„Hjarta yðar skelfist ekki“
„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig.“ — JÓHANNES 14:1.
1. Hvers vegna voru orð Jesú í Jóhannesi 14:1 mjög tímabær?
ÞAÐ var hinn 14. nísan árið 33. Lítill hópur manna hafði safnast saman í loftstofu í Jerúsalem eftir sólsetur. Leiðtogi þeirra var að leiðbeina þeim og hvetja í kveðjuskyni. Hann sagði meðal annars: „Hjarta yðar skelfist ekki.“ (Jóhannes 14:1) Orð hans voru mjög tímabær því að hræðilegir atburðir áttu eftir að gerast skömmu síðar. Þessa nótt var hann handtekinn, leiddur fyrir rétt og dæmdur til aftöku.
2. Hvers vegna var þetta svona mikill örlagadagur og hvað hjálpaði lærisveinunum?
2 Þú hefur fullt tilefni til að skoða þennan dag sem mesta örlagadag sögunnar, sem dag er breytti framtíð mannkynsins alls. Fórnardauði leiðtogans, Jesú, uppfyllti marga forna spádóma og lagði grundvöll að eilífu lífi þeirra sem trúðu á hann. (Jesaja 53:5-7; Jóhannes 3:16) En postularnir, steini lostnir og áttavilltir vegna hinna óhugnanlegu atburða næturinnar, urðu ráðvilltir og skelfdir um tíma. Pétur meira að segja afneitaði Jesú. (Matteus 26:69-75) Eftir að hinir trúföstu postular fengu hjálparann, sem þeim hafði verið heitið, heilagan anda, urðu þeir hins vegar djarfir og öruggir. (Jóhannes 14:16, 17) Þegar Pétur og Jóhannes mættu harðri andspyrnu og voru settir í varðhald báðu þeir því Guð um hjálp til að tala orð hans af ‚fullri djörfung.‘ Bæn þeirra var svarað. — Postulasagan 4:1-3, 29-31.
3. Hvers vegna eru svo margir áhyggjufullir eða í vanda staddir nú á dögum?
3 Við búum í heimi sem er í miklum vanda staddur. Endalok þessa gamla heimskerfis nálgast óðfluga. (1. Tímóteusarbréf 3:1-5) Milljónir manna eru ráðvilltar eða þekkja af eigin raun hve fjölskylduheildin eru orðin ótraust eða siðferði manna hefur hrakað, hve uggvænlega undarlegir sjúkdómar hafa færst í aukana, eða þá hin tíðu, pólitísku veðrabrigði, atvinnuleysið, matvælaskortinn, hryðjuverkin og óttann við kjarnorkustyrjöld. Hjörtu margra eru dauðskelfd við það sem framtíðin kann að bera í skauti sér. Eins og Jesús sagði fyrir ríkir ‚angist þjóða og menn gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því er koma mun yfir heimsbyggðina.‘ — Lúkas 21:25, 26.
4. Hvað getur valdið kristnum manni streitu og erfiðleikum?
4 Jafnvel kristnir menn geta orðið fyrir verulegum áhrifum af þessum erfiðleikum. Þeir geta auk þess þurft að taka trúarfordómum eða andstöðu ættingja sinna, nágranna, vinnufélaga, skólafélaga og yfirvalda. (Matteus 24:9) Hvernig getum við haldið stillingu okkar og jafnaðargeði á þessum erfiðu tímum? Hvernig getum við haft hugarró þegar í móti blæs? Hvernig getum við horft með trúartrausti til framtíðarinnar? Hvað getur hjálpað okkur að sigrast á þeim þungu áhyggjum sem eru að verða daglegt brauð? Nú er runnin upp sú árstíð þegar Jesús gaf þau heilræði sem skráð eru í Jóhannesi 14:1. Við skulum því athuga þau gaumgæfilega.
Hvernig getum við sigrast á áhyggjum?
5. Hvaða hvatningu veitir Ritningin okkur?
5 Eftir að Jesús hafði hvatt postula sína hlýlega til að láta ‚hjörtu sín ekki skelfast‘ sagði hann þeim: „Trúið á Guð og trúið á mig.“ (Jóhannes 14:1) Hin innblásna ritning veitir okkur svipaða hvatningu víða: „Varpa áhyggjum þínum á [Jehóva], hann mun bera umhyggju fyrir þér.“ „Fel [Jehóva] vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.“ (Sálmur 55:23; 37:5) Páll ráðlagði Filippímönnum þetta: „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar.“ — Filippíbréfið 4:6, 7.
