NÁMSGREIN 47
Hversu sterk mun trú þín reynast?
„Verið ekki áhyggjufullir. Trúið á Guð.“ – JÓH. 14:1.
SÖNGUR 119 Við verðum að hafa trú
YFIRLITa
1. Hvaða spurningar gætum við spurt okkur?
VERÐUR þú stundum kvíðinn þegar þú hugsar til atburða sem bíða okkar í framtíðinni – eyðingar falskra trúarbragða, árásar Gógs í Magóg og Harmagedónstríðsins? Spyrðu þig stundum hvort þú getir staðið trúfastur þegar þessir óttalegu atburðir eiga sér stað? Ef þú hefur velt þessu fyrir þér mun umfjöllunin um það sem Jesús sagði í lykilversi greinarinnar koma þér að miklu gagni. Jesús sagði við lærisveina sína: „Verið ekki áhyggjufullir. Trúið á Guð.“ (Jóh. 14:1) Sterk trú mun hjálpa okkur að mæta því sem framtíðin ber í skauti sér af hugrekki.
2. Hvernig getum við styrkt trú okkar og hvað skoðum við í þessari grein?
2 Við getum styrkt trú okkar til að standast prófraunir í framtíðinni með því að hugleiða hvernig við tökumst á við prófraunir núna. Þegar við skoðum hvernig við bregðumst við prófraunum núna getum við komið auga á svið þar sem við þurfum að styrkja trú okkar. Í hvert skipti sem við stöndumst prófraun styrkist trú okkar. Það hjálpar okkur að halda út í prófraunum síðar meir. Í þessari grein skoðum við ferns konar aðstæður þar sem lærisveinar Jesú áttuðu sig á að þeir þyrftu á meiri trú að halda. Síðan skoðum við hvernig við gætum staðið frammi fyrir svipuðum erfiðleikum og hvernig það getur búið okkur undir framtíðina.
TRÚ Á ÞVÍ AÐ GUÐ SJÁI FYRIR EFNISLEGUM ÞÖRFUM OKKAR
3. Hvað tók Jesús skýrt fram varðandi trú samkvæmt Matteusi 6:30, 33?
3 Það er eðlilegt að höfuð fjölskyldunnar vilji sjá eiginkonu sinni og börnum fyrir fæði, klæði og húsnæði. Þetta er ekki alltaf auðvelt á þessum erfiðu tímum. Í sumum tilfellum hafa trúsystkini okkar misst vinnuna og ekki fundið aðra vinnu þrátt fyrir mikla leit. Önnur trúsystkini hafa þurft að hafna vinnu sem þjónar Guðs geta ekki tekið að sér. Í slíkum tilfellum þurfum við að trúa því staðfastlega að Jehóva sjái til þess með einhverjum hætti að fjölskylda okkar hafi það sem hún þarf. Jesús gerði lærisveinum sínum þetta alveg ljóst í fjallræðunni. (Lestu Matteus 6:30, 33) Ef við erum algerlega sannfærð um að Jehóva yfirgefi okkur ekki getum við beint athygli okkar að því sem er mikilvægt – hagsmunum Guðsríkis. Þegar við sjáum hvernig Jehóva annast efnislegar þarfir okkar verður hann okkur raunverulegri og það styrkir trú okkar.
4, 5. Hvað hjálpaði fjölskyldu að takast á við áhyggjur af efnislegum þörfum?
4 Skoðum hvernig fjölskylda í Venesúela fékk hjálp frá Jehóva til að takast á við áhyggjur af efnislegum þörfum. Um tíma aflaði fjölskylda bróður Miguels Castro nauðsynja með því að rækta jörðina sem þau áttu. Þá kom vopnað glæpagengi og hrakti fjölskylduna af jörðinni. Miguel segir: „Við reiðum okkur að miklu leiti á það sem við ræktum á litlum landskika sem við höfum að láni. Ég byrja alltaf daginn á því að biðja Jehóva að gefa okkur það sem við þurfum þann daginn.“ Lífið er erfitt hjá þessari fjölskyldu en hún hefur fulla trú á að ástríkur faðir okkar geti annast efnislegar þarfir hennar daglega og hún sækir reglulega samkomur og tekur þátt í boðuninni. Þjónustan við Jehóva er það mikilvægasta í lífi fjölskyldunnar og Jehóva sér henni fyrir því sem hún þarf.
