Láttu þér lánast að forðast snöru ágirndarinnar
„Þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru.“ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 6:9.
1. Hvers vegna ættum við að vara okkur á snörum?
ORÐIÐ „snara“ kallar ef til vill fram í hugann mynd af veiðimanni sem kemur fyrir útbúnaði í felulitum til að veiða í grunlausa bráð. Guð gerir hins vegar ljóst að hættulegustu snörurnar fyrir okkur séu ekki slíkur bókstaflegur útbúnaður heldur það sem gæti veitt okkur í tálsnöru andlega eða siðferðilega. Djöfullinn er sérfræðingur í að leggja slíkar snörur. — 2. Korintubréf 2:11; 2. Tímóteusarbréf 2:24-26.
2. (a) Hvernig hjálpar Jehóva okkur að forðast hættulegar snörur? (b) Að hvers konar snöru beinist athyglin núna?
2 Jehóva hjálpar okkur með því að benda á sumar af mörgum og margvíslegum snörum Satans. Til dæmis varar Guð okkur við því að varir okkar, eða munnur, geti verið snara ef við tölum óskynsamlega, fljótfærnislega eða um það sem við ættum ekki að tala. (Orðskviðirnir 18:7; 20:25) Hroki getur verið snara, svo og að leggja lag sitt við reiðigjarnt fólk. (Orðskviðirnir 22:24, 25; 29:25) En snúum okkur að annarri snöru: „Þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun.“ (1. Tímóteusarbréf 6:9) Það sem býr að baki þeirri snöru eða er grundvöllur hennar má draga saman í eitt orð „ágirnd.“ Þó að ágirnd manna birtist oft í því að þeir séu staðráðnir í að verða ríkir er ágirnd í raun snara í mörgum myndum.
Jehóva varar okkur við hættu
3, 4. Hvaða lexíu um ágirnd geymir fornaldarsagan?
3 Í grundvallaratriðum er ágirnd gegndarlaus eða óhófleg löngun til að hafa meira, hvort sem það eru fjármunir, eignir, vald, kynlíf eða annað. Við erum ekki þeir fyrstu sem stafar hætta af snöru ágirndarinnar. Fyrir löngu, í Edengarðinum, veiddi ágirndin Evu og síðan Adam í snöru sína. Eiginmaður Evu, sem var lífsreyndari en hún, hafði persónulega fengið fræðslu frá Jehóva. Guð hafði veitt þeim paradísarheimili. Þau gátu notið ríkulegrar fæðu sem var bæði holl og fjölbreytt, ræktuð í ómenguðum jarðvegi. Þau gátu vænst þess að eignast fullkomin börn og lifa með þeim endalaust og þjóna Guði. (1. Mósebók 1:27-31; 2:15) Virðist það ekki nóg til að fullnægja hvaða manni sem er?
4 Þó að einhver hafi nóg kemur það ekki í veg fyrir að ágirnd verði að snöru. Sá möguleiki að verða eins og Guð, hafa meira sjálfstæði og setja sína eigin staðla varð Evu að tálsnöru. Svo virðist sem Adam hafi viljað áframhaldandi félagsskap við hinn fagra maka sinn hvað sem það kostaði. Þar sem ágirnd varð jafnvel þessu fullkomna fólki að tálsnöru getur maður gert sér í hugarlund hvers vegna ágirnd getur verið okkur hættuleg.
5. Hversu mikilvægt er það fyrir okkur að forðast snöru ágirndarinnar?
5 Við verðum að vera á verði gegn því að falla í snöru ágirndarinnar af því að Páll aðvarar okkur: „Vitið þér ekki, að ranglátir munu ekki Guðs ríki erfa? Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir . . . Guðs ríki erfa.“ (1. Korintubréf 6:9, 10) Páll sagði okkur einnig: „En frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar.“ (Efesusbréfið 5:3) Því ætti ágirnd ekki einu sinni að vera til umræðu í þeim tilgangi að fullnægja ófullkomnu holdi okkar.
6, 7. (a) Hvaða dæmi í Biblíunni undirstrika hversu máttug ágirndin getur verið? (b) Hvers vegna ættu þessi dæmi að vera okkur til viðvörunar?
