Ríki Guðs — skilur þú hvað það er?
„Það er sáð var í góða jörð, merkir þann, sem heyrir orðið og skilur það.“ — MATTEUS 13:23.
1. Nefndu nokkrar algengar hugmyndir um ‚himnaríkið.‘
SKILUR“ þú hvað Guðsríki er? Hugmyndir manna um ‚himnaríkið‘ hafa verið æði ólíkar í aldanna rás. Sú skoðun er algeng meðal margra sem tilheyra kirkjufélögum kristna heimsins nú á tímum, að Guðsríki sé eitthvað sem Guð gróðursetur í hjarta mannsins er hann tekur trú. Aðrir álíta það vera stað þar sem góðir menn njóta eilífrar sælu eftir dauðann. Og þá eru þeir til sem fullyrða að Guð hafi eftirlátið mönnum að koma á Guðsríki á jörð með því að koma kristnum kenningum og aðferðum inn í stjórnmál og þjóðfélagsmál.
2. Hvernig útskýrir Biblían hvað Guðsríki er og hverju mun það áorka?
2 En Biblían sýnir okkur greinilega að ríki Guðs er ekki jarðnesk stofnun. Hún er hvorki fólgin í vissu hjartaástandi eða kristnun þjóðfélagsins. Auðvitað veldur réttur skilningur á því hvað Guðsríki er miklum breytingum í lífi þeirra sem trúa á það. En Guðsríki sjálft er himnesk stjórn sem Guð kemur á, og hún hrindir vilja hans í framkvæmd, afmáir áhrif syndar og dauða og kemur aftur á réttlæti á jörðinni. Þetta ríki hefur nú þegar tekið völd á himnum og mun bráðlega „knosa og að engu gjöra öll þessi ríki [manna], en sjálft mun það standa að eilífu.“ — Daníel 2:44; Opinberunarbókin 11:15; 12:10.
3. Hvaða leið opnaðist mönnum er Jesús hóf þjónustu sína?
3 Sagnfræðingurinn H. G. Wells skrifaði einu sinni: „Þessi kennisetning um himnaríkið, sem var aðalkenning Jesú en gegnir svo litlu hlutverki í kristinni trúarjátningu, er tvímælalaust einhver byltingarkenndasta kenning sem hefur nokkru sinni örvað og breytt mannlegri hugsun.“ Allt frá upphafi voru einkunnarorð Jesú í þjónustu sinni hér á jörð: „Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.“ (Matteus 4:17) Hann var á jörðinni sem smurður konungur, og mönnum til mikillar gleði var þeim bæði að opnast leið til að öðlast hlutdeild í blessun þessa ríkis og eins að verða prestar og meðstjórnendur Jesú í því. — Lúkas 22:28-30; Opinberunarbókin 1:6; 5:10, NW.
4. Hvernig brást þorri manna við ‚fagnaðarerindinu um ríkið‘ á fyrstu öldinni og til hvaða dóms leiddi það?
4 Þótt fjöldinn heyrði hið hrífandi ‚fagnaðarerindi um ríkið‘ trúðu aðeins fáeinir. Það kom að nokkru leyti til af því að trúarleiðtogarnir höfðu ‚læst himnaríki fyrir mönnum.‘ Þeir ‚tóku brott lykil þekkingarinnar‘ með falskenningum sínum. Þar eð flestir höfnuðu Jesú sem Messíasi og smurðum konungi Guðsríkis sagði hann þeim: „Guðs ríki verður frá yður tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess.“ — Matteus 4:23; 21:43; 23:13; Lúkas 11:52.
5. Hvernig sýndu flestir, sem heyrðu dæmisögur Jesú, að þeir heyrðu en skildu ekki?
5 Er Jesús var einhverju sinni að kenna miklum mannfjölda notaði hann nokkrar líkingar, eins og hann var vanur, til að prófa menn og aðgreina þá sem höfðu aðeins yfirborðslegan áhuga á Guðsríki. Fyrsta líkingin var um sáðmann sem sáði sæði sínu í ferns konar jörð. Í fyrstu þrem tilvikunum voru vaxtarskilyrði óhagstæð en í því síðasta var ‚góð jörð‘ sem gaf af sér góðan ávöxt. Þessari stuttu líkingu lauk með hvatningunni: „Hver sem eyru hefur, hann heyri.“ (Matteus 13:1-9) Flestir viðstaddra heyrðu hann tala en hlustuðu ekki. Þeir höfðu enga löngun, engan raunverulegan áhuga á að vita hvernig himnaríkið var eins og sæði sem sáð var í ólíkan jarðveg. Þeir fóru heim og héldu áfram sínu daglega lífi og hugsuðu líklega með sér að dæmisögur Jesú hafi ekki verið annað en góðar sögur með siðalærdómi. Þeir fóru sannarlega á mis við djúpan skilning og stórkostleg tækifæri og sérréttindi vegna þess hve skynlaus hjörtu þeirra voru!
