Láttu engan spilla góðum siðum þínum
„Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“— 1. KORINTUBRÉF 15:33.
1, 2. (a) Hvaða tilfinningar bar Páll postuli til kristinna manna í Korintu og hvers vegna? (b) Hvaða sérstakt ráð munum við taka til umfjöllunar?
FÖÐUR- og móðurást er svo sannarlega sterk tilfinning. Hún knýr foreldrana til að fórna ýmsu fyrir börn sín, kenna þeim og ráðleggja. Páll postuli átti ef til vill ekki börn sjálfur en hann skrifaði kristnum mönnum í Korintu: „Enda þótt þér hefðuð tíu þúsund fræðara í Kristi, þá hafið þér þó eigi marga feður. Ég hef í Kristi Jesú fætt yður með því að flytja yður fagnaðarerindið.“ — 1. Korintubréf 4:15.
2 Áður hafði Páll ferðast til Korintu þar sem hann prédikaði fyrir Gyðingum og Grikkjum. Hann aðstoðaði við að mynda söfnuðinn í Korintu. Í öðru bréfi líkti Páll umhyggu sinni við móður sem hlúir að börnum sínum, en hann var Korintumönnum eins og faðir. (1. Þessaloníkubréf 2:7) Páll áminnti andleg börn sín, eins og ástríkur faðir gerir. Þú getur haft gagn af föðurlegum leiðbeiningum hans til kristinna manna í Korintu: „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ (1. Korintubréf 15:33) Hvers vegna skrifaði Páll þetta til Korintumanna? Hvernig getum við tekið þetta ráð til okkar?
Leiðbeiningar fyrir þá og fyrir okkur
3, 4. Hvað vitum við um Korintu á fyrstu öldinni og íbúa hennar?
3 Gríski landafræðingurinn Strabo ritaði á fyrstu öldinni: „Korinta er nefnd ‚auðug‘ vegna viðskipta hennar, af því að hún er á Eiðinu og er herra tveggja hafna. Frá annarri þeirra liggur leiðin beint til Asíu en frá hinni til Ítalíu; og fyrir vikið er auðvelt að skiptast á vörum frá báðum löndum.“ Annað hvert ár drógu hinir nafntoguðu Eiðisleikar mikinn mannfjölda til Korintu.
4 Hvernig var fólkið í þessari borg sem var bæði miðstöð stjórnvalds og nautnalegrar tilbeiðslu á Afródíte? Prófessor T. S. Evans útskýrir: „Íbúar voru líklega um 400.000. Menning samfélagsins var á háu stigi en siðferðið var slappt, jafnvel afleitt. . . . Grískir íbúar Akkeu einkenndust af vitsmunalegu eirðarleysi og ólgandi löngun í nýbreytni. . . . Sjálfhyggja þeirra var sem eldsneyti, reiðubúið fyrir kyndil kreddutrúar og klofnings.“
5. Hvaða hættu stóðu bræðurnir í Korintu frammi fyrir?
5 Með tímanum kom jafnvel upp sundurlyndi í söfnuðinum vegna þess að sumir höfðu enn tilhneigingu til hrokafullra vangaveltna. (1. Korintubréf 1:10-31; 3:2-9) Eitt helsta vandamálið var að sumir sögðu að „dauðir rísi ekki upp.“ (1. Korintubréf 15:12; 2. Tímóteusarbréf 2:16-18) Hver sem trú þeirra (eða villutrú) nákvæmlega var þurfti Páll að leiðrétta þá með skýrri sönnun um að Kristur væri „upprisinn frá dauðum.“ Þar af leiðandi gátu kristnir menn treyst því að Guð myndi gefa þeim „sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist.“ (1. Korintubréf 15:20, 51-57) Hefðir þú verið í hættu ef þú hefðir verið uppi þá?
6. Á hverja mátti sér í lagi heimfæra ráð Páls í 1. Korintubréfi 15:33?
6 Þegar Páll var að gefa þeim traustar sannanir fyrir því að dauðir verði örugglega reistir upp sagði hann: „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ Kjarni þessara ráðlegginga varðaði þá í söfnuðinum sem voru ósammála kenningunni um upprisuna. Voru þeir aðeins í vafa um eitthvert atriði sem þeir skildu ekki? (Samanber Lúkas 24:38.) Nei. Páll skrifaði að ‚nokkrir ykkar segja að dauðir rísi ekki upp,‘ þannig að þeir sem hlut áttu að máli voru að lýsa sig ósammála, höfðu tilhneigingu til fráhvarfs. Páli var það vel ljóst að þeir gátu spillt góðum siðum og hugsun annarra. — Postulasagan 20:30; 2. Pétursbréf 2:1.
