NÁMSGREIN 12
Lærum meira um Jehóva af sköpunarverki hans
„Ósýnilegt eðli hans, bæði eilífur máttur hans og guðdómur, hefur verið auðséð allt frá sköpun heimsins því að það má skynja af verkum hans.“ – RÓMV. 1:20.
SÖNGUR 6 Himnarnir segja frá dýrð Guðs
YFIRLITa
1. Hvernig gat Job kynnst Jehóva betur?
JOB hafði átt margar samræður við aðra um ævina en þær sem hann átti við Jehóva Guð hljóta að hafa staðið upp úr. Þegar Jehóva talaði við Job benti hann honum á nokkur af einstökum undrum sköpunarverksins til að styrkja traust hans á visku sinni og getu til að annast þjóna sína. Jehóva minnti Job á að hann sæi fyrir þörfum dýranna og gæti þess vegna líka annast Job. (Job. 38:39–41; 39:1, 5, 13–16) Með því að hugleiða sköpunarverkið gat Job lært heilmikið um eiginleika Guðs.
2. Hvers vegna getur reynst erfitt að rannsaka það sem Jehóva hefur skapað?
2 Við getum líka lært meira um Guð okkar með því að virða fyrir okkur það sem hann hefur skapað. En það getur verið áskorun. Ef við eigum heima í borg má vera að við sjáum ekki mikið af náttúrunni. Og þótt við búum í nánd við hana má vera að við höfum ekki mikinn tíma til að rannsaka hana. Við skulum því ræða hvers vegna það er þess virði að taka sér tíma og leggja sig fram um að kynnast sköpunarverkinu. Við skoðum hvernig Jehóva og Jesús notuðu sköpunarverkið til að kenna og hvað við getum gert til að læra af náttúrunni.
HVERS VEGNA ÆTTUM VIÐ AÐ RANNSAKA SKÖPUNARVERKIÐ?
3. Hvað sýnir að Jehóva vildi að Adam hefði ánægju af sköpunarverkinu?
3 Jehóva vildi að fyrsti maðurinn á jörðinni hefði ánægju af sköpunarverki sínu. Þegar hann skapaði Adam gaf hann honum óspillta paradís og fól honum að rækta hana og stækka. (1. Mós. 2:8, 9, 15) Ímyndum okkur hve spennandi það hefur verið fyrir Adam að sjá fræ spíra og jurtir blómgast. Það var stórkostlegt verkefni að fá að annast Edengarðinn. Jehóva leyfði líka Adam að velja nöfn á dýrin. (1. Mós. 2:19, 20) Hann hefði getað gert það sjálfur en fól Adam það. Hann hefur eflaust virt eiginleika og hegðun dýranna vandlega fyrir sér áður en hann gaf þeim nöfn. Þetta hlýtur að hafa verið skemmtilegt! Það gaf honum gott tækifæri til að auka þakklæti sitt fyrir visku Jehóva, listsnilli og sköpunargáfu.
4. (a) Hvers vegna ættum við að rannsaka sköpunarverkið? (b) Hvað kannt þú sérstaklega að meta í sköpunarverkinu?
4 Ein ástæða sem við höfum til að skoða vandlega sköpunarverkið er að Jehóva vill að við gerum það. „Horfið upp til himins og sjáið,“ segir hann við okkur. Síðan spyr hann: „Hver hefur skapað allt þetta?“ Svarið blasir við. (Jes. 40:26) Jehóva fyllti ekki aðeins himininn með undraverðri sköpun sinni sem við getum lært af heldur líka jörðina og hafið. (Sálm. 104:24, 25) Og hugleiðum hvernig Jehóva hefur skapað okkur. Hann áskapaði okkur hæfileikann til að meta fegurð. Hann gerði okkur líka kleift að hafa ánægju af fjölbreytninni í sköpunarverkinu með því að gefa okkur fimm skilningarvit – sjón, heyrn, snertiskyn, bragðskyn og lyktarskyn.
