Síðasti óvinurinn, dauðinn, að engu gerður
„Dauðinn er síðasti óvinurinn sem verður að engu gerður.“ – 1. KOR. 15:26.
1, 2. Við hvaða skilyrði bjuggu Adam og Eva í upphafi og hvaða spurningar vakna?
ADAM og Eva áttu engan einasta óvin þegar þau voru sköpuð. Þau voru fullkomin og bjuggu í paradís. Þau áttu náið samband við skapara sinn og voru eins og sonur hans og dóttir. (1. Mós. 2:7-9; Lúk. 3:38) Þau fengu ákveðið verkefni frá Guði sem gaf jafnframt til kynna hve lengi þau ættu að lifa. (Lestu 1. Mósebók 1:28.) Þau þurftu ekki eilífðina til að ,fylla jörðina og gera sér hana undirgefna‘, en til að ,ríkja yfir öllum dýrum sem hrærast á jörðinni‘ þurftu þau að lifa að eilífu. Adam hefði aldrei þurft að láta af störfum.
2 Hvers vegna er ástandið núna svo ólíkt því sem var í upphafi? Hvers vegna ógnar svo margt hamingju okkar og hvers vegna eigum við í höggi við óvininn mikla, dauðann? Hvað ætlar Guð að gera til að útrýma þessum óvini og öllum öðrum? Svörin við þessum spurningum er að finna í Biblíunni. Við skulum leita þeirra með því að líta í valda biblíukafla.
KÆRLEIKSRÍK VIÐVÖRUN
3, 4. (a) Hvaða fyrirmæli fengu Adam og Eva frá Guði? (b) Hve mikilvægt var að hlýða þessum fyrirmælum?
3 Adam og Eva voru ekki ódauðleg þó að þau ættu í vændum að lifa að eilífu. Þau urðu að anda, drekka, sofa og borða til að halda lífi. Síðast en ekki síst var líf þeirra háð sambandi þeirra við lífgjafa sinn. (5. Mós. 8:3) Þau þurftu að fylgja leiðsögn Guðs til að lifa og njóta tilverunnar. Jehóva gerði Adam grein fyrir því áður en hann skapaði Evu. Hvernig? „Drottinn Guð bauð manninum og sagði: ,Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta að vild. En af skilningstré góðs og ills máttu ekki eta. Jafnskjótt og þú etur af því muntu deyja.‘“ – 1. Mós. 2:16, 17.
4 Þetta „skilningstré góðs og ills“ var til tákns um að það væri réttur Guðs að ákveða endanlega hvað væri gott og illt. Adam bar auðvitað skyn á gott og illt því að hann var skapaður eftir mynd Guðs og hafði samvisku. Tréð minnti Adam og Evu á að þau þyrftu alltaf á leiðsögn Jehóva að halda. Ef þau borðuðu ávöxt trésins væru þau að lýsa yfir að þau væru siðferðilega óháð Guði og það myndi hafa hrikalegar afleiðingar fyrir þau og börn þeirra. Fyrirmæli Guðs og viðurlögin, sem fylgdu þeim, gáfu til kynna hve alvarlegt málið væri.
HVERNIG KOM DAUÐINN TIL SÖGUNNAR MEÐAL MANNA?
5. Hvers vegna óhlýðnuðust Adam og Eva Jehóva?
5 Adam upplýsti Evu um fyrirmæli Guðs eftir að hún var sköpuð. Hún vissi vel hvað Guð hafði og gat farið næstum orðrétt með það. (1. Mós. 3:1-3) Það gerði hún þegar einhver kom til hennar í líki höggorms sem er ,slóttugt dýr‘. Það var Satan djöfullinn sem var að baki höggorminum. Hann var andasonur Guðs en hafði leyft sér að ágirnast völd og sjálfstæði. (Samanber Jakobsbréfið 1:14, 15.) Til að ná fram illum áformum sínum sakaði hann Guð um að hafa logið. Hann fullvissaði Evu um að hún myndi ekki deyja ef hún sæktist eftir sjálfstæði heldur yrði hún eins og Guð. (1. Mós. 3:4, 5) Eva trúði honum, lýsti yfir sjálfstæði sínu með því að borða ávöxtinn og taldi síðan Adam á að gera það líka. (1. Mós. 3:6, 17) Djöfullinn laug að Evu. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 2:14.) En Adam ,hlýddi röddu konu sinnar‘. Höggormurinn kom fram eins og vinur en Satan djöfullinn var í rauninni grimmur óvinur og vissi mætavel að það hefði banvænar afleiðingar að trúa lyginni.
