‚Hinn trúi og hyggni þjónn‘ og stjórnandi ráð hans
„Hver er sá trúi og hyggni þjónn, sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma?“ — MATTEUS 24:45.
1. Hvers vegna er Jehóva fús til að framselja öðrum vald og hverjum hefur hann gefið það það fyrst og fremst?
JEHÓVA er Guð reglu og skipulags. Hann er líka höfundur alls lögmæts yfirvalds. Hann treystir á hollustu trúrra sköpunarvera sinna og er því fús til að selja þeim vald í hendur. Engum hefur hann framselt meira vald en syni sínum, Jesú Kristi. Guð ‚lagði allt undir fætur honum og gaf hann söfnuðinum sem höfuðið yfir öllu.‘ — Efesusbréfið 1:22.
2. Hvað kallar Páll kristna söfnuðinn og hverjum hefur Kristur framselt vald?
2 Páll postuli kallar kristna söfnuðinn ‚hús Guðs‘ og segir að Kristur, trúfastur sonur Guðs, hafi verið settur yfir þetta hús. (1. Tímóteusarbréf 3:15; Hebreabréfið 3:6) Kristur fær síðan þeim sem tilheyra húsi Guðs visst vald í hendur. Við sjáum það af orðum Jesú í Matteusi 24:45-47. Þar sagði hann: „Hver er sá trúi og hyggni þjónn, sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma? Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur. Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.“
Ráðsmaðurinn á fyrstu öld
3. Hverjir mynda ‚hinn trúa og hyggna þjón‘ og hvaða orð er notað um þá sem einstaklinga?
3 Af ítarlegu námi okkar í Ritningunni höfum við lært að andagetnir meðlimir húss Guðs á hverjum tíma mynda til samans ‚hinn trúa og hyggna þjón‘ eða ‚ráðsmanninn.‘ Einstaklingarnir, sem tilheyra húsi Jehóva, eru síðan nefndir ‚hjúin‘ eða ‚þjónustumenn.‘ — Matteus 24:45; Lúkas 12:42; NW Reference Bible, neðanmáls.
4. Hvaða spurningu varpaði Jesús fram skömmu fyrir dauða sinn og við hvað líkti hann sér?
4 Það var nokkrum mánuðum fyrir dauða sinn sem Jesús hafði varpað fram spurningunni í Lúkasi 12:42: „Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður, sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á réttum tíma?“ Síðan, fáeinum dögum fyrir dauða sinn, líkti Jesús sér við mann sem var í þann mund að fara úr landi, er kallaði á þræla sína og fól þeim eigur sínar til umsjónar. — Matteus 25:14.
5. (a) Hvenær fól Jesús öðrum að hafa umsjón með eigum sínum? (b) Hvaða aukið verkefni fól Kristur þeim sem áttu að verða samsettur ráðsmaður hans?
5 Hvenær byrjaði Jesús að fela öðrum að gæta eigna sinna? Það var eftir upprisu hans. Með hinum kunnuglegu orðum í Matteusi 28:19, 20 gaf Kristur fyrst þeim sem áttu að verða hluti hins samsetta ráðsmanns umfangsmikið umboð til að kenna og gera menn að lærisveinum. Þjónarnir áttu að stækka þann trúboðsakur sem Jesús hafði byrjað að rækta meðan jarðnesk þjónusta hans stóð yfir, með því að bera hver og einn vitni „til endimarka jarðar.“ (Postulasagan 1:8) Það fól í sér að þeir væru eins og „erindrekar Krists.“ Þeir áttu að gera menn að lærisveinum og útbýta andlegri fæðu til þeirra eins og ‚ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs.‘ — 2. Korintubréf 5:20; 1. Korintubréf 4:1, 2.