5. Hvaða gagn höfum við af því að rannsaka sköpunarverk Jehóva samkvæmt Rómverjabréfinu 1:20?
5 Biblían opinberar aðra ástæðu þess að skoða sköpunarverkið vandlega. Hún er sú að það fræðir okkur um eiginleika Jehóva. (Lestu Rómverjabréfið 1:20.) Tökum sem dæmi augljósa hönnun í náttúrunni. Þessi hönnun er skýrt dæmi um visku Jehóva. Og veltum fyrir okkur fjölbreytninni í fæðu. Hún ber vott um kærleika hans til okkar mannanna. Þegar við sjáum eiginleika Jehóva í því sem hann hefur skapað kynnumst við honum betur og okkur langar að eiga nánara samband við hann. Skoðum nú dæmi um það hvernig Jehóva hefur notað sköpunarverk sitt til að kenna mönnum mikilvæg sannindi.
GUÐ NOTAR SKÖPUNARVERKIÐ TIL AÐ FRÆÐA OKKUR UM SIG
6. Hvaða lærdóm getum við dregið af því að fylgjast með farflugi fugla?
6 Jehóva hefur tímaáætlun. Á hverju ári frá því í lok febrúar þangað til um miðjan maí gátu Ísraelsmenn séð storka á flugi yfir landinu á leið sinni norður á bóginn. „Storkurinn í loftinu þekkir sínar ákveðnu tíðir,“ sagði Guð við Ísraelsmenn. (Jer. 8:7) Jehóva hefur ákveðið tíma til að fullnægja dómum sínum, rétt eins og hann hefur gefið fuglum ákveðna tímaáætlun. Þegar við sjáum fugla á farflugi erum við minnt á að við getum treyst því að Jehóva hefur ,tilsettan tíma‘ þegar hann bindur enda á þennan illa heim. – Hab. 2:3.
7. Hvaða fullvissu getur það gefið okkur að fylgjast með fugli á flugi? (Jesaja 40:31)
7 Jehóva gefur þjónum sínum kraft. Fyrir munn Jesaja lofaði Jehóva að gefa þjónum sínum kraft til að „svífa hátt á vængjum eins og ernir“ þegar þeir væru máttlitlir eða kjarklausir. (Lestu Jesaja 40:31.) Ísraelsmenn voru vanir að sjá erni hækka flugið í uppstreymi af hlýju lofti nánast án þess að blaka vængjum. Það minnir okkur á frábæran hátt á að fyrst Jehóva gefur þessum fuglum kraft getur hann gert það sama fyrir okkur. Þegar þú sérð öflugan fugl blaka varla vængjum en hækka samt flugið stöðuglega skaltu muna að Jehóva getur gefið þér styrk til að takast á við vandamál þín.
8. Hvað lærði Job af því að hugleiða sköpunarverk Guðs, og hvað getum við lært af því að gera það?
8 Jehóva á skilið traust okkar. Jehóva hjálpaði Job að styrkja traust hans til sín. (Job. 32:2; 40:6–8) Þegar hann talaði við hann benti hann á margt í sköpunarverkinu, þar á meðal stjörnurnar, skýin og eldingarnar. Hann talaði líka um dýrin, eins og til dæmis villinautið og hestinn. (Job. 38:32–35; 39:9, 19, 20) Þetta var allt saman merki um mátt Guðs en líka kærleika hans og mikla visku. Eftir þessar samræður treysti Job Jehóva sem aldrei fyrr. (Job. 42:1–6) Þegar við rannsökum sköpunarverkið erum við á svipaðan hátt minnt á að Jehóva er óendanlega vitrari og máttugri en við. Og hann bæði getur bundið enda á erfiðleika okkar og mun gera það. Að vita þetta getur hjálpað okkur að treysta honum.
JESÚS NOTAÐI SKÖPUNARVERKIÐ TIL AÐ FRÆÐA AÐRA UM FÖÐUR SINN
9, 10. Hvað segja sólin og regnið okkur um Jehóva?