6, 7. Hvernig dæmdi Jehóva syndarana og hvernig fullnægði hann dóminum?
6 Það var af eigingjörnum hvötum sem bæði Adam og Eva gerðu uppreisn gegn Guði sem hafði gefið þeim lífið og allt annað sem þau áttu. Jehóva vissi auðvitað upp á hár hvað hafði gerst. (1. Kron. 28:9; lestu Orðskviðina 15:3.) Hann hafði leyft þeim þrem, sem áttu hlut að máli, að sýna hvaða tilfinningar þau báru til hans. Það sem þau gerðu hefur án efa sært hann djúpt því að hann var faðir þeirra. (Samanber 1. Mósebók 6:6.) En nú þurfti hann að koma fram sem dómari og láta þau taka afleiðingum gerða sinna.
7 Guð hafði sagt Adam: „Jafnskjótt og þú etur af [skilningstrénu góðs og ills] muntu deyja.“ Adam kann að hafa skilið það svo að hann myndi deyja samdægurs. Eftir að hann braut boð Jehóva bjóst hann ef til vill við að dóminum yrði fullnægt fyrir sólsetur. Jehóva kom að máli við hjónin „í kvöldsvalanum“. (1. Mós. 3:8) Það má segja að hann hafi haldið dóm yfir þeim. Hann kynnti sér málsatvik af viðbrögðum þeirra. (1. Mós. 3:9-13) Síðan felldi hann dóm yfir syndurunum. (1. Mós. 3:14-19) Ef hann hefði takið Adam og Evu af lífi þegar í stað hefði ekkert orðið úr því sem hann ætlaðist fyrir með þau og afkomendur þeirra. (Jes. 55:11) Hann staðfesti dauðadóminn og áhrifa syndarinnar tók að gæta þegar í stað en hann leyfði samt Adam og Evu að eignast börn sem gátu átt von um bjarta framtíð. Í augum Guðs dóu Adam og Eva sama dag og þau syndguðu, og þau dóu reyndar innan þúsund ára sem eru eins og „einn dagur“ hjá honum. – 2. Pét. 3:8.
8, 9. Hvaða áhrif hafði synd Adams á afkomendur hans? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
8 Hafði synd Adams og Evu áhrif á börn þeirra? Já. Í Rómverjabréfinu 5:12 segir: „Syndin kom inn í heiminn með einum manni og dauðinn með syndinni. Þannig er dauðinn runninn til allra manna því að allir syndguðu þeir.“ Abel var sá fyrsti sem dó. (1. Mós. 4:8) Aðrir afkomendur Adams eltust og dóu. Erfðu þeir líka syndina ásamt dauðanum? Páll postuli svarar: „Allir urðu syndarar vegna óhlýðni eins manns.“ (Rómv. 5:19) Syndin og dauðinn, sem allir menn erfðu frá Adam, urðu óvinir þeirra, óvinir sem ófullkomnir menn geta ekki umflúið. Við getum ekki lýst í smáatriðum hvernig þessi dapurlega arfleifð barst til barna Adams og annarra afkomenda en afleiðingarnar eru augljósar.
9 Í Biblíunni er talað um „skýlu þá, sem hylur alla lýði, og þann hjúp, sem breiddur er yfir allar þjóðir“ og er þar átt við erfðasyndina og dauðann. (Jes. 25:7, Biblían 1981) Þessi hjúpur leggst yfir alla menn og enginn kemst undan. Staðan er því sú að „allir deyja vegna sambands síns við Adam“. (1. Kor. 15:22) Í kjölfarið er eðlilegt að spyrja eins og Páll gerði: „Hver frelsar mig frá þessum dauðans líkama?“ Getur einhver gert það?a – Rómv. 7:24.