6. Hvers vegna veittist aðeins lærisveinum Jesú skilningur á ‚leyndum dómum Guðsríkis‘?
6 Jesús sagði lærisveinunum: „Yður er gefið að þekkja leynda dóma himnaríkis, hinum er það ekki gefið.“ Hann vitnaði síðan í Jesaja: „Því að hjarta lýðs þessa er sljótt orðið, og illa heyra þeir með eyrum sínum, og augunum hafa þeir lokað, svo að þeir sjái ekki með augunum né heyri með eyrunum og skilji með hjartanu og snúi sér, og ég lækni þá. En sæl eru augu yðar, að þau sjá, og eyru yðar, að þau heyra.“ — Matteus 13:10-16; Markús 4:11-13.
Að ‚skilja‘ hvað Guðsríki er
7. Af hverju er þýðingarmikið að ‚skilja‘ hvað Guðsríki er?
7 Jesús komst þarna að kjarna málsins. Vandinn var tengdur því að ‚skilja‘ boðskapinn um Guðsríki. Hann sagði einslega við lærisveinana: „Heyrið þá hvað dæmisagan um sáðmanninn merkir: Þegar einhver heyrir orðið um ríkið og skilur ekki, þá kemur hinn vondi og rænir því, sem sáð var í hjarta hans.“ Síðan útskýrði hann að hinar fjórar jarðvegstegundir táknuðu mismunandi hjartalag sem ‚orðinu um ríkið‘ væri sáð í. — Matteus 13:18-23; Lúkas 8:9-15.
8. Hvað hindraði „sæðið“ í að gefa af sér ávöxt í þrenns konar jarðvegi?
8 „Sæðið“ var í öllum tilvikum gott en ávöxturinn var undir jarðveginum kominn. Ef jarðvegur hjartans var eins og fjölfarin og troðin gata, harðnaður af margs konar óandlegum athöfnum, þá yrði auðvelt fyrir þann sem heyrði boðskapinn um Guðsríki að afsaka sig með því að hann hefði ekki tíma til að sinna honum. Auðvelt var að ræna þessu vanrækta sæði áður en það náði að festa rætur. En hvað nú ef sæðinu var sáð í hjarta sem líktist grýttri jörð? Sæðið spíraði kannski, en það átti erfitt með að skjóta nægilega djúpum rótum til að draga til sín næringu og ná að festa sig. Sú tilhugsun að vera hlýðinn þjónn Guðs, einkum andspænis ofsóknarhita, var eins og lamandi byrði og einstaklingurinn brást. Og væri jarðvegur hjartans þakinn þyrnóttum áhyggjum eða efnishyggju kafnaði hin renglulega planta Guðsríkis. Við þessar þrennu, dæmigerðu aðstæður í lífinu gat enginn ávöxtur Guðsríkis sprottið.
9. Af hverju gat sæðið, sem sáð var í góða jörð, gefið af sér góðan ávöxt?
9 En hvað um sæði Guðsríkis sem sáð var í góða jörð? Jesús svarar: „Það er sáð var í góða jörð, merkir þann, sem heyrir orðið og skilur það. Hann er sá, sem ber ávöxt og gefur af sér hundraðfalt, sextugfalt eða þrítugfalt.“ (Matteus 13:23) Með því að ‚skilja‘ hvað Guðsríki er myndu þeir hver og einn bera góðan ávöxt í samræmi við aðstæður sínar.
Ábyrgð fylgir skilningi
10. (a) Hvernig sýndi Jesús að ‚skilningur‘ á Guðsríki hefur bæði blessun og ábyrgð í för með sér? (b) Áttu fyrirmæli Jesú um að gera menn að lærisveinum aðeins við lærisveinana á fyrstu öld?
10 Eftir að Jesús var búinn að koma með sex líkingar í viðbót um ýmsa þætti Guðsríkis spurði hann lærisveinana: „Hafið þér skilið allt þetta?“ Þegar þeir svöruðu játandi sagði hann: „Þannig er sérhver fræðimaður, sem orðinn er lærisveinn himnaríkis, líkur húsföður, sem ber fram nýtt og gamalt úr forðabúri sínu.“ Kenningar Jesú og þjálfunin, sem hann veitti, þroskaði lærisveina hans þannig að þeir gátu endalaust borið fram kjarnmikla, andlega fæðu úr „forðabúri“ sínu. Stór hluti hennar tengdist Guðsríki. Jesús benti greinilega á að ‚skilningur‘ á Guðsríki hefði ekki aðeins blessun í för með sér heldur einnig ábyrgð. Hann fyrirskipaði: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ — Matteus 13:51, 52; 28:19, 20.