7. Nefnið aðstæður þar sem við gætum heimfært 1. Korintubréf 15:33.
7 Hvernig getum við tekið til okkar viðvörun Páls varðandi félagsskap? Hann átti ekki við að við skyldum færast undan því að hjálpa einhverjum í söfnuðinum sem fyndist erfitt að skilja biblíuvers eða -kenningu. Satt að segja hvetur Júdasarbréfið 22, 23 okkur til að veita einlægum aðila með slíkar efasemdir miskunnsama aðstoð. (Jakobsbréfið 5:19, 20) Hins vegar ætti vissulega að fylgja föðurlegum ráðleggingum Páls ef einhver heldur áfram að vera ósamþykkur því sem við vitum að er sannleikur frá Biblíunni eða heldur áfram að koma með athugasemdir sem lýsa efagirni og neikvæðu hugarfari. Við ættum að varast félagsskap við þess konar fólk. Ef einhver yrði afdráttarlaust fráhvarfsmaður yrðu hinir andlegu hirðar að sjálfsögðu að grípa til aðgerða til að vernda hjörðina. — 2. Tímóteusarbréf 2:16-18; Títusarbréfið 3:10, 11.
8. Hvernig getum við breytt hyggilega þegar einhver er ósammála biblíukenningu?
8 Við getum einnig farið eftir föðurlegum orðum Páls í 1. Korintubréfi 15:33 hvað viðkemur utansafnaðarfóki sem ber út falskenningar. Hvernig gætum við dregist inn í félagsskap þeirra? Það gæti gerst ef við gerðum ekki greinarmun á þeim sem mætti hjálpa til að læra sannleikann og þeim sem eru aðeins að stofna til skoðanadeilna til þess að koma falskenningu á framfæri. Til dæmis gætum við hitt í boðunarstarfinu einstakling sem er okkur ekki sammála í einhverju atriði en er fús til að ræða málið frekar. (Postulasagan 17:32-34) Það þarf í sjálfu sér ekki að valda neinum vanda því að við útskýrum með ánægju biblíuleg sannindi fyrir hverjum þeim sem í einlægni vill vita þau, förum jafnvel aftur til að leggja fram sannfærandi rök. (1. Pétursbréf 3:15) Á hinn bóginn kann að vera að sumir hafi í rauninni ekki áhuga á að finna sannindi Biblíunnar.
9. Hvernig ættum við að bregðast við áskorun á trúarskoðanir okkar?
9 Margir munu rökræða svo tímunum skiptir, viku eftir viku, en ekki vegna þess að þeir séu að leita sannleikans. Þeim gengur það eitt til að grafa undan trú annarra og flagga jafnframt menntun sem þeir þykjast hafa í hebresku, grísku eða þróunarfræðum. Þegar sumir vottar hafa mætt slíku fólki hefur þeim fundist það áskorun og hafa endað með að verja með því löngum stundum þar sem umræðurnar hafa snúist um falskar trúarskoðanir, heimspeki eða vísindavillu. Það er eftirtektarvert að Jesús lét skíkt ekki henda sig, þó að hann hefði getað unnið kappræður við trúarleiðtoga sem voru skólaðir í hebresku og grísku. Þegar skorað var á Jesú gaf hann stuttort svar og sneri síðan athygli sinni aftur að hinum lítillátu, hinum raunverulegu sauðum. — Matteus 22:41-46; 1. Korintubréf 1:23–2:2.
10. Hvers vegna er við hæfi að kristnir menn, sem hafa tölvu og aðgang að skrafþingi, sýni aðgát?
10 Nýtísku tölvur hafa opnað aðra leið til slæms félagsskapar. Til eru fyrirtæki sem gera áskrifendum kleift að senda tölvuboð símleiðis inn á skrafþing (electronic bulletin board); fólk getur þannig sent þangað orðsendingu sem allir áskrifendurnir hafa aðgang að. Þetta hefur leitt til kappræðna á tölvuskjám um trúmál. Kristinn maður gæti dregist inn í slíkar kappræður og eytt mörgum klukkustundum með þeim sem hugsar eins og fráhvarfsmaður og hefur ef til vill verið rekinn úr söfnuðinum. Leiðbeiningarnar í 2. Jóhannesarbréfi 9-11 undirstrika föðurlegar ráðleggingar Páls varðandi það að forðast slæman félagsskap.a