SYND OG DAUÐI GERÐ AÐ ENGU
10. (a) Nefndu nokkur vers sem gefa til kynna að Jehóva ætlar að gera dauðann að engu. (b) Hvað sýna þessi vers um Jehóva og son hans?
10 Jehóva gat bjargað Páli. Strax eftir að Jesaja nefnir ,hjúpinn‘ segir hann: „Hann [mun] afmá dauðann að eilífu. Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu.“ (Jes. 25:8) Jehóva hefur mikla ánægju af því að binda enda á dauðann sem menninir erfðu frá Adam, rétt eins og faðir sem linar þjáningar barns síns og þerrar tár þess. Þar á hann sér samstarfsmann. Í 1. Korintubréfi 15:22 segir: „Eins og allir deyja vegna sambands síns við Adam, svo munu allir lífgaðir verða vegna sambands síns við Krist.“ Eftir að Páll spurði: „Hver frelsar mig?“ sagði hann: „Guði sé lof að Jesús Kristur, Drottinn vor, frelsar.“ (Rómv. 7:24) Kærleikurinn, sem var Jehóva hvöt til að skapa mennina, kólnaði greinilega ekki með uppreisn Adams og Evu. Og Jesú, sem var með föður sínum þegar hann skapaði Adam og Evu, þótti innilega vænt um afkomendur þeirra. (Orðskv. 8:30, 31) En hvernig yrði mannkyninu bjargað úr greipum syndar og dauða?
11. Hvað gerði Jehóva til að hjálpa mannkyninu?
11 Ófullkomleiki mannanna og dauðinn stafa bæði af synd Adams og réttlátum dómi Jehóva. (Rómv. 5:12, 16) Við lesum: „Allir urðu sekir vegna afbrots eins.“ (Rómv. 5:18) Hvað gat Jehóva gert til að aflétta afleiðingum dómsins af mönnunum án þess að fara á svig við lög sín? Jesús svaraði því þegar hann sagði: „Mannssonurinn er ... kominn til þess að ... gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“ (Matt. 20:28) Sem fullkominn maður gat hann greitt lausnargjald. Hvernig gat þetta lausnargjald fullnægt réttlætinu? – 1. Tím. 2:5, 6.
12. Hvert var lausnargjaldið sem fullnægði réttlætinu?
12 Þar sem Jesús var fullkominn maður hefði hann getað lifað að eilífu eins og Adam átti fyrir sér. Jehóva ætlaði að fylla jörðina fullkomnum afkomendum Adams. Jesús elskaði föður sinn og mennina og fórnaði fullkomnu lífi sínu en það samsvaraði lífinu sem Adam hafði glatað. Síðan reisti Jehóva son sinn upp frá dauðum sem anda. (1. Pét. 3:18) Jehóva gat réttilega tekið við fórninni sem Jesús, þessi eini fullkomni maður, hafði fært til að kaupa aftur afkomendur Adams og gefa þeim möguleika á eilífa lífinu sem Adam hafði fyrirgert. Í vissum skilningi kom Jesús í stað Adams. Páll skrifar: „Þannig er og ritað: ,Hinn fyrsti maður, Adam, varð lifandi sál,‘ hinn síðari Adam lífgandi andi.“ – 1. Kor. 15:45.
13. Hvað gerir „hinn síðari Adam“ fyrir þá sem eru dánir?
13 „Hinn síðari Adam“ kemur bráðlega fram sem „lífgandi andi“ gagnvart mannkyninu í heild. Langflestir afkomendur Adams verða lífgaðir á ný. Hvers vegna? Vegna þess að þeir hafa lifað og dáið. Það þarf að reisa þá upp frá dauðum til að lifa hér á jörð. – Jóh. 5:28, 29.