9 Jesús vissi mikið um náttúruna. Hann vann sem „listasmiður“ við hlið föður síns við sköpun alheimsins. (Orðskv. 8:30) Seinna, þegar hann var á jörðinni, notaði hann sköpunarverkið til að fræða lærisveina sína um föður sinn. Skoðum sumt að því sem hann kenndi.
10 Jehóva sýnir öllum kærleika. Í fjallræðunni benti Jesús lærisveinum sínum á tvennt í sköpunarverkinu sem margir taka eins og sjálfsögðum hlut – sólskin og regn. Hvort tveggja er lífsnauðsynlegt. Jehóva hefði getað haldið þessu frá þeim sem þjóna honum ekki. En í kærleika sínum lætur hann alla njóta góðs af sólinni og regninu. (Matt. 5:43–45) Jesús benti á þetta til að kenna lærisveinum sínum að Jehóva vilji að við sýnum öllum kærleika. Þegar við horfum á dásamlegt sólarlag eða frískandi regnskúr getum við hugleitt hvernig Jehóva sýnir öllum kærleika. Fordæmi hans getur verið okkur hvatning til að sýna sams konar kærleika með því að boða öllum trúna.
11. Hvers vegna getur verið hughreystandi fyrir okkur að virða fyrir okkur fugla?
11 Jehóva sér okkur fyrir því sem við þurfum til að lifa. Jesús sagði líka í fjallræðunni: „Virðið fyrir ykkur fugla himinsins. Þeir hvorki sá né uppskera né safna í hlöður en faðir ykkar á himnum fóðrar þá samt.“ Kannski gátu þeir sem hlustuðu á Jesú séð fugla á flugi þegar Jesús spurði: „Eruð þið ekki meira virði en þeir?“ (Matt. 6:26) Þetta var kærleiksrík leið til að fullvissa okkur um að Jehóva muni annast líkamlegar þarfir okkar. (Matt. 6:31, 32) Lærdómurinn sem draga má af sköpunarverkinu hughreystir þjóna Guðs enn þann dag í dag. Ung brautryðjandasystir á Spáni var kjarklítil vegna þess að hún fann ekki hentugt húsnæði. En henni leið betur eftir að hafa séð fugla kroppa fræ og ber. Hún segir: „Fuglarnir minntu mig á að Jehóva annast þá og mun líka annast mig.“ Það leið ekki á löngu áður en systir okkar fann húsnæði.
12. Hvað er sagt um spörva í Matteusi 10:29–31 sem gefur til kynna hvernig Jehóva hugsar?
12 Jehóva metur okkur sem einstaklinga. Áður en Jesús sendi út lærisveina sína til að boða trúna hjálpaði hann þeim að sigrast á ótta við andstöðu. (Lestu Matteus 10:29–31.) Hann gerði það með því að tala um algengasta fuglinn í Ísrael, spörinn. Þeir voru lítils metnir á dögum Jesú. En hann sagði við lærisveina sína: ,Enginn þeirra fellur til jarðar án þess að faðir ykkar viti af því.‘ Síðan bætti hann við: „Þið eruð meira virði en margir spörvar.“ Jesús fullvissaði lærisveina sína þannig um að Jehóva kynni að meta þá sem einstaklinga, svo að þeir höfðu enga ástæðu til að óttast ofsóknir. Lærisveinarnir minntust örugglega orða Jesú þegar þeir sáu spörva meðan þeir boðuðu trúna í bæjum og þorpum. Í hvert sinn sem þú sérð lítinn fugl skaltu rifja upp að Jehóva kann að meta þig sem einstakling vegna þess að þú ert líka „meira virði en margir spörvar“. Með stuðningi hans þarftu ekki að óttast þegar þú mætir andstöðu. – Sálm. 118:6.
HVERNIG GETUM VIÐ LÆRT MEIRA UM GUÐ AF SKÖPUNARVERKINU?
