Leyndardómur sem kristnir menn voga sér ekki að þegja yfir!
„Ég hef talað opinskátt í áheyrn heimsins . . . í leynum hef ég ekkert talað.“ — JÓHANNES 18:20.
1, 2. Hvað merkir gríska orðið mysteʹrion eins og það er notað í Ritningunni?
GRÍSKA orðið mysteʹrion er þýtt 25 sinnum sem „heilagur leyndardómur“ í Nýheimsþýðingu Heilagrar ritningar og þrisvar sem „leyndardómur,“ en í íslensku biblíunni aðeins sem „leyndardómur“ eða ‚leynd.‘ Leyndardómur, sem kallaður er heilagur, hlýtur að vera mjög þýðingarmikill! Hverjum sem fær þau sérréttindi að vita slíkan leyndardóm ætti að þykja það mikill heiður, því að hann hefur verið talinn verðugur þess að eiga leyndarmál með Guði alheimsins sem er æðstur allra.
2 Orðabókin Vines Expository Dictionary of Old and New Testament Words staðfestir að í flestum tilvikum sé „heilagur leyndardómur“ betri þýðing en „leyndardómur.“ Hún segir um mysteʹrion: „Í [kristnu Grísku ritningunum] merkir það ekki ráðgátu . . . heldur það sem er ofar eðlilegum skilningi og aðeins er hægt að vita vegna guðlegrar opinberunar, og er kunngert á þann hátt og á þeim tíma sem Guð ákveður, og þá aðeins þeim sem upplýstir eru af anda hans. Í venjulegum skilningi gefur leyndardómur til kynna að þekkingu sé leynt; biblíuleg merking orðsins er opinberaður sannleikur. Þess vegna tengist það sérstaklega orðum eins og ‚kunngera,‘ ‚opinbera,‘ ‚boða,‘ ‚skilja‘ og ‚vita.‘“
3. Hvernig var kristni söfnuðurinn á fyrstu öld ólíkur ýmsum dularfullum trúarhópum?
3 Þessi skýring dregur fram reginmun á dulúð trúarhópa, sem döfnuðu á fyrstu öldinni, og hinum nýstofnaða kristna söfnuði. Þeir sem innvígðir voru í leynilegar trúarreglur voru gjarnan bundnir þagnarheiti um að varðveita trúarkenningar, en slíkar hömlur voru aldrei lagðar á kristna menn. Að vísu talaði Páll postuli „speki Guðs í [„heilögum,“ NW] leyndardómi“ og sagði að hún væri ‚hulin,‘ það er að segja „höfðingjum þessarar aldar.“ En hún er ekki hulin kristnum mönnum sem andi Guðs hefur opinberað hana til að þeir geti kunngert hana. — 1. Korintubréf 2:7-12, Biblían 1912; samanber Orðskviðina 1:20.
Hver er hinn ‚heilagi leyndardómur‘?
4. Um hvern fjallar hinn ‚heilagi leyndardómur‘ og hvernig?
4 ‚Heilagur leyndardómur‘ Jehóva fjallar um Jesú Krist. Páll skrifaði: „[Jehóva] kunngjörði oss [heilagan] leyndardóm vilja síns, þá ákvörðun, sem hann hafði með sjálfum sér ákveðið að framkvæma, er fylling tímans kæmi: Hann ætlaði að safna öllu því, sem er á himnum, og því, sem er á jörðu, undir eitt höfuð í Kristi.“ (Efesusbréfið 1:9, 10) Páll talaði enn skýrar um eðli hins ‚heilaga leyndardóms‘ þegar hann benti á nauðsyn nákvæmrar ‚þekkingar á [heilögum] leyndardómi Guðs, Kristi.‘ — Kólossubréfið 2:2.
5. Hvað er fólgið í hinum ‚heilaga leyndardómi‘?
5 En málið er margslungnara því að hinn ‚heilagi leyndardómur‘ er margþættur. Hann er ekki aðeins fólginn í því að Jesús sé hið fyrirheitna sæði eða Messías, heldur fjallar hann líka um það hlutverk sem honum er falið að gegna í tilgangi Guðs. Hann fjallar um himneska stjórn, Messíasarríki Guðs, eins og Jesús útskýrði greinilega þegar hann sagði lærisveinum sínum: „Yður er gefið að þekkja leynda dóma himnaríkis, hinum er það ekki gefið.“ — Matteus 13:11.