Hið stjórnandi ráð húss Guðs
6. Hvað innblés Guð ráðsmanni fyrstu aldar að gera?
6 Allir til samans áttu andasmurðir kristnir menn að vera ráðsmaður húsbóndans sem falin var sú skylda að útbýta tímabærri, andlegri fæðu til hinna einstöku meðlima húss Guðs. Á árabilinu 41 til 98 að okkar tímatali skrifuðu meðlimir þessa ráðsmannshóps fyrstu aldar vegna innblásturs fimm sögulegar frásagnir, 21 bréf og Opinberunarbókina til gagns bræðrum sínum. Þessi innblásnu rit höfðu að geyma góða andlega fæðu handa ‚hjúunum,‘ það er að segja einstaklingunum í húsi Guðs.
7. Í hvaða tilgangi útvaldi Kristur lítinn hóp karlmanna úr þjónshópnum?
7 Enda þótt allir smurðir kristnir menn til samans myndi hús Guðs er kappnógur vitnisburður fyrir því að Kristur útvaldi lítinn hóp karlmanna úr þjónshópnum sem sýnilegt, stjórnandi ráð. Fyrstu kaflarnir í sögu safnaðarins sýna að postularnir tólf, þeirra á meðal Mattías, voru grundvöllur hins stjórnandi ráðs á fyrstu öld. Postulasagan 1:20-26 gefur okkur það til kynna. Í tengslum við útvalningu nýs manns í stað Júdasar Ískaríots er minnst á „embætti hans“ og „þessa þjónustu og postuladóm.“
8. Hvað fólst meðal annars í ábyrgð hins stjórnandi ráðs á fyrstu öld?
8 Slíkt „embætti“ eða umsjónarstaða fól meðal annars í sér þá ábyrgð postulanna að útnefna hæfa karlmenn í þjónustustöður og skipuleggja þjónustuna. En það fól meira í sér. Það fól einnig í sér að kenna og skýra kenningaratriði. Í samræmi við fyrirheit Krists í Jóhannesi 16:13 átti „andi sannleikans“ að leiða kristna söfnuðinn markvisst í allan sannleika. Allt frá byrjun helguðu þeir sem tóku við orðinu og létu skírast sem smurðir kristnir menn sig „uppfræðslu postulanna.“ Meira að segja er tilgreind sú ástæða fyrir því að hinir tólf skyldu útnefna sjö vel kynnta menn til þess nauðsynlega starfs að útbýta efnislegri fæðu, að þeir gætu sjálfir helgað sig bæninni og þjónustu orðsins. — Postulasagan 2:42; 6:1-6.
9. Hvernig fækkaði meðlimum hins stjórnandi ráðs í 11 en hvers vegna virðist ekkert hafa verið gert þá strax til að ná aftur tölunni 12?
9 Svo er að sjá sem hið stjórnandi ráð hafi í fyrstu eingöngu verið skipað postulum Jesú. En átti það að vera þannig áfram? Um árið 44 lét Heródes Agrippa I taka Jakob postula, bróður Jóhannesar, af lífi. (Postulasagan 12:1, 2) Ekki er að sjá sem reynt hafi verið að skipa nýjan postula í hans stað eins og gert var í stað Júdasar. Hvers vegna? Vafalaust vegna þess að Jakob dó trúfastur, fyrstur postulanna tólf. Júdas var á hinn bóginn óguðlegur svikari og því þurfti að skipa annan í hans stað til að halda undirstöðusteinum hins andlega Ísraels við töluna tólf. — Efesusbréfið 2:20; Opinberunarbókin 21:14.