6 Jehóva hefur greint frá mörgum dæmum til að opna augu okkar fyrir hættunni af ágirnd. Minnumst ágirndar Akans. Guð sagði að eyða skyldi Jeríkó en gull hennar, silfur, eir og járn væru fyrir féhirslu hans. Akan kann í fyrstu að hafa ætlað sér að fylgja þeim fyrirmælum en ágirnd snaraði hann. Um leið og hann var kominn inn í Jeríkó var eins og hann væri í verslunarferð þar sem hann sá vörur á ótrúlegu tilboðsverði, þar á meðal fagra skikkju sem virtist hæfa honum fullkomlega. Þegar hann hirti upp gull og silfur sem var hundruð þúsunda króna virði gæti hann hafa hugsað: ‚Hvílíkur auður! Svona ódýrt fengi maður ekkert nema stela því.‘ Það var hárrétt! Með því að ágirnast það sem hefði átt að eyða eða skila inn stal Akan frá Guði og það kostaði hann lífið. (Jósúabók 6:17-19; 7:20-26) Önnur umhugsunarverð dæmi um ágjarna menn eru þeir Gehasí og Júdas Ískaríot. — 2. Konungabók 5:8-27; Jóhannes 6:64; 12:2-6.
7 Við skulum ekki láta okkur yfirsjást að þeir þrír, sem nefndir eru hér að ofan, voru ekki heiðingjar sem þekktu ekki til staðla Jehóva, heldur voru þeir í vígslusambandi við Guð. Allir höfðu þeir orðið vitni að kraftaverkum sem hefðu átt að festa þeim í minni hversu voldugur Guð er og mikilvægi þess að varðveita velvild hans. Samt varð snara ágirndarinnar þeim að falli. Við getum einnig eyðilagt samband okkar við Guð ef við látum ágirnd í nokkurri mynd verða okkur að tálsnöru. Hvaða tegundir eða myndir ágirndar geta verið okkur sérstaklega hættulegar?
Veidd í snöru ágirndar í auðlegð og eignir
8. Hvaða viðvörun gefur Biblían varðandi ríkidæmi?
8 Flestir kristnir menn hafa heyrt greinilegar viðvaranir frá Biblíunni gegn því að þroska með sér ást á auðæfum, þrá eftir ríkidæmi. Hví ekki að rifja upp nokkrar þeirra eins og þær er að finna í Matteusi 6:24-33; Lúkasi 12:13-21 og 1. Tímóteusarbréfi 6:9, 10? Þér kann að finnast að þú meðtakir slík ráð og fylgir þeim en er ekki líklegt að Akan, Gehasí og Júdas hefðu sagt að þeir væru líka sammála þeim? Við verðum augljóslega að ganga lengra en aðeins að samþykkja þetta í huganum. Við verðum að gæta þess að snara ágirndar í auð og eignir hafi ekki áhrif á daglegt líf okkar.
9. Hvers vegna ættum við að skoða viðhorf okkar til búðarferða?
9 Í daglega lífinu þurfum við oft að kaupa inn — matvörur, fatnað og hluti til heimilisins. (1. Mósebók 42:1-3; 2. Konungabók 12:11, 12; Orðskviðirnir 31:14, 16; Lúkas 9:13; 17:28; 22:36) En viðskiptaheimurinn örvar upp löngun í fleiri og nýrri hluti. Margar auglýsingar, sem fylla dagblöð, tímarit og sjónvarpsskjái, höfða dulbúið til ágirndar. Það sama er gert í verslunum, þar sem eru fataslár með blússum, jökkum, kjólum og peysum, margar hillur af nýjum skóm, rafeindatækjum og myndavélum. Það væri skynsamlegt af kristnum mönnum að spyrja sjálfa sig: ‚Eru búðarferðir orðnar hápunktur eða helsta ánægjan í lífi mínu?‘ ‚Þarf ég í raun að fá nýja hluti sem ég sé eða er viðskiptaheimurinn aðeins að láta sæði ágirndar ná að þroskast í mér?‘ — 1. Jóhannesarbréf 2:16.
10. Hvaða snara ágirndarinnar er karlmönnum sérstaklega hættuleg?
10 Ef búðarferðir virðast vera almenn snara fyrir konur er öflun meiri peninga snara fyrir fjölmarga menn. Jesús lýsti þessari snöru í dæmisögu um ríkan mann sem hafði góðar tekjur en var þó staðráðinn í að ‚rífa hlöður sínar og reisa aðrar stærri til að safna þangað öllu korni sínu og auðæfum.‘ Jesús dró ekki dul á hættuna: „Gætið yðar, og varist alla ágirnd.“ (Lúkas 12:15-21) Hvort sem við erum rík eða ekki ættum við að fylgja þessu ráði.