6. (a) Af hverju er rétt að segja að hinn ‚heilagi leyndardómur‘ hafi ‚verið dulinn frá eilífum tíðum‘? (b) Hvernig var hann opinberaður jafnt og þétt?
6 Langur tími átti að líða frá því að sá tilgangur Guðs að leggja grundvöll Messíasarríkisins var fyrst nefndur uns ‚[heilagur] leyndardómur Guðs kæmi fram.‘ (Opinberunarbókin 10:7; 1. Mósebók 3:15) Hann átti að koma endanlega fram með stofnsetningu Guðsríkis eins og sjá má með samanburði á Opinberunarbókinni 10:7 og 11:15. Reyndar liðu um 4000 ár frá því fyrirheitið um Guðsríki var fyrst gefið í Eden þangað til hinn tilnefndi konungur kom fram árið 29. Síðan liðu 1885 ár uns Guðsríki var stofnsett á himnum árið 1914. Hinn ‚heilagi leyndardómur‘ var því að opinberast jafnt og þétt í næstum 6000 ár. (Sjá bls. 31) Það var vissulega rétt hjá Páli að tala um „opinberun þess [heilaga] leyndardóms, sem frá eilífum tíðum hefur verið dulinn, en nú er opinberaður.“ — Rómverjabréfið 16:25-27; Efesusbréfið 3:4-11.
7. Hvers vegna getum við treyst fullkomlega á hinn trúa og hyggna þjónshóp?
7 Ólíkt skammlífum mönnum er Jehóva aldrei undir þrýstingi að opinbera leyndardóma sína fyrir tímann. Það ætti að hindra okkur í að verða óþolinmóð þegar okkur finnst við ekki fá fullnægjandi svör við ákveðnum biblíuspurningum. Hæverska hins trúa og hyggna þjónshóps, sem er falið að gefa kristna söfnuðinum fæðu á réttum tíma, kemur í veg fyrir að hann hlaupi hrokafullur á undan Guði og slái fram alls konar ágiskunum í málum sem enn eru óljós. Þjónshópurinn kappkostar að vera ekki kreddufastur. Hann er ekki of stoltur til að viðurkenna að hann geti ekki enn svarað öllum spurningum, og hefur hugfast hvað Orðskviðirnir 4:18 segja. En það er mjög ánægjulegt til að vita að Jehóva heldur áfram að opinbera leynda hluti varðandi tilgang sinn, þegar það er tímabært og á þann hátt sem hann vill! Við ættum aldrei að vera óþolinmóð gagnvart fyrirkomulagi Jehóva og reyna að hlaupa á undan honum sem opinberar leynda hluti. Það er traustvekjandi að vita að sú boðleið, sem Jehóva notar nú á dögum, gerir það ekki. Hún er bæði trú og hyggin. — Matteus 24:45; 1. Korintubréf 4:6.
Segja þarf frá hinum opinberaða leyndardómi
8. Hvernig vitum við að það á að kunngera hinn ‚heilaga leyndardóm‘?
8 Jehóva hefur ekki opinberað kristnum mönnum ‚heilagan leyndardóm‘ sinn til að þeir haldi honum leyndum. Það á að kunngera hann öllum í samræmi við meginreglu Jesú handa öllum fylgjendum hans — ekki aðeins fáeinum klerkum: „Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker, heldur á ljósastiku, og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.“ — Matteus 5:14-16; 28:19, 20.
9. Hvað sannar að Jesús var ekki byltingarmaður eins og sumir halda fram?
9 Jesús var ekki með nein byltingaráform og ætlaði sér ekki að stofna neðanjarðarsamtök til að þjóna leynilegum markmiðum. Robert M. Grant segir í bókinni Early Christianity and Society um málsvörn trúarverjandans Jústínusar píslarvotts á annarri öld: „Væru kristnir menn byltingarmenn myndu þeir fara huldu höfði til að ná fram markmiðum sínum.“ En hvernig gátu þeir ‚farið huldu höfði‘ og jafnframt verið „borg, sem á fjalli stendur“? Þeir voguðu sér ekki að setja ljós sitt undir mæliker! Stjórnvöldum stafaði því engin hætta af starfi þeirra. Bókarhöfundur lýsti þeim sem „bestu bandamönnum keisarans í þágu friðar og reglu.“
10. Af hverju ættu kristnir menn ekki að leyna því hverjir þeir séu?
10 Jesús vildi ekki að lærisveinar hans leyndu því að þeir tilheyrðu svokölluðum sértrúarflokki. (Postulasagan 24:14; 28:22) Ef við látum ekki ljós okkar skína nú á tímum erum við að vanþóknast bæði Kristi og föður hans, honum sem opinberar leynda hluti, og það myndi ekki veita okkur hamingju.
