Kafli 35
Frægasta ræða sem flutt hefur verið
SÖGUSVIÐIÐ er eitthvert það eftirminnilegasta í biblíusögunni: Jesús situr í fjallshlíð og flytur hina frægu fjallræðu. Þetta er í grennd við Galíleuvatn, sennilega skammt frá Kapernaum. Jesús hefur verið á bæn alla nóttina og er nýbúinn að velja tólf postula úr hópi lærisveina sinna. Þeir eru nú allir komnir niður á slétta flöt neðar í fjallshlíðinni.
Ætla má að Jesús sé orðinn býsna þreyttur og vilji leggja sig. En mikill mannfjöldi er kominn á vettvang, sumir um 100 kílómetra veg alla leið frá Júdeu og Jerúsalem. Aðrir eru komnir norðan frá strandhéruðunum við Týrus og Sídon. Þeir eru komnir til að hlýða á Jesú og fá bót meina sinna. Þarna er jafnvel fólk þjáð af illum öndum eða englum Satans.
Þegar Jesús kemur ofan af fjallinu sækir veikt fólk að honum til að snerta hann og hann læknar alla. Eftir þetta fer Jesús hærra upp í fjallshlíðina, sest niður og byrjar að kenna mannfjöldanum á flötinni fyrir framan sig. Og hugsaðu þér. Nú er ekki einn einasti maður í öllum áheyrendaskaranum haldinn alvarlegum sjúkdómi!
Fólkið bíður óþreyjufullt eftir að hlýða á kennarann sem getur unnið þessi ótrúlegu kraftaverk. Jesús flytur ræðu sína þó einkum fyrir lærisveinana sem sitja sennilega næstir honum. En bæði Matteus og Lúkas skráðu ræðuna svo að við getum notið góðs af henni.
Frásaga Matteusar af fjallræðu Jesú er um fjórfalt lengri en frásögn Lúkasar. Og Lúkas lýsir hluta af því sem Matteus greinir frá eins og Jesús hafi sagt það við önnur tækifæri. Þetta má sjá af samanburði á Matteusi 6:9-13 og Lúkasi 11:1-4, og svo Matteusi 6:25-34 og Lúkasi 12:22-31. En það ætti ekki að koma okkur á óvart. Jesús hefur greinilega kennt það sama oftar en einu sinni, og Lúkas kaus að segja frá sumu af því í öðru samhengi.
Fjallræða Jesú er sérstaklega verðmæt bæði sökum þess hve djúpt hann kafar andlega, og eins vegna þess hve einfalt og skýrt hann kemur þessum sannindum á framfæri. Hann byggir á hversdagslegum atburðum og kunnuglegum hlutum, þannig að hugmyndir hans eru auðskildar fyrir alla sem þrá betra líf í samræmi við vilja Guðs.
Hverjir eru raunverulega hamingjusamir?
Allir vilja vera hamingjusamir. Jesús veit það og byrjar fjallræðuna á því að lýsa hverjir séu raunverulega hamingjusamir. Hann hlýtur að ná athygli allra áheyrenda sinna þegar í stað. En samt hlýtur sumum að þykja inngangsorð hans mótsagnakennd.
Jesús beinir orðum sínum til lærisveinanna og segir: „Sælir eruð þér, fátækir, því að yðar er Guðs ríki. Sælir eruð þér, sem nú hungrar, því að þér munuð saddir verða. Sælir eruð þér, sem nú grátið, því að þér munuð hlæja. Sælir eruð þér, þá er menn hata yður . . . Fagnið á þeim degi og leikið af gleði, því laun yðar eru mikil á himni.“
Þetta er útgáfa Lúkasar af inngangsorðum fjallræðunnar. En samkvæmt frásögn Matteusar segir Jesús líka að hógværir, miskunnsamir, hjartahreinir og friðflytjendur séu sælir eða hamingjusamir. Þeir eru það, segir Jesús, vegna þess að þeir munu erfa jörðina, þeim verður miskunnað, þeir munu sjá Guð og þeir verða kallaðir börn Guðs.
