Verið gerendur orðsins, ekki aðeins heyrendur
„Ekki mun hver sá, sem við mig segir: ‚Herra, herra,‘ ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum.“ — MATTEUS 7:21.
1. Hvað eiga fylgjendur Jesú að halda áfram að gera?
HALTU áfram að biðja. Haltu áfram að leita. Haltu áfram að knýja dyra. Vertu staðfastur í bæn, námi og því að gera það sem Jesús sagði í fjallræðunni. Jesús segir fylgjendum sínum að þeir séu salt jarðar, beri salti kryddaðan boðskap sem verndar og varðveitir. Þeir mega ekki útvatna hann svo að hann missi bragð sitt og verndarmátt. Þeir eru ljós heimsins og endurspegla ljósi fra Kristi Jesú og Jehóva Guði, ekki aðeins með því sem þeir segja heldur líka því sem þeir gera. Góð verk þeirra skína jafnskært og upplýsandi orð þeirra — og geta jafnvel verið meira áberandi í heimi sem er vanur faríseahræsni forystumanna, bæði í trúmálum og stjórnmálum, sem segja mikið og gera lítið. — Matteus 5:13-16.
2. Til hvers hvetur Jakob okkur en hvernig koma sumir sér í þægilegar stellingar á röngum forsendum?
2 Jakob áminnir: „Verðið gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þér sjálfa yður.“ (Jakobsbréfið 1:27) Margir svíkja sig með kenningunni ‚einu sinni hólpinn, alltaf hólpinn,‘ rétt eins og þeir geti núna sest í helgan stein og beðið launanna sem þeir hyggja sig hljóta á himnum. Þetta er falskenning og innantóm von. „Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða,“ sagði Jesús. (Matteus 24:13) Til að öðlast eilíft líf verður þú að vera „trúr allt til dauða.“ — Opinberunarbókin 2:10; Hebreabréfið 6:4-6; 10:26, 27.
3. Hvað kennir Jesús okkur í fjallræðunni um bænir?
3 Er Jesús hélt áfram fjallræðu sinni komu fram fleiri heilræði sem kristnir menn verða að kappkosta að lifa eftir. Hér kemur eitt sem virðist einfalt en fordæmir einhverja þrálífustu tilhneigingu okkar: „Dæmið ekki, svo að þér verðið ekki dæmdir. Því að með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð þér dæmdir, og með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða. Hví sér þú flısina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? Eða hvernig fær þú sagt við bróður þinn: ‚Lát mig draga flísina úr auga þér?‘ Og þó er bjálki í auga sjálfs þín. Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér, og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.“ — Matteus 7:1-5.
4. Hvaða leiðbeiningum bætir frásögn Lúkasar við og hvað hefur það í för með sér að fara eftir þeim?
4 Í frásögn Lúkasar af fjallræðunni sagði Jesús áheyrendum sínum að finna ekki að öðrum. Þess í stað eiga þeir að ‚sýkna,‘ það er að segja að halda áfram að fyrirgefa mistök náunga síns. Það kemur síðan öðrum til að gjalda líku líkt eins og Jesús sagði: „Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“ — Lúkas 6:37, 38.
5. Hvers vegna er miklu auðveldara að sjá galla annarra en okkar eigin?
5 Hinar munnlegu erfðavenjur komu faríseunum á fyrstu öld yfirleitt til að dæma aðra harðneskjulega. Sérhver fylgjandi Jesú, sem hafði tamið sér slíkt, átti að hætta því. Það er miklu auðveldara að sjá flísina í auga annars en bjálkann í sínu eigin — og miklu þægilegra fyrir sjálfsálitið! Eins og maður sagði: „Ég hef yndi af að gagnrýna aðra vegna þess að þá líður mér svo vel!“ Ef við höfum fyrir sið að gagnrýna aðra finnst okkur kannski sem við séum prýddir dyggðum er vegi upp á móti göllum okkar sem við viljum fela. En ef leiðrétting er nauðsynleg ætti að veita hana mildilega. Sá sem leiðréttir ætti ávallt að vera sér meðvitandi um eigin ófullkomleika. — Galatabréfið 6:1.
Reyndu að skilja áður en þú dæmir
6. Á hvaða grundvelli ættum við að dæma, þegar það er nauðsynlegt, og hvar ættum við að leita hjálpar til að vera ekki óhóflega gagnrýnin?