6, 7. (a) Hvernig meðal annars er hægt að draga úr streitu? (b) Hvernig getum við ræktað náin tengsl við Jehóva?
6 Vandamál og þung ábyrgð, sem á okkur hvílir, getur stundum valdið okkur áhyggjum sem getur haft áhrif á heilsu okkar og hugarfar. Sérmenntaður læknir segir hins vegar í bók sinni Don’t Panic: „Ef fólk getur talað um vandamál sín við einhvern sem það ber virðingu fyrir . . . dregur það oft verulega úr streitunni.“ Ef sú regla gildir um samskipti við annan mann hlýtur það að vera okkur miklu meiri hjálp að tala við Guð. Fyrir hverjum getum við borið dýpri virðingu en Jehóva?
7 Þess vegna er náið einkasamband við hann svo þýðingarmikið fyrir kristna nútímamenn. Þroskuðum þjónum Guðs er það vel ljóst og því forðast þeir vendilega þess konar samskipti við veraldlegt fólk eða þess konar tómstundagaman sem gæti veikt það samband. (1. Korintubréf 15:33) Þeir gera sér líka ljóst hve þýðingarmikið er að ávarpa Jehóva í bæn, ekki aðeins einu sinni eða tvisvar á dag heldur oft. Ungir kristnir menn eða nýir í trúnni þurfa að leggja sérstaka rækt við þessi nánu tengsl við Jehóva, með því að nema og íhuga orð hans reglulega og með kristnum félagsskap og þjónustu. Við erum hvött: „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður.“ — Jakobsbréfið 4:8.
Heilræði sem Jesús gaf
8, 9. Hvaða jákvæðum ráðum um fjárhagsörðugleika getum við fylgt?
8 Víða um lönd eru atvinnuleysi og efnahagsörðugleikar mönnum alvarlegt áhyggjuefni. Jesús gaf mjög jákvæðar ráðleggingar í sambandi við þessi áhyggjuefni: „Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin?“ (Matteus 6:25) Já, lífið og líkaminn, maðurinn í heild, er margfalt þýðingarmeiri en fæði og klæði. Þjónar Guðs mega vera vissir um að hann muni hjálpa þeim að afla sér brýnustu nauðsynja. Jesús nefndi þetta dæmi: „Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim?“ (Matteus 6:26) Það er óhugsandi að Guð sjái fyrir fuglum himinsins en vanræki mennska þjóna sína sem eru honum afar dýrmætir og Kristur lagði lífið í sölurnar fyrir.
9 Jesús undirstrikaði það með því að minnast þessu næst á liljur vallarins sem hvorki vinna né spinna, en þó var „jafnvel Salómon í allri sinni dýrð . . . ekki svo búinn sem ein þeirra.“ Stjórnartíð Salómons konungs var víðkunn fyrir glæsileik sinn. Jesús spurði síðan: „Skyldi [Guð] þá ekki miklu fremur klæða yður?“ — Matteus 6:28-32; Ljóðaljóðin 3:9, 10.
10. (a) Hverja ávarpaði Jesús með hvatningarorðum sínum? (b) Hvað ráðlagði hann viðvíkjandi framtíðinni?
10 Jesús bendir síðan á að þetta eigi þó einungis við þá sem ‚leita fyrst ríkis hans og réttlætis.‘ Út um allan heim gera sannkristnir menn sér ljósa grein fyrir hvað Guðsríki í rauninni er og láta það hafa forgang fram yfir annað í lífi sínu. Áminning Jesú á við þá: „Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.“ (Matteus 6:33, 34) Við eigum með öðrum orðum að taka á hverju vandamáli þegar það kemur upp en ekki gera okkur óþarfar áhyggjur af framtíðinni.
11, 12. Hvernig finnst sumum kristnum mönnum Jehóva hafa hjálpað sér til svars við bænum sínum?
