árinu 33 fram að þrengingu Jerúsalem virðast aðeins hafa verið kristnir Gyðingar í hinu stjórnandi ráði. Í heimsókn sinni árið 56 komst Páll að raun um að margir kristnir Gyðingar í Jerúsalem voru enn „vandlátir um lögmálið [lögmál Móse],“ þrátt fyrir ‚trú sína á dýrðardrottin vorn Jesú Krist.‘c (Postulasagan 21:20-25; Jakobsbréfið 2:1) Slíkir Gyðingar hafa kannski átt erfitt með að hugsa sér mann af þjóðunum í hinu stjórnandi ráði. En á okkar tímum hefur orðið önnur breyting á samsetningu þessa ráðs. Núna sitja eingöngu í því smurðir kristnir menn af þjóðunum, og Jehóva hefur blessað umsjón þeirra ríkulega. — Efesusbréfið 2:11-15.
8, 9. Hvaða breyting hefur átt sér stað í hinu stjórnandi ráði nú á tímum?
8 Allt frá lögskráningu Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn í Pennsylvaníu árið 1884 og fram til 1972 réði forseti Félagsins miklu innan skipulags Jehóva, en hið stjórnandi ráð var nátengt stjórnarmönnum Félagsins. Blessunin, sem veittist á þessum árum, sannar að Jehóva viðurkenndi þetta fyrirkomulag. Frá 1972 til 1975 var fjölgað upp í 18 manns í hinu stjórnandi ráði. Fyrirkomulagið var fært nær því sem var á fyrstu öld og þessu fjölmennara ráði voru veitt aukin völd, en sumir þeirra sem sitja í ráðinu eru stjórnarmenn Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn í Pennsylvaníu.
9 Frá 1975 hafa allmargir þessara 18 lokið jarðnesku lífsskeiði sínu. Þeir hafa sigrað heiminn og hafa ‚sest hjá Jesú í himnesku hásæti hans.‘ (Opinberunarbókin 3:21) Af þessari ástæðu og öðrum er hið stjórnandi ráð skipað tíu mönnum um þessar mundir, og er þá meðtalinn einn sem bætt var við árið 1994. Flestir eru orðnir háaldraðir. En þessir smurðu bræður njóta dyggilegs stuðnings við að rækja hinar mikilvægu skyldur sínar. Hvaðan kemur sá stuðningur? Við fáum svar við þeirri spurningu með því að rifja upp þróun sem orðið hefur meðal fólks Guðs nú á tímum.
Stuðningur við Ísrael Guðs
10. Hverjir hafa gengið í lið með hinum smurðu í þjónustu Jehóva á síðustu dögum og hvernig var því spáð?
10 Árið 1884 voru nánast allir, sem tengdust Ísrael Guðs, smurðir kristnir menn. En smám saman tók annar hópur að koma fram á sjónarsviðið, og árið 1935 var sýnt fram á að þessi hópur væri ‚múgurinn mikli‘ í 7. kafla Opinberunarbókarinnar. Þessi hópur hafði jarðneska von og var ‚það sem er á jörðu‘ sem Jehóva ætlar að safna undir eitt höfuð í Kristi. (Efesusbréfið 1:10) Hann samsvarar hinum ‚öðrum sauðum‘ í dæmisögu Jesú um sauðabyrgin. (Jóhannes 10:16) Frá 1935 hafa hinir aðrir sauðir streymt inn í skipulag Jehóva. Þeir hafa komið „fljúgandi eins og ský og sem dúfur til búra sinna.“ (Jesaja 60:8) Sökum þess hve múginum mikla hefur fjölgað og fækkað hefur í hópi hinna smurðu við það að margir hafa dáið og lokið þar með jarðnesku lífsskeiði sínu, eru hæfir menn af hinum öðrum sauðum farnir að gegna æ veigameira hlutverki í hinu kristna starfi. Á hvaða vegu?