Láttu ekki villast
11. Hvaða tækifæri bauð viðskiptafyrirkomulagið í Korintu upp á?
11 Eins og bent hefur verið á var Korinta viðskiptamiðstöð með fjölmargar verslanir og vinnustofur. (1. Korintubréf 10:25) Margir sem komu vegna Eiðisleikanna dvöldu í tjöldum og meðan á þeim stóð versluðu kaupmenn með vörur sínar í færanlegum söluskúrum eða sölubásum með tjaldhimni. (Samanber Postulasöguna 18:1-3.) Þetta gerði Páli mögulegt að fá vinnu þar við tjaldgerð. Og hann gat notað vinnustaðinn til að koma fagnaðarerindinu á framfæri. Prófessor J. Murphy-O’Connor skrifar: „Frá vinnustofu á annasömum markaði . . . við fjölfarna götu hafði Páll ekki aðeins aðgang að vinnufélögum sínum og viðskiptavinum heldur einnig mannfjöldanum fyrir utan. Þegar rólegt var í vinnunni gat hann staðið í dyrunum og tali þá sem hann áleit að myndu hlusta . . . Erfitt er að ímynda sér annað en að hann hafi fljótlega orðið þekktur í hverfinu vegna kraftmikils persónuleika síns og ótvíræðrar sannfæringar og að það hafi dregið að forvitið fólk, ekki aðeins iðjuleysingjana heldur líka þá sem voru í einlægni leitandi. . . . Giftar konur, sem höfðu frétt af honum, gátu komið með fylgdarmeyjum sínum í heimsókn undir því yfirskini að þær væru komnar til að kaupa. Á erfiðleikatímum, þegar ofsóknir eða einfaldlega sífelld áreitni vofði yfir hinum trúuðu, gátu þeir hitt hann sem viðskiptavinir. Vinnustofan kom honum einnig í samband við embættismenn borgarinnar.“
12, 13. Hvernig getur 1. Korintubréf 15:33 átt vel við á vinnustaðnum?
12 Páll mun þó hafa gert sér grein fyrir möguleikanum á ‚slæmum félagsskap‘ á vinnustaðnum. Það ættum við líka. Það er þýðingarmikið að Páll skuli hafa vitnað í viðhorf sem var ríkjandi hjá sumum: „Etum . . . og drekkum, því að á morgun deyjum vér!“ (1. Korintubréf 15:32) Hann lét sitt föðurlega ráð koma strax þar á eftir: „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ Hvernig gæti vinnustaðurinn og eftirsókn í skemmtun tvinnast saman í því að skapa hættu?
13 Kristnir menn vilja vera vingjarnlegir við vinnufélaga og reynsla margra ber vitni um hversu áhrifaríkt það getur verið til þess að opna leið til að bera vitni. Vinnufélagi gæti samt sem áður mistúlkað vingjarnleika kristins manns sem boð um félagsskap til að skemmta sér saman. Hann gæti boðið honum til óformlegs hádegisverðar, að staldra aðeins við eftir vinnu til að fá sér í glas eða til upplyftingar af einhverju tagi um helgina. Þessi einstaklingur kann að líta út fyrir að vera vingjarnlegur og hreinn og beinn og boðið virðist ef til vill saklaust. Engu að síður ráðleggur Páll okkur: „Villist ekki.“
14. Hvernig hafa sumir kristnir menn látið villast vegna félagsskapar?
14 Það hafa sumir kristnir menn gert. Smám saman hafa þeir orðið værukærir gagnvart félagsskap við vinnufélaga. Ef til vill spratt það upp af sameiginlegum áhuga á einhverri íþróttagrein eða tómstundastarfi eða einhver vinnufélagi, sem ekki er kristinn, er sérstaklega vingjarnlegur og hugulsamur sem leiddi til þess að sífellt meiri tíma var varið með honum og samvistir við hann jafnvel teknar fram yfir félagsskap við suma í söfnuðinum. Síðan gæti félagsskapurinn leitt til þess að misst er af aðeins einni samkomu. Hann gæti þýtt að komið er heim seint á kvöldin og brotið það mynstur að taka þátt í boðunarstarfinu að morgni dags. Hann gæti haft þær afleiðingar að horft er á kvikmynd eða myndband þeirrar gerðar sem hinn kristni maður myndi venjulega hafna. ‚Þetta kæmi aldrei fyrir mig,‘ gætum við hugsað. En flestir þeirra sem hafa villst hafa ef til vill í fyrstu brugðist þannig við. Við þurfum að spyrja okkur: ‚Hversu staðráðinn er ég í að fylgja ráðleggingum Páls?‘