5 Miguel og Yurai eiginkona hans hafa á þessum erfiðu tímum skýrt í huga hvernig Jehóva hefur séð um þau. Stundum hefur Jehóva fyrir atbeina trúsystkina séð þeim fyrir sumu af því sem þau þurfa eða hjálpað Miguel að finna vinnu. Og stundum hefur Jehóva séð þeim fyrir nauðsynjum með neyðaraðstoð frá deildarskrifstofunni. Jehóva hefur aldrei yfirgefið þau. Fyrir vikið hefur trú fjölskyldunnar styrkst. Eftir að Jehóva hafði hjálpað þeim eitt sinn sagði elsta dóttirin Yoselin: „Það snertir mig að sjá hönd Jehóva svona skýrt. Fyrir mér er hann vinur sem ég get alltaf treyst á.“ Hún bætir við: „Prófraunirnar sem við fjölskyldan höfum gengið í gegnum hafa búið okkur undir erfiðari prófraunir í framtíðinni.“
6. Hvernig geturðu styrkt trú þína þegar þú stendur frammi fyrir fjárhagserfiðleikum?
6 Ertu í fjárhagserfiðleikum? Það getur verið erfitt. En þótt aðstæður þínar séu erfiðar geturðu notað tækifærið til að styrkja trú þína. Lestu í bænarhug það sem Jesús sagði í Matteusi 6:25–34 og hugleiddu það. Skoðaðu reynslusögur úr nútímanum sem sýna að Jehóva sér fyrir þeim sem eru uppteknir í þjónustu hans. (1. Kor. 15:58) Þegar þú gerir það styrkirðu trú þína á að himneskur faðir þinn, Jehóva, hjálpi þér rétt eins og hann hefur hjálpað öðrum sem glíma við svipuð vandamál og þú. Hann veit hvers þú þarfnast og hvernig er hægt að útvega það. Þegar þú finnur að Jehóva hjálpar þér styrkist trú þín þannig að þú getur tekist á við meiri prófraunir í framtíðinni. – Hab. 3:17, 18.
TRÚ TIL AÐ KOMAST Í GEGNUM STORMA LÍFSINS
7. Hvernig reyndi stormur á trú lærisveinanna samkvæmt Matteusi 8:23–26?
7 Þegar Jesús og lærisveinar hans lentu í stormi úti á vatni notaði Jesús tækifærið til að hjálpa þeim að sjá á hvaða sviðum þeir þyrftu sterkari trú. (Lestu Matteus 8:23–26.) Stormurinn var svo mikill að öldurnar gengu yfir bátinn en Jesús svaf rólegur. Þegar skelfingu lostnir lærisveinarnir vöktu hann og báðu hann um að bjarga sér áminnti hann þá mildilega: „Af hverju eruð þið svona hræddir, þið trúlitlu menn?“ Óttaslegnir lærisveinarnir hefðu átt að vita að Jehóva var fullkomlega fær um að vernda Jesú og þá sem voru með honum. Hvað getum við lært af þessu? Sterk trú getur hjálpað okkur að komast í gegnum hvaða storm lífsins sem er.
8, 9. Hvernig reyndi á trú Anel og hvað hjálpaði henni?
8 Skoðum hvernig Anel, einhleyp systir frá Púertó Ríkó, fékk sterkari trú þegar hún gekk í gegnum erfiða prófraun. Hún lenti í bókstaflegum stormi. Þetta byrjaði allt árið 2017 þegar fellibylurinn Maria lagði heimili hennar í rúst. Hann varð líka til þess að hún missti vinnuna. „Ég var kvíðin á þessum tíma,“ viðurkennir Anel. „En ég lærði að treysta á Jehóva með hjálp bænarinnar og lét ekki kvíðann lama mig.“
9 Anel nefnir annað sem hjálpaði henni að takast á við erfiðleikana – hlýðni. Hún segir: „Að fylgja leiðbeiningum safnaðarins hjálpaði mér að vera róleg. Ég sá hönd Jehóva þegar bræður og systur uppörvuðu mig og færðu mér það sem ég þurfti af nauðsynjum.“ Hún bætir við: „Jehóva gaf mér miklu meira en ég gat jafnvel beðið um og trú mín styrktist verulega.“
10. Hvað geturðu gert ef þú átt við mjög erfitt vandamál að glíma?
10 Ertu að ganga í gegnum storm í þínu lífi? Þú þarft kannski að þola erfiðleika vegna náttúruhamfara. Eða þá að þú glímir við erfið veikindi sem þér finnst yfirþyrmandi og þú veist ekki hvað þú átt að gera. Þú ert kannski stundum áhyggjufullur en láttu ekki áhyggjurnar koma í veg fyrir að þú treystir á Jehóva. Nálægðu þig honum í innilegri bæn. Styrktu trú þína með því að hugleiða hvernig Jehóva hefur hjálpað þér áður. (Sálm. 77:12, 13) Þú getur verið viss um að Jehóva mun ekki yfirgefa þig. Ekki núna – ekki nokkurn tíma.