11. Hvaða sérréttindi, sem upphaflega tilheyrðu aðeins hinum smurðu, hafa verið veitt öðrum sauðum?
11 Það hefur alltaf verið sérstök skylda ‚heilagrar þjóðar‘ Jehóva Guðs að víðfrægja dáðir hans. Páll talaði um það sem musterisfórn, og Jesús fól þeim sem verða áttu „konunglegt prestafélag“ að prédika og kenna. (2. Mósebók 19:5, 6; 1. Pétursbréf 2:4, 9; Matteus 24:14; 28:19, 20; Hebreabréfið 13:15, 16) Engu að síður beindi Varðturninn 1. ágúst 1932 sérstakri hvatningu til þeirra sem Jónadab táknaði um að taka þátt í þessu starfi. Margir þessara annarra sauða voru þegar farnir að gera það. Núna er nánast allt prédikunarstarfið unnið af hinum öðrum sauðum og er veigamikill þáttur í því að „þjóna [Guði] dag og nótt í musteri hans.“ (Opinberunarbókin 7:15) Eins var það snemma í nútímasögu fólks Jehóva að safnaðaröldungar voru af hópi smurðra kristinna manna, „stjörnur“ í hægri hendi Jesú Krists. (Opinberunarbókin 1:16, 20) En 1. maí 1937 tilkynnti Varðturninn að hæfir aðrir sauðir gætu verið safnaðarþjónar (umsjónarmenn í forsæti). Jafnvel þótt smurðir karlmenn væru til staðar mátti nota aðra sauði ef hinir smurðu voru ekki færir um að axla þessa ábyrgð. Núna eru næstum allir safnaðaröldungar aðrir sauðir.
12. Hvaða biblíuleg fordæmi eru fyrir því að hæfir aðrir sauðir fái mikla ábyrgð innan skipulagsins?
12 Er rangt að fela hinum öðrum sauðum svona mikla ábyrgð? Nei, það á sér sögulegt fordæmi. Sumir útlendir trúskiptingar (búfastir útlendingar) gegndu ábyrgðarstöðum í Forn-Ísrael. (2. Samúelsbók 23:37, 39; Jeremía 38:7-9) Eftir útlegðina í Babýlon voru hæfum musterisþjónum, sem ekki voru Ísraelsmenn, falin sérréttindi við musterisþjónustuna sem áður tilheyrðu levítum einum. (Esrabók 8:15-20; Nehemíabók 7:60) Og Móse, sem sást í ummyndunarsýninni með Jesú, þáði góð ráð frá Midíanítanum Jetró. Síðar bað hann Hóbab, son Jetró, að vera leiðsögumann Ísraelsmanna í eyðimörkinni. — 2. Mósebók 18:5, 17-24; 4. Mósebók 10:29.
13. Hvaða góðu fordæmi hafa hinir smurðu líkt eftir með því að fela öðrum ábyrgð?
13 Undir lok 40 áranna í eyðimörkinni bað Móse Jehóva að velja sér arftaka, enda vissi hann að hann færi ekki inn í fyrirheitna landið. (4. Mósebók 27:15-17) Jehóva sagði honum að skipa Jósúa í embætti frammi fyrir öllu fólkinu og Móse gerði það, jafnvel þótt hann sjálfur væri enn líkamlega sterkur og hætti ekki þegar í stað að þjóna Ísrael. (5. Mósebók 3:28; 34:5-7, 9) Með sams konar auðmýktaranda hafa hinir smurðu veitt hæfum karlmönnum af hópi hinna annarra sauða aukin sérréttindi.
