„Kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður“
„Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ — MATTEUS 28:19, 20.
1. Hvaða samtal átti sér stað milli Filippusar og manns frá Eþíópíu?
EÞÍÓPÍUMAÐURINN hafði ferðast alla leið til Jerúsalem. Þar tilbað hann Jehóva Guð sem hann elskaði. Hann elskaði greinilega líka innblásið orð Guðs. Hann var á leiðinni heim í vagni sínum og var að lesa í ritum spámannsins Jesaja þegar Filippus, lærisveinn Krists, hitti hann. Filippus spurði hann: „Hvort skilur þú það, sem þú ert að lesa?“ Maðurinn svaraði: „Hvernig ætti ég að geta það, ef enginn leiðbeinir mér?“ Filippus hjálpaði síðan þessum einlæga manni, sem var að kynna sér ritningarnar, að verða lærisveinn Krists. — Postulasagan 8:26-39.
2. (a) Á hvaða hátt var svar Eþíópíumannsins eftirtektarvert? (b) Hvaða spurningar í tengslum við fyrirmæli Krists verða skoðaðar?
2 Svar Eþíópíumannsins er eftirtektarvert. Hann sagði: „Hvernig ætti ég að geta það, ef enginn leiðbeinir mér?“ Já, hann þurfti á leiðbeinanda að halda, einhverjum til að vísa sér veginn. Þetta svar lýsir því hve mikilvægt er að veita ákveðna leiðsögn sem Jesús nefndi í fyrirmælum sínum um að gera menn að lærisveinum. Hver er þessi leiðsögn? Til að finna svarið við því skulum við halda áfram umfjöllun okkar um orð Jesú í 28. kafla Matteusar. Greinin á undan beindi athygli að spurningunum: Hvers vegna og hvar? Núna fjöllum við um tvær spurningar í viðbót í tengslum við fyrirmæli Jesú: Hvað og hvenær?
„Kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður“
3. (a) Hvernig gerast menn lærisveinar Jesú Krists? (b) Hvað þurfum við að kenna til að gera menn að lærisveinum?
3 Hvað verðum við að prédika til að hjálpa öðrum að gerast lærisveinar Krists? Jesús sagði lærisveinum sínum: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Við verðum þess vegna að kenna það sem Kristur bauð.a En hvernig er hægt að tryggja að þeir sem við kennum boð Jesú muni ekki aðeins gerast lærisveinar heldur líka vera það áfram? Með nákvæmu orðavali sínu bendir Jesús á eina mikilvæga leið til þess. Taktu eftir að hann sagði ekki aðeins: ,Kennið þeim allt það sem ég hef boðið yður,‘ heldur sagði hann: „Kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 19:17) Hvað gefur þetta til kynna?
4. (a) Hvað merkir það að halda fyrirmæli? (b) Lýstu því hvernig við kennum mönnum að halda fyrirmæli Krists.
4 Að halda fyrirmæli merkir að ,hlýðnast‘ eða ,fara eftir‘ þeim. Hvernig kennum við þá fólki að halda það sem Kristur bauð? Hugsaðu um það hvernig ökukennari kennir nemendum sínum að fylgja umferðarreglunum. Í skólastofunni kennir hann þeim ef til vill reglurnar. En til að kenna þeim að hlýða reglunum þarf hann að leiðbeina þeim út í umferðinni svo að þeir æfist í að nota það sem þeir hafa lært. Þegar við hjálpum fólki að kynna sér Biblíuna erum við að kenna því boð Krists. En við verðum líka að leiðbeina nemendunum þegar þeir kappkosta að fara eftir fyrirmælum Krists í daglega lífinu og í þjónustunni. (Jóhannes 14:15; 1. Jóhannesarbréf 2:3) Til að hlýða að fullu þeim fyrirmælum Krists að gera menn að lærisveinum verðum við því bæði að kenna hver boðorð hans eru og hvernig eigi að fylgja þeim. Þannig líkjum við eftir Jesú og Jehóva sjálfum. — Sálmur 48:15; Opinberunarbókin 7:17.
