Læturðu orð Jesú hafa áhrif á bænir þínar?
„Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu varð mannfjöldinn djúpt snortinn af orðum hans.“ — MATT. 7:28.
1, 2. Af hverju var mannfjöldinn djúpt snortinn af kennslu Jesú?
VIÐ ættum að taka við orðum Jesú Krists, einkasonar Guðs, og fara eftir þeim. Hann talaði allt öðruvísi en aðrir menn. Slíkur var munurinn að fólk var djúpt snortið af fjallræðunni. — Lestu Matteus 7:28, 29.
2 Sonur Jehóva kenndi ekki eins og fræðimennirnir sem fluttu langar ræður byggðar á kenningum ófullkominna manna. Kristur kenndi „eins og sá er vald hefur“ af því að það sem hann sagði kom frá Guði. (Jóh. 12:50) Við skulum nú kanna hvernig það sem Jesús kenndi í fjallræðunni getur haft áhrif á bænir okkar og ætti að gera það.
Biðjum ekki eins og hræsnararnir
3. Endursegðu það sem stendur í Matteusi 6:5.
3 Bæn er mikilvægur þáttur sannrar tilbeiðslu og við ættum að biðja oft til Jehóva. Við ættum að láta það sem Jesús kenndi í fjallræðunni hafa áhrif á bænir okkar. Hann sagði: „Þegar þér biðjist fyrir þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum til þess að menn sjái þá. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.“ — Matt. 6:5.
4-6. (a) Af hverju vildu farísearnir gjarnan „standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum“? (b) Hvernig höfðu þeir „tekið út laun sín“?
4 Þegar lærisveinar Jesú báðust fyrir áttu þeir ekki að líkja eftir ‚hræsnurum‘ eins og faríseunum sem töldu sig réttláta og reyndu að ganga í augun á öðrum með því að þykjast guðræknir. (Matt. 23:13-32) Þessir hræsnarar vildu gjarnan „standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum“. Þetta gerðu þeir til að ‚menn sæju þá‘. Það var venja Gyðinga á fyrstu öld að biðjast fyrir um það leyti sem brennifórnirnar voru færðar í musterinu (um klukkan níu að morgni og klukkan þrjú síðdegis). Margir íbúar Jerúsalem báðust fyrir ásamt þeim sem safnast höfðu saman til tilbeiðslu inni á musterissvæðinu. Guðræknir Gyðingar annars staðar báðust gjarnan fyrir tvisvar á dag „í samkundum“. — Samanber Lúkas 18:11, 13.
5 Fæstir voru þó staddir nærri musterinu eða næsta samkunduhúsi þegar umræddar bænir voru fluttar. Þeir báðust þá fyrir þar sem þeir voru. Sumir höfðu ekkert á móti því að vera staddir „á gatnamótum“ þegar bænastundin rann upp. Þeir vildu gjarnan að þeir sem áttu leið um gatnamótin sæju þá. Þessir trúhræsnarar fluttu „langar bænir að yfirskini“ til að láta dást að sér. (Lúk. 20:47) Við ættum ekki að hugsa þannig.
6 Jesús sagði að þessir hræsnarar hefðu „tekið út laun sín“. Þeir sóttust ákaft eftir viðurkenningu og aðdáun manna — og fengu hana. Ekki myndi Jehóva hlusta á hræsnisfullar bænir þeirra svo að þetta voru einu launin sem þeir fengu. Hins vegar myndi Jehóva bænheyra sanna fylgjendur Jesú eins og sjá má af því sem Jesús sagði í framhaldinu.
7. Hvað átti Jesús við þegar hann talaði um að biðjast fyrir í ‚herbergi sínu‘?
7 „Þegar þú biðst fyrir skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.“ (Matt. 6:6) Þegar Jesús hvatti fylgjendur sína til að biðjast fyrir í einrúmi bak við lokaðar dyr ber ekki að skilja það svo að enginn megi fara með bæn fyrir hönd safnaðarins. Hann var hins vegar að letja menn þess að biðjast fyrir í áheyrn annarra í þeim tilgangi að vekja athygli á sér og hljóta lof þeirra. Við skulum hafa það í huga ef við fáum það verkefni að fara með bæn fyrir hönd safnaðarins. Tökum líka til okkar það sem Jesús segir þessu næst.