11 Flestir hafa þó tilhneigingu til að gera sér áhyggjur af framtíðinni, einkanlega þegar eitthvað fer úrskeiðis í lífinu. En kristnir menn bæði geta og ættu að snúa sér í trú til Jehóva. Lítum á Eleanor sem dæmi. Maðurinn hennar var fárveikur og óvinnufær í heilt ár. Hún hafði fyrir tveim ungum börnum og öldruðum föður að sjá og gat því ekki unnið fulla vinnu utan heimilis. Þau báðu Jehóva um hjálp. Einn morgun skömmu síðar fundu þau umslag sem stungið hafði verið undir hurðina. Í því var stór fjárupphæð — nóg til að halda þeim uppi þangað til maðurinn varð vinnufær á ný. Þau fundu fyrir djúpri þakkarkennd fyrir þessa tímabæru hjálp. Við höfum að vísu engan biblíulegan grundvöll til að búast við því að eitthvað þessu líkt muni koma upp í hendurnar á sérhverjum kristnum manni, sem þurfandi er, en við megum vera viss um að Jehóva heyri neyðaróp okkar og sé fær um að aðstoða okkur á margvíslega vegu.
12 Kristin ekkja í suðurhluta Afríku þurfti að leitar sér að vinnu til að sjá tveim ungum börnum sínum farborða. Hún þráði innilega að geta unnið aðeins hálfan daginn til að hún gæti notað meiri tíma með þeim. Hún fékk vinnu en neyddist síðan til að segja henni upp þegar forstjórinn komst að þeirri niðurstöðu að hann þyrfti að hafa ritara í fullu starfi. Systirin var aftur orðin atvinnulaus og bað Jehóva einlæglega um hjálp. Þrem vikum síðar hafði fyrrverandi vinnuveitandi hennar samband og bað hana að koma aftur í vinnu hálfan daginn. Það varð henni mikið gleðiefni og henni fannst Jehóva hafa svarað bænum sínum.
Ákallaðu Jehóva
13. (a) Hvað er átt við með ‚ákalli‘? (b) Hvaða dæmi um áköll höfum við úr Ritningunni?
13 Veittu því athygli að þegar Páll hefur hvatt okkur til að ‚vera ekki hugsjúkir um neitt‘ bætir hann við: „Heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.“ (Filippíbréfið 4:6) Hvað er átt við með „beiðni“? Það orð, sem svo er þýtt, merkir „bón, beiðni; þrábeiðni“ eða ‚auðmjúk bæn, ákall.‘ Það merkir að sárbæna Guð um eitthvað, eins og til dæmis þegar við erum í mikilli hættu eða nauðum. Þegar Páll var fangi bað hann kristna bræður sína að biðja þannig fyrir sér svo að hann gæti óttalaust prédikað ‚fagnaðarerindið sem boðberi í fjötrum.‘ (Efesusbréfið 6:18-20) Rómverski hundraðshöfðinginn Kornelíus var einnig „jafnan á bæn við Guð.“ Hann hlýtur að hafa orðið yfir sig glaður þegar engill birtist honum og sagði: „Bænir þínar og ölmusur eru stignar upp til Guðs.“ Það voru mikil sérréttindi fyrir hann að vera einn hinna fyrstu af þjóðunum sem var smurður heilögum anda! — Postulasagan 10:1-4, 24, 44-48.
14. Nægir okkur að ákalla Jehóva aðeins einu sinni út af einhverju máli?
14 Vert er að gefa því gaum að slík innilega áköll til Jehóva eru yfirleitt ekki gerð bara einu sinni. Jesús kenndi í sinni frægu fjallræðu: „Haldið áfram að biðja og ykkur mun gefast; haldið áfram að leita og þið munuð finna; haldið áfram að knýja á og lokið verður upp fyrir ykkur.“ (Matteus 7:7, NW) Í mörgum biblíuþýðingum segir: „Biðjið . . . leitið . . . knýið á,“ en frumgríski textinn felur í sér hugmyndina um áframhaldandi verknað.a
15. (a) Hvers vegna var Nehemía dapur þegar hann færði Artaxersesi konungi vínið? (b) Hvað meira hafði Nehemía gert en að bera fram stutta bæn?