10. Hvenær og hvernig var fjölgað í hinu stjórnandi ráði og hvernig notaði Kristur það til að leiðbeina húsi Guðs?
10 Upphaflega voru það postularnir sem mynduðu hið stjórnandi ráð fyrstu aldarinnar, menn sem höfðu gengið með Jesú og verið vitni að dauða hans og upprisu. (Postulasagan 1:21, 22) En það átti eftir að breytast. Þegar árin liðu náðu aðrir kristnir karlmenn andlegum þroska og voru skipaðir öldungar í söfnuðinum í Jerúsalem. Í síðasta lagi árið 49 var búið að fjölga í hinu stjórnandi ráði, þannig að núna sátu í því allmargir öldungar í Jerúsalem, auk postulanna sem eftir voru. (Postulasagan 15:2) Það var því ekki rígbundið hverjir skyldu mynda hið stjórnandi ráð, heldur er ljóst að Guð stýrði málum þannig að það tók breytingum í samræmi við þarfir þjóna hans. Kristur, hið starfandi höfuð kristna safnaðarins, notaði þetta stjórnandi ráð, sem nú var orðið fjölmennara, til að útkljá hið þýðingarmikla kenningaratriði hvort kristnir menn af öðrum þjóðum en Gyðingum skyldu láta umskerast og yrðu að halda lögmál Móse. Hið stjórnandi ráð skrifaði bréf þar sem það skýrði frá niðurstöðu sinni og gaf út úrskurði er söfnuðirnir skyldu halda. — Postulasagan 15:23-29.
Reikningsskilatími ráðsmannsins
11. Kunnu bræðurnir að meta trausta forystu hins stjórnandi ráðs og hvað sýnir að Jehóva blessaði þessa ráðstöfun?
11 Bæði sem einstaklingar og söfnuðir mátu frumkristnir menn mikils þessa styrku forystu hins stjórnandi ráðs. Eftir að söfnuðurinn í Antíokkíu í Sýrlandi las bréfið frá hinu stjórnandi ráði gladdist hann yfir þessari uppörvun. Þegar aðrir söfnuðir fengu þessar upplýsingar og varðveittu úrskurðina ‚styrktust þeir í trúnni og urðu fjölmennari dag frá degi.‘ (Postulasagan 16:5) Auðsætt er að Guð blessaði þetta fyrirkomulag. — Postulasagan 15:30, 31.
12, 13. Hvaða atburði sagði Jesús fyrir í dæmisögum sínum um pundin og talenturnar?
12 En við skulum líta á aðra hlið þessa þýðingarmikla máls. Í dæmisögu sinni um pundin líkti Jesús sér við tiginborinn mann sem fór í fjarlægt land til að taka við konungdómi og kom síðan aftur. (Lúkas 19:11, 12) Vegna upprisu sinnar árið 33 var Kristur upphafinn til hægri handar Guði þar sem hann átti að sitja uns óvinir hans yrðu gerðir að fótskör hans. — Postulasagan 2:33-35.
13 Í hliðstæðri dæmisögu, dæmisögunni um talenturnar, sagði Jesús að húsbóndinn hefði komið aftur að löngum tíma liðnum til að láta þjóna sína gera skil. Við þá þjóna, sem reynst höfðu trúir, sagði húsbóndinn: „Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.“ En við hinn ótrúa þjón sagði hann: „Frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur. Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur.“ — Matteus 25:21-23, 29, 30.
14. Til hvers ætlaðist Jesús af andasmurðum þjónum sínum?
14 Já, löngu síðar — næstum nítján öldum — var Kristi fenginn konungdómur í hendur árið 1914, við lok ‚heiðingjatímanna.‘ (Lúkas 21:24) Skömmu eftir það kom hann til að láta þjóna sína, andagetna kristna menn, „gjöra skil.“ (Matteus 25:19) Hvers vænti Kristur af þeim sem einstaklingum og sem hópi? Verkefni ráðsmannsins var hið sama og það hafði verið allt frá fyrstu öldinni. Kristur hafði falið einstaklingum talenturnar til ávöxtunar — „hverjum eftir hæfni“ — þannig að hann ætlaðist til árangurs er samsvaraði því. (Matteus 25:15) Hér átti við reglan í 1. Korintubréfi 4:2: „Nú er þess krafist af ráðsmönnum, að sérhver reynist trúr.“ Það að ávaxta talenturnar fól í sér að þeir þjónuðu trúfastir sem erindrekar Krists, gerðu menn að lærisveinum og miðluðu þeim andlegum sannindum. — 2. Korintubréf 5:20.
‚Þjónninn‘ og hið stjórnandi ráð hans er nálgaðist tíma endalokanna
15. (a) Til hvers ætlaðist Kristur af hinum samsetta ráðsmanni? (b) Hvað bendir til að Kristur hafi ætlast til að þjónshópurinn væri að því áður en hann kæmi og rannsakaði hús Guðs?
