„Til komi þitt ríki“ – en hvenær?
„Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið allt þetta, að hann er í nánd, fyrir dyrum.“ – MATT. 24:33.
1, 2. (a) Hvað getur haft áhrif á eftirtekt fólks? (b) Hverju megum við treysta varðandi ríki Guðs?
ÞÚ HEFUR trúlega veitt því eftirtekt að það er oft mikill munur á því hvernig sjónarvottar að sama atburði muna hann. Eins getur fólk átt erfitt með að muna nákvæmlega hvað læknir segir eftir að það hefur fengið sjúkdómsgreiningu. Og stundum á fólk í vandræðum með að finna lyklana sína eða gleraugun þó að þau séu við höndina. Vísindamenn segja að þegar fólk tekur ekki eftir einhverju eða gleymir sé um að ræða eins konar blindu sem stafi af því að fólk er upptekið af einhverju öðru. Heilinn virðist eiga erfitt með að einbeita sér að fleiru en einum hlut í einu.
2 Margir eru álíka blindir á þýðingu þess sem er að gerast í heiminum. Þeir viðurkenna að heimurinn hafi breyst gríðarlega síðan 1914 en sjá ekki hvað þessir atburðir merkja í raun og veru. Við sem þekkjum Biblíuna vel vitum að ríki Guðs kom í ákveðnum skilningi árið 1914 þegar Jesús tók völd sem konungur á himnum. En við vitum að það er ekki fullnaðarsvar við bæninni: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matt. 6:10) Til að svo verði þarf þessi illi heimur, sem nú er, að hverfa. Þá fyrst nær vilji Guðs fram að ganga á jörðinni eins og á himnum.
3. Hvað sjáum við vegna þess að við erum ötulir biblíunemendur?
3 Þar sem við erum ötulir biblíunemendur sjáum við að biblíuspádómar eru að rætast núna. En því er ólíkt farið með fólk almennt. Það er svo upptekið af daglegu amstri og eigin hugðarefnum að það sér ekki augljós merki þess að Kristur hafi verið við völd síðan 1914 og fullnægi bráðlega dómi Guðs. Það er engu að síður gott fyrir þá sem hafa þjónað Guði áratugum saman að spyrja sig hvort þeir séu jafn vakandi fyrir því núna hve nálægur endirinn er og þeir voru áður. Þeir sem hafa nýlega gerst vottar ættu líka að spyrja sig hvað þeim sé efst í huga. Óháð því hvernig við svörum þessum spurningum skulum við ræða um þrjár ástæður fyrir því að við getum treyst að konungurinn á himnum sjái bráðlega til þess að vilji Guðs nái fram að ganga á jörðinni.
RIDDARARNIR ERU KOMNIR FRAM
4, 5. (a) Hvað hefur Jesús aðhafst frá 1914? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvað tákna riddararnir þrír sem fylgdu Jesú og hvernig hefur spádómurinn ræst?
4 Jesús Kristur var krýndur konungur á himnum árið 1914 og hóf þegar í stað það ætlunarverk sitt að sigra illan heim Satans. Í spádómi í 6. kafla Opinberunarbókarinnar birtist hann sem sigrandi konungur á hvítum hesti. (Lestu Opinberunarbókina 6:1, 2.) Í fótspor hans fylgja þrír riddarar sem hafa í för með sér stríð, hungursneyð, drepsóttir og dauða af ýmsum orsökum. Spádómurinn gaf því tilefni til að ætla að ástandið í heiminum myndi hríðversna eftir að ríki Guðs tæki völd. – Opinb. 6:3-8.
5 Friðurinn var ,tekinn burt af jörðinni‘ eins og spáð var, þrátt fyrir fyrirheit manna um frið og samvinnu á alþjóðavettvangi. Fyrri heimsstyrjöldin var upphaf mannskæðra styrjalda sem veröldin hefur mátt þola undanfarna áratugi. Hungursneyðir ógna öryggi í heiminum þrátt fyrir að margs konar framfarir hafi orðið á sviði vísinda og efnahagsmála frá 1914. Og því verður ekki móti mælt að alls kyns drepsóttir og náttúruhamfarir verða milljónum manna að aldurtila ár hvert. Þessir atburðir eru umfangsmeiri, tíðari og alvarlegri en áður hefur þekkst í sögu mannkyns. Gerirðu þér grein fyrir hvað það þýðir?