11. Hvaða atburðir tengdir Guðsríki áttu sér stað þegar árið 1914 gekk í garð?
11 Eins og Jesús hét hefur hann verið með sönnum lærisveinum sínum allt fram á þennan dag. Núna á síðustu dögum hefur hann jafnt og þétt veitt þeim skilning, og hann hefur líka gert þá ábyrga fyrir því hvernig þeir nota hið vaxandi sannleiksljós. (Lúkas 19:11-15, 26) Árið 1914 tóku atburðir tengdir Guðsríki að gerast hratt og með tilkomumiklum hætti. Það ár bæði ‚fæddist‘ hið langþráða Guðsríki og ‚endir veraldar‘ hófst. (Opinberunarbókin 11:15; 12:5, 10; Daníel 7:13, 14, 27) Sannkristnir menn gera sér grein fyrir þýðingu þess sem er að gerast núna og hafa rekið mestu prédikunar- og kennsluherferð um Guðsríki sem sögur fara af. Jesús sagði það fyrir: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ — Matteus 24:14.
12. (a) Hvaða árangri hefur hinn umfangsmikli nútímavitnisburður um Guðsríki skilað? (b) Í hvaða hættu eru kristnir menn í þessum efagjarna heimi?
12 Þessi gífurlegi vitnisburður um Guðsríki hefur náð til meira en 230 landa. Nú þegar taka yfir fimm milljónir sannra lærisveina þátt í þessu starfi og verið er að safna fleirum. En ef við berum fjölda lærisveinanna saman við 5,6 milljarða manna, sem byggja jörðina, er ljóst að þorri manna „skilur ekki“ Guðsríki nú frekar en var á dögum Jesú. Eins og spáð var hæðast margir að og spyrja: „Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans?“ (2. Pétursbréf 3:3, 4) Sú hætta er fyrir hendi að sinnuleysi þeirra, efi og efnishyggja hafi smám saman áhrif á það hvernig við, kristnir menn, lítum á sérréttindi okkar í þjónustu Guðsríkis. Við erum umkringd fólki þessa heims og gætum auðveldlega farið að tileinka okkur einhver af viðhorfum þess og háttsemi. Það er mjög mikilvægt að við ‚skiljum‘ hvað Guðsríki er og höldum okkur fast við það!
Rannsökum okkur með hliðsjón af Guðsríki
13. Hvernig getum við prófað hvort við ‚heyrum‘ með skilningi þau fyrirmæli að prédika fagnaðarerindið um ríkið?
13 Jesús sagði um uppskerutímann sem við lifum: „Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja . . . Þá munu réttlátir skína sem sól í ríki föður þeirra. Hver sem eyru hefur, hann heyri.“ (Matteus 13:41, 43) Heldur þú áfram að ‚heyra‘ og hlýða fyrirmælunum um að prédika Guðsríki og gera menn að lærisveinum? Mundu að „það er sáð var í góða jörð, merkir þann, sem heyrir orðið og skilur það“ og ber góðan ávöxt. — Matteus 13:23.
14. Hvernig getum við sýnt að við ‚skiljum‘ fyrirmæli og leiðbeiningar?
14 Þegar við nemum í einrúmi og sækjum kristnar samkomur verðum við að ‚hneigja hjarta okkar að hyggindum.‘ (Orðskviðirnir 2:1-4) Þegar leiðbeiningar eru gefnar um hegðun, klæðnað, tónlist og skemmtiefni verðum við að láta þær hafa áhrif á hjörtu okkar og koma okkur til að leiðrétta það sem leiðrétta þarf. Reynum aldrei að réttlæta hegðun okkar, afsaka okkur eða láta á annan hátt hjá líða að fara eftir leiðbeiningunum. Ef Guðsríki er okkur raunverulegt lifum við eftir stöðlum þess og boðum það kostgæfilega. Jesús sagði: „Ekki mun hver sá, sem við mig segir: ‚Herra, herra,‘ ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum.“ — Matteus 7:21-23.
15. Af hverju er þýðingarmikið að ‚leita fyrst ríkis Guðs og réttlætis‘?
15 Menn hafa tilhneigingu til að hafa áhyggjur af fæði, klæði og húsaskjóli sem þeir þurfa, en Jesús sagði: „Leitið fyrst ríkis hans [Guðs] og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ (Matteus 6:33, 34) Láttu Guðsríki ganga fyrir í lífi þínu. Lifðu einföldu lífi og vertu nægjusamur. Það væri heimskulegt að fylla líf sitt ónauðsynlegum eignum og athöfnum og réttlæta það kannski fyrir sér með því að það sé í lagi af því að það sé ekki slæmt í sjálfu sér. Það kann að vera rétt, en það kostar tíma að afla sér þessara ónauðsynja og nota þær. Hvaða áhrif hefur það á tímann sem við höfum til einkanáms, samkomusóknar og þátttöku í prédikunarstarfinu? Jesús sagði að Guðsríki væri líkt kaupmanni sem fann eina „dýrmæta perlu [og] fór . . . seldi allt, sem hann átti, og keypti hana.“ (Matteus 13:45, 46) Það er þannig sem við ættum að líta á Guðsríki. Við ættum að líkja eftir Páli, ekki Demasi sem yfirgaf þjónustuna „vegna þess að hann elskaði þennan heim.“ — 2. Tímóteusarbréf 4:10, 18; Matteus 19:23, 24; Filippíbréfið 3:7, 8, 13, 14; 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10, 17-19.