Þegar Jesús talar um að vera sæll eða hamingjusamur á hann ekki bara við kæti eða glaðværð eins og þegar við skemmtum okkur. Sönn hamingja er djúpstæðari og felur í sér ánægjukennd og lífsfyllingu.
Jesús sýnir því fram á að þeir séu raunverulega hamingjusamir sem viðurkenna andlega þörf sína, hryggjast yfir syndugu ástandi sínu og kynnast Guði og þjóna honum. Þótt þeir séu síðan hataðir eða ofsóttir fyrir að gera vilja Guðs eru þeir engu að síður hamingjusamir af því að þeir vita að þeir eru Guði þóknanlegir og hljóta eilíft líf að launum frá honum.
En margir af áheyrendum Jesú álíta að hamingja sé fólgin í velmegun og lífsgæðum, líkt og margir hugsa nú á dögum. Jesús veit betur. Hann bendir á andstæðu, sem hlýtur að koma mörgum áheyrenda hans á óvart, og segir:
„Vei yður, þér auðmenn, því að þér hafið tekið út huggun yðar. Vei yður, sem nú eruð saddir, því að yður mun hungra. Vei yður, sem nú hlæið, því að þér munuð sýta og gráta. Vei yður, þá er allir menn tala vel um yður, því að á sama veg fórst feðrum þeirra við falsspámennina.“
Hvað á Jesús við? Hvers vegna hefur það ógæfu í för með sér að vera efnaður, hlæja, skemmta sér og hljóta lof manna? Vegna þess að maður sem hefur allt þetta og þykir vænt um það hefur ekki rúm í lífi sínu til að þjóna Guði, en aðeins það veitir sanna hamingju. Og Jesús var ekki að segja að maður yrði hamingjusamur fyrir það eitt að vera fátækur, hungraður og sorgbitinn. En bágstaddir taka oft á móti kenningu Jesú og hljóta sanna hamingju að launum.
Nú ávarpar Jesús lærisveina sína og segir: „Þér eruð salt jarðar.“ Hann á auðvitað ekki við að þeir séu bókstaflegt salt. En salt er gott rotvarnarefni. Við altarið í musteri Jehóva var stór salthaugur sem prestarnir notuðu til að salta fórnirnar.
Lærisveinar Jesú eru „salt jarðar“ í þeirri merkingu að þeir stuðla að því að vernda fólk. Boðskapur þeirra verndar líf allra sem taka við honum. Hann gerir þá staðfasta, holla og trúfasta og kemur í veg fyrir sérhverja andlega og siðferðilega spillingu hjá þeim.
„Þér eruð ljós heimsins,“ segir Jesús lærisveinunum. Ljós er ekki sett undir mæliker heldur á ljósastiku, svo að Jesús segir: „Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna.“ Lærisveinar Jesú gera það með opinberum vitnisburði sínum og einnig með því að vera skínandi fordæmi um breytni sem samræmist meginreglum Biblíunnar.
Háleitar lífsreglur handa fylgjendum hans
Trúarleiðtogarnir líta á Jesú sem lögmálsbrjót og hafa nýverið komið sér saman um að ráða hann af dögum. Jesús heldur því áfram í fjallræðu sinni: „Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla.“
Jesús ber hina dýpstu virðingu fyrir lögmáli Guðs og hvetur aðra til þess líka. Hann segir reyndar: „Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki,“ og á þá við að slíkur maður komist alls ekki inn í Guðsríki.