5. Hvers vegna getur biblíunemandi okkar átt erfitt með að hlýða þeim fyrirmælum Krists að gera menn að lærisveinum?
5 Við verðum líka að hjálpa þeim sem við kennum að halda þau fyrirmæli að gera menn að lærisveinum. Þetta getur verið erfiður þröskuldur fyrir marga nemendur. Jafnvel þó að þeir hafi áður verið virkir í einhverri kirkju er ólíklegt að fyrrverandi kennarar þeirra hafi nokkurn tíma kennt þeim að gera menn að lærisveinum. Sumir kirkjuleiðtogar viðurkenna hreinskilnislega að kirkjurnar kenni sóknarbörnunum ekki að boða trúna. Biblíufræðingurinn John R. W. Stott sagði um fyrirmæli Jesú að fara út meðal alls kyns fólks og hjálpa því að gerast lærisveinar: „Alvarlegasti veikleikinn í trúboði evangelískra kristinna manna er sá að hafa ekki hlýtt því sem felst í þessum fyrirmælum.“ Hann bætti við: „Við viljum boða fagnaðarerindið úr fjarlægð. Við líkjumst stundum fólki sem stendur óhult í fjörunni og hrópar góð ráð til drukknandi manna. Við stökkvum ekki út í til að bjarga þeim. Við erum hræddir við að blotna.“
6. (a) Hvernig getum við líkt eftir Filippusi þegar við hjálpum biblíunemanda? (b) Hvernig getum við sýnt umhyggju þegar biblíunemandi byrjar að taka þátt í boðunarstarfinu?
6 Ef einhver biblíunemandi okkar var áður hluti af trúfélagi, þar sem meðlimirnir voru „hræddir við að blotna“, getur verið erfitt fyrir hann að yfirstíga vatnshræðsluna ef svo má að orði komast og hlýða boði Krists um að gera menn að lærisveinum. Hann þarfnast hjálpar. Við þurfum því að vera þolinmóð þegar við veitum honum kennslu og leiðsögn sem dýpkar skilning hans og knýr hann til verka, líkt og kennsla Filippusar upplýsti Eþíópíumanninn og knúði hann til að láta skírast. (Jóhannes 16:13; Postulasagan 8:35-38) Við kennum biblíunemendum að hlýða því boði að gera menn að lærisveinum en þar að auki viljum við vera við hlið þeirra og leiðbeina þeim þegar þeir stíga fyrstu skrefin í boðunarstarfinu. — Prédikarinn 4:9, 10; Lúkas 6:40.
„Allt það, sem ég hef boðið yður“
7. Hvað felur það í sér að kenna öðrum að ,halda allt‘ það sem Jesús bauð?
7 Við einskorðum okkur ekki við að kenna nýjum lærisveinum að gera aðra að lærisveinum. Jesús sagði okkur að kenna öðrum ,allt sem hann hafði boðið‘. Það felur tvímælalaust í sér tvö mestu boðorðin, að elska Guð og að elska náungann. (Matteus 22:37-39) Hvernig er hægt að kenna nýjum lærisveini að halda þessi boðorð?
8. Lýstu því hvernig hægt er að kenna nýjum lærisveini að sýna kærleika.
8 Hugsaðu aftur um líkinguna um ökunemandann. Þegar nemandinn ekur úti í umferðinni með kennarann sér við hlið lærir hann ekki aðeins með því að hlusta á kennarann heldur líka með því að fylgjast með öðrum ökumönnum. Kennarinn bendir kannski á tillitsaman ökumann sem hleypir öðrum inn á akreinina, eða sem lækkar ljósin til að blinda ekki þá sem á móti koma, eða ökumann sem býður kunningja sínum fúslega aðstoð þar sem bíllinn hans hefur bilað. Slík dæmi eru dýrmætur lærdómur fyrir nemandann sem hann getur líkt eftir þegar hann keyrir. Því er eins farið með nýjan lærisvein sem er á veginum til lífsins. Hann lærir ekki aðeins af kennaranum heldur líka af góðu fordæmi annarra í söfnuðinum. — Matteus 7:13, 14.