8. Hvernig eigum við ekki að biðjast fyrir samkvæmt Matteusi 6:7?
8 „Þegar þér biðjist fyrir skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi eins og heiðingjarnir. Þeir hyggja að þeir verði bænheyrðir fyrir mælgi sína.“ (Matt. 6:7) Jesús nefnir hér annað sem menn gerðu rangt þegar þeir báðust fyrir. Þeir fóru með „fánýta mælgi“ með því að endurtaka í sífellu sömu orðin. Jesús var ekki að gefa í skyn að við mættum aldrei endurtaka innilegar beiðnir eða þakkarorð í bæn. Sjálfur baðst hann fyrir „með sömu orðum“ aftur og aftur í Getsemanegarðinum nóttina áður en hann dó. — Mark. 14:32-39.
9, 10. Hvernig eigum við ekki að biðja?
9 Það væri rangt af okkur að líkja eftir endurtekningarsömum bænum ‚heiðingjanna‘. Þeir fara „með fánýta mælgi“ þegar þeir þylja upp orðmargar bænir sem þeir hafa lært utanbókar. Það var til lítils fyrir dýrkendur Baals að ákalla falsguð sinn ‚frá morgni til hádegis og hrópa: „Baal, bænheyrðu okkur.“‘ (1. Kon. 18:26) Milljónir manna fara með langar og endurtekningasamar bænir í þeirri trú að þeir „verði bænheyrðir“. En Jesús minnir okkur á að langar og staglsamar bænir hafi ekkert gildi frá sjónarhóli Jehóva. Hann heldur áfram:
10 „Líkist þeim ekki. Faðir yðar veit hvers þér þurfið áður en þér biðjið hann.“ (Matt. 6:8) Margir af trúarleiðtogum Gyðinga líktust heiðingjunum með því að vera allt of margorðir í bænum sínum. Innilegar bænir eru mikilvægur þáttur sannrar tilbeiðslu og fela meðal annars í sér óskir, beiðni og þakkargerð. (Fil. 4:6) Það væri hins vegar rangt af okkur að fara með sömu þuluna aftur og aftur í þeirri trú að endurtekningin sé nauðsynleg til að Guð átti sig á hvers við þörfnumst. Þegar við biðjum skulum við hafa hugfast að við erum að ávarpa Guð sem ‚veit hvers við þurfum áður en við biðjum hann‘.
11. Hvað ættum við að hafa í huga ef við fáum það verkefni að fara með bæn fyrir hönd safnaðarins?
11 Það sem Jesús sagði um óviðeigandi bænir ætti að minna okkur á að Guð hrífst ekki af háfleygu máli og orðaflaumi. Við skulum einnig hafa í huga að þegar við förum með bæn fyrir hönd safnaðarins eigum við ekki að nota hana til að reyna að vekja hrifningu áheyrenda. Og bænin ætti ekki að vera svo löng að þeir fari að velta fyrir sér hvenær við ætlum að segja „amen“. Það væri ekki heldur í anda þess sem Jesús kenndi í fjallræðunni að nota bænir til að koma á framfæri tilkynningum eða leiðbeina áheyrendum.
Jesús kennir okkur að biðja
12. Hvað er fólgið í beiðninni „helgist þitt nafn“?
12 Eftir að Jesús hafði skýrt fyrir lærisveinunum hvað þeir ættu að varast þegar þeir leituðu til Guðs í bæn kenndi hann þeim að biðja. (Lestu Matteus 6:9-13.) Jesús ætlaðist ekki til að menn lærðu bænarorðin í faðirvorinu utan að og færu svo með þau eins og þulu. Við eigum öllu heldur að hafa þau sem viðmiðun þegar við förum með bæn. Jesús lætur Guð skipa fyrsta sætið eins og sjá má af upphafsorðunum: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn.“ (Matt. 6:9) Það er rétt að ávarpa Jehóva sem ‚föður okkar‘ vegna þess að hann er skapari okkar og býr „á himnum“ hátt yfir jörðinni. (5. Mós. 32:6; 2. Kron. 6:21; Post. 17:24, 28) Fleirtalan „vor“ minnir á að trúsystkini okkar eiga líka náið samband við Guð. „Helgist þitt nafn“ er beiðni um að Jehóva helgi sjálfan sig með því að hreinsa nafn sitt af þeirri háðung sem það hefur mátt þola allt frá uppreisninni í Eden. Jehóva mun svara bæninni með því að útrýma allri illsku af jörðinni og helga sig þar með. — Esek. 36:23.