11. Hvernig gæti ágirnd í meiri peninga orðið kristnum manni að tálsnöru?
11 Oft er ágirnd í meiri peninga, eða hluti sem kaupa má fyrir peninga, alin undir felulitum. Maður kann að kynna ráðabrugg sitt um skjótfenginn gróða á þann veg að um sé að ræða tækifæri, sem gefst kannski einu sinni á lífsleiðinni, til fjárhagslegs öryggis með því að leggja út í áhættusama fjárfestingu. Maður kann líka að freistast til að afla fjár með vafasömum eða ólöglegum viðskiptaháttum. Þessi löngun í meira gæti náð yfirhöndinni, orðið að snöru. (Sálmur 62:11; Orðskviðirnir 11:1; 20:10) Sumir innan kristna safnaðarins hafa farið út í viðskipti og vænst þess að bræður þeirra, sem treysta þeim, yrðu helstu viðskiptavinirnir. Ef ásetningur þeirra er ekki einfaldlega sá að láta í té nauðsynlega vöru eða þjónustu með því ‚að leggja hart að sér og gera það sem er gagnlegt með höndum sínum‘ heldur að afla sér fjármuna í flýti á kostnað annarra kristinna manna, þá býr ágirnd að baki verkum þeirra. (Efesusbréfið 4:28; Orðskviðirnir 20:21; 31:17-19, 24; 2. Þessaloníkubréf 3:8-12) Fégræðgi hefur komið sumum til að taka þátt í getraunum, happdrættum eða lottóspilum. Aðrir hafa látið hluttekningu og sanngirni lönd og leið og í flaustri höfðað mál fyrir dómstólum í von um að fá dæmda háa uppbót eða skaðabætur.
12. Hvernig vitum við að sigrast megi á ágirnd í auð og eignir?
12 Á þeim sviðum, sem nefnd eru hér að framan, á sjálfsrannsókn vel við til þess að við getum í raun og veru séð hvort ágirnd sé að verki í okkur. Jafnvel þótt svo sé getum við breyst. Mundu eftir að Sakkeus breyttist. (Lúkas 19:1-10) Ef einhver finnur að ágirnd í auð og eignir er vandamál hjá honum ætti hann að vera jafnstaðráðinn að sleppa undan snörunni og Sakkeus var. — Jeremía 17:9.
Ágirnd á öðrum sviðum lífsins
13. Hvaða annarri snöru ágirndarinnar vekur Sálmur 10:18 athygli okkar á?
13 Sumum reynist auðveldara að sjá hvernig ágirnd getur verið hættuleg þegar hún snertir peninga eða eignir heldur en þegar hún birtist á annan hátt. Grísk orðabók segir að þau orð, sem þýdd eru „græðgi“ eða „ágirnd,“ hafi merkinguna „‚að vilja meira‘ með tilvísun til valds o.s.frv. jafnt og eigna.“ Já, það getur orðið okkur að tálsnöru að vilja gráðug fara með yfirráð yfir öðrum, ef til vill láta þá skjálfa undir yfirráðum okkar. — Sálmur 10:18.
14. Á hvaða sviðum hefur valdafíkn reynst skaðleg?
14 Frá fyrstu tíð hafa ófullkomnir menn haft ánægju af að ráða yfir öðrum. Guð sá fyrir að sorgleg afleiðing syndar mannsins yrði sú að margir menn myndu „drottna“ yfir eiginkonum sínum. (1. Mós. 3:16) Þessi brestur hefur þó teygt sig út fyrir hjónabandið. Þúsundum ára síðar tók biblíuritari fram að „einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ (Prédikarinn 8:9) Þér er sjálfsagt kunnugt um hversu sönn þessi orð hafa reynst á vettvangi stjórnmála og hernaðar, en gæti það verið að við værum, á okkar eigin áhrifasvæði, að sækjast eftir meira valdi eða áhrifum?