9. Hvernig lærir nýr lærisveinn að halda boðið um að elska aðra?
9 Biblíunemandinn sér kannski einstætt foreldri sem leggur mikið á sig til að koma með börnin í ríkissalinn. Ef til vill tekur hann eftir niðurdregnum einstaklingi sem sækir samkomurnar dyggilega þrátt fyrir baráttu við þunglyndi, aldraðri ekkju sem keyrir aðra eldri safnaðarmenn á hverja samkomu eða unglingi sem tekur þátt í að þrífa ríkissalinn. Biblíunemandinn sér kannski safnaðaröldung sem tekur trúfastlega forystuna í boðunarstarfinu þrátt fyrir skyldur sínar í söfnuðinum. Hann hittir ef til vill vott sem er hreyfihamlaður og á ekki heimangengt en er samt andleg hvatning fyrir alla sem heimsækja hann. Nemandinn tekur kannski eftir hjónum sem eru að gera miklar breytingar á lífi sínu til að geta annast aldraða foreldra. Þegar nýr lærisveinn sér kristna menn sem eru góðviljaðir, hjálpfúsir og áreiðanlegir lærir hann af dæmi þeirra hvað það merkir að hlýða boði Krists um að elska Guð og náungann, einkum trúsystkini. (Orðskviðirnir 24:32; Jóhannes 13:35; Galatabréfið 6:10; 1. Tímóteusarbréf 5:4, 8; 1. Pétursbréf 5:2, 3) Á þennan hátt geta allir í kristna söfnuðinum leiðbeint öðrum og í raun ættu þeir að gera það. — Matteus 5:16.
„Allt til enda veraldar“
10. (a) Hversu lengi munum við gera menn að lærisveinum? (b) Hvernig er Jesús okkur fordæmi í að vinna verkefni?
10 Hve lengi eigum við að gera menn að lærisveinum? Þangað til þetta heimskerfi líður undir lok. (Matteus 28:20) Mun okkur takast það? Sem heimsbræðralag erum við staðráðinn í því. Um áraraðir höfum við gefið af tíma okkar, kröftum og fjármunum til að finna þá sem ,hneigjast til eilífs lífs‘. (Postulasagan 13:48, NW) Sem stendur nota vottar Jehóva um allan heim að meðaltali yfir þrjár milljónir klukkustunda á dag, allan ársins hring, til að boða fagnaðarerindið og gera menn að lærisveinum. Við gerum það vegna þess að við fetum í fótspor Jesú. Hann sagði: „Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.“ (Jóhannes 4:34) Það er líka einlæg löngun okkar. (Jóhannes 20:21) Við viljum ekki aðeins hefja verkið sem okkur hefur verið falið heldur einnig ljúka því. — Matteus 24:13; Jóhannes 17:4.
11. Hvernig hefur farið fyrir sumum trúsystkinum okkar og hvers ættum við að spyrja okkur?
11 Það hryggir okkur hins vegar að sjá sum trúsystkini okkar verða veik í trúnni og hætta fyrir vikið að gera menn að lærisveinum eins og Jesús bauð. Getum við með einhverju móti hjálpað þeim að endurnýja tengslin við söfnuðinn og fara aftur að gera menn að lærisveinum? (Rómverjabréfið 15:1; Hebreabréfið 12:12) Við getum lært af því hvernig Jesús hjálpaði postulunum þegar þeir voru um tíma veikir í trúnni.
Verum umhyggjusöm
12. (a) Hvað gerðu postular Jesú rétt fyrir dauða hans? (b) Hvernig kom Jesús fram við postulana þrátt fyrir alvarlega veikleika þeirra?
