NÁMSGREIN 46
Verum hughrökk – Jehóva hjálpar okkur
„Ég mun aldrei snúa baki við ykkur og aldrei yfirgefa ykkur.“ – HEBR. 13:5.
SÖNGUR 55 Óttastu ekki
YFIRLITa
1. Hvað hughreystir okkur þegar okkur finnst við vera ein á báti eða erfiðleikarnir yfirþyrmandi? (Sálm. 118:5–7)
HEFUR þér einhvern tíma fundist þú vera aleinn, að þú hefðir engan til að hjálpa þér að takast á við erfiðleika þína? Mörgum hefur liðið þannig, þar á meðal trúföstum þjónum Jehóva. (1. Kon. 19:14) Ef þér líður einhvern tíma þannig skaltu muna loforð Jehóva: „Ég mun aldrei snúa baki við ykkur og aldrei yfirgefa ykkur.“ Við getum því sagt með sanni: „Jehóva hjálpar mér, ég óttast ekki neitt.“ (Hebr. 13:5, 6) Páll postuli skrifaði þetta til trúsystkina sinna í Júdeu um árið 61. Orð hans minna okkur á það sem segir í Sálmi 118:5–7. – Lestu.
2. Hvað skoðum við í þessari grein og hvers vegna?
2 Rétt eins og sálmaskáldið vissi Páll af eigin reynslu að Jehóva hjálpaði sér. Rúmlega tveimur árum áður en hann skrifaði bréfið til Hebrea hafði hann til dæmis farið í hættulega sjóferð í ofsaveðri. (Post. 27:4, 15, 20) Í þeirri ferð og á árunum fyrir þann tíma hjálpaði Jehóva Páli á ýmsa vegu. Við skoðum hvernig Jehóva sá fyrir hjálp á þrjá vegu: Fyrir atbeina Jesú og englanna, fólks í valdastöðu og trúsystkina. Þegar við skoðum þessa atburði í lífi Páls styrkir það traust okkar á loforð Guðs um að hann svari einnig bænum okkar um hjálp.
HJÁLP FRÁ JESÚ OG ENGLUNUM
3. Hverju gæti Páll hafa velt fyrir sér og hvers vegna?
3 Páll þurfti á hjálp að halda. Um árið 56 dró hópur fólks hann út úr musterinu í Jerúsalem og reyndi að drepa hann. Næsta dag þegar Páll var færður fyrir Æðstaráðið slitu óvinir hans hann næstum í sundur. (Post. 21:30–32; 22:30; 23:6–10) Á þeim tíma gæti Páll hafa velt fyrir sér hversu lengi hann þyldi þessar misþyrmingar.
4. Hvernig hjálpaði Jehóva Páli fyrir atbeina Jesú?
4 Hvaða hjálp fékk Páll? Nóttina eftir að Páll var handtekinn stóð Drottinn Jesús hjá honum og sagði: „Hertu upp hugann! Þú átt eftir að vitna um mig í Róm rétt eins og þú hefur vitnað rækilega um mig í Jerúsalem.“ (Post. 23:11) Þetta var uppörvun á hárréttum tíma! Jesús hrósaði Páli fyrir boðun hans í Jerúsalem. Og hann lofaði Páli að hann myndi komast heilu og höldnu til Rómar þar sem hann myndi vitna enn frekar um hann. Eftir að hafa fengið þetta loforð hlýtur Páli að hafa fundist hann öruggur, rétt eins og barn í faðmi föður síns.
5. Hvernig hjálpaði Jehóva Páli fyrir atbeina engils? (Sjá mynd á forsíðu.)
5 Hvaða fleiri erfiðleikar urðu á vegi Páls? Um tveim árum eftir atburðina í Jerúsalem var Páll um borð í skipi á leið til Ítalíu. Þá skall á þvílíkt ofsaveður að áhöfnin og farþegarnir héldu að þetta væri þeirra síðasta stund. En Páll var ekki hræddur. Hvers vegna? Hann sagði við þá sem voru um borð: „Í nótt stóð hjá mér engill þess Guðs sem ég tilheyri og veiti heilaga þjónustu. Hann sagði: ,Óttastu ekki, Páll. Þú átt að koma fyrir keisarann og þín vegna mun Guð bjarga öllum sem eru þér samferða.‘“ Jehóva lét engil endurtaka loforðið sem hann hafði gefið Páli fyrir atbeina Jesú. Og Páll komst til Rómar rétt eins og Jehóva lofaði. – Post. 27:20–25; 28:16.
