Hjónaskilnaðir eiga sér fórnarlömb
EF TRÚA ætti öllu sem „sérfræðingar“ hafa sagt um hjónaskilnaði á allra síðustu áratugum mætti ætla að nú til dags sé það engum að kenna þegar hjón skilja og enginn bíði skaða af.
Fáeinar útbreiddar hugmyndir, sem menn hafa hver eftir öðrum, hafa gert mörgu foreldri auðveldara að fara út í skilnað. Þar má nefna: Skilnaður er betri fyrir börnin en óhamingjusamt hjónaband; bíddu bara þangað til börnin hafa náð ‚réttum aldri‘ til að firra þau nokkrum sársauka; krakkar eru ekki nema eitt til tvö ár að ná sér að fullu eftir áfallið.
Sumir hafa ýtt undir þessar bjartsýnishugmyndir. Til dæmis gera bókahöfundarnir Susan Gettleman og Janet Markowitz lítið úr „goðsögunni um hið skaddaða barn.“ Þær staðhæfa að hjónaskilnaður þurfi ekki að vera sálrænt áfall fyrir börn, svo lengi sem foreldrarnir ‚takast á við hann eins og þroskað fólk.‘ Þær héldu jafnvel fram að hjónaskilnaður foreldra gæti auðveldað börnum að takast á við eigin hjónaskilnað síðar meir á ævinni! Þær fullyrða: „Umbætur ættu fyrst og fremst að beinast að hjónabandinu og goðsögunni um hina fullkomnu húsmóður.“ — The Courage to Divorce.
En hafa djarfar fullyrðingar af þessu tagi reynst sannar í raun og veru? Hver eru raunveruleg áhrif ört vaxandi hjónaskilnaða á börnin? Er það satt að þeir séu engum til tjóns?
Hjónaskilnaðir eru dýrkeyptir
Árið 1971 hófu bandarísku rannsóknarmennirnir Judith Wallerstein og Joan Berlin Kelly tímamótarannsóknir á langtímaáhrifum hjónaskilnaða á fjölskyldur. Þær völdu til rannsóknar 60 fjölskyldur sem stóðu í skilnaði. Í þessum fjölskyldum var samanlagt 131 barn frá tveggja ára og upp í átján ára. Rannsóknarmönnunum til undrunar var hjónaskilnaður svo til aldrei léttir fyrir börnin. Einu gilti þótt hjónaband foreldra þeirra hefði verið óhamingjusamt. Þess í stað urðu börnin örvilnuð við skilnaðinn.
Var hið sálræna áfall einungis skammvinnt? Nei, því miður. Eftir fimm ár voru 37 af hundraði barnanna í meðallagi eða alvarlega þunglynd. Flest þeirra vonuðu enn að foreldrar þeirra tækju saman á ný — jafnvel eftir að þeir höfðu gifst aftur! Tíu eða jafnvel 15 árum síðar hafði nálega helmingur barnanna, sem rannsóknin náði til, „náð fullorðinsaldri sem ungir karlmenn og konur er voru áhyggjufull, náðu lakari árangri en greind þeirra gaf tilefni til, voru haldin vanmáttarkennd og á stundum bræði.“
Þessar niðurstöður gengu í berhögg við hefðbundinn vísdóm. Wallerstein segir: „Niðurstöður okkar voru í algerri mótsögn við það sem við bjuggumst við. Þetta voru óvelkomin tíðindi fyrir fjölda fólks og við fengum bréf með reiðilestri frá endurhæfingaraðilum, foreldrum og lögfræðingum sem fullyrtu að við hefðum örugglega á röngu að standa.“
En börnin voru ekki að ljúga og aðrar rannsóknir hafa staðfest úrskurð Wallersteins og Kellys. Tímaritið Journal of Social Issues benti á að flestir sérfræðingar svo sem atferlisfræðingar, „álíti að skilnaður foreldra og hjúskaparslit hafi djúpstæð, neikvæð áhrif bæði á börn og unglinga.“ Tímaritið bætti við að sú skoðun hafi „að verulegu leyti verið staðfest“ og nefndi því til stuðnings atriði eins og eftirfarandi: Afbrot og andfélagsleg hegðun er algengari meðal skilnaðarbarna en barna hjóna sem ekki hafa skilið; innlagnir skilnaðarbarna á geðsjúkrahús geta verið tvöfalt tíðari en meðal barna hjóna sem ekki hafa skilið; hjónaskilnaðir kunna að vera aðalorsök þunglyndis meðal barna.
Hvað um eldri börnin?
Stálpuð börn taka hjónaskilnaði litlu betur en yngri börnin. Þegar unglingar verða vitni að skilnaði foreldra sinna veldur það þeim oft miklum vonbrigðum sem spilla jákvæðum viðhorfum þeirra til hjónabands og annarra stofnana þjóðfélagsins, svo sem skólans. Sumir draga þá ályktun að öll sambönd manna í milli séu ótraust, dæmd til að rofna einn góðan veðurdag sökum svika og ótryggðar.