15. Hvaða heilbrigt viðhorf ættum við að hafa til nágranna?
15 Það sem við vorum að skoða hér á undan varðandi vinnustaðinn á einnig við félagsskap okkar við nágrannana. Kristnir menn í Korintu til forna áttu vissulega nágranna. Í sumum löndum er það vaninn að vera sérstaklega vingjarnlegur og hjálpsamur við nágrannana. Á strjálbyggðum svæðum kunna nágrannar að reiða sig hver á annan vegna einangrunar. Í sumum menningarsamfélögum eru fjölskylduböndin með afbrigðum sterk og því fylgja mörg matarboð. Heilbrigt viðhorf er greinilega nauðsynlegt eins og Jesús sýndi. (Lúkas 8:20, 21; Jóhannes 2:12) Höfum við, í samskiptum okkar við nágranna og ættingja, tilhneigingu til að halda áfram eins og við gerðum áður en við urðum kristin? Ættum við ekki öllu heldur að endurskoða slík samskipti og vísvitandi ákveða hvaða skorður sé við hæfi að setja þeim?
16. Hvernig á að skilja orð Jesú í Matteusi 13:3, 4?
16 Jesús líkti eitt sinn orðinu um Guðsríki við sæði sem ‚féll hjá götunni og fuglar komu og átu það upp.‘ (Matteus 13:3, 4, 19) Jarðvegur meðfram götu varð á þeim tíma harður þar sem margir fætur gengu þar fram og aftur. Þannig er það með margt fólk. Daginn út og inn eru nágrannar þess, ættingjar og aðrir að koma og fara, halda því sífellt uppteknu. Þetta svo að segja traðkar niður jarðveginn í hjörtum þess, gerir sæði sannleikans erfitt að festa þar rætur. Svipuð deyfð gæti búið um sig hjá þeim sem þegar er kristinn.
17. Hvernig gæti félagsskapur við nágranna og aðra haft áhrif á okkur?
17 Sumir veraldlegir nágrannar og ættingjar eru ef til vill vingjarnlegir og hjálpsamir, þótt þeir hafi hvað eftir annað hvorki sýnt áhuga á andlegum málum né kærleika til réttlætisins. (Markús 10:21, 22; 2. Korintubréf 6:14) Þegar við verðum kristin ætti það ekki að þýða að við verðum óvingjarnleg, ekki lengur góðir grannar. Jesús ráðlagði okkur að sýna öðrum einlægan áhuga. (Lúkas 10:29-37) En ráðlegging Páls um að gæta að félagsskap okkar er að sama skapi innblásin og brýn. Þegar við förum eftir fyrra ráðinu megum við ekki gleyma því síðara. Ef við höfum ekki báðar meginreglurnar í huga getur það haft áhrif á venjur okkar. Hvernig eru venjur þínar í samanburði við venjur nágranna þinna eða ættingja hvað varðar heiðarleika eða hlýðni við lög keisarans? Til dæmis kann þeim að finnast, þegar skila á skattframtali, að réttlætanlegt sé að gefa ekki upp allar tekjur eða hagnað af atvinnustarfsemi, segja jafnvel að það sé nauðsynlegt til að komast af. Þeir tala kannski af sannfæringarkrafti um skoðanir sínar yfir kaffibolla eða í stuttri heimsókn. Hvernig gæti það haft áhrif á hugsun þína og heiðarlega siði? (Markús 12:17; Rómverjabréfið 12:2) „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“
Æskusiðir einnig
18. Hvers vegna á 1. Korintubréf 15:33 einnig við unglinga?
18 Ungt fólk sér í lagi verður fyrir áhrifum af því sem það sér og heyrir. Hefur þú ekki tekið eftir börnum sem eru með næstum alveg eins látbragð og kæki og foreldrar þeirra eða systkini? Okkur skyldi þá ekki undra þó að leikfélagar eða skólafélagar barna hafi mikil áhrif á þau. (Samanber Matteus 11:16, 17.) Ef sonur þinn eða dóttir er innan um ungmenni sem tala af virðingarleysi um foreldra sína, hvers vegna þá ímynda sér að það muni ekki hafa áhrif á börnin þín? Hvað ef þau heyra oft klúryrði af vörum annarra unglinga? En ef félagar þeirra í skólanum eða í nágrenninu verða spenntir fyrir nýjum skóstíl eða nýrri skartgripatísku? Ættum við að halda að kristnir unglingar séu ónæmir fyrir slíkum áhrifum? Sagði Páll að 1. Korintubréf 15:33 hefði einhvern lágmarksaldur?