15 Kristur ætlaðist til að smurðir kristnir menn í heild kæmu fram sem trúr ráðsmaður er gæfi hjúunum „skammtinn á réttum tíma.“ (Lúkas 12:42) Kristur sagði í Lúkasi 12:43: „Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur.“ Þetta gefur til kynna að hinir andagetnu þjónar hafi verið að útbýta andlegri fæðu til kristna safnaðarins, húss Guðs, um nokkurn tíma áður en Kristur kom til að gera upp reikninga við þá. Hverja fann Kristur breyta svo er hann kom til að rannsaka hús Guðs árið 1918? — Malakí 3:1-4; Lúkas 19:12; 1. Pétursbréf 4:17.
16. Hvers vegna fann Jesús ekki kirkjur kristna heimsins önnum kafnar að útbýta andlegri fæðu á réttum tíma, er hann kom til að rannsaka hús Guðs árið 1918?
16 Er dró að lokum hins langa biðtíma Jesú við hægri hönd Jehóva varð smám saman ljóst hverjir voru að útbýta andlegri fæðu til hjúa Krists, jafnvel á tímanum fyrir 1914. Heldur þú að það hafi verið kirkjur kristna heimsins? Svo sannarlega ekki því að þær voru á kafi í stjórnmálum. Þær höfðu verið viljug verkfæri nýlendustefnunnar og reynt að skara hver fram úr annarri í að sanna ættjarðarást sína, og með því höfðu þær hvatt til þjóðernishyggju. Það bakaði þeim fljótlega mikla blóðskuld er þær studdu með ráðum og dáð hinar pólitísku stjórnir sem þátt tóku í fyrri heimsstyrjöldinni. Hin svonefnda frjálslynda guðfræði eða nýguðfræði hafði veikt trú þeirra. Andleg kreppa skall á vegna þess að margir af klerkum þeirra höfðu orðið auðveld bráð æðri biblíugagnrýni og þróunarkenningarinnar. Ekki var að vænta neinnar andlegrar næringar frá klerkastétt kristna heimsins!
17. Hvers vegna hafnaði Kristur sumum smurðum kristnum mönnum og hvaða afleiðingar hafði það fyrir þá?
17 Það kom engin andleg næring heldur frá þeim smurðu kristnu mönnum sem hugsuðu meira um hjálpræði sjálfra sín en að ávaxta talentur húsbóndans. Þeir reyndust vera ‚latir,‘ óhæfir til að annast eigur húsbóndans. Þeim var kastað út í „ystu myrkur“ þar sem kirkjur kristna heimsins eru enn. — Matteus 25:24-30.
18. Hverja fann húsbóndinn útbýta andlegri fæðu á réttum tíma til hjúanna og hvað sannar að svo var?
18 Hverja fann þá húsbóndinn, Jesús Kristur, gefa hjúunum skammtinn á réttum tíma er hann kom til að rannsaka þjóna sína árið 1918? Nú, hverjir höfðu þá gefið þeim sem voru í einlægni að leita sannleikans réttan skilning á lausnarfórninni, nafni Guðs, ósýnilegri nærveru Krists og þýðingu ársins 1914? Hverjir höfðu afhjúpað að kenningarnar um þrenningu, ódauðleika mannssálarinnar og helvítiseld væru falskar? Og hverjir höfðu varað við þeirri hættu sem fylgdi þróunarkenningunni og spíritismanum? Staðreyndirnar sýna að það var hópur smurðra kristinna manna er tengdist útgefendum tímaritsins Varðturn Síonar og boðberi nærveru Krists sem nú er þekkt undir heitinu Varðturninn, kunngerir ríki Jehóva.
19. Hvernig hafði trúr þjónshópur komið fram á sjónarsviðið fyrir 1918, hvernig hafði hann útbýtt andlegri fæðu og hve lengi?