6. Hvaða loforð Jesú getur gefið okkur styrk og hvers vegna?
6 Hvaða hjálp fáum við? Jesús styður okkur rétt eins og hann studdi Pál. Jesús lofar til dæmis öllum sem fylgja honum: „Ég er með ykkur alla daga allt þar til þessi heimsskipan endar.“ (Matt. 28:20) Það sem Jesús segir getur veitt okkur styrk. Hvers vegna? Vegna þess að suma daga finnst okkur erfitt að halda út. Þegar ástvinur deyr syrgjum við til dæmis ekki bara í fáeina daga heldur líklega mörg ár. Aðrir eiga erfiða daga sem fylgja því að verða gamall. Enn aðrir takast á við daga sem þeim finnst yfirþyrmandi vegna þunglyndis. Þrátt fyrir það fáum við styrk til þess að halda út vegna þess að við vitum að Jesús er með okkur „alla daga“, þar á meðal verstu daga lífs okkar. – Matt. 11:28–30.
7. Hvernig hjálpar Jehóva okkur, samanber Opinberunarbókina 14:6?
7 Í Biblíunni erum við fullvissuð um að Jehóva hjálpar okkur fyrir atbeina engla sinna. (Hebr. 1:7, 14) Englar veita okkur til dæmis stuðning og leiðsögn þegar við boðum fólki af ,hverri þjóð, ættflokki og tungu‘ fagnaðarboðskapinn um ríkið. – Matt. 24:13, 14; lestu Opinberunarbókina 14:6.
HJÁLP FRÁ FÓLKI Í VALDASTÖÐU
8. Hvernig lét Jehóva hershöfðingja hjálpa Páli?
8 Hvaða hjálp fékk Páll? Árið 56 fullvissaði Jesús Pál um að hann myndi komast til Rómar. Nokkrir Gyðingar í Jerúsalem áformuðu hins vegar að sitja um Pál og drepa hann. Þegar rómverski hersveitarforinginn Kládíus Lýsías komst að því kom hann Páli til bjargar. Kládíus sendi Pál í flýti í fylgd margra hermanna til Sesareu, um 105 kílómetra leið frá Jerúsalem. Þegar þangað var komið fyrirskipaði Felix landstjóri að „Páll skyldi hafður í gæslu í höll Heródesar“. Þar gátu Gyðingarnir sem ætluðu að drepa Pál ekki gert honum mein. – Post. 23:12–35.
9. Hvernig hjálpaði Festus landstjóri Páli?
9 Tveimur árum síðar var Páll enn þá í varðhaldi í Sesareu. Festus hafði tekið við af Felix sem landstjóri. Gyðingarnir báðu Festus um að framselja Pál til að draga hann fyrir rétt, en Festus neitaði. Kannski vissi landstjórinn að Gyðingar ætluðu að „sitja fyrir honum á leiðinni og drepa hann“. – Post. 24:27–25:5.
10. Hvernig brást Festus landstjóri við þegar Páll skaut máli sínu til keisarans?
10 Síðar var réttað yfir Páli í Sesareu. Þar sem Festus vildi „afla sér velvildar Gyðinga“ spurði hann Pál: „Viltu fara til Jerúsalem og fá dæmt í málinu þar að mér viðstöddum?“ Páll vissi að hann yrði líklega drepinn í Jerúsalem. Og hann vissi einnig hvað hann gæti gert til að bjarga lífi sínu, komast til Rómar og halda þjónustu sinni áfram. Hann sagði: „Ég skýt máli mínu til keisarans.“ Eftir að Festus hafði talað við ráðgjafa sína svaraði hann Páli: „Þú hefur skotið máli þínu til keisarans og til keisarans skaltu fara.“ Ákvörðun Festusar um að senda Pál til Rómar bjargaði Páli frá óvinum sínum. Fljótlega yrði Páll í Róm, langt frá Gyðingunum sem leituðust við að ráða hann af dögum. – Post. 25:6–12.