Jesús lítilsvirðir alls ekki lögmál Guðs heldur fordæmir jafnvel þau viðhorf sem fá fólk til að brjóta gegn því. Hann bendir á að lögmálið segir: „Þú skalt ekki morð fremja,“ en bætir við: „Ég segi yður: Hver sem reiðist bróður sínum, skal svara til saka fyrir dómi.“
Langvinn reiði gegn náunganum er alvarleg og getur jafnvel leitt til morðs, og þess vegna grípur Jesús til líkingar til að sýna fram á hve langt menn eigi að ganga í því að koma á sáttum. Hann segir: „Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar, að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér, þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína.“
Jesús beinir nú athyglinni að sjöunda boðorðinu og heldur áfram: „Þér hafið heyrt, að sagt var: ‚Þú skalt ekki drýgja hór.‘“ En Jesús fordæmir jafnvel ranga afstöðu til hórdóms. „Ég segi yður: Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“
Jesús er ekki að tala aðeins um siðlausa hugsun sem líður hjá heldur að halda áfram að horfa á konu í girndarhug. Sá sem gerir það elur með sér ástríðufulla girnd sem getur endað með hórdómi ef tækifæri býðst. Hvernig er hægt að koma í veg fyrir að slíkt gerist? Jesús bendir á að róttækar aðgerðir geti reynst nauðsynlegar og segir: „Ef hægra auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr og kasta frá þér. . . . Ef hægri hönd þín tælir þig til falls, þá sníð hana af og kasta frá þér.“
Fólk er oft tilbúið að fórna bókstaflegum útlim, ef hann er sýktur, til að bjarga lífi sínu. En að sögn Jesú er enn þýðingarmeira að ‚kasta frá sér‘ hverju sem er, jafnvel þótt það virðist jafnverðmætt og auga eða hönd, til að forðast siðlausar hugsanir og verk. Að öðrum kosti verður slíku fólki kastað í Gehenna (logandi sorphaug í grennd við Jerúsalem) sem táknar eilífa tortímingu.
Jesús ræðir einnig um hvernig eigi að bera sig að við þann sem er móðgandi eða vinnur manni tjón. „Rísið ekki gegn þeim, sem gerir yður mein,“ ráðleggur hann. „Nei, slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina.“ Jesús er ekki að segja að maður eigi ekki að verja sig eða fjölskyldu sína ef á þau er ráðist. Löðrungi er ekki ætlað að meiða heldur móðga. Jesús er að segja að það sé rangt að bregðast ókvæða við þeim sem reynir að stofna til illinda eða átaka, annaðhvort með því að löðrunga mann með flötum lófa eða særa með meiðandi orðum.
Eftir að Jesús hefur minnt á það lagaboð Guðs að elska náungann segir hann: „Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður.“ Hann segir að það sé ærin ástæða til: „Svo að þér reynist börn föður yðar á himnum, er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða.“
Jesús lýkur þessum kafla ræðunnar með hvatningunni: „Verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.“ Hann er ekki að segja að fólk geti verið fullkomið í strangasta skilningi orðsins, heldur geti það líkt eftir Guði með því að láta kærleika sinn ná jafnvel til óvina sinna. Í hliðstæðri frásögu hefur Lúkas eftir Jesú: „Verið miskunnsamir, eins og faðir yðar er miskunnsamur.“
Bæn og traust á Guði
Í framhaldi ræðunnar fordæmir Jesús hræsni þeirra sem flagga ímyndaðri guðrækni sinni. „Þegar þú gefur ölmusu, skaltu ekki láta þeyta lúður fyrir þér, eins og hræsnarar gjöra,“ segir hann.
„Og þegar þér biðjist fyrir, þá verið ekki eins og hræsnararnir,“ heldur Jesús áfram. „Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum, til þess að menn sjái þá.“ Síðan segir hann: „En nær þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn, sem er í leynum.“ Jesús baðst sjálfur fyrir á almannafæri þannig að hann er ekki að fordæma það. Hann er að fordæma bænir sem eru bornar fram til að vekja hrifningu áheyrenda og kalla fram aðdáun þeirra og hrós.
Jesús heldur áfram og ráðleggur: „Þegar þér biðjist fyrir, skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi að hætti heiðingja.“ Hann er ekki að gefa í skyn að endurtekning sé röng. Einu sinni baðst hann fyrir aftur og aftur „með sömu orðum.“ Hann er að lýsa vanþóknun sinni á því að fara með síendurteknar utanbókarþulur eins og menn gera með hjálp talnabanda.