14. Hvaða spádómar vísa til vaxandi þátttöku hinna annarra sauða í skipulagsstörfum?
14 Spádómarnir fjalla einnig um vaxandi þátttöku hinna annarra sauða í skipulagsstörfum. Sakaría sagði fyrir að Filistar, sem ekki voru ísraelskir, yrðu eins og „ætthöfðingjar í Júda.“ (Sakaría 9:6, 7) Sakaría var því að segja að fyrrverandi óvinir Ísraels tækju upp sanna tilbeiðslu og yrðu eins og ætthöfðingjar í fyrirheitna landinu. Og þegar Jehóva ávarpaði Ísrael Guðs sagði hann: „Útlendingar munu standa yfir hjörðum yðar og halda þeim til haga, og aðkomnir menn vera akurmenn og víngarðsmenn hjá yður, en sjálfir munuð þér kallaðir verða prestar [Jehóva] og nefndir verða þjónar Guðs vors.“ (Jesaja 61:5, 6) Þessir „útlendingar“ og ‚aðkomnu menn‘ eru hinir aðrir sauðir. Þeim hefur verið falin aukin ábyrgð og æ meiri vinna jafnhliða því að hinar aldurhnignu smurðu leifar ljúka jarðnesku lífsskeiði sínu og hverfa burt til að þjóna í fullum skilningi sem himneskir ‚prestar Jehóva‘ og umkringja mikilfenglegt hásæti hans sem „þjónar Guðs vors.“ — 1. Korintubréf 15:50-57; Opinberunarbókin 4:4, 9-11; 5:9, 10.
„Komandi kynslóð“
15. Hvaða hópur kristinna manna er „gamall orðinn“ og hvaða hóp táknar hin „komandi kynslóð“ nú á endalokatímanum?
15 Hinar smurðu leifar hafa fúslega þjálfað hina aðra sauði til aukinnar ábyrgðar. Sálmur 71:18 segir: „Yfirgef mig eigi, ó Guð, þegar ég er gamall orðinn og grár fyrir hærum, að ég megi kunngjöra styrkleik þinn komandi kynslóð.“ Varðturninn fjallaði um þetta vers 15. desember 1948 og benti á að söfnuður smurðra kristinna manna væri vissulega orðinn gamall. Síðan benti blaðið á að hinir smurðu horfi glaðir „fram á veginn í ljósi biblíuspádómanna og sjái nýja kynslóð.“ Hverja var fyrst og fremst átt við? Varðturninn sagði: „Jesús talaði um þá sem ‚aðra sauði‘ sína.“ Hin „komandi kynslóð“ er menn sem munu lifa undir nýju jarðnesku stjórninni sem himnaríki stýrir.
16. Til hvaða blessunar hlakkar „komandi kynslóð“ ákaflega?
16 Biblían segir ekki nákvæmlega hvenær allir smurðir kristnir menn yfirgefi bræður sína af hinni „komandi kynslóð“ og verði vegsamlegir með Jesú Kristi, en hinir smurðu treysta því að sá tími sé nálægur. Þeir atburðir, sem sagðir eru fyrir í hinum mikla spádómi Jesú um ‚endalokatímann,‘ hafa verið að rætast frá 1914 og sýna að eyðing þessa heims er í nánd. (Daníel 12:4; Matteus 24:3-14; Markús 13:4-20; Lúkas 21:7-24) Bráðlega gengur í garð nýr heimur Jehóva þar sem „komandi kynslóð“ mun ‚taka að erfð ríkið [hið jarðneska áhrifasvæði] sem henni var búið frá grundvöllun heims.‘ (Matteus 25:34) Hún hlakkar til að sjá paradís endurreista og milljónir látinna manna reistar upp frá Helju eða gröfinni. (Opinberunarbókin 20:13) Verða einhverjir af hinum smurðu á vettvangi til að taka á móti þessu upprisna fólki? Varðturninn sagði 1. maí árið 1925: „Við ættum ekki að segja eftir eigin geðþótta hvað Guð gerir eða gerir ekki. . . . [En] við drögum þá ályktun að meðlimir kirkjunnar [smurðir kristnir menn] verði gerðir vegsamlegir fyrir upprisu verðugra manna fortíðar [trúfastra votta fyrir daga kristninnar].“ Varðturninn 1. mars 1990 fjallaði einnig um þá spurningu hvort sumir af hinum smurðu verði á sjónarsviðinu til að taka á móti hinum upprisnu og sagði: „Það er ekki nauðsynlegt.“d