15, 16. Í hvaða skilningi gæti löngun í meira vald orðið kristnum manni að tálsnöru? (Filippíbréfið 2:3)
15 Öll höfum við eitthvað með annað fólk að gera — fjölskyldumeðlimi okkar og ættingja, vinnu- og skólafélaga, vini okkar og safnaðarsystkini. Við kunnum endrum og sinnum, eða oft, að hafa nokkur áhrif á hvað verður gert, svo og hvernig og hvenær. Það er í sjálfu sér ekki rangt eða slæmt. En höfum við óhóflega mikla ánægju af því að beita einhverjum yfirráðum sem við kunnum að hafa? Getur verið að okkur líki það að eiga síðasta orðið og viljum gera það í sífellt ríkari mæli? Veraldlegir framkvæmdastjórar eða yfirmenn sýna þetta viðhorf með því að safna í kringum sig já-mönnum sem koma ekki með neinar gagnstæðar skoðanir og standa ekki á móti veraldlegu valdapoti yfirboðara sinna.
16 Þetta er snara sem ber að forðast í samskiptum við aðra kristna menn. Jesús sagði: „Þér vitið, að þeir, sem ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar.“ (Matteus 20:25, 26) Slík auðmýkt ætti að vera greinileg í samskiptum kristinna öldunga hver við annan, við safnaðarþjóna og við hjörðina. Gæti valdalöngun endurspeglast, svo dæmi sé tekið, í umsjónarmanni í forsæti sem leitar ráða hjá samöldungum sínum aðeins í minniháttar málum en tekur allar helstu ákvarðanirnar upp á sitt einsdæmi? Er hann í raun fús til að fá öðrum í hendur eitthvert af störfum sínum? Ef safnaðarþjónn, sem annast samkomu til boðunarstarfs, væri óeðlilega kröfuharður hvað snertir skipulagningu mála, setti jafnvel reglur, gæti það leitt til vandræða. — 1. Korintubréf 4:21; 9:18; 2. Korintubréf 10:8; 13:10; 1. Þessaloníkubréf 2:6, 7.
17. Hvers vegna er við hæfi að fjalla um mat þegar verið er að ræða um snöru ágirndarinnar?
17 Matur er annað svið þar sem ágirndin verður mörgum að tálsnöru. Að sjálfsögðu er eðlilegt að hafa ánægju af að neyta matar og drykkjar; Biblían talar með velþóknun um slíkt. (Prédikarinn 5:18) Þó er ekki óalgengt að löngun manna hvað þetta snertir vaxi er tímar líða og nái langt út fyrir það sem með skynsemi mætti kalla ánægjulegt og fullnægjandi. Ef þetta væri ekki mál sem þjónar Guðs þyrftu að hafa áhyggjur af, hvers vegna skyldi orð Jehóva þá segja í Orðskviðunum 23:20: „Ver þú ekki með drykkjurútum, með þeim, sem hvoma í sig kjöt“? Hvernig forðumst við þá þessa snöru?
18. Hvaða sjálfsrannsókn varðandi mat og drykk gætum við gert?
18 Guð leggur ekki til að fólk hans dragi fram lífið á einhverjum ströngum matarkúr. (Prédikarinn 2:24, 25) En hann hefur ekki heldur velþóknun á því að við gerum mat og drykk ríkjandi þátt í samræðum okkar og áætlunum. Við gætum spurt okkur: ‚Verð ég oft óþarflega ákafur þegar ég lýsi einhverri máltíð sem ég neytti eða ætla að neyta?‘ ‚Er ég sítalandi um mat og drykk?‘ Önnur mælistika gæti verðið sú hvernig við bregðumst við þegar við fáum málsverð sem við matreiddum ekki sjálf eða greiddum fyrir, ef til vill þegar við erum gestir í annarra húsum eða þegar matur stendur til boða á kristnum mótum. Gæti verið að við höfum þá tilhneigingu til að borða miklu meira en venjulega? Við munum eftir að Esaú leyfði matnum að skipta of miklu máli sem varð honum til varanlegs tjóns. — Hebreabréfið 12:16.
19. Hvernig gæti ágirnd verið vandamál í tengslum við unað af kynlífi?
19 Páll gefur okkur innsýn í aðra snöru: „Frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum.“ (Efesusbréfið 4:17-19; 5:3) Ágirnd í kynlífsunað getur sprottið upp. Þessa unaðar má að sjálfsögðu njóta á viðeigandi hátt innan hjónabandsins. Hið nána kærleiksþel, sem tengist þessum unaði, á þátt í að hjálpa eiginmanni og eiginkonu að halda áfram að sýna hvort öðru trúnað í margra ára hjónabandi. Fáir myndu þó þræta fyrir að heimur nútímans hefur lagt öfgafulla áherslu á kynlíf, látið sem sú hegðun væri eðlileg sem í rauninni endurspeglar þá ágirnd sem Páll nefndi. Þeir sem hleypa að sér því siðleysi og nekt, sem algeng er nú á tímum í mörgum kvikmyndum, myndböndum og tímaritum, svo og á skemmtistöðum eru sér í lagi fljótir til að taka upp slíkt viðhorf til kynlífsunaðar.