6 Jesús kom ekki til að dæma heiminn heldur frelsa hann. Allir dómar hans voru byggðir á þeim orðum sem Guð hafði falið honum að mæla, ekki á eigin skoðun. (Jóhannes 12:47-50) Hver sá dómur, sem við fellum, ætti líka að vera í samræmi við orð Jehóva. Við verðum að bæla niður tilhneiginguna til dómhörku og biðja Jehóva aftur og aftur um hjálp hans: „Haldið áfram að biðja og ykkur mun gefast, haldið afram að leita og þið munuð finna, haldið áfram að knýja dyra og opnað verður fyrir ykkur. Því að hver sá fær er biður, sá finnur sem leitar og lokið verður upp fyrir hverjum sem knýr dyra.“ (Matteus 7:7, 8, NW) Jafnvel Jesús sagði: „Ég megna eigi að gjöra neitt af sjálfum mér. Ég dæmi samkvæmt því, sem ég heyri, og dómur minn er réttvís, því að ég leita ekki míns vilja, heldur vilja þess, sem sendi mig.“ — Jóhannes 5:30.
7. Hvaða venju ættum við að rækta með okkur sem hjálpar okkur að fylgja gullnu reglunni?
7 Við ættum að temja okkur að dæma ekki aðra heldur að reyna að skilja þá með því að setja okkur í spor þeirra — það er ekki auðvelt en það er nauðsynlegt ef við viljum fylgja gullnu reglunni sem Jesús gaf þessu næst: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir.“ (Matteus 7:12) Fylgjendur Jesú verða því að vera næmir og bera skynbragð á hugarfarslegt, tilfinningalegt og andlegt ástand annarra. Þeir verða að skilja og skynja þarfir annarra og hafa persónulegan ahuga á að hjálpa þeim. (Filippíbréfið 2:2-4) Árum síðar skrifaði Páll: „Allt lögmálið er uppfyllt með þessu eina boðorði: ‚Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘“ — Galatabréfið 5:14.
8. Hvaða tvo vegi ræddi Jesús um og hvers vegna velur þorri manna annan þeirra?
8 „Gangið inn um þrönga hliðið,“ hélt Jesús áfram, „því að vítt er hliðið og vegurinn breiður, sem liggur til glötunar, og margir þeir, sem þar fara inn. Hve þröngt er það hlið og mjór sá vegur, er liggur til lífsins, og fáir þeir, sem finna hann.“ (Matteus 7:13, 14) Margir á þeim dögum völdu veginn til glötunar og margir gera það enn. Breiði vegurinn leyfir fólki að hugsa eins og því þóknast og lifa eins og það vill; þar eru engar reglur, engar skuldbindingar, aðeins þægilegur lífsstíll og allt er auðvelt. Þar er þess ekki krafist að menn ‚kosti kapps um að komast inn um þröngu dyrnar‘! — Lúkas 13:24.
9. Hvað útheimtir það að ganga mjóa veginn og hvaða aðvörun gefur Jesús þeim sem gera það?
9 Það er eigi að síður þrönga hliðið sem opnast inn til eilífa lífsins. Það krefst sjálfstjórnar að komast gegnum það. Það getur útheimt sjálfsögun sem rannsakar áhugahvatir okkar og kannar hvaða alvara sé í vígsluheiti okkar. Þegar ofsóknir skella á verður vegurinn torfarinn og kallar á úthald. Jesús aðvarar þá sem ganga þennan veg: „Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar.“ (Matteus 7:15) Þessi lýsing hæfði faríseunum fullkomlega. (Matteus 23:27, 28) Þeir ‚sátu á stóli Móse‘ og staðhæfðu að þeir væru talsmenn Guðs þótt þeir fylgdu erfðavenjum manna. — Matteus 23:2.
Hvernig farísearnir ‚læstu himnaríki‘
10. Á hvaða sérstakan hátt reyndu fræðimenn og farísear að ‚loka himnaríki fyrir mönnum‘?
10 Að auki leituðust klerkar Gyðinga við að hindra för þeirra sem vildu komast inn um þrönga hliðið. „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér læsið himnaríki fyrir mönnum. Sjálfir gangið þér ekki þar inn, og þeim, sem inn vilja ganga, leyfið þér eigi inn að komast.“ (Matteus 23:13) Farísearnir beittu nákvæmlega sömu aðferð og Jesús hafði aðvarað. Þeir ‚báru út óhróður um lærisveina hans vegna Mannssonarins.‘ (Lúkas 6:22) Maður, sem fæðst hafði blindur og Jesús læknaði, trúði að Jesús væri Messías og þess vegna gerðu þeir hann samkundurækan. Foreldrar hans svöruðu engum spurningum vegna þess að þeir óttuðust að eins myndi fara fyrir þeim. Af sömu ástæðu hikuðu margir, sem trúðu að Jesús væri Messías, við að játa það opinberlega. — Jóhannes 9:22, 34; 12:42; 16:2.