14. Hvað hefur Jehóva gert til að losa mennina við ófullkomleikann sem Adam gaf afkomendum sínum?
14 Hvernig losnar mannkynið við ófullkomleikann sem það fékk í arf og þarf að berjast við núna? Jehóva hefur sett á fót himneska stjórn en í henni sitja „hinn síðari Adam“ og útvaldir meðstjórnendur úr hópi mannanna. (Lestu Opinberunarbókina 5:9, 10.) Þeir sem ríkja með Jesú á himnum þekkja af eigin raun hvernig það er að vera ófullkominn. Í sameiningu hjálpa þeir jarðarbúum í heil þúsund ár að vinna bug á ófullkomleikanum sem þeir geta ekki sigrast á sjálfir. – Opinb. 20:6.
15, 16. (a) Hver er „síðasti óvinurinn“ og hvenær verður hann að engu gerður? (b) Hvað gerir Jesús þegar þar að kemur samkvæmt 1. Korintubréfi 15:28?
15 Þegar ríki Guðs hefur stjórnað í þúsund ár er búið að frelsa hlýðna menn undan öllum óvinum sem Adam kallaði yfir mannkynið með óhlýðni sinni. Í Biblíunni segir: „Eins og allir deyja vegna sambands síns við Adam, svo munu allir lífgaðir verða vegna sambands síns við Krist. En sérhver í sinni röð: Kristur er frumgróðinn, næst koma þeir sem játa hann [meðstjórnendur hans] þegar hann kemur. Síðan kemur endirinn er Kristur selur ríkið Guði föður í hendur, er hann hefur að engu gert sérhverja tign, sérhvert veldi og kraft. Því að Kristur á að ríkja uns hann hefur lagt alla fjendurna að fótum sér. Dauðinn er síðasti óvinurinn sem verður að engu gerður.“ (1. Kor. 15:22-26) Dauðanum, sem við erfðum frá Adam, verður að lokum útrýmt. ,Hjúpurinn‘, sem hylur allt mannkynið núna, hefur þá verið fjarlægður fyrir fullt og allt. – Jes. 25:7, 8.
16 Páll postuli lýkur innblásinni samantekt sinni með eftirfarandi orðum: „Þegar allt hefur verið lagt undir hann mun og sonurinn sjálfur skipa sig undir föðurinn er lagði alla hluti undir hann svo að Guð verði allt í öllu.“ (1. Kor. 15:28) Markmiðinu með stjórn sonarins hefur verið náð. Það verður honum mikið gleðiefni að afsala vald sitt í hendur Jehóva og afhenda honum mannkyn sem er þá orðið fullkomið.
17. Hvað verður að lokum um Satan?
17 Hvað um Satan sem olli öllum þeim hörmungum sem mannkynið hefur mátt þola? Svarið er að finna í Opinberunarbókinni 20:7-15. Satan fær tækifæri til að reyna að afvegaleiða fullkomna menn í eins konar lokaprófraun. Satan og þeim sem fylgja honum verður útrýmt endanlega en það er kallað „hinn annar dauði“. (Opinb. 21:8) Þeim sem deyja þessum dauða hefur verið útrýmt fyrir fullt og allt þannig að „hinn annar dauði“ verður aldrei „að engu gerður“. Hann er hins vegar ekki óvinur þeirra sem elska skapara sinn og þjóna honum.
18. Hvernig verður verkefninu, sem Guð fékk Adam, lokið?
18 Allir menn verða þá fullkomnir, njóta velþóknunar Jehóva og eiga fyrir sér eilíft líf. Þeir eiga sér engan óvin. Verkefninu, sem Adam var falið, verður lokið án hans. Afkomendur hans fylla jörðina og njóta þess að annast hana og lífríki hennar. Við skulum alltaf vera Jehóva innilega þakklát fyrir að gera síðasta óvininn, dauðann, að engu.
a Í bókinni Insight on the Scriptures segir um leit vísindamanna að orsökum öldrunar og dauða: „Þeim yfirsést að það var skaparinn sjálfur sem dæmdi fyrstu hjónin til dauða en mennirnir skilja ekki til hlítar hvernig hann fullnægði dóminum.“ – 2. bindi, bls. 247.