Kafli 25
Jesús miskunnar holdsveikum manni
ÞEGAR Jesús og lærisveinarnir fjórir fara um borgir og bæi Galíleu berast fréttirnar af undursamlegum verkum hans út um héraðið. Í einni borginni, þangað sem fréttirnar berast, er holdsveikur maður. Lúkas læknir segir að hann hafi verið „altekinn líkþrá.“ Þetta er hræðilegur sjúkdómur sem afmyndar ýmsa líkamshluta smám saman er hann ágerist. Holdsveiki maðurinn er því aumkunarverður.
Maðurinn nálgast Jesú þegar hann kemur til borgarinnar. Samkvæmt lögmáli Guðs á holdsveikur maður að hrópa: „Óhreinn, óhreinn!“ til að vara aðra við og hindra að þeir komi of nálægt honum og eigi á hættu að smitast. Holdsveiki maðurinn fellur fram á andlit sér og sárbænir Jesú: „Herra, ef þú vilt, getur þú hreinsað mig.“
Maðurinn hefur greinilega mikla trú á Jesú! En hann hlýtur að vera aumkunarverður ásýndar vegna sjúkdómsins. Hvað gerir Jesús? Hvað hefðir þú gert? Jesús kennir í brjósti um manninn, réttir út höndina, snertir hann og segir: „Ég vil, verð þú hreinn!“ Og jafnskjótt læknast hann af holdsveikinni.
Gætir þú hugsað þér að hafa konung sem sýnir slíka meðaumkun? Framkoma Jesú við holdsveika manninn veitir okkur það traust að eftirfarandi biblíuspádómur rætist þegar Jesús ríkir sem konungur: „Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.“ Já, Jesús mun þá hjálpa öllum þjáðum eins og hann þráir í hjarta sér.
Þjónusta Jesú hefur vakið mikla eftirvæntingu meðal manna jafnvel áður en hann læknar holdsveika manninn. Jesús uppfyllir nú spádóm Jesaja og segir læknaða manninum: „Gæt þess að segja engum neitt.“ Svo bætir hann við: „Far þú, sýn þig prestinum og fórna fyrir hreinsun þína því, sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar.“
En maðurinn er svo glaður að hann getur ekki þagað yfir kraftaverkinu. Hann gengur burt og segir tíðindin alls staðar og vekur greinilega slíkan áhuga og forvitni meðal manna að Jesús getur ekki komið opinberlega í neina borg. Hann hefst því við á óbyggðum stöðum og menn koma til hans hvaðanæva til að hlýða á hann og læknast af sjúkdómum sínum. Lúkas 5:12-16; Markús 1:40-45; Matteus 8:2-4; 3. Mósebók 13:45; 14:10-13; Sálmur 72:13; Jesaja 42:1, 2.
▪ Hvers konar sjúkdómur er holdsveiki og hvernig átti holdsveikur maður að vara aðra við?
▪ Hvernig biður holdsveikur maður Jesú að hjálpa sér og hvað lærum við af svari Jesú?
▪ Hverju hlýðir læknaði maðurinn ekki og með hvaða afleiðingum?