11. Á hvaða ávöxtum er hægt að þekkja klerka kristna heimsins?
11 „Af avöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá,“ sagði Jesús. „Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda.“ (Matteus 7:16-20) Sama regla gildir nú á tímum. Margir af klerkum kristna heimsins segja eitt og gera annað. Þótt þeir segist kenna Biblíuna aðhyllast þeir svívirðilegar kenningar svo sem um þrenningu og helvítiseld. Aðrir afneita lausnargjaldinu, kenna þróunarkenninguna í stað sköpunar og prédika poppsálfræði til að kitla eyru manna. Margir af klerkum nútímans eru fégráðugir líkt og farísearnir og rýja hjörð sína um milljónir. (Lúkas 16:14) Allir hrópa þeir: „Herra, herra,“ en Jesús svarar: „Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.“ — Matteus 7:21-23.
12. Hvers vegna eru sumir, sem einu sinni gengu mjóa veginn, hættir því og með hvaða afleiðingum?
12 Sumir, sem einu sinni gengu mjóa veginn, eru hættir því. Þeir segjast elska Jehóva en þeir hlýða ekki boði hans um að prédika. Þeir segjast elska Jesú en þeir næra ekki sauði hans. (Matteus 24:14; 28:19, 20; Jóhannes 21:15-17; 1. Jóhannesarbréf 5:3) Þeir vilja ekki deila kjörum með þeim sem feta í fótspor Jesú. Þeim fannst mjói vegurinn of mjór. Þeir þreyttust á að gera gott þannig að „þeir komu úr vorum hópi, en heyrðu oss ekki til. Ef þeir hefðu heyrt oss til, þá hefðu þeir áfram verið með oss.“ (1. Jóhannesarbréf 2:19) Þeir sneru aftur út í myrkrið og ‚hvílíkt er það myrkur.‘ (Matteus 6:23) Þeir létu ákall Jóhannesar sem vind um eyru þjóta: „Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum, heldur í verki og sannleika.“ — 1. Jóhannesarbréf 3:18.
13, 14. Hvaða líkingu notaði Jesús til að lýsa því að við ættum að fara eftir orðum hans og hvers vegna er það viðeigandi líking í Palestínu?
13 Jesús lauk fjallræðu sinni með andstæðuríkri samlíkingu: „Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni, er byggði hús sitt á bjargi. Nu skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi, en það féll eigi, því það var grundvallað á bjargi.“ — Matteus 7:24, 25.
14 Í Palestínu gat úrhellisrigning sent hættuleg skyndiflóð eftir þurrum grafningsdölum. Ef hús áttu að standa þurftu þau að vera byggð a bjargi. Frásögn Lúkasar segir frá manni sem „byggði hús, gróf djúpt fyrir og grundvallaði það á bjargi.“ (Lúkas 6:48) Það var erfiðisvinna en hún borgaði sig þegar óveður skall á. Eins mun það borga sig að hafa byggt kristna eiginleika á orðum Jesú þegar skyndiflóð verður sökum erfiðleika.
15. Hvaða afleiðingu hefur það að fylgja erfðavenjum manna í stað þess að hlýða orðum Jesú?
15 Hitt húsið var reist á sandi: „Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni, er byggði hús sitt á sandi. Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll, og fall þess var mikið.“ Þannig fer fyrir þeim sem segja: „Herra, herra,“ en gera ekki það sem Jesús sagði. — Matteus 7:26, 27.
„Ekki eins og fræðimenn þeirra“
16. Hvaða áhrif hafði fjallræðan á þá sem hana heyrðu?
16 Hver voru áhrif fjallræðunnar? „Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu, undraðist mannfjöldinn mjög kenningu hans, því að hann kenndi þeim eins og sá, er vald hefur, og ekki eins og fræðimenn þeirra.“ (Matteus 7:28, 29) Þeir voru djúpt snortnir af því að hlusta á mann er kenndi með slíku valdi sem þeir höfðu aldrei skynjað áður.
17. Hvað þurftu fræðimennirnir að gera til að kenning þeirra teldist gild og hvað staðhæfðu þeir um látna spekinga sem vitnað var til?