6. Hverjir höfðu vakandi auga með því hvernig spádómar Biblíunnar uppfylltust og hvað gerðu þeir?
6 Fyrri heimsstyrjöldin og spánska veikin áttu alla athygli fólks almennt meðan á stóð. Andasmurðir kristnir menn höfðu hins vegar beðið ársins 1914 með eftirvæntingu því að þeir vissu að „tímar heiðingjanna“ tækju enda það ár. (Lúk. 21:24) Þeir vissu ekki fyrir víst hvað myndi gerast á þeim tíma. Hitt vissu þeir að árið 1914 yrðu þáttaskil í sögu stjórnar Guðs. Þegar þeir gerðu sér grein fyrir hvernig spádómur Biblíunnar hafði ræst tóku þeir að boða djarflega að ríki Guðs hefði tekið völd. En með því að boða ríki Guðs kölluðu þeir yfir sig heiftarlegar ofsóknir víða um lönd. Því hafði líka verið spáð í Biblíunni. Á næstu áratugum reyndu óvinir Guðsríkis að ,misnota lögin‘ þjónum Guðs til miska. Þeir sættu líkamlegu ofbeldi og fangavist og sumir voru jafnvel hengdir, skotnir eða hálshöggnir. – Sálm. 94:20; Opinb. 12:15.
7. Hvers vegna hefur fjöldinn ekki áttað sig á þýðingu þess sem er að gerast í heiminum?
7 Hvers vegna viðurkenna fæstir að ríki Guðs sé stofnsett á himnum fyrst það er svo margt sem sannar það? Hvers vegna geta þeir ekki séð samhengið milli ástandsins í heiminum og biblíuspádómanna sem þjónar Guðs hafa bent á áratugum saman? Getur verið að flestir einblíni á það eitt sem augun sjá? (2. Kor. 5:7) Eru þeir svo uppteknir af sínu eigin vafstri að þeir sjá ekki hvað Guð er að gera? (Matt. 24:37-39) Hefur áróður Satans svo sterk áhrif á þá að þeir sjá ekkert annað? (2. Kor. 4:4) Það þarf trú og skilning á andlegum málum til að sjá það sem er að gerast á andlega tilverusviðinu. Við megum vera þakklát fyrir að vera ekki blind á það sem er að gerast í raun og veru.
ILLSKAN MAGNAST JAFNT OG ÞÉTT
8-10. (a) Hvernig hefur 2. Tímóteusarbréf 3:1-5 ræst? (b) Hvers vegna getum við fullyrt að illskan hafi magnast jafnt og þétt?
8 Það er önnur ástæða fyrir því að við vitum að ríki Guðs tekur bráðlega völdin á jörðinni. Hún er sú að illskan í mannlegu samfélagi versnar jafnt og þétt. Þeir mannlegu lestir, sem er lýst í 2. Tímóteusarbréfi 3:1-5, hafa blasað við í næstum öld en hafa líka breiðst út og færst í aukana. Hefurðu ekki séð hvernig þessi spádómur hefur verið að rætast? Lítum á nokkur dæmi sem sýna fram á það. – Lestu 2. Tímóteusarbréf 3:1, 13.
9 Berðu saman hvað talið var hneykslanlegt á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar og það sem fram fer núna á vinnustöðum, í skemmtanalífinu, íþróttum og tískuheiminum. Gróft ofbeldi og siðleysi er orðið daglegt brauð. Fólk keppist um að virðast grimmara, klúrara og miskunnarlausara en aðrir. Sjónvarpsefni, sem var talið djarft á sjötta áratugnum, er nú talið henta allri fjölskyldunni. Og margir hafa veitt athygli að samkynhneigðir hafa sterk áhrif á skemmtana- og tískuiðnaðinn og hampa líferni sínu fyrir opnum tjöldum. Við megum vera þakklát fyrir að þekkja sjónarmið Guðs. – Lestu Júdasarbréfið 14, 15.