13. (a) Hvernig verður bæninni „til komi þitt ríki“ svarað? (b) Hvað er fólgið í því að vilji Guðs verði á jörð?
13 „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matt. 6:10) Höfum hugfast að þegar Jesús nefnir „ríki“ á hann við Messíasarríkið á himnum, en það er í höndum Jesú og ‚hinna heilögu‘ sem ríkja með honum á himnum. (Dan. 7:13, 14, 18; Jes. 9:5, 6) Þegar við biðjum þess að það „komi“ erum við að biðja um að ríki Guðs beiti sér gegn öllum andstæðingum hans á jörð. Það gerist innan tíðar og er undanfari réttlætis, friðar og velsældar í paradís á jörð. (Sálm. 72:1-15; Dan. 2:44; 2. Pét. 3:13) Vilji Jehóva ræður ríkjum á himnum. Þegar við biðjum að vilji hans verði á jörð er það bæn um að hann láti fyrirætlanir sínar með jörðina ná fram að ganga. Það felur meðal annars í sér að hann fjarlægi andstæðinga sína líkt og hann gerði til forna. — Lestu Sálm 83:2, 3, 14-19.
14. Af hverju er við hæfi að biðja Jehóva að gefa okkur „daglegt brauð“?
14 „Gef oss í dag vort daglegt brauð.“ (Matt. 6:11; Lúk. 11:3) Með þessari bæn erum við að biðja Guð að sjá okkur fyrir daglegum nauðsynjum. Við sýnum þar með að við trúum að Jehóva sé fær um að sjá fyrir okkur dag frá degi. Við erum ekki að biðja um ofgnótt. Beiðnin um að Guð sjái okkur fyrir daglegum nauðsynjum minnir okkur ef til vill á að Guð sagði Ísraelsmönnum að safna himnabrauðinu manna eftir þörfum fyrir hvern dag. — 2. Mós. 16:4.
15. Hvað merkja bænarorðin „fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum“?
15 Þessu næst beinir Jesús athyglinni að máli sem snýr beint að okkur. Hann segir: „Fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.“ (Matt. 6:12) Í Lúkasarguðspjalli kemur fram að ‚skuldirnar‘ séu „syndir“. (Lúk. 11:4) Við getum ekki ætlast til að Jehóva fyrirgefi okkur nema við séum búin að fyrirgefa þeim sem hafa syndgað gegn okkur. (Lestu Matteus 6:14, 15.) Við ættum að fyrirgefa öðrum af fúsu geði. — Ef. 4:32; Kól. 3:13.
16. Hvernig ber að skilja bænarorðin „eigi leið þú oss í freistni heldur frelsa oss frá hinum vonda“?
16 „Eigi leið þú oss í freistni heldur frelsa oss frá hinum vonda.“ (Matt. 6:13, neðanmáls) Hvernig ber okkur að skilja þessar tvær nátengdu beiðnir? Eitt er víst: Jehóva leggur ekki freistingar fyrir neinn. (Lestu Jakobsbréfið 1:13.) Satan er ‚hinn vondi‘ og hann er hinn raunverulegi ‚freistari‘. (Matt. 4:3, Biblían 1981) Í Biblíunni er hins vegar oft tekið svo til orða að Guð geri vissa hluti þegar átt er við að hann leyfi aðeins að þeir gerist. (Rut. 1:20, 21; Préd. 11:5) Orðin „eigi leið þú oss í freistni“ eru því beiðni um að Jehóva styrki okkur svo að við látum ekki undan þegar reynt er að freista okkar til að óhlýðnast honum. Með orðunum „frelsa oss frá hinum vonda“ erum við að biðja Jehóva að sjá til þess að Satan takist ekki að yfirbuga okkur. Og við getum treyst að Jehóva ‚láti ekki reyna okkur um megn fram‘. — Lestu 1. Korintubréf 10:13.