12 Undir lok þjónustu Jesú á jörð, þegar dauði hans var yfirvofandi, „yfirgáfu hann allir lærisveinar hans og flýðu“. Eins og Jesús hafði sagt fyrir ,tvístraðist hver til sín‘. (Markús 14:50; Jóhannes 16:32) Hvernig kom hann fram við félaga sína sem voru veikir í trúnni? Skömmu eftir upprisu sína sagði Jesús við nokkra fylgjendur sína: „Óttist ekki, farið og segið bræðrum mínum að halda til Galíleu. Þar munu þeir sjá mig.“ (Matteus 28:10) Þrátt fyrir að postularnir hefðu sýnt alvarleg veikleikamerki kallaði Jesús þá enn ,bræður sína‘. (Matteus 12:49) Hann hafði ekki gefist upp á þeim. Jesús var miskunnsamur og fús til að fyrirgefa líkt og Jehóva. (2. Konungabók 13:23) Hvernig getum við líkt eftir Jesú?
13. Hvernig ættum við að líta á þá sem eru orðnir veikir í trúnni?
13 Okkur ætti að vera mjög umhugað um þá sem hafa slegið slöku við eða hætt að fara út í boðunarstarfið. Við munum eftir þeim kærleiksverkum sem þessi trúsystkini hafa unnið í fortíðinni — sum jafnvel svo áratugum skiptir. (Hebreabréfið 6:10) Við söknum þeirra sárt. (Lúkas 15:4-7; 1. Þessaloníkubréf 2:17) En hvernig getum við látið í ljós umhyggju okkar?
14. Hvernig getum við hjálpað veikburða einstaklingi líkt og Jesús gerði?
14 Jesús sagði niðurdregnum postulum sínum að þeir ættu að fara til Galíleu þar sem þeir myndu sjá hann. Í raun var Jesús að bjóða þeim að vera viðstaddir sérstaka samkomu. (Matteus 28:10) Við hvetjum sömuleiðis þá sem eru veikir í trúnni til að sækja samkomur í kristna söfnuðinum og við getum þurft að hvetja þá oftar en einu sinni. Postularnir ellefu þáðu boð Jesú og „fóru til Galíleu, til fjallsins, sem Jesús hafði stefnt þeim til“. (Matteus 28:16) Það er einkar ánægjulegt þegar þeir sem eru veikir í trúnni þiggja boð okkar og fara aftur að sækja safnaðarsamkomur. — Lúkas 15:6.
15. Hvernig getum við líkt eftir Jesú þegar við tökum á móti veikburða einstaklingum sem koma í ríkissalinn?
15 Hvernig bregðumst við við þegar kristinn maður, sem er veikur í trúnni, kemur í ríkissalinn? Hvað gerði Jesús þegar hann sá postulana, sem höfðu veikst í trúnni um stundarsakir, á staðnum þar sem þeir ætluðu að hittast? ,Hann gekk til þeirra og talaði við þá.‘ (Matteus 28:18) Hann starði ekki á þá úr fjarlægð heldur fór til þeirra. Hugsaðu þér hvað þeim hefur létt þegar Jesús tók frumkvæðið. Við skulum líka eiga frumkvæðið og taka hlýlega á móti þeim sem leggja á sig það erfiði að koma aftur til kristna safnaðarins.
16. (a) Hvað getum við lært af því hvernig Jesús kom fram við fylgjendur sína? (b) Hvernig getum við endurspeglað viðhorf Jesú til þeirra sem eru veikir í trúnni? (Sjá neðanmáls.)
16 Hvað gerði Jesús fleira? Fyrst kom hann með tilkynningu: „Allt vald er mér gefið.“ Síðan gaf hann þeim verkefni: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum.“ Og að lokum lofaði hann þeim: „Ég er með yður alla daga.“ En tókstu eftir hvað Jesús gerði ekki? Hann ávítaði ekki lærisveinana fyrir mistök þeirra og efasemdir. (Matteus 28:17) Var aðferð hans árangursrík? Já, því að ekki leið á löngu þar til postularnir voru enn á ný farnir að ,kenna og boða fagnaðarerindið‘. (Postulasagan 5:42) Við skulum líta þá sem eru veikburða í trúnni sömu augum og Jesús og koma fram við þá eins og hann gerði. Þá sjáum við vonandi svipaðan árangur í okkar söfnuði.b — Postulasagan 20:35.
