Spurningar frá lesendum
Ber að skilja orð Davíðs í Sálmi 37:25 og orð Jesú í Matteusi 6:33 þannig að Jehóva sjái til þess að kristinn maður verði aldrei matarlaus?
Davíð sagðist ,aldrei hafa séð réttlátan mann yfirgefinn eða niðja hans biðja sér matar‘. Þetta er almenn staðhæfing sem Davíð byggði á eigin reynslu. Hann vissi vel hve áreiðanleg blessun Guðs væri. (Sálm. 37:25) Það ber hins vegar ekki að skilja orð Davíðs þannig að enginn tilbiðjandi Guðs líði nokkurn tíma skort.
Davíð lenti stundum sjálfur í miklum hremmingum. Einu sinni, þegar hann var hann á flótta undan Sál, voru vistir af skornum skammti. Þá bað hann beinlínis um brauð handa sér og þeim sem með honum voru. (1. Sam. 21:1-6) Í þessu tilfelli þurfti hann bókstaflega að „biðja sér matar“. En Davíð vissi að Jehóva hafði ekki yfirgefið hann þó að það kreppti að honum. Í Biblíunni kemur hvergi fram að Davíð hafi þurft að betla til að verða sér úti um nauðsynlegan mat.
Í Matteusi 6:33 er að finna loforð Jesú þess efnis að Guð sjái fyrir þörfum dyggra þjóna sinna sem láta hagsmuni Guðsríkis ganga fyrir í lífinu. „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis,“ sagði Jesús, „þá mun allt þetta [þar á meðal matur, drykkur og fatnaður] veitast yður að auki.“ En Jesús gaf líka til kynna að sökum ofsókna gætu ,bræður‘ hans liðið hungur. (Matt. 25:35, 37, 40) Páll postuli upplifði það. Hann mátti stundum þola hungur og þorsta. – 2. Kor. 11:27.
Jehóva segir okkur að við verðum ofsótt á ýmsa vegu. Hann leyfir ef til vill að við líðum skort þegar við eigum þátt í að svara ásökunum Satans. (Job. 2:3-5) Sum trúsystkini okkar hafa verið hætt komin vegna ofsókna, til dæmis þau sem lentu í fangabúðum á valdatíma nasista. Ein af þeim djöfullegu aðferðum, sem var beitt til að reyna að brjóta vottana niður, var að svelta þá. Trúir vottar Jehóva voru honum hlýðnir og hann yfirgaf þá ekki. Hann leyfði að þeir gengju í gegnum þessa prófraun rétt eins og hann leyfir að allir kristnir menn verði fyrir einhverjum þrautum. Það leikur þó enginn vafi á að Jehóva styður alla sem þjást vegna nafns hans. (1. Kor. 10:13) Við getum haft í huga það sem stendur í Filippíbréfinu 1:29: „Guð veitti ykkur þá náð, ekki einungis að trúa á Krist heldur og að þola þjáningar hans vegna.“
Jehóva lofar að vera með þjónum sínum. Til dæmis stendur í Jesaja 54:17: „Ekkert vopn, sem smíðað verður gegn þér, skal reynast sigursælt.“ Þetta loforð og önnur áþekk eru trygging fyrir því að Guð verndi þjóna sína sem heild. Einstakir vottar geta þó orðið fyrir prófraunum sem kosta þá jafnvel lífið.