20. Hvernig geta kristnir menn sýnt að þeir eru sér meðvitandi um hættuna á ágirnd hvað varðar kynlíf?
20 Frásögnin af synd Davíðs með Batsebu sýnir að snara ágirndar í kynlíf getur fallið yfir þjón Guðs. Þó að Davíð væri frjálst að njóta unaðar innan hjónaband síns leyfði hann löngun í ólögmætt kynlíf að vaxa með sér. Er hann tók eftir hversu aðlaðandi eiginkona Úría var gaf hann lausan tauminn þeirri hugsun — og athöfn — að njóta ólögmæts unaðar með henni. (2. Samúelsbók 11:2-4; Jakobsbréfið 1:14, 15) Vissulega verðum við að sneiða hjá þessari mynd ágirndarinnar. Það hæfir jafnvel innan hjónabandsins að sneiða hjá ágirnd. Í því felst að hafna kynhegðun sem fer út á ystu nöf. Eiginmaður, sem væri staðráðinn í að forðast ágirnd á þessu sviði, myndi hafa einlægan áhuga á maka sínum, þannig að þegar þau tvö kynnu að taka ákvörðun um fjölskyldustærð þá yrði unaður hans ekki þyngri á metunum en heilsa konu hans bæði núna eða í framtíðinni. — Filippíbréfið 2:4.
Haltu áfram að vera staðráðinn í að forðast ágirnd
21. Hvers vegna ætti umfjöllun okkar um ágirnd ekki að draga úr okkur kjarkinn?
21 Jehóva kemur ekki með varnaðarorð og viðvaranir vegna nokkurs vantrausts. Hann veit að tryggir þjónar hans vilja þjóna honum trúfastlega og hann er viss um að mikill meirihluti þeirra mun halda áfram að gera það. Hann getur komist svipað að orði um lýð sinn í heild og hann gerði við Satan um Job: „Veittir þú athygli þjóni mínum Job? því að enginn er hans líki á jörðu, maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar.“ (Jobsbók 1:8) Kærleiksríkur, himneskur faðir okkar, sem treystir okkur, gerir okkur viðvart um hættulegar snörur, eins og þær sem tengjast ýmsum myndum ágirndarinnar, af því að hann vill að við höldum áfram að vera flekklaus og honum trúföst.
22. Hvað ættum við að gera ef nám okkar hefur leitt í ljós persónuleg hættusvæði eða veikleikasvið?
22 Við höfum hvert og eitt okkar erft tilhneigingu til ágirndar og kunnum að hafa glætt hana enn frekar undir áhrifum þessa illa heims. Ef þú komst auga á einhver veikleikasvið, þegar við vorum að rannsaka ágirndina — hvað snertir auðlegð, eignir, vald og yfirráð, mat eða unað af kynlífi — hvað þá? Taktu þá til þín ráð Jesú: „Ef hönd þín tælir þig til falls, þá sníð hana af. Betra er þér handarvana inn að ganga til lífsins en hafa báðar hendur og fara til helvítis [„Gehenna,“ NW], í hinn óslökkvanda eld.“ (Markús 9:43) Gerðu hverjar þær breytingar á viðhorfum þínum eða áhugamálum sem það kallar á. Forðastu banvænar snörur ágirndarinnar. Þannig getur þú með hjálp Guðs ‚gengið inn til lífsins.‘
Hvað hef ég lært?
◻ Hvers vegna ættum við að leiða hugann að snörum ágirndarinnar?
◻ Á hvaða vegu gæti ágirnd í auðlegð eða eignir orðið okkur að tálsnöru?
◻ Hvernig gæti ágirnd á öðrum sviðum lífsins reynst raunveruleg hætta?
◻ Hvert ætti að vera viðhorf okkar til hugsanlegs veikleika sem við höfum hvað snertir ágirnd?