17. Hvaða stórkostlegum sérréttindum munu hinir smurðu sem hópur deila með konunginum krýnda, Jesú Kristi?
17 Við vitum að vísu ekki hvernig verður um hvern einstakan smurðan kristinn mann, en það að Móse og Elía skyldu birtast í ummyndunarsýninni með Jesú gefur til kynna að upprisnir smurðir kristnir menn eigi að vera með honum þegar hann kemur í dýrð til að „gjalda sérhverjum eftir breytni hans“ og fella og fullnægja dómi. Og við munum eftir því fyrirheiti Jesú að smurðir kristnir menn, sem ‚sigra,‘ eigi hlutdeild með honum í því að ‚stjórna þjóðunum með járnsprota‘ í Harmagedónstríðinu. Þegar Jesús kemur í dýrð sitja þeir með honum og „dæma tólf ættkvíslir Ísraels.“ Ásamt Jesú munu þeir ‚sundurmola Satan undir fótum sér.‘ — Matteus 16:27-17:9; 19:28; Opinberunarbókin 2:26, 27; 16:14, 16; Rómverjabréfið 16:20; 1. Mósebók 3:15; Sálmur 2:9; 2. Þessaloníkubréf 1:9, 10.
18. (a) Hver er staðan nú í sambandi við ‚söfnun þess sem er á himnum undir eitt höfuð í Kristi‘? (b) Hvað getum við sagt um ‚söfnun þess sem er á jörðu undir eitt höfuð í Kristi‘?
18 Í samræmi við stjórn sína á málum er Jehóva jafnt og þétt að „safna öllu . . . undir eitt höfuð í Kristi.“ Tilgangi hans með ‚það sem er á himnum‘ er næstum náð. Bráðlega verða Jesús og allar hinar 144.000 sameinaðar á himni í „brúðkaupi lambsins.“ Þess vegna hefur æ fleiri gamalreyndum, þroskuðum bræðrum af hinum öðrum sauðum, fulltrúum ‚þess sem er á jörðu,‘ verið falin aukin ábyrgð til stuðnings smurðum bræðrum sínum. Við lifum mjög spennandi tíma! Það er hrífandi að sjá tilgang Jehóva uppfyllast jafnt og þétt! (Efesusbréfið 1:9, 10; 3:10-12; Opinberunarbókin 14:1; 19:7, 9) Og hinir aðrir sauðir fagna því mjög að geta stutt smurða bræður sína er báðir hóparnir þjóna saman sem „ein hjörð“ undir umsjón ‚eins hirðis‘ sem er undirgefin konunginum Jesú Kristi og til dýrðar hinum mikla einvaldi alheimsins, Jehóva Guði! — Jóhannes 10:16; Filippíbréfið 2:9-11.
[Neðanmáls]
a Sjá Varðturninn 1. júlí 1982, bls. 22-31.
b Til dæmis var „Sköpunarsagan í myndum“ — fjórskipt kvikmynda- og skuggamyndasýning með tali — sýnd fyrir troðfullu húsi víða á Vesturlöndum.
c Hugsanlegar skýringar á því hvers vegna sumir kristnir Gyðingar voru vandlátir vegna lögmálsins má finna í bókinni Innsýn í Ritningarnar, 2. bindi, bls. 1163-4, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
d Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 15. ágúst 1990, bls. 30-1 og 15. desember 1990, bls. 30.
Geturðu svarað?
◻ Hvernig sótti skipulag Guðs fram á fyrstu öldinni?
◻ Hvernig hefur hið stjórnandi ráð tekið breytingu hjá vottum Jehóva nútímans?
◻ Hvaða ritningargreinar heimila að hinir aðrir sauðir fari með yfirráð innan skipulags Jehóva?
◻ Hvernig hefur „því, sem er á himnum“ og „því, sem er á jörðu“ verið safnað saman undir eitt höfuð í Kristi?
[Mynd á blaðsíðu 16]
Hið stjórnandi ráð starfaði áfram í Jerúsalem jafnvel þótt þeir sem sátu upphaflega í því væru ekki lengur í borginni.
[Myndir á blaðsíðu 18]
Þroskaðir, smurðir kristnir menn hafa verið fólki Jehóva til blessunar.
C. T. Russell 1884-1916
J. F. Rutherford 1916-42
N. H. Knorr 1942-77
F. W. Franz 1977-92
M. G. Henschel 1992-