11. Hvaða hughreystandi orð Jesaja hefur Páll ef til vill rifjað upp?
11 Meðan Páll beið þess að sigla til Ítalíu er hugsanlegt að hann hafi rifjað upp viðvörunina sem Jesaja spámanni var innblásið að gefa óvinum Jehóva: „Ráðið ráðum yðar, þau verða að engu. Takið ákvörðun, hún fær ekki staðist, því að Guð er með oss.“ (Jes. 8:10) Páll vissi að Guð myndi hjálpa sér og það hlýtur að hafa gefið honum styrk til að mæta þeim erfiðleikum sem biðu hans.
12. Hvernig kom Júlíus fram við Pál, og hverju hefur Páll ef til vill gert sér grein fyrir?
12 Árið 58 lagði Páll af stað sjóleiðina til Ítalíu sem fangi. Hann var undir umsjón rómversks hershöfðingja að nafni Júlíus. Hann hafði vald til að gera Páli lífið leitt eða bærilegt. Hvernig myndi hann beita valdi sínu? Daginn eftir þegar þeir komu að landi var Júlíus Páli „góðviljaður og leyfði honum að fara og hitta vini sína“. Seinna bjargaði Júlíus jafnvel lífi Páls. Hvernig? Hermennirnir ætluðu að drepa alla fangana um borð en Júlíus kom í veg fyrir það. Hvers vegna? Hann „vildi bjarga Páli“. Páll gerði sér líklega grein fyrir því að Jehóva notaði þennan góðviljaða hershöfðingja til að hjálpa sér og vernda. – Post. 27:1–3, 42–44.
13. Hvernig getur Jehóva haft áhrif á fólk í valdastöðu?
13 Hvaða hjálp fáum við? Ef það er í samræmi við fyrirætlun Jehóva getur hann beitt máttugum anda sínum og haft áhrif á fólk í valdastöðu svo að það geri það sem hann vill. Salómon konungur skrifaði: „Hjarta konungsins er sem lækir í hendi Drottins, hann sveigir þá hvert sem honum þóknast.“ (Orðskv. 21:1) Hvað merkir þessi orðskviður? Menn geta grafið skurði sem beina vatni í þá átt sem þeir kjósa. Á svipaðan hátt getur Jehóva beitt anda sínum til að hafa áhrif á hugsun valdamanna þannig að hún sé í samræmi við vilja hans. Þegar það gerist finnur fólk í valdastöðu sig knúið til að taka ákvarðanir sem eru þjónum Guðs í hag. – Samanber Esrabók 7:21, 25, 26.
14. Fyrir hverjum getum við beðið, samanber Postulasöguna 12:5?
14 Hvað getum við gert? Við getum beðið fyrir „konungum og öllum sem eru háttsettir“ þegar þeir taka ákvarðanir sem hafa áhrif á þjónustu okkar við Jehóva. (1. Tím. 2:1, 2, neðanmáls; Neh. 1:11) Eins og frumkristnir menn biðjum við innilega fyrir bræðrum og systrum sem eru í fangelsi. (Lestu Postulasöguna 12:5; Hebr. 13:3) Við getum einnig beðið til Jehóva varðandi fangaverði sem hafa eftirlit með trúsystkinum okkar. Við getum beðið hann um að hafa áhrif á hugsun fangavarðanna svo að þeir finni sig knúna til að vera góðviljaðir við trúsystkini okkar í fangelsi eins og Júlíus var gagnvart Páli. – Post. 27:3, neðanmáls.
HJÁLP FRÁ TRÚSYSTKINUM OKKAR
15, 16. Hvernig hjálpaði Jehóva Páli fyrir atbeina Aristarkusar og Lúkasar?
15 Hvaða hjálp fékk Páll? Jehóva veitti Páli oft hjálp fyrir atbeina bræðra og systra á ferð hans til Rómar. Skoðum nokkur dæmi.
16 Tveir tryggir félagar Páls, þeir Aristarkus og Lúkas, ákváðu að slást í för með Páli til Rómar.b Þeir hættu lífi sínu fúslega til að vera með Páli enda þótt Jesús virðist hafa lofað hvorugum þeirra að komast heill á húfi til Rómar. Það var ekki fyrr en seinna í erfiðri sjóferð sem þeir fengu að vita að þeir myndu lifa. Þegar Aristarkus og Lúkas fóru um borð í skipið í Sesareu hlýtur Páll því að hafa þakkað Jehóva innilega í bæn fyrir þá hjálp sem hann veitti honum fyrir atbeina þessara tveggja hugrökku trúbræðra. – Post. 27:1, 2, 20–25.