15 Þegar Nehemía þjónaði sem byrlari Artaxersesar konungs spurði konungur hvers vegna hann væri svona dapur. Nehemía svaraði að það væri vegna þess að hann hefði frétt að Jerúsalem væri í rústum. Þá spurði konungur: „Hvers beiðist þú þá?“ Samstundis bað Nehemía Jehóva um hjálp, vafalaust mjög stutt og í hljóði. Síðan bað hann um leyfi til að fara heim til Jerúsalem og endurreisa hina ástkæru heimaborg sína. Honum var veitt beiðnin. (Nehemía 2:1-6) En fyrir þetta þýðingarmikla samtal hafði Nehemía dögum saman sárbænt og ákallað Jehóva um hjálp. (Nehemía 1:4-11) Getur þú dregið einhvern lærdóm af því?
Jehóva svarar
16. (a) Hvaða sérréttinda varð Abraham aðnjótandi? (b) Hvaða öflug hjálp stendur okkur til boða tengd því að fá bænum okkar svarað?
16 Fyrir kom að Abraham naut þeirra sérréttinda að eiga samtal við Jehóva fyrir milligöngu engla. (1. Mósebók 22:11-18; 18:1-33) Þótt slíkt gerist ekki nú á dögum höfum við margvíslega, öfluga hjálp sem Abraham naut ekki. Eitt þeirra hjálpargagna er Biblían í heild sinni — en hún er okkur óþrjótandi uppspretta leiðsagnar og hughreystingar. (Sálmur 119:105; Rómverjabréfið 15:4) Mjög oft getur Biblían gefið okkur þá leiðsögn eða hvatningu sem við þurfum og Jehóva hjálpar okkur að muna eftir þeim ritningargreinum sem um er að ræða. Algengt er að orðstöðulykill eða eitt af hinum mörgu biblíuritum, sem Guð hefur gefið í gegnum skipulag sitt, geti svarað spurningum okkar. Ítarleg atriða- og efnisskrá að þessum ritum er annað ómetanlegt hjálpargagn til að finna þær upplýsingar sem á þarf að halda.
17. Með hvaða öðrum hætti getur Jehóva svarað bænum okkar og hvernig geta góðviljaðir, samúðarfullir kristnir menn hjálpað?
17 Ef eitthvert vandamál angrar okkur, eða séum við döpur og niðurdregin, getur Jehóva svarað bænum okkar á aðra vegu. Til dæmis getur biblíuræða á samkomu eða móti votta Jehóva verið það „lækningalyf“ sem okkur vantaði. Rabb við annan kristinn mann getur stundum gefið okkur það sem við þörfnumst. Oft á tíðum geta öldungar safnaðarins veitt okkur hvatningu eða góð ráð. Jafnvel það eitt að létta af hjarta okkar við þroskaðan, góðviljaðan og samúðarfullan kristinn mann, sem hlustar vel á okkur, getur oft látið okkur líða miklu betur. Einkanlega getur það gert okkur gott ef þessi vinur hjálpar okkur að íhuga ýmis atriði úr Biblíunni. Samtal af því tagi getur létt þungu fargi af hugum okkar og hjörtum. — Orðskviðirnir 12:25; 1. Þessaloníkubréf 5:14.
18. Hvaða starf getur hjálpað kristnum manni að vinna bug á stundlegum dapurleika og hvernig hjálpaði það ungum brautryðjanda?
18 Ýmiss konar depurð og þunglyndi er algengt núna á þessum ‚örðugu tíðum.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Fólk verður niðurdregið og dapurt af ýmsum orsökum. Það getur hent kristna menn líka og getur verið afar erfið lífsreynsla. Mörgum hefur þó reynst prédikun fagnaðarerindisins góð hjálp til að hrista af sé tímabundið slen eða dapurleika.b Hefur þú reynt það? Ef þú ert eilítið niðurdreginn, reyndu þá að taka með einhverjum hætti þátt í þjónustunni við Guðsríki. Það að tala við aðra um ríki Guðs getur oft hjálpað þér að breyta neikvæðu hugarástandi í jákvætt. Það að tala um Jehóva og nota orð hans getur veitt þér gleði — ávöxt anda hans — og látið þér líða betur. (Galatabréfið 5:22) Ung brautryðjandasystir komst einnig að raun um, með því að vera önnum kafin í starfi Guðsríkis, að „[hennar] eigin vandamál voru agnarsmá og stundleg í samanburði við vandamál annarra.“