19. Hvaða viðhorf ættu foreldrar að reyna að innræta börnum sínum?
19 Ef þú ert foreldri, ert þú þér þá meðvitandi um þessar ráðleggingar þegar þú rökræðir við börnin þín og tekur ákvarðanir sem lúta að þeim? Það mun líklega koma að gagni ef þú viðurkennir að þetta þýði ekki að allt annað æskufólk, sem börnin þín eru innan um í nágrenninu eða í skólanum, sé ómögulegt. Sumt af því kann að vera þægilegt og heiðvirt, alveg eins og sumir nágranna þinna, ættingja og vinnufélaga eru það. Reyndu að hjálpa börnum þínum að sjá þetta og gera sér ljóst að þú ferð ekki út í öfgar í heimfærslu þinni á viturlegu og föðurlegu ráði Páls til Korintumanna. Er þau átta sig á hvernig þú ferð að því að hafa jafnvægi á hlutunum getur það hjálpað þeim að líkja eftir þér. — Lúkas 6:40; 2. Tímóteusarbréf 2:22.
20. Ungmenni, hvaða áskorun fáið þið?
20 Ef þú ert enn ungur skaltu reyna að átta þig á því hvernig á að fylgja ráði Páls því að þú veist að það er mikilvægt fyrir sérhvern kristinn mann, ungan sem gamlan. Það er áskorun, en hví ekki vera fús til að taka þeirri áskorun? Gerðu þér alveg ljóst að það eitt að þú hafir þekkt suma af hinum unglingunum frá barnæsku þýðir ekki að þeir geti ekki haft áhrif á venjur þínar, geti ekki spillt þeim siðum sem þú ert að temja þér sem kristið ungmenni. — Orðskviðirnir 2:1, 10-15.
Jákvæð skref til verndar siðum okkar
21. (a) Hvaða þörf höfum við hvað varðar félagsskap? (b) Hvers vegna getum við verið örugg um að viss félagsskapur getur verið hættulegur?
21 Við þörfnumst öll félagsskapar. Við verðum þó að vera vakandi fyrir þeirri staðreynd að félagar okkar geta haft áhrif á okkur, til góðs eða ills. Sú reyndist raunin með Adam og með sérhvern í aldanna rás síðan þá. Jósafat, góður konungur í Júda, naut til dæmis velþóknunar Jehóva og blessunar. En eftir að Jósafat leyfði syni sínum að kvænast dóttur Akabs Ísraelskonungs fór hann að eiga félagsskap við Akab. Sá slæmi félagsskapur kostaði Jósafat næstum lífið. (2. Konungabók 8:16-18; 2. Kroníkubók 18:1-3, 29-31) Ef val okkar á félagsskap er óskynsamlegt getur það verið alveg eins hættulegt.
22. Hvað ættum við að taka til okkar og hvers vegna?
22 Tökum þá til okkar hið kærleiksríka ráð sem Páll gefur okkur í 1. Korintubréfi 15:33. Þetta eru ekki aðeins orð sem við höfum ef til vill heyrt svo oft að við kunnum þau utan að. Þau endurspegla þá föðurlegu ástúð sem Páll bar til bræðra sinna og systra í Korintu og, í útvíkkaðri merkingu, til okkar. Og tvímælalaust hafa þau að geyma ráð sem komið er frá himneskum föður okkar því að hann vill að viðleitni okkar skili árangri. — 1. Korintubréf 15:58.
[Neðanmáls]
a Önnur hætta við slík skrafþing er sú freisting að afrita forrit eða ritverk með höfundarrétti, án heimildar frá upphaflegum eiganda eða höfundi, sem þá bryti í bága við alþjóðleg lög um höfundarrétt. — Rómverjabréfið 13:1.
Manst þú?
◻ Hvaða sérstaka ástæðu hafði Páll til að rita 1. Korintubréf 15:33?
◻ Hvernig getum við fylgt ráði Páls á vinnustað?
◻ Hvaða heilbrigð viðhorf til nágranna ættum við að hafa?
◻ Hvers vegna er 1. Korintubréf 15:33 sérstaklega viðeigandi ráð til unglinga?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Páll notaði vinnustaðinn til framdráttar fagnaðarerindinu.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Aðrir unglingar geta spillt kristnum siðum þínum.