Sumir unglingar sveiflast út í taumlausar öfgar þegar þeir missa jafnvægið á þennan hátt vegna skilnaðar foreldra sinna. Sumir leita á náðir fíkniefna, sumir kasta sér út í lauslæti, sumir hlaupast á brott að heiman. Aðrir virðast taka skilnaðinum með ró í fyrstu en þá koma eftirköstin bara fram síðar. Kannski er það engin tilviljun, eins og tímaritið The Washingtonian benti á, að truflun á matarvenjum táninga og jafnvel sjálfsmorð hafa aukist í hlutfalli við tíðari hjónaskilnaði.
Foreldrar, sem bíða þess að börnin nái ‚réttum aldri‘ áður en til skilnaðar kemur, geta því þurft að bíða lengi. Það virðist ekki vera svo að á einhverjum dularfullum ‚réttum aldri‘ geti börn runnið ósködduð gegnum skilnað foreldra sinna.a Félagsfræðingurinn Norval D. Glenn sló því jafnvel fram í tímaritinu Psychology Today að neikvæð áhrif hjónaskilnaðar geti fylgt börnum „af fullum þunga alla ævina.“ Hann sagði: „Við verðum að íhuga alvarlega þá óþægilegu tilgátu að fjölgun skilnaðarbarna muni hafa í för með sér að almenn velsæld fólks fari jafnt og þétt dvínandi.“
En þótt þessar niðurstöður, rannsóknir og hagtölur séu heldur óhugnanlegar merkja þær ekki að hvert einasta skilnaðarbarn sé dæmt til erfiðrar ævi. Þær sýna hins vegar fram á að hjónaskilnaður setur börn í mjög svo raunverulega hættu. Sú spurning blasir því við hvernig hægt sé að vernda börn fyrir neikvæðum áhrifum hjónaskilnaðar.
Hvaða von hafa börnin?
Ekkert er betri vernd en forvörn. Eins og dr. Diane Medved orðaði það í bók sinni The Case Against Divorce: „Við verðum að hætta að láta eiginhagsmuni vera eina mælikvarðann á það hvort skilnaður sé viðeigandi.“ Enginn vafi getur leikið á að sú sjálfselska og sérgæska, sem hefur gagnsýrt nútímaþjóðfélag, hefur veikt grundvöll ótal hjónabanda. Hvernig geta hjón barist gegn þessum áhrifum og látið hjónband sitt endast?
Biblían staðhæfir að höfundur hennar sé jafnframt höfundur hjónabandsins. Sú staðreynd að ráð Biblíunnar um hjónaband duga í reynd staðfestir réttmæti þessarar fullyrðingar. Hún hefur hjálpað milljónum karla og kvenna að bæta fjölskyldulíf sitt. Biblían hefur bjargað ótal hjónaböndum sem voru að því komin að bresta. Hún getur líka hjálpað þér.b
Því miður er þó ekki alltaf hægt að forðast eða koma í veg fyrir hjónaskilnað. Hann er hluti af veruleika nútímans. Sumir foreldrar kynnast lífsreglum Guðs um hjónaband eftir að þeir hafa skilið. Enn aðrir fylgja þessum lífsreglum trúlega en eru síðan sviknir af eigingjörnum, siðlausum maka. Biblían viðurkennir meira að segja að hjónaskilnaður geti verið leyfilegur við sérstakar aðstæður. (Matteus 19:9) En eins og Jesús kenndi er ógerlegt að taka viturlega ákvörðun án þess að ‚reikna fyrst kostnaðinn.‘ — Lúkas 14:28.
Ef skilnaður er orðinn að veruleika er vissulega ekki rétti tíminn til að kikna undan sektarkennd eða eftirsjá. Það sem þá þarf að gera er að draga úr áfallinu sem skilnaðurinn er fyrir börnin. Dr. Florence Bienenfeld, virtur málamiðlari og ráðgjafi í skilnaðarmálum, fullvissar fráskilda foreldra um að það sé hægt: „Hjónaskilnaður þarf ekki að vera grískur harmleikur þar sem allir hníga örendir. Allir geta lifað og með tímanum geta þeir náð sér, læknast og farnast ágætlega.“ — Helping Your Child Succeed After Divorce.
En hvernig? Hvað geta foreldrar, ættingjar og vinir gert til að hjálpa skilnaðarbörnum?
[Neðanmáls]
a Nýlegar rannsóknir hafa reyndar sýnt að jafnvel fullvaxta ungmenni, komin á þrítugsaldurinn, líða talsvert fyrir skilnað foreldra sinna. The New York Times Magazine segir að þau umskipti, sem virðast verða á siðferði foreldra þeirra, slái ungmennin út af laginu. Mörg steypa sér út í nautnalíf og lauslæti en önnur klippa á og forðast öll rómantísk sambönd; sum heita því jafnvel að giftast aldrei.
b Sjá bókina Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkt, útgefin af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.