10 Við gætum líka rifjað upp hvað talið var uppreisnargirni hjá unga fólkinu á sjötta áratugnum og borið það saman við nútímann. Foreldrar höfðu réttilega áhyggjur af því að unglingarnir reyktu, drykkju og dönsuðu ósæmilega dansa. En núna heyrum við oft fréttir af eftirfarandi tagi: Fimmtán ára skólanemi skýtur á bekkjarfélaga sína með þeim afleiðingum að tveir deyja og 13 eru særðir. Hópur drukkinna unglinga myrðir níu ára stúlku með grimmilegum hætti og misþyrmir föður hennar og frænda. Í einu landi í Asíu er sagt að unglingar hafi framið helming allra glæpa á síðastliðnum tíu árum. Verður því móti mælt að ástandið hafi versnað til muna?
11. Hvers vegna gera margir sér ekki grein fyrir að ástandið fer versnandi?
11 Pétur postuli hitti naglann á höfuðið þegar hann skrifaði: „Á síðustu dögum munu koma spottarar er stjórnast af eigin girndum og segja með spotti: ,Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að síðan feðurnir sofnuðu stendur allt við hið sama eins og frá upphafi veraldar.‘“ (2. Pét. 3:3, 4) Hvers vegna skyldi fólk bregðast þannig við? Það virðist vera að því oftar sem fólk sér og heyrir eitthvað því minni gaum gefur það að því. Okkur bregður líklega í brún ef náinn vinur fer óvænt að hegða sér öðruvísi en áður. En við gefum því síður gaum ef siðferði fólks almennt breytist smám saman til hins verra. Siðferðishnignunin er engu að síður hættuleg.
12, 13. (a) Hvers vegna ætti þróunin í heiminum ekki að draga úr okkur kjark? (b) Hvaða vitneskja hjálpar okkur að þrauka þessa erfiðu tíma sem nú eru?
12 Páll postuli varaði við að „á síðustu dögum“ myndu koma „örðugar tíðir“. (2. Tím. 3:1) En þær eru ekki svo örðugar að við getum ekki búið við þær. Við þurfum ekki að loka augunum fyrir veruleikanum. Með hjálp Jehóva, anda hans og kristna safnaðarins getum við sigrast á öllum þeim vonbrigðum og ótta sem við verðum fyrir. Við getum verið Guði trú. Hann gefur okkur kraft umfram það sem er okkur eiginlegt. – 2. Kor. 4:7-10.
13 Við skulum taka eftir hvernig Páll byrjar spádóminn um síðustu daga. Hann segir: „Það skaltu vita.“ Þessi orð eru trygging fyrir því að spádómurinn rætist. Það leikur enginn vafi á að óguðlegu mannfélagi heldur áfram að hnigna uns Jehóva grípur í taumana. Sagnfræðingar benda á dæmi um að siðferðishrun hafi orðið hjá einstökum þjóðum og þjóðfélögum á liðnum öldum og orðið þeim að falli. Það hefur hins vegar aldrei gerst fyrr í sögu mannkyns að siðferði alls heimsins hafi hrakað í þeim mæli sem nú er orðið. Margir láta kannski eins og ekkert sé en þessi sérstæða þróun, sem hefur orðið frá 1914, ætti að sannfæra okkur um að ríki Guðs láti bráðlega til skarar skríða.
ÞESSI KYNSLÓÐ LÍÐUR EKKI UNDIR LOK
14-16. Nefndu þriðju ástæðuna fyrir því að trúa að ríki Guðs „komi“ innan skamms.
14 Saga þjóna Guðs er þriðja ástæðan til að treysta að endirinn sé nálægur. Hópur andasmurðra kristinna manna var farinn að þjóna Guði áður en ríki hans var stofnsett á himnum. Hvað gerðu þeir þegar spádómarnir rættust ekki að öllu leyti á þann hátt sem þeir höfðu búist við árið 1914? Flestir voru Guði trúir í prófraunum og ofsóknum og héldu áfram að þjóna honum. Flestir eða allir þessara andasmurðu þjónuðu honum dyggilega allt til dauðadags.