11, 12. (a) Af hverju vill Jehóva að kristnin sé kunngerð? (b) Hvernig gaf Jesús rétta fordæmið?
11 Jehóva „vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.“ (2. Pétursbréf 3:9; Esekíel 18:23; 33:11; Postulasagan 17:30) Forsenda þess að iðrunarfullir menn hljóti syndafyrirgefningu er trúin á lausnarfórn Jesú Krists sem gaf sjálfan sig til lausnargjalds fyrir alla — ekki aðeins fáeina — svo að „hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Það er áríðandi að hjálpa fólki að gera þær ráðstafanir sem þarf til að það verði dæmt sauðir en ekki hafrar í hinum komandi dómi. — Matteus 25:31-46.
12 Sönn kristni á ekki að vera í felum heldur á að kunngera hana á hvern þann hátt sem við á. Jesús gaf sjálfur fordæmi um það. Þegar æðstipresturinn spurði hann um lærisveina hans og kennslu svaraði hann: „Ég hef talað opinskátt í áheyrn heimsins. Ég hef ætíð kennt í samkundunni og í helgidóminum, þar sem allir Gyðingar safnast saman, en í leynum hef ég ekkert talað.“ (Jóhannes 18:19, 20) Hvaða guðhræddur maður myndi í ljósi þessa dirfast að halda leyndu því sem Guð hefur lýst yfir að skuli gert opinskátt? Hver myndi voga sér að fela „lykil þekkingarinnar“ sem leiðir til eilífs lífs? Sá sem gerði það yrði eins og trúhræsnarar fyrstu aldar. — Lúkas 11:52; Jóhannes 17:3.
13. Af hverju ættum við að prédika við hvert tækifæri?
13 Enginn maður skal nokkurn tíma geta sagt að vottar Jehóva hafi haldið boðskapnum um Guðsríki leyndum. Hvort sem fólk tekur við boðskapnum eða hafnar honum þarf það að vita að hann hefur verið prédikaður. (Samanber Esekíel 2:5; 33:33.) Við skulum því notfæra okkur hvert einasta tækifæri til að segja öllum frá boðskap sannleikans, hvar sem við hittum þá.
Krókar í kjálka Satans
14. Hvers vegna ættum við ekki að hika við að vera opinská í sambandi við tilbeiðslu okkar?
14 Víða um lönd fá vottar Jehóva vaxandi umfjöllun í fjölmiðlum. Líkt og frumkristnir menn fengu að reyna er oft dregin upp villandi mynd af þeim og þeir eru settir í flokk með vafasömum trúarreglum og leynisamtökum. (Postulasagan 28:22) Getur opinská prédikun okkar valdið því að frekar sé á okkur ráðist? Vissulega væri óviturlegt og ekki í samræmi við ráðleggingar Jesú að blanda okkur í deilumál manna að óþörfu. (Orðskviðirnir 26:17; Matteus 10:16) En hið gagnlega starf að prédika Guðsríki og hjálpa fólki að bæta líf sitt á ekki að fara fram í felum. Það vegsamar Jehóva, upphefur hann og beinir athygli að honum og stofnsettu ríki hans. Hin ánægjulegu viðbrögð við sannleika Biblíunnar í Austur-Evrópu og sums staðar í Afríku á síðustu árum hafa að hluta til stafað af því að nú er hægt að prédika sannleikann þar fyrir opnum tjöldum.
15, 16. (a) Hvaða tilgangi þjónar hið opinskáa prédikunarstarf okkar og andlega velmegun, en þarf það að vera áhyggjuefni? (b) Hvers vegna setur Jehóva króka í kjálka Satans?
15 Vissulega fer prédikunarstarf votta Jehóva fram fyrir opnum tjöldum, og andlega paradísin sem þeir búa í og hagsæld þeirra — bæði í mannafla og efnislegum eignum — fer ekki fram hjá öðrum. Þetta getur dregið hjartahreina menn að en vakið óbeit andstæðinga. (2. Korintubréf 2:14-17) Reyndar getur það að lokum lokkað sveitir Satans til að ráðast á fólk Guðs.