13. Hvað getur hjálpað okkur að læra af sköpunarverkinu?
13 Við getum lært margt fleira um Jehóva af sköpunarverkinu. Hvernig? Fyrst þurfum við að taka okkur tíma til að virða það fyrir okkur. Því næst þurfum við að velta fyrir okkur hvað það kennir okkur um Jehóva. Þetta getur verið áskorun. Géraldine er systir frá Kamerún. Hún segir: „Ég ólst upp í borg og áttaði mig á því að ég þyrfti að leggja eitthvað á mig til að virða náttúruna fyrir mér.“ Öldungur að nafni Alfonso segir: „Ég hef komist að því að ég þarf að ákveða tíma til að vera einn og virða sköpunarverk Jehóva fyrir mér og hugleiða hvað það kennir mér um hann.“
14. Hverju komst Davíð að þegar hann hugleiddi sköpunarverk Guðs?
14 Davíð hugleiddi vandlega sköpunarverk Guðs. Hann sagði við Jehóva: „Þegar ég horfi til himins, á verk fingra þinna, á tunglið og stjörnurnar sem þú hefur búið til, hvað er þá dauðlegur maður að þú minnist hans?“ (Sálm. 8:3, 4) Þegar Davíð starði á næturhimininn naut hann þess ekki bara að horfa á allar stjörnurnar. Hann hugleiddi líka hvað stjörnurnar segðu honum um Guð. Hann skildi mikilfengleika Jehóva. Við önnur tækifæri leiddi hann hugann að því hvernig líkami hans hefði þroskast í móðurlífi. Þegar hann hugleiddi þessa merkilegu hluti jók það þakklæti hans enn meir fyrir visku Jehóva. – Sálm. 139:14–17.
15. Nefndu dæmi um hvernig þú hefur séð eiginleika Jehóva í sköpunarverkinu. (Sálmur 148:7–10)
15 Þú þarft ekki frekar en Davíð að leita langt yfir skammt til að finna eitthvað í náttúrunni til að hugleiða. Þegar þú lítur í kringum þig geturðu lært að þekkja marga af eiginleikum Jehóva. Þú getur til dæmis skynjað kraft Jehóva þegar þú finnur fyrir heitum geislum sólarinnar. (Jer. 31:35) Veltu visku Guðs fyrir þér þegar þú sérð fugl byggja sér hreiður. Pældu í kímnigáfu Jehóva þegar þú sérð hvolp elta á sér skottið. Og þakkaðu Jehóva fyrir kærleika hans hvenær sem þú sérð móður leika við barnið sitt. Við fáum svo mörg tækifæri til að læra um Jehóva af sköpunarverkinu vegna þess að allt lofar það hann, stórt og smátt, nær og fjær. – Lestu Sálm 148:7–10.
16. Hvað ættum við að vera ákveðin í að gera?
16 Guð okkar er óviðjafnanlega vitur, umhyggjusamur, listrænn og sterkur. Við sjáum þessa eiginleika og marga fleiri birtast í náttúrunni ef við erum með augun opin. Tökum okkur reglulega tíma til að njóta sköpunarverksins og hugsa um hvað það kennir okkur um Jehóva. Þá nálgumst við skapara okkar stöðugt betur. (Jak. 4:8) Í næstu námsgrein skoðum við hvernig foreldrar geta notað sköpunarverkið til að hjálpa börnunum sínum að nálgast Jehóva.
SÖNGUR 5 Undursamleg verk Guðs
a Sköpunarverk Jehóva vekur lotningu hjá okkur. Allt frá gríðarmikilli orku sólarinnar til fíngerðra krónublaða blóma vekja verk hans undrun. Það sem Jehóva hefur skapað kennir okkur líka margt um það hvers konar Guð hann er. Í þessari námgrein er fjallað um það hvers vegna við ættum að taka okkur tíma til að skoða sköpunarverkið vandlega og hvernig það getur hjálpað okkur að nálgast Guð.