Kafli 95
Um hjónaskilnaði og ást á börnum
JESÚS og lærisveinar hans eru á leið til Jerúsalem til að halda páska. Þeir fara yfir Jórdan og halda ferð sinni áfram um Pereu. Jesús hafði verið í Pereu nokkrum vikum áður en var þá kallaður til Júdeu vegna þess að Lasarus vinur hans var veikur. Þá hafði hann talað við faríseana um hjónaskilnaði og þeir brydda aftur upp á þeim núna.
Meðal faríseanna kennir ýmissa hugmynda um hjónaskilnaði. Móse sagði að maður mætti skilja við konu sína ef hann fyndi „eitthvað viðbjóðslegt hjá henni.“ Sumir faríseanna telja að þetta eigi aðeins við um ótryggð, en aðrir álíta að „eitthvað viðbjóðslegt“ geti verið smávægilegustu brot. Farísearnir reyna því að leggja gildru fyrir Jesú og spyrja: „Leyfist manni að skilja við konu sína fyrir hvaða sök sem er?“ Þeir eru vissir um að það skipti ekki máli hverju Jesús svari því að hann lendi hvort eð er upp á kant við þá farísea sem eru annarrar skoðunar en hann.
Jesús svarar spurningunni snilldarlega. Hann vísar ekki til skoðana manna heldur upprunalegs tilgangs hjónabandsins: „Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu og sagði: ‚Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður.‘ Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.“
Jesús bendir hér á að það sé upphaflegur tilgangur Guðs að hjón haldi saman og skilji ekki. Fyrst svo er, „hvers vegna bauð þá Móse að gefa konu skilnaðarbréf og skilja svo við hana?“ spyrja farísearnir.
„Vegna harðúðar hjartna yðar leyfði Móse yður að skilja við konur yðar, en frá upphafi var þetta eigi þannig,“ svarar Jesús. Þegar Guð kom á réttum mælikvarða fyrir hjónabandið í Edengarðinum var ekki gert ráð fyrir skilnaði.
Jesús heldur áfram og segir við faríseana: „Ég segi yður: Sá sem skilur við konu sína nema sakir hórdóms [úr grísku, porneiʹa] og kvænist annarri, drýgir hór.“ Þannig bendir hann á að porneiʹa, sem er gróft, kynferðislegt siðleysi, sé eina skilnaðarástæðan sem Guð viðurkennir.
Þegar lærisveinarnir gera sér grein fyrir að hjónabandið eigi að vera varanlegt og þetta sé eina skilnaðarástæðan segja þeir: „Fyrst svo er háttað stöðu karls gagnvart konu, þá er ekki vænlegt að kvænast.“ Sá sem hyggst ganga í hjónaband ætti vissulega að hugsa alvarlega um að hjónabandið er varanlegt!
Jesús ræðir síðan um einhleypi. Hann bendir á að sumir séu vanhæfir frá fæðingu til að ganga í hjónaband sökum þess að þeir taka ekki út kynþroska. Aðrir eru geltir af mannavöldum á grimmilegan hátt. Og sumir bæla niður löngunina til að ganga í hjónaband og njóta kynlífs til að þeir geti helgað sig betur málefnum himnaríkis. „Sá höndli [einhleypi], sem höndlað fær,“ segir Jesús.
Fólk kemur nú með börn sín til Jesú, en lærisveinarnir skamma börnin og reyna að vísa þeim frá, eflaust í þeim tilgangi að hlífa honum við óþörfu álagi. Jesús segir hins vegar: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma.“
Þetta er góð áminning frá Jesú. Til að taka við Guðsríki verðum við að líkja eftir auðmýkt og námfýsi lítilla barna. En fordæmi Jesú sýnir líka hve mikilvægt það sé, sérstaklega fyrir foreldra, að gefa sér tíma til að vera með börnum sínum. Jesús sýnir nú ást sína á börnum með því að taka þau í faðm sér og blessa þau. Matteus 19:1-15; 5. Mósebók 24:1; Lúkas 16:18; Markús 10:1-16; Lúkas 18:15-17.
▪ Hvaða ólíkar skoðanir hafa farísearnir á hjónaskilnuðum og hvernig reyna þeir að leggja gildru fyrir Jesú?
▪ Hvernig svarar Jesús faríseunum og hver er eina skilnaðarástæðan að hans sögn?
▪ Af hverju segja lærisveinar Jesú að það sé ekki ráðlegt að ganga í hjónaband og hverju mælir hann með?
▪ Hvað kennir Jesús okkur með samskiptum sínum við lítil börn?