16 Ættum við að hafa áhyggjur af því? Ekki samkvæmt spádómi Jehóva í 38. kafla Esekíelsbókar. Þar segir að Góg frá Magóg, sem Satan djöfullinn er kallaður síðan hann var niðurlægður til nágrennis jarðar eftir stofnsetningu Guðsríkis árið 1914, fari fyrir árás á fólk Guðs. (Opinberunarbókin 12:7-9) Jehóva segir við Góg: „[Þú munt] segja: ‚Ég vil fara í móti bændabýlalandi, ráða á friðsama menn, sem búa óhultir, þeir búa allir múrveggjalausir og hafa hvorki slagbranda né hlið,‘ til þess að fara með rán og rifs, til þess að leggja hönd þína á borgarrústir, sem aftur eru byggðar orðnar, og á þjóð, sem saman söfnuð er frá heiðingjunum, sem aflar sér búfjár og fjármuna, á menn, sem búa á nafla jarðarinnar.“ (Esekíel 38:10, 11, 12) En fjórða versið bendir á að fólk Guðs þurfi ekki að óttast þessa árás því að hún sé verk hans. En hví skyldi Guð leyfa allsherjarárás á fólk sitt — já, jafnvel egna til hennar? Í 23. versi lesum við svar Jehóva sjálfs: „Ég vil auglýsa mig dýrlegan og heilagan og gjöra mig kunnan í augsýn margra þjóða, til þess að þær viðurkenni, að ég er [Jehóva].“
17. Hvernig ættum við að líta á yfirvofandi árás Gógs?
17 Í stað þess að lifa í ótta við árás Gógs hlakkar fólk Jehóva ákaft til þessarar uppfyllingar biblíuspádómanna. Það er hrífandi að vita að með því að blessa sýnilegt skipulag sitt og láta það dafna setur Jehóva króka í kjálka Satans og dregur hann og herlið hans út í ósigur! — Esekíel 38:4.
Opinskárri en nokkru sinni fyrr
18. (a) Hvað er að renna upp fyrir mörgum núna og hvers vegna? (b) Hvernig eru viðbrögðin við prédikun Guðsríkis sterk hvatning?
18 Vottar Jehóva hafa á okkar tímum lýst biblíulegum viðhorfum sínum mjög opinskátt, jafnvel þótt það hafi ekki verið vinsælt. Um áratuga skeið hafa þeir varað við hættunni af völdum reykinga og fíkniefnanotkunar, skammsýni agaleysis í uppeldi barna, slæmum áhrifum skemmtiefnis sem er fullt af siðlausu kynlífi og ofbeldi, og hættunni samfara blóðgjöfum. Þeir hafa líka bent á að þróunarkenningin stangist á við staðreyndir. Æ fleiri segja núna: „Vottar Jehóva hafa ekki rangt fyrir sér þegar allt kemur til alls.“ Ef við hefðum ekki gert viðhorf okkar heyrinkunnug myndi fólk ekki bregðast þannig við. Og láttu þér ekki yfirsjást að með því að segja þetta er fólk á vissan hátt að segja: „Satan, þú ert lygari, Jehóva hefur rétt fyrir sér þrátt fyrir allt.“ Þetta er sterk hvatning fyrir okkur til að halda áfram að fylgja fordæmi Jesú og tala orð sannleikans fyrir opnum tjöldum! — Orðskviðirnir 27:11.
19, 20. (a) Hvaða ásetning lét fólk Jehóva í ljós árið 1922 og eiga þessi orð enn við? (b) Hvernig ættum við að líta á ‚heilagan leyndardóm‘ Jehóva?