11. Hvers vegna ættum við að vera ákveðin í að vera hlýðin þeim sem fara með forystuna?
11 Hvað fleira getur hjálpað þér að takast á við erfiðleika? Hlýðni, eins og Anel benti á. Lærðu að treysta þeim sem Jehóva og Jesús treysta. Stundum gætu leiðbeiningar frá þeim sem eru útnefndir til að gefa þær verið órökréttar. En Jehóva blessar hlýðni. Við sjáum í orði hans og af reynslu trúfastra þjóna hans að hlýðni bjargar mannslífum. (2. Mós. 14:1–4; 2. Kron. 20:17) Hugleiddu slík dæmi. Þegar þú gerir það styrkir þú löngun þína til að fylgja leiðbeiningum frá söfnuðinum núna og í framtíðinni. (Hebr. 13:17) Þá hefurðu ekki neina ástæðu til að óttast þrenginguna miklu sem nálgast óðum. – Orðskv. 3:25.
TRÚ TIL AÐ ÞOLA ÓRÉTTLÆTI
12. Hvaða tengsl eru milli þess að trúa og þola óréttlæti samkvæmt Lúkasi 18:1–8?
12 Jesús vissi að óréttlæti myndi reyna á trú lærisveina sinna. Til að hjálpa þeim að takast á við það sagði hann þeim dæmisögu sem er að finna í Lúkasarguðspjalli. Jesús sagði sögu af ekkju sem sárbændi stöðugt ranglátan dómara um réttlæti. Hún var viss um að hann myndi á endanum hjálpa sér ef hún gæfist ekki upp. Að lokum brást dómarinn við bón hennar. Hvað lærum við? Jehóva er ekki óréttlátur. Jesús sagði því: „Mun Guð þá ekki láta sína útvöldu, sem hrópa til hans dag og nótt, ná rétti sínum?“ (Lestu Lúkas 18:1–8.) Hann bætti við: „En skyldi Mannssonurinn finna slíka trú á jörð þegar hann kemur?“ Þegar við verðum fyrir óréttlæti þurfum við að sýna með þolinmæði og þrautseigju að við höfum sterka trú eins og ekkjan. Með slíka trú getum við verið viss um að Jehóva kemur okkur til hjálpar fyrr eða síðar. Við þurfum líka að trúa á styrk bænarinnar. Við gætum fengið óvænt svar við bænum okkar.
13. Hvernig hjálpaði bænin fjölskyldu sem þurfti að þola óréttlæti?
13 Skoðum reynslu systur sem heitir Vero og býr í Alþýðulýðveldinu Kongó. Vero, eiginmaður hennar sem er ekki vottur og 15 ára gömul dóttir þeirra þurftu að flýja þorpið sitt þegar hópur hermanna réðst á það. Á leiðinni komu þau að vegatálma þar sem hermenn stoppuðu þau og hótuðu að taka þau af lífi. Þegar Vero brast í grát reyndi dóttir hennar að róa hana með því að biðja upphátt og nefna nafn Jehóva aftur og aftur í bæninni. Þegar hún hafði lokið henni spurði herforinginn: „Unga stúlka, hver kenndi þér að biðja?“ Hún svaraði: „Mamma mín gerði það með því að nota bænina sem er að finna í Matteusi 6:9–13.“ Þá sagði herforinginn: „Unga stúlka, farðu með foreldrum þínum í friði og megi Jehóva Guð ykkar vernda ykkur.“
14. Hvað gæti reynt á trú okkar og hvað gæti hjálpað okkur að halda út?
14 Slíkar frásögur kenna okkur að vanmeta aldrei gildi bænarinnar. En hvað ef þú færð ekki svar við bænum þínum fljótt eða með áhrifaríkum hætti? Haltu áfram að biðja eins og ekkjan í dæmisögu Jesú, fullviss um að Jehóva yfirgefi þig ekki og að hann svari bæninni á ákveðnum tíma og með ákveðnum hætti. Haltu áfram að sárbiðja Jehóva um heilagan anda hans. (Fil. 4:13) Mundu að innan tíðar mun Jehóva blessa þig ríkulega og þú munt gleyma öllum þjáningum. Þegar þú kemst trúfastur í gegnum prófraunir með hjálp Jehóva styrkistu og þú getur staðist prófraunirnar sem eru fram undan. – 1. Pét. 1:6, 7.
TRÚ TIL AÐ HALDA ÁFRAM ÞRÁTT FYRIR HINDRANIR
15. Hvaða erfiðleikum stóðu lærisveinar Jesú frammi fyrir eins og kemur fram í Matteusi 17:19, 20?
15 Jesús kenndi lærisveinum sínum að trú myndi hjálpa þeim að yfirstíga hindranir. (Lestu Matteus 17:19, 20.) Eitt sinn gátu þeir ekki rekið út illan anda þótt þeir hefðu gert það við önnur tækifæri með góðum árangri. Hvert var vandamálið? Jesús sagði að þá skorti trú. Hann sagði að hefðu þeir næga trú gætu þeir rutt hindrunum úr vegi sem væru eins og fjöll. Við getum líka staðið frammi fyrir hindrunum sem virðast óyfirstíganlegar.