‚Biðjið, leitið og knýið á‘
17, 18. Hvað merkir það að ‚biðja, leita og knýja á‘?
17 Páll postuli hvatti trúsystkini sín til að vera „staðföst í bæninni“. (Rómv. 12:12) Jesús kom með svipaða hvatningu þegar hann sagði: „Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða.“ (Matt. 7:7, 8) Það er viðeigandi að biðja um hvaðeina sem er í samræmi við vilja Guðs. Jóhannes postuli tók undir með Jesú þegar hann skrifaði: „Þetta er traustið sem við berum til [Guðs]: Ef við biðjum um eitthvað eftir hans vilja, þá heyrir hann okkur.“ — 1. Jóh. 5:14.
18 Hvatning Jesú um að ‚biðja og leita‘ merkir að við eigum að biðja í einlægni og gefast ekki upp. Við þurfum líka að ‚knýja á‘ til að fá að ganga inn í ríki Guðs og fá að njóta þeirrar miklu blessunar sem það hefur í för með sér. En getum við treyst að Guð bænheyri okkur? Já, ef við erum honum trú því að Jesús sagði: „Hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða.“ Þjónar Jehóva hafa margreynt að hann „heyrir bænir“. — Sálm. 65:3.
19, 20. Að hvaða leyti er Jehóva eins og ástríkur faðir, samanber orð Jesú í Matteusi 7:9-11?
19 Jesús líkti Guði við ástríkan föður sem gefur börnum sínum góðar gjafir. Reyndu að gera þér í hugarlund að þú sért viðstaddur þegar Jesús flytur fjallræðuna og heyrir hann segja: „Hver er sá maður meðal yðar sem gefur barni sínu stein er það biður um brauð? Eða höggorm þegar það biður um fisk? Fyrst þér sem eruð vond hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir sem biðja hann?“ — Matt. 7:9-11.
20 Mennskum feðrum er eiginlegt að elska börnin sín þó að þeir séu ‚vondir‘ í þeim skilningi að þeir eru syndugir. Þeir blekkja ekki börnin sín heldur gera sitt besta til að gefa þeim „góðar gjafir“. Jehóva er föðurlegur í okkar garð og gefur okkur „góðar gjafir“ eins og til dæmis heilagan anda. (Lúk. 11:13) Andinn getur styrkt okkur til að þjóna Jehóva á velþóknanlegan hátt en „sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa“ kemur frá Jehóva. — Jak. 1:17.
Njótum góðs af kennslu Jesú
21, 22. Hvað er athyglisvert við fjallræðuna og hvað finnst þér um það sem Jesús kenndi?
21 Fjallræðan er óneitanlega merkasta ræða sem flutt hefur verið. Hún er einstæð fyrir það hve skýr og einföld hún er og hve mikið hún fræðir okkur um Jehóva Guð. Eins og fram hefur komið í þessari greinasyrpu er ákaflega gagnlegt fyrir okkur að fara eftir þeim ráðleggingum sem Jesús gaf í ræðunni. Þannig getum við bæði bætt líf okkar núna og eignast von um hamingjuríka framtíð.
22 Við höfum aðeins skoðað nokkra af þeim ómetanlegu andlegu gimsteinum sem er að finna í fjallræðu Jesú. Það er ekki að undra að mannfjöldinn, sem heyrði ræðuna, skuli hafa verið „djúpt snortinn af orðum hans“. (Matt. 7:28) Við verðum áreiðanlega fyrir sömu áhrifum þegar við fyllum hugi okkar og hjörtu af því sem kennarinn mikli sagði í fjallræðunni og við önnur tækifæri.
Hvert er svarið?
• Hvað sagði Jesús um bænir hræsnaranna?
• Af hverju ættum við ekki að endurtaka í sífellu sömu orðin í bænum okkar?
• Um hvað ættum við að biðja samkvæmt faðirvorinu?
• Hvernig getum við ‚beðið, leitað og knúið á‘?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Jesús fordæmdi hræsnarana sem báðust fyrir aðeins til að láta á sér bera.
[Mynd á blaðsíðu 17]
Veistu af hverju það er við hæfi að biðja Guð að gefa okkur daglegt brauð?