19 Þann 1. nóvember 1944 sagði Varðturninn: „Árið 1878, 40 árum áður en Drottinn kom til musterisins árið 1918, var til hópur einlægra, vígðra, kristinna manna sem hafði slitið öll tengsl við stofnanir kirkju og klerkaveldis og leitaðist við að iðka kristni . . . Árið eftir, í júlí 1879, var hafin útgáfa þessa tímarits, Varðturnsins, til að dreifa mætti reglulega sannindunum, er Guð hafði fyrir milligöngu Krists gefið sem ‚fæðu á réttum tíma,‘ til allra sem tilheyrðu húsi vígðra barna hans.“
20. (a) Hvernig kom stjórnandi ráð nútímans fram á sjónarsviðið? (b) Hvað voru meðlimir hins stjórnandi ráðs að gera og undir leiðsögn hvers?
20 Þann 15. desember 1971a gaf Varðturninn eftirfarandi upplýsingar um tilurð hins stjórnandi ráðs nútímans: „Fimm árum síðar [árið 1884] var Zion’s Watchtower Tract Society lögskráð og tók að þjóna sem ‚umboðsstofnun‘ til að miðla andlegri fæðu þúsundum einlægra manna er þráðu að kynnast Guði og skilja orð hans. . . . Vígðir, skírðir, smurðir kristnir menn tengdust þessu félagi í aðalstöðvunum í Pennsylvaníu. Hvort sem þeir tilheyrðu stjórn félagsins eða ekki buðu þeir sig fram til sérstaks starfs í þágu hins ‚trúa og hyggna þjóns.‘ Þeir hjálpuðu til við að næra og leiðbeina þjónahópnum og þannig kom hið stjórnandi ráð fram á sjónarsviðið. Þetta gerðist bersýnilega undir leiðsögn ósýnilegs starfskraftar Jehóva, heilags anda, og einnig samkvæmt tilsögn höfuðs kristna safnaðarins, Jesú Krists.“
21. (a) Hverja fann Kristur útbýta andlegri fæðu og hvernig umbunaði hann þeim? (b) Hvað beið hins trúa þjóns og hins stjórnandi ráðs hans?
21 Þegar Kristur kom árið 1918 til að rannsaka þá sem staðhæfðu að þeir væru þjónar hans, fann hann þannig alþjóðlegan hóp kristinna manna sem vann að því að koma á framfæri biblíusannindum til notkunar bæði innan safnaðarins og utan hans í prédikunarstarfinu. Árið 1919 fór nákvæmlega eins og Kristur hafði sagt fyrir: „Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur. Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.“ (Matteus 24:46, 47) Þessir sannkristnu menn gengu inn til fagnaðar húsbónda síns. Þeir höfðu sýnt sig ‚trúa yfir litlu‘ og því setti húsbóndinn þá ‚yfir mikið.‘ (Matteus 25:21) Hinn trúi þjónn og hið stjórnandi ráð hans voru á sjónarsviðinu, til reiðu að takast á við aukin verkefni. Það ætti að gleðja okkur mikið, því að drottinhollir kristnir menn hafa ríkulegan ávinning af dyggu starfi hins trúa þjóns og hins stjórnandi ráðs hans!
[Neðanmáls]
a Birtist í íslenskri útgáfu Varðturnsins þann 1. júní 1972.
Aðalatriðin rifjuð upp
◻ Hver er höfuð húss Guðs og hverjum hefur hann framselt vald?
◻ Hvaða sameiginlegt verkefni fól Kristur þjónshópnum?
◻ Hvaða annar hópur starfaði innan þjónshópsins og hverjar voru skyldur hans?
◻ Hverjir útbýttu andlegri fæðu meðal hjúanna þegar Kristur kom til að rannsaka hús Guðs?
◻ Hvernig kom stjórnandi ráð nútímans fram á sjónarsviðið?
[Mynd á blaðsíðu 23]
„Þjónn“ fyrstu aldar hafði stjórnandi ráð sem í voru postularnir og öldungarnir í söfnuðinum í Jerusalem.