16. Hvernig hefur trúin hjálpað Geydi að vinna úr ógæfu og mikilli sorg?
16 Taktu eftir fordæmi Geydi en hún er systir frá Gvatemala. Edi eiginmaður hennar var myrtur þegar þau voru á leiðinni heim af samkomu. Hvernig hefur trú Geydi hjálpað henni að takast á við þessa miklu sorg? Hún segir: „Bænin hjálpar mér að varpa áhyggjum mínum á Jehóva og það veitir mér frið. Jehóva sér um mig fyrir atbeina fjölskyldunnar og vina í söfnuðinum. Að vera upptekin í þjónustu Jehóva dregur úr sársaukanum. Það hjálpar mér að taka einn dag í einu og hafa ekki of miklar áhyggjur. Þetta hefur kennt mér að með hjálp Jehóva, Jesú og safnaðarins kemst ég í gegnum hvaða prófraunir sem eiga eftir að koma.“
17. Hvað getum við gert þegar við stöndum frammi fyrir fjallháum hindrunum?
17 Ertu í sorg vegna þess að þú hefur misst ástvin? Taktu þér tíma til að styrkja trú þína á upprisuvonina með því að lesa frásögur Biblíunnar um þá sem fengu upprisu. Ertu sorgmæddur vegna þess að einhverjum í fjölskyldunni hefur verið vikið úr söfnuðinum? Sannaðu fyrir sjálfum þér með sjálfsnámi að agi Guðs er alltaf fyrir bestu. Hvert sem vandamál þitt er skaltu líta á það sem tækifæri til að byggja upp trú þína. Úthelltu hjarta þínu fyrir Jehóva. Einangraðu þig ekki heldur haltu þig nálægt bræðrum þínum og systrum. (Orðskv. 18:1) Taktu þátt í því sem hjálpar þér að halda út jafnvel þótt þú gerir það með tárum. (Sálm. 126:5, 6) Haltu áfram að sækja samkomur, boða trúna og lesa í Biblíunni. Hugsaðu um þá blessun sem Jehóva hefur lofað þér í framtíðinni. Þegar þú sérð hvernig Jehóva hjálpar þér styrkist trú þín á hann enn meira.
„GEFÐU OKKUR MEIRI TRÚ“
18. Hvað geturðu gert ef þú finnur að trú þín er ekki nógu sterk?
18 Ef prófraunir nú eða áður leiða í ljós að trú þín er ekki nógu sterk skaltu ekki missa kjarkinn. Líttu á þetta sem tækifæri til að styrkja trú þína. Biddu til Jehóva eins og lærisveinar Jesú gerðu: „Gefðu okkur meiri trú.“ (Lúk. 17:5) Veltu því líka fyrir þér hvað þú getur lært af frásögunum í greininni. Rifjaðu upp öll þau skipti sem Jehóva hefur séð fyrir hjálp eins og Miguel og Yurai gerðu. Biddu innilega til Jehóva eins og dóttir Vero og Anel gerði, sérstaklega þegar þú stendur frammi fyrir erfiðum vandamálum. Og taktu eftir að Jehóva gæti séð fyrir hjálp sem þú þarft fyrir atbeina fjölskyldu og vina eins og Geydi tók eftir. Ef þú leyfir Jehóva að hjálpa þér að komast í gegnum erfiðleikana verðurðu enn sannfærðari um að hann hjálpar þér að komast í gegnum hvaða erfiðleika sem er í framtíðinni.
19. Um hvað var Jesús alveg sannfærður og um hvað getur þú verið alveg sannfærður?
19 Jesús benti lærisveinum sínum á að þá skorti trú á ákveðnum sviðum en hann efaðist aldrei um að með hjálp Jehóva gætu þeir sýnt trúfesti í öllum prófraunum. (Jóh. 14:1; 16:33) Hann var sannfærður um að sterk trú myndi gera múginum mikla kleift að lifa af þrenginguna miklu. (Opinb. 7:9, 14) Verður þú þar á meðal? Vegna einstakrar góðvildar Jehóva verðurðu það ef þú grípur öll tækifæri til að styrkja trú þína. – Hebr. 10:39.
SÖNGUR 118 Auk okkur trú
a Við hlökkum til þess tíma þegar þetta heimskerfi tekur enda. En stundum gætum við velt fyrir okkur hvort trú okkar sé nógu sterk til að halda út allt til enda. Í þessari grein skoðum við frásögur af reynslu annarra en það getur hjálpað okkur að styrkja trú okkar.