„Ranglátir munu ekki Guðs ríki erfa“
16. Hvernig hjálpar það okkur að forðast ranga breytni ef við ‚skiljum‘ hvað Guðsríki er?
16 Þegar Korintusöfnuðurinn lét siðleysi viðgangast sagði Páll hreinskilnislega: „Vitið þér ekki, að ranglátir munu ekki Guðs ríki erfa? Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa.“ (1. Korintubréf 6:9, 10) Ef við ‚skiljum‘ hvað Guðsríki er teljum við okkur ekki trú um að Jehóva umberi siðleysi í einhverri mynd, svo framarlega sem hann sér að við erum önnum kafin í kristnu starfi. Óhreinleiki ætti ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal okkar. (Efesusbréfið 5:3-5) Finnurðu að óhrein hugsun eða hátterni þessa heims er farið að smeygja sér inn í líf þitt? Útrýmdu því þegar í stað! Guðsríki er allt of dýrmætt til að glata því fyrir eitthvað þess háttar. — Markús 9:47.
17. Á hvaða vegu stuðlar skilningur á Guðsríki að auðmýkt og dregur úr hneykslunarefnum?
17 Lærisveinar Jesú spurðu: „Hver er mestur í himnaríki?“ Jesús svaraði með því að setja lítið barn á meðal þeirra og segja: „Sannlega segi ég yður: Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki. Hver sem auðmýkir sjálfan sig eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki.“ (Matteus 18:1-6) Hinir stoltu, kröfuhörðu, umhyggjulausu og löglausu verða ekki í Guðsríki og verða ekki þegnar þess. Fær kærleikur þinn til bræðra þinna, auðmýkt þín og guðsótti þig til að forðast að vera öðrum til ásteytingar með hegðun þinni? Eða krefstu „réttar“ þíns, óháð því hvaða áhrif viðhorf þín og framferði kann að hafa á aðra? — Rómverjabréfið 14:13, 17.
18. Hvaða afleiðingar hefur það fyrir hlýðið mannkyn þegar ríki Guðs lætur vilja hans verða „svo á jörðu sem á himni“?
18 Himneskur faðir okkar, Jehóva, svarar bráðlega til fullnustu hinni innilegu bæn: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ Mjög bráðlega kemur hinn ríkjandi konungur, Jesús Kristur, í þeim skilningi að hann sest í hásæti til að dæma og skilja „sauði“ frá „höfrum.“ Á þeim tilsetta tíma mun „konungurinn segja við þá til hægri: ‚Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.‘“ Hafrarnir „munu fara til eilífrar refsingar [eyðingar], en hinir réttlátu til eilífs lífs.“ (Matteus 6:10; 25:31-34, 46) ‚Þrengingin mikla‘ mun afmá hið gamla heimskerfi og alla sem neita að ‚skilja‘ hvað Guðsríki er. En þær milljónir, sem lifa ‚þrenginguna miklu‘ af, og þeir milljarðar, sem reistir verða upp frá dauðum, munu erfa endalausa blessun undir stjórn Guðsríkis í endurreistri paradís á jörð. (Opinberunarbókin 7:14) Guðsríki er hin nýja stjórn jarðar á himnum uppi. Hún mun fullna tilgang Jehóva með jörðina og mannkynið, til helgunar heilögu nafni hans. Er það ekki arfleifð sem er vel þess virði að vinna fyrir, færa fórnir fyrir og bíða eftir? Það er það sem ‚skilningur‘ á Guðsríki ætti að þýða fyrir okkur!
Hverju svarar þú?
◻ Hvað er ríki Guðs?
◻ Af hverju ‚skildu‘ fæstir áheyrenda Jesú hvað Guðsríki er?
◻ Hvernig hefur það bæði blessun og ábyrgð í för með sér að ‚skilja‘ hvað Guðsríki er?
◻ Hvernig gefur prédikunarstarfið til kynna að við höfum ‚skilið‘ hvað Guðsríki er?
◻ Hvernig sýnum við með breytni okkar að við höfum ‚skilið‘ leiðbeiningar sem við fáum?
[Mynd á blaðsíðu 23]
Lærisveinar Jesú ‚skildu‘ hvað Guðsríki er og báru góðan ávöxt.