Jesús kennir áheyrendum sínum fyrirmyndarbæn til að hjálpa þeim að biðja, en í henni eru sjö beiðnir. Fyrstu þrjár tengjast réttilega viðurkenningu á drottinvaldi Guðs og tilgangi hans. Þar er beðið um að nafn Guðs helgist, ríki hans komi og vilji hans verði gerður. Hinar fjórar eru persónulegar beiðnir um daglegt fæði, fyrirgefningu synda, að verða ekki freistað um megn fram og um frelsun frá hinum vonda.
Í framhaldinu bendir Jesús á að það sé snara að leggja óhóflega áherslu á efnislegar eignir. Hann hvetur: „Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela.“ Slíkir fjársjóðir eru forgengilegir og gera menn ekki ríka í augum Guðs.
Jesús segir því: „Safnið yður heldur fjársjóðum á himni.“ Það er gert með því að láta þjónustu Guðs ganga fyrir í lífinu. Enginn getur stolið úr þeim sjóði sem safnast hjá Guði með slíkum verkum, eða þeim miklu launum sem fylgja honum. Síðan bætir Jesús við: „Hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera.“
Jesús fjallar áfram um snöru efnishyggjunnar og bregður upp líkingu: „Augað er lampi líkamans. Sé auga þitt heilt, mun allur líkami þinn bjartur. En sé auga þitt spillt, verður allur líkami þinn dimmur.“ Heilbrigt auga er líkamanum eins og lýsandi lampi á myrkum stað. En til að sjá skýrt þarf augað að vera heilt og einbeita sér að einum hlut í einu. Auga, sem sér ekki skýrt, getur lagt rangt mat á hluti þannig að efnislegir hlutir séu teknir fram yfir þjónustuna við Guð. Þá verður ‚allur líkaminn‘ í myrkri.
Jesús dregur síðan upp sterka mynd: „Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“
Eftir að hafa gefið þessi ráð fullvissar Jesús áheyrendur sína um að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af efnislegum þörfum sínum ef þeir láti þjónustu Guðs ganga fyrir. „Lítið til fugla himinsins,“ segir hann. „Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá.“ Síðan spyr hann: „Eruð þér ekki miklu fremri þeim?“
Því næst nefnir Jesús liljur vallarins og bendir á að ‚jafnvel Salómon í allri sinni dýrð hafi ekki verið svo búinn sem ein þeirra.‘ Svo heldur hann áfram: „Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins, . . . skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlitlir!“ Niðurstaða Jesú er því þessi: „Segið því ekki áhyggjufullir: ‚Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast?‘ . . . Yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“
Leiðin til lífsins
Leiðin til lífsins er fólgin í því að fara eftir kenningum Jesú. En það er ekki auðvelt. Farísearnir eru til dæmis dómharðir og margir líkja trúlega eftir þeim. Jesús hvetur því áheyrendur sína í framhaldi fjallræðunnar: „Dæmið ekki, svo að þér verðið ekki dæmdir. Því að með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð þér dæmdir.“
Það er hættulegt að fylgja fordæmi faríseanna sem eru gagnrýnir úr hófi fram. Samkvæmt frásögn Lúkasar lýsir Jesús þessari hættu þannig: „Hvort fær blindur leitt blindan? Munu ekki báðir falla í gryfju?“
Það er háalvarlegt mál að vera of gagnrýninn á aðra, gera mikið úr göllum þeirra og hamra á þeim. Jesús spyr því: „Hvernig fær þú sagt við bróður þinn: ‚Lát mig draga flísina úr auga þér?‘ Og þó er bjálki í auga sjálfs þín. Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér, og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.“
Jesús er ekki að segja að lærisveinar hans eigi ekki að beita dómgreind sinni í samskiptum við aðra, því hann heldur áfram: „Gefið ekki hundum það sem heilagt er, og kastið eigi perlum yðar fyrir svín.“ Sannleikurinn í orði Guðs er heilagur. Hann er eins og táknrænar perlur. En ef sumir eru eins og hundar eða svín að því leyti að þeir kunna alls ekki að meta þessi dýrmætu sannindi, þá ættu lærisveinar Jesú að láta þá eiga sig og leita að þeim sem eru móttækilegri.