17. Hvernig hjálpaði Jehóva Páli fyrir atbeina trúsystkina?
17 Bræður í söfnuðinum hjálpuðu Páli mörgum sinnum meðan á ferð hans stóð. Þegar þeir komu til dæmis að landi í hafnarborginni Sídon leyfði Júlíus Páli að „fara og hitta vini sína til að njóta umhyggju þeirra“. Og síðar, í borginni Púteólí, fundu Páll og félagar hans ,bræður og þeir hvöttu þá til að staldra við í viku‘. Kristnir menn á þessum stöðum önnuðust Pál og félaga hans og hann hefur án efa glatt gestgjafa sína með uppörvandi frásögum. (Samanber Postulasöguna 15:2, 3.) Páll og félagar hans héldu endurnærðir ferð sinni áfram. – Post. 27:3; 28:13, 14.
18. Hvað varð Páli tilefni til að þakka Guði og fá nýjan kraft?
18 Á ferð sinni til Rómar hlýtur Páll að hafa minnst þess sem hann skrifaði þremur árum áður til safnaðarins í borginni: „Ég hef þráð í mörg ár að koma til ykkar.“ (Rómv. 15:23) En hann hafði ekki búist við að koma sem fangi. Það hlýtur því að hafa uppörvað hann mjög að sjá bræður og systur koma á móti sér frá Róm. „Þegar Páll sá þau þakkaði hann Guði og fékk nýjan kraft.“ (Post. 28:15) Tökum eftir að Páll þakkaði Guði fyrir að þau skyldu vera komin. Hvers vegna? Páll skildi að Jehóva var að hjálpa honum fyrir atbeina trúsystkina sinna.
19. Hvernig getur Jehóva fyrir atbeina okkar hjálpað þeim sem þurfa á hjálp að halda, samanber 1. Pétursbréf 4:10?
19 Hvað getum við gert? Veist þú af bræðrum eða systrum í þínum söfnuði sem þjást vegna veikinda eða annarra erfiðra kringumstæðna? Hefur kannski einhver misst ástvin? Ef við heyrum um einhvern sem þarfnast hjálpar getum við beðið Jehóva að hjálpa okkur að segja eða gera eitthvað gott og kærleiksríkt fyrir hann. Orð okkar og verk gætu einmitt verið sú uppörvun sem þessi bróðir eða systir þarfnast. (Lestu 1. Pétursbréf 4:10.)c Ef við hjálpum þeim endurheimta þau ef til trú á loforð Jehóva: „Ég mun aldrei snúa baki við ykkur og aldrei yfirgefa ykkur.“ Væri það ekki gleðilegt?
20. Hvers vegna getum við sagt af sannfæringu: „Jehóva hjálpar mér“?
20 Við göngum ef til vill í gegnum stormasama tíma í lífi okkar eins og Páll og félagar hans. En við getum verið hugrökk því að við vitum að Jehóva er með okkur. Hann hjálpar okkur fyrir atbeina Jesú og englanna. Og ef það er í samræmi við vilja hans getur Jehóva hjálpað okkur fyrir atbeina fólks í valdastöðu. Og eins og mörg okkar hafa reynt hvetur Jehóva þjóna sína með heilögum anda sínum til að hjálpa trúsystkinum sínum. Líkt og Páll höfum við ærna ástæðu til að segja af sannfæringu: „Jehóva hjálpar mér, ég óttast ekki neitt. Hvað geta mennirnir gert mér?“ – Hebr. 13:6.
SÖNGUR 38 Hann mun styrkja þig
a Þessi grein fjallar um hvernig Jehóva hjálpaði Páli postula á þrjá vegu til að takast á við mikla erfiðleika. Þegar við skoðum hvernig Jehóva hjálpaði þjónum sínum til forna styrkir það traust okkar á að hann hjálpi okkur í gegnum lífsins ólgusjó.
b Aristarkus og Lúkas höfðu áður verið ferðafélagar Páls. Þessir tryggu menn voru einnig með Páli meðan hann var í fangelsi í Róm. – Post. 16:10–12; 20:4; Kól. 4:10, 14.