17 Enginn fræðimaður talaði í eigin valdi eins og eftirfarandi frásaga sýnir: „Fræðimennirnir studdu kenningar sínar erfðavenjum og feðrum þeirra, og engin ræða nokkurs fræðimanns hafði nokkurt vald eða gildi án [slíkrar tilvísunar] . . . Rabbínarnir hafa erfðavenju eða vitringarnir segja, eða þá að vísað var til einhvers hefðbundins, æðra leiðarljóss af því tagi. Hillel hinn mikli kenndi sannfærandi og samkvæmt erfðavenju um ákveðin atriði, ‚en þótt hann ræddi þetta mál allan daginn . . . tóku þeir ekki við kenningu hans uns hann sagði að lokum: ‚Þetta hef ég heyrt frá Semaja og Abtalíon [virtir heimildarmenn sem voru á undan Hillel].‘“ (A Commentary on the New Testament From the Talmud and Hebraica eftir John Lightfoot) Farísearnir kenndu jafnvel um löngu látna spekinga: „Varir hinna réttlátu, er einhver vitnar í kenningu lögmálsins í þeirra nafni — varir þeirra muldra með þeim í gröfinni.“ — Torah — From Scroll to Symbol in Formative Judaism.
18. (a) Hvað var ólíkt með kenningu fræðimannanna og Jesú? (b) Hvað gerði kenningu Jesú svona einstæða?
18 Fræðimennirnir vitnuðu í látna menn sem heimildarmenn; Jesús talaði í valdi hins lifandi Guðs. (Jóhannes 12:49, 50; 14:10) Rabbínar drógu staðið vatn upp úr lokuðum brunnum; Jesús opnaði uppsprettur með fersku vatni sem slökkti innri þorsta. Hann bað og hugleiddi yfir nóttina, og er hann talaði, snertu orð hans strengi hið innra með mönnum sem þeir höfðu aldrei fundið fyrir áður. Hann talaði með valdi sem þeir fundu fyrir, valdi sem jafnvel fræðimenn, farísear og saddúkear þorðu loks ekki að ögra. (Matteus 22:46; Markús 12:34; Lúkas 20:40) Aldrei hafði nokkur maður talað þannig! Mannfjöldinn var furðu lostinn er ræðunni lauk!
19. Lýstu nokkrum kennsluaðferðum votta Jehóva nú á dögum sem eru líkar kennsluaðferðum Jesú í fjallræðunni.
19 Hvað um okkar daga? Er vottar Jehóva prédika hús úr húsi beita þeir svipuðum aðferðum. Húsráðandi segir kannski: „Mín kirkja kennir að jörðin eigi að brenna upp til agna.“ Þú svarar: „Í þinni eigin Biblíu stendur í Prédikaranum 1:4: ‚Jörðin stendur að eilífu.‘“ Húsráðandinn er undrandi. „Ég vissi ekki að það stæði í minni biblíu!“ Annar segir: „Ég hef heyrt að syndarar munu brenna í helvíti.“ „En Biblían þín segir í Rómverjabréfinu 6:23: „Laun syndarinnar eru dauði.‘“ Eða um þrenninguna: „Prédikarinn minn segir að Jesús og faðir hans séu jafnir.“ „En Biblían þín hefur eftir Jesú í Jóhannesi 14:28: ‚Faðirinn er mér meiri.‘“ Og enn einn segir: „Ég hef heyrt sagt að Guðsríki sér hið innra með manni.“ Þú svarar: „Í Daníelsbók 2:44 stendur í biblíunni þinni: ‚Á dögum þessara konunga mun Guð himnanna hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga . . . Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.‘ Hvernig getur það verið hið innra með þér?“
20. (a) Hvaða munur er á kennslu vottanna og klerka kristna heimsins? (b) Hvað er núna tímabært að gera?
20 Jesús talaði með valdi frá Guði. Vottar Jehóva tala með valdi frá orði Guðs. Klerkar kristna heimsins mæla fram trúarlegar erfðavenjur mengaðar af kenningum sem komnar eru frá Babýlon og Egyptalandi. Er einlægt fólk heyrir trúarskoðanir sínar hraktar með hjálp Biblíunnar segir það oft undrandi: ‚Ég vissi ekki að þetta stæði í biblíunni minni!‘ En það stendur þar. Núna er rétti tíminn fyrir alla, sem eru sér meðvitandi um andlega þörf sína, til að gefa gaum orðum Jesú í fjallræðunni og byggja þannig á varanlegum kletti.
Upprifjun
◻ Hvað ættum við að gera í stað þess að fella dóm og hvers vegna?
◻ Hvers vegna velja margir nútímamenn breiða veginn?
◻ Hvers vegna var kennsla Jesú afar ólík kennslu fræðimannanna?
◻ Hvaða áhrif hafði fjallræðan á þá sem heyrðu hana?