19. Hvernig tókst heilsutæpum kristnum manni að sigrast á neikvæðum hugsunum?
19 Stundum getur heilsubrestur, ef til vill samfara áhyggjum eða erfiðleikum, leitt til dapurleika eða þunglyndis. Það getur haft í för með sér að kristinn maður vakni áhyggjufullur að nóttu og liggi andvaka eins og stundum henti heilsutæpan, miðaldra kristinn mann. En hann komst að raun um að innileg bæn var honum mikil hjálp. Hvenær sem hann vaknaði og leið illa bað hann með stillingu til Jehóva. Fljótlega á eftir fór honum að líða betur. Honum fannst það einnig róandi að fara með eftir minni hughreystandi ritningarstaði, svo sem Sálm 23. Það brást ekki að andi Jehóva léti dapurleika hans víkja fyrir léttari lund, annaðhvort sem svar við bænum hans eða þá í gegnum orð hans. Síðar gat maðurinn hugsað með jafnvægi og stillingu um vandamál sín og þá séð hvernig sigrast mætti á þeim eða öðlast styrk til að bera þau.
20. Hvers vegna getur okkur stundum virst sem svarið við bænum okkar dragist á langinn?
20 Þetta er dæmi um hvernig Jehóva getur svarað bæn. En stundum virðist lausnin ætla að láta á sér standa. Hvers vegna? Kannski þurfum við að bíða þess að tími Guðs komi til að svara bæninni. Svo virðist sem Guð leyfi þjónum sínum stundum að sýna hve djúpt umhyggja þeirra ristir, hve sterk þrá þeirra er og hve ósvikin guðrækni þeirra. Einn af sálmariturunum fékk að reyna það! — Sálmur 88:14, 15; samanber 2. Korintubréf 12:7-10.
21. Hvers vegna eru það mikil sérréttindi að vera einn votta Jehóva nú á dögum og hvernig getum við sýnt að við metum það að verðleikum?
21 Hvað sem öllu öðru líður er trúnaðarsamband við alvaldan Guð í bæn trústyrkjandi og getur veitt örvæntingarfullum manni von og hugrekki. Það er mjög hughreystandi að vita að Guð heyrir bænir okkar og svarar þeim! Eins og Páll skrifaði söfnuðinum í Filippí ættum við að bera fram bænir okkar og áköll ásamt „þakkargjörð.“ (Filippíbréfið 4:6) Já, við ættum daglega að opna hjörtu okkar í þakklæti til Jehóva og ‚þakka alla hluti.‘ (1. Þessaloníkubréf 5:18) Það mun stuðla að innilegu og hlýju vináttubandi og veita okkur frið í huga og hjarta. Greinin á eftir mun vekja athygli á hve þýðingarmikið það er fyrir þjóna Jehóva á þeim örðugu og hættulegu tímum sem við lifum.
[Neðanmáls]
a Í samræmi við nákvæmni Nýheimsþýðingarinnar þýðir Charles D. Williams versið svo: „Haldið áfram að biðja . . . haldið áram að leita . . . haldið áfram að knýja dyra og dyrnar verða opnaðar.“ — The New Testament: A Translation in the Language of the People.
b Stundlegur eða tímabundinn dapurleiki er annað en langvint þunglyndi sem er miklu alvarlegra og flóknara tilfinninga- eða hugarástand. Sjá Vaknið! í janúar-mars 1988, bls. 3-16.
Hverju svarar þú?
◻ Hvað getur valdið kristnum manni hugarangri?
◻ Hvað getur hjálpað okkur að yfirstíga áhyggjur?
◻ Hvað getur hjálpað kristnum mönnum að fullvissa sig um að Guð muni sjá þeim fyrir brýnustu nauðsynjum?
◻ Hvað merkir ‚ákall‘ og hvernig sést af dæmum úr fortíðinni með hvaða hætti Jehóva svarar þeim?
◻ Á hvaða mismunandi vegu getur Jehóva svarað bænum okkar?
[Mynd á blaðsíðu 24]
‚Ykkar himneski faðir fæðir fuglana. Eru þið ekki miklu meira virði en þeir?‘