„Ég er með yður alla daga“
17, 18. Hvernig getum við fengið styrk af orðunum: „Ég er með yður alla daga“?
17 Jesús lýkur fyrirmælum sínum með því að segja: „Ég er með yður alla daga.“ Þetta eru styrkjandi orð fyrir alla sem kappkosta að hlýða því boði Krists að gera menn að lærisveinum. Við höfum enga ástæðu til að óttast þó að óvinir berjist gegn boðunarstarfinu og ljúgi öllu illu upp á okkur. Hvers vegna ekki? Vegna þess að Jesús, leiðtogi okkar, hefur ,allt vald á himni og jörð‘ og hann er með okkur til að styðja okkur.
18 Loforð Jesú um að vera með okkur er líka mjög hughreystandi. Þó að við kappkostum að hlýða skipun hans um að gera menn að lærisveinum upplifum við ekki eingöngu gleðidaga heldur líka daga þegar við erum döpur. (2. Kroníkubók 6:29) Sum okkar ganga í gegnum sorgartíma vegna dauða náins ástvinar. (1. Mósebók 23:2; Jóhannes 11:33-36) Aðrir eru komnir á efri ár og heilsunni er farið að hraka og þrótturinn að minnka. (Prédikarinn 12:1-6) Enn aðrir upplifa daga þegar þeir eru bugaðir af depurð. Og sífellt fleiri búa við miklar efnahagsþrengingar. En þrátt fyrir slíka erfiðleika getum við haldið þjónustu okkar áfram vegna þess að Jesús er með okkur „alla daga“, einnig dimmustu daga lífsins. — Matteus 11:28-30.
19. (a) Hvaða leiðbeiningar er að finna í fyrirmælum Jesú um að gera menn að lærisveinum? (b) Hvað gerir okkur kleift að ljúka verkinu sem Kristur fékk okkur?
19 Eins og við höfum séð í þessari grein og þeirri fyrri eru fyrirmæli Jesú um að gera menn að lærisveinum mjög víðtæk. Jesús sagði okkur hvers vegna og hvar við ættum að hlýða fyrirmælum hans. Hann sagði okkur líka hvað við ættum að kenna og hve lengi. Það er auðvitað ekki auðvelt að vinna þetta mikla verk. En við getum það þar sem Kristur er nærverandi og við getum reitt okkur á vald hans. Ert þú ekki sammála?
[Neðanmáls]
a Uppflettirit bendir á að fyrirmælin um að skíra og kenna séu „strangt til tekið ekki tvær athafnir hvor á eftir annarri“ heldur „sé kennslan samfellt ferli sem á sér stað að hluta til fyrir skírn . . . og að hluta til eftir skírn“.
b Frekari upplýsingar um það hvernig við eigum að líta á þá sem eru veikir í trúnni og hjálpa þeim er að finna í Varðturninum 1. apríl 2003, bls. 24-7.
Hvernig svarar þú?
• Hvernig kennum við öðrum að halda það sem Jesús bauð?
• Hvað getur nýr lærisveinn lært af öðrum í söfnuðinum?
• Hvað getum við gert til að hjálpa þeim sem eru orðnir veikir í trúnni?
• Hvernig er loforð Jesú: „Ég er með yður alla daga“, okkur til styrktar og huggunar?
[Myndir á blaðsíðu 15]
Við þurfum bæði að kenna nemendunum og hjálpa þeim að fara eftir því sem þeir læra.
[Myndir á blaðsíðu 16]
Nýr lærisveinn getur dregið verðmætan lærdóm af fordæmi annarra.