15 Í ítarlegum spádómi sínum um endalok veraldar sagði Jesús: „Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok uns allt þetta er komið fram.“ (Lestu Matteus 24:33-35.) Við skiljum það svo að með orðunum „þessi kynslóð“ hafi Jesús átt við tvo hópa andasmurðra kristinna manna. Fyrri hópurinn var uppi árið 1914 og sá og skildi tákn þess að Kristur hefði tekið konungdóm það ár. Þeir sem skipuðu þennan hóp voru ekki aðeins fæddir fyrir 1914 heldur voru þeir orðnir andasmurðir synir Guðs það ár eða fyrr. – Rómv. 8:14-17.
16 Síðari hópurinn, sem tilheyrir ,þessari kynslóð‘, eru andasmurðir samtíðarmenn fyrri hópsins. Þeir voru ekki aðeins fæddir áður en fyrri hópurinn hvarf af sjónarsviðinu heldur höfðu þeir fengið smurningu heilags anda meðan sumir af fyrri hópnum voru enn á jörð. Sumir hinna andasmurðu, sem eru uppi núna, tilheyra því ekki ,þessari kynslóð‘ sem Jesús talaði um. Þeir sem tilheyra síðari hópi kynslóðarinnar eru farnir að reskjast. En vegna þess sem Jesús sagði í Matteusi 24:34 getum við treyst að einhverjir þeirra sem tilheyra ,þessari kynslóð‘ verði enn á jörðinni þegar þrengingin mikla skellur á. Við ættum því að vera sannfærð um að þess sé skammt að bíða að konungur Guðsríkis útrými hinum illu og nýr réttlátur heimur taki við. – 2. Pét. 3:13.
KRISTUR VINNUR BRÁÐUM FULLNAÐARSIGUR
17. Hvaða ályktun hljótum við að draga af því sem við höfum skoðað í þessari grein?
17 Hvaða ályktun getum við dregið af spádómunum þrem sem við höfum skoðað? Jesús benti þó á að við myndum ekki vita daginn né stundina – og sú er líka raunin. (Matt. 24:36; 25:13) Við vitum þó „hvað tímanum líður“ eins og Páll nefndi. (Lestu Rómverjabréfið 13:11.) Við lifum núna á síðustu dögum. Ef við fylgjumst vandlega með spádómum Biblíunnar og því sem Jehóva Guð og Jesús Kristur eru að gera sjáum við ótvíræðar sannanir fyrir því að endir þessa illa heims er í nánd.
18. Hvað bíður þeirra sem vilja ekki viðurkenna ríki Guðs?
18 Þeir sem vilja ekki viðurkenna hið mikla vald sem Jesú Kristi, konunginum á hvíta hestinum, hefur verið gefið neyðast bráðlega til að játa mistök sín. Þeir sjá enga undankomuleið. Margir hrópa þá skelfingu lostnir: ,Hver mun geta staðist?‘ (Opinb. 6:15-17) Svarið er að finna í næsta kafla Opinberunarbókarinnar. Hinir andasmurðu og félagar þeir sem hafa jarðneska von „geta staðist“ á þeim degi af því að Guð hefur velþóknun á þeim. „Mikill múgur“ af öðrum sauðum kemst lifandi gegnum þrenginguna miklu. – Opinb. 7:9, 13-15.
19. Til hvers getum við hlakkað sem sjáum og viðurkennum að síðustu dagar eru brátt á enda?
19 Ef við fylgjumst af athygli með því hvernig spádómar Biblíunnar eru að rætast núna látum við ekki glepjast af heimi Satans. Við verðum ekki blind fyrir því hvað atburðirnir í heiminum merkja í raun og veru. Kristur vinnur bráðum fullnaðarsigur með því að heyja réttlátt lokastríð og eyða þessum illa heimi. (Opinb. 19:11, 19-21) Hugsaðu þér hve hamingjuríkt lífið verður þegar þar að kemur! – Opinb. 20:1-3, 6; 21:3, 4.