Kafli 110
Þjónustu Jesú í musterinu lýkur
JESÚS sýnir sig nú í musterinu í síðasta sinn. Hann er reyndar að ljúka opinberri þjónustu sinni á jörð, að því undanskildu að hann verður dæmdur og tekinn af lífi þrem dögum síðar. Hann heldur áfram að ávíta fræðimennina og faríseana.
Þrisvar sinnum í viðbót segir hann: „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar!“ Fyrst átelur hann þá fyrir að ‚hreinsa bikarinn og diskinn utan, en vera að innan fullir yfirgangs og óhófs.‘ Hann áminnir því: „Hreinsaðu fyrst bikarinn innan, að hann verði líka hreinn að utan.“
Því næst atyrðir hann fræðimennina og faríseana fyrir innri siðspillingu og rotnun sem þeir reyna að fela undir guðrækilegu yfirbragði. „Þér líkist hvítum kölkuðum gröfum, sem sýnast fagrar utan, en innan eru fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra,“ segir hann.
Loks birtist hræsni þeirra í því hve viljugir þeir eru að hlaða upp grafir spámannanna og skreyta leiði þeirra til að vekja athygli á ölmusuverkum sínum. En eins og Jesús bendir á eru þeir „synir þeirra, sem myrtu spámennina.“ Hver sem vogar sér að fletta ofan af hræsni þeirra er í hættu!
Jesús heldur áfram og fordæmir þá harðar en nokkru sinni fyrr: „Höggormar, nöðruafkvæmi, hvernig getið þið umflúið dóm Gehenna?“ Gehenna er dalur þar sem er sorphaugur Jerúsalem. Jesús er því að segja að fræðimönnunum og faríseunum verði tortímt fyrir fullt og allt vegna vonsku þeirra.
Jesús segir um fulltrúa sína sem hann sendir út: „Suma þeirra munuð þér lífláta og krossfesta, aðra húðstrýkja í samkundum yðar og ofsækja borg úr borg. Þannig kemur yfir yður allt saklaust blóð, sem úthellt hefur verið á jörðinni, frá blóði Abels hins réttláta til blóðs Sakaría Barakíasonar [nefndur Jójadason í 2. Kroníkubók], sem þér drápuð milli musterisins og altarisins. Sannlega segi ég yður: Allt mun þetta koma yfir þessa kynslóð.“
Sakaría ávítaði leiðtoga Ísraels með þeim afleiðingum að þeir „sórust . . . saman gegn honum og lömdu hann grjóti að boði konungs í forgarði musteris [Jehóva].“ En eins og Jesús segir mun Ísrael gjalda alls saklauss blóðs sem úthellt hefur verið. Það gerist 37 árum síðar, árið 70, þegar rómverskur her eyðir Jerúsalem og meira en milljón Gyðinga fellur.
Tilhugsunin um þessi hræðilegu örlög fær á Jesú. „Jerúsalem, Jerúsalem!“ segir hann einu sinni enn. „Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi. Hús yðar verður í eyði látið.“
Síðan bætir hann við: „Héðan af munuð þér eigi sjá mig, fyrr en þér segið: ‚Blessaður sé sá sem kemur, í nafni [Jehóva].‘“ Hér á Jesús við nærveru sína er hann kemur í himnesku ríki sínu og fólk sér hann með augum trúarinnar.
Jesús gengur nú þangað sem hann sér söfnunarbauka musterisins og mannfjöldann sem leggur peninga í þá. Auðmenn leggja mikið í baukana en síðan kemur fátæk ekkja og leggur fram tvo smápeninga, eins eyris virði.
Jesús kallar á lærisveinana og segir: „Sannlega segi ég yður, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir, er lögðu í fjárhirsluna.“ Þeim hlýtur að vera spurn hvernig það geti verið svo hann útskýrir: „Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.“ Að svo mæltu yfirgefur Jesús musterið í síðasta sinn.
Einn af lærisveinunum dáist að stærð og fegurð musterisins og segir: „Meistari, lít á, hvílíkir steinar, hvílíkar byggingar!“ Sagt er að steinarnir hafi verið 11 metra langir, 5 metra breiðir og 3 metra háir!
„Sérðu þessar miklu byggingar?“ svarar Jesús. „Ekki mun eftir látinn steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn.“
Síðan gengur Jesús með postulunum þvert yfir Kedrondal og upp á Olíufjallið. Þaðan horfa þeir yfir hið mikilfenglega musteri. Matteus 23:25–24:3, 23:33 samkvæmt NW; Markús 12:41–13:3; Lúkas 21:1-6; 2. Kroníkubók 24:20-22.
▪ Hvað gerir Jesús í síðustu heimsókn sinni í musterið?
▪ Hvernig birtist hræsni fræðimannanna og faríseanna?
▪ Hvað er átt við með ‚dómi Gehenna‘?
▪ Af hverju segir Jesús að ekkjan hafi lagt meira í fjárhirsluna en auðmennirnir?