Jesús er búinn að ræða um bænina fyrr í fjallræðunni, en núna leggur hann áherslu á þrautseigju í bæninni. „Biðjið, og yður mun gefast,“ hvetur hann. Jesús tekur dæmi til að lýsa vilja Guðs til að svara bænum: „Hver er sá maður meðal yðar, sem gefur syni sínum stein, er hann biður um brauð? . . . Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir, sem biðja hann?“
Nú setur Jesús fram hina annáluðu gullnu reglu eins og hún er yfirleitt kölluð: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ Að lifa eftir þessari reglu merkir að gera öðrum gott, að koma fram við þá eins og maður vill láta koma fram við sig.
Vegurinn til lífsins er ekki auðfarinn eins og sjá má af fyrirmælum Jesú: „Gangið inn um þrönga hliðið. Því að vítt er hliðið og vegurinn breiður, sem liggur til glötunar, og margir þeir, sem þar fara inn. Hve þröngt er það hlið og mjór sá vegur, er liggur til lífsins, og fáir þeir, sem finna hann.“
Það er veruleg hætta á því að leiðast á villigötur þannig að Jesús segir: „Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar.“ Alveg eins og góð tré og slæm tré þekkjast á ávöxtum sínum, eins má þekkja falsspámenn á atferli þeirra og kenningum.
Jesús heldur áfram og bendir á að það séu ekki orðin sem geri mann að lærisveini hans heldur verkin. Sumir kalla Jesú herra sinn og Drottin, en ef þeir gera ekki vilja föður hans segist hann votta þeim: „Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.“
Jesús lýkur ræðu sinni með eftirminnilegum orðum. Hann segir: „Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni, er byggði hús sitt á bjargi. Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi, en það féll eigi, því það var grundvallað á bjargi.“
„En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim,“ segir Jesús, „sá er líkur heimskum manni, er byggði hús sitt á sandi. Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll, og fall þess var mikið.“
Þegar Jesús lýkur ræðu sinni undrast mannfjöldinn hvernig hann kennir, því að hann kennir eins og sá sem vald hefur en ekki eins og trúarleiðtogarnir. Lúkas 6:12-23; Matteus 5:1-12; Lúkas 6:24-26; Matteus 5:13-48; 6:1-34; 26:36-45; 7:1-29; Lúkas 6:27-49.
▪ Hvar er Jesús þegar hann flytur eftirminnilegustu ræðu sína, hverjir eru viðstaddir og hvað gerðist rétt áður?
▪ Hvers vegna er ekkert óeðlilegt að Lúkas skuli segja frá sumu úr fjallræðunni í öðru samhengi?
▪ Hvað gerir ræðu Jesú sérstaklega verðmæta?
▪ Hverjir eru raunverulega hamingjusamir og hvers vegna?
▪ Hverjir verða fyrir ógæfu og af hverju?
▪ Hvernig eru lærisveinar Jesú „salt jarðar“ og „ljós heimsins“?
▪ Hvernig sýnir Jesús mikla virðingu fyrir lögmáli Guðs?
▪ Hvaða leiðbeiningar gefur Jesús um að uppræta orsakir morðs og hórdóms?
▪ Hvað á Jesús við þegar hann talar um að bjóða hina kinnina?
▪ Hvernig getum við verið fullkomin eins og Guð er fullkominn?
▪ Hvaða leiðbeiningar gefur Jesús um bænina?
▪ Af hverju eru himneskir fjársjóðir miklu betri en jarðneskir og hvernig eignast maður þá?
▪ Hvaða líkingar notar Jesús til að vara fólk við efnishyggju?
▪ Af hverju segir Jesús að menn þurfi ekki að vera áhyggjufullir?
▪ Hvað segir Jesús um að dæma aðra, en hvernig bendir hann á að lærisveinarnir þurfi að sýna dómgreind í samskiptum við fólk?
▪ Hvað fleira segir Jesús um bænina og hvaða hegðunarreglu setur hann?
▪ Hvernig bendir Jesús á að leiðin til lífsins sé ekki auðfarin og að hætta sé á því að leiðast á villigötur?
▪ Hvernig lýkur Jesús ræðu sinni og hvaða áhrif hefur hún?