19 Fólki Jehóva hafa lengi verið ljósar skyldur sínar í þessu efni. Á merku móti árið 1922 hreif J. F. Rutherford, þáverandi forseti Varðturnsfélagsins, áheyrendur sína er hann sagði: „Verið algáðir, verið vökulir, verið virkir, verið hugrakkir. Verið trúir og sannir vottar Drottins. Gangið fram í bardaga uns síðustu menjar Babýlonar liggja í rústum. Boðið boðskapinn vítt og breitt. Heimurinn verður að vita að Jehóva er Guð og að Jesús Kristur er konungur konunga og Drottinn drottna. Þetta er dagur daganna. Sjáið, konungurinn ríkir! Þið eruð upplýsingafulltrúar hans. Þess vegna kunngerið, kunngerið, kunngerið konunginn og ríki hans.“
20 Þessi orð voru þýðingarmikil árið 1922 og þau eru enn þýðingarmeiri núna 75 árum seinna þegar þess er mun skemmra að bíða að Kristur opinberist sem dómari og hefnandi. Boðskapurinn um stofnsett ríki Jehóva og andlegu paradísina, sem fólk hans býr í, er ‚heilagur leyndardómur‘ sem er einfaldlega of stórfenglegur til að þagað sé yfir honum. Eins og Jesús sjálfur sagði verða fylgjendur hans, með fulltingi heilags anda, að vera vottar „allt til endimarka jarðarinnar“ um mikilvægt hlutverk hans í eilífri fyrirætlun Jehóva. (Postulasagan 1:8; Efesusbréfið 3:8-12) Við erum þjónar Jehóva, Guðs sem opinberar leynda hluti, og vogum okkur ekki að þegja yfir þessum leyndardómi!
Hvert er svar þitt?
◻ Hver er hinn ‚heilagi leyndardómur‘?
◻ Hvernig vitum við að það á að kunngera hann?
◻ Hvað veldur því að Góg ræðst á fólk Jehóva og hvernig ættum við að líta á það?
◻ Hverju ættum við öll að vera staðráðin í?
[Rammi á blaðsíðu 31]
‚Heilagur leyndardómur‘ opinberast jafnt og þétt
◻ Eftir 4026 f.o.t.: Guð hét að vekja upp sæði til að tortíma Satan. — 1. Mósebók 3:15.
◻ 1943 f.o.t.: Abrahamssáttmálinn fullgiltur sem lofar sæði af ætt Abrahams. — 1. Mósebók 12:1-7.
◻ 1918 f.o.t.: Ísak fæðist sem erfingi sáttmálans. — 1. Mósebók 17:19; 21:1-5.
◻ Um 1761 f.o.t.: Jehóva staðfestir að sæðið komi af ætt Jakobs, sonar Ísaks. — 1. Mósebók 28:10-15.
◻ 1711 f.o.t.: Jakob gefur í skyn að sæðið komi af ætt Júda, sonar síns. — 1. Mósebók 49:10.
◻ 1070-1038 f.o.t.: Davíð konungur kemst að raun um að sæðið verði afkomandi hans og ríki sem konungur að eilífu. — 2. Samúelsbók 7:13-16; Sálmur 89:36, 37.
◻ 29-33: Bent er á að Jesús sé sæðið, Messías, dómari framtíðarinnar og tilnefndur konungur. — Jóhannes 1:17; 4:25, 26; Postulasagan 10:42, 43; 2. Korintubréf 1:20; 1. Tímóteusarbréf 3:16.
◻ Jesús segir frá því að hann muni eiga sér meðstjórnendur og meðdómara, að himnaríkið skuli eiga sér jarðneska þegna og að allir fylgjendur hans eigi að vera boðberar Guðsríkis. — Matteus 5:3-5; 6:10; 28:19, 20; Lúkas 10:1-9; 12:32; 22:29, 30; Jóhannes 10:16; 14:2, 3.
◻ Jesús segir frá því að Guðsríki verði stofnsett á ákveðnum tíma og heimsatburðir muni staðfesta það. — Matteus 24:3-22; Lúkas 21:24.
◻ 36: Pétur kemst að raun um að menn af öðrum þjóðum verði einnig samerfingjar Guðsríkis. — Postulasagan 10:30-48.
◻ 55: Páll útskýrir að samerfingjar Guðsríkis verði reistir upp til ódauðleika og óforgengileika á nærverutíma Krists. — 1. Korintubréf 15:51-54.
◻ 96: Jesús, sem ríkir nú þegar yfir smurðum fylgjendum sínum, opinberar að þeir verði alls 144.000. — Efesusbréfið 5:32; Kólossubréfið 1:13-20; Opinberunarbókin 1:1; 14:1-3.
◻ 1879: Varðturn Síonar bendir á að árið 1914 sé merkisár í framvindu ‚heilags leyndardóms‘ Guðs.
◻ 1925: Varðturninn útskýrir að Guðsríki hafi fæðst árið 1914; kunngera þurfi hinn ‚heilaga leyndardóm‘ um Guðsríki. — Opinberunarbókin 12:1-5, 10, 17.
[Mynd á blaðsíðu 29]
Vottar Jehóva boða ríki Jehóva fyrir opnum tjöldum líkt og leiðtogi þeirra, Jesús.