Jehóva — Meðaumkunarsamur faðir okkar
„[Jehóva] er mjög ástúðlegur og meðaumkunarsamur.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 5:11, NW, neðanmáls.
1. Af hverju laðast lítilmagninn að Jehóva Guði?
ALHEIMURINN er svo stór að stjarnfræðingar geta ekki einu sinni kastað tölu á allar vetrarbrautir hans. Vetrarbrautin okkar er svo víðáttumikil að maðurinn hefur alls enga tölu á öllum stjörnunum í henni. Sumar stjörnur, svo sem Antares, eru mörg þúsund sinnum stærri og bjartari en sólin okkar. Hinn mikli skapari allra stjarnanna í alheiminum hlýtur að vera geysimáttugur! Hann er sá „sem leiðir út her þeirra með tölu og kallar þær allar með nafni.“ (Jesaja 40:26) En þessi sami, lotningarverði Guð er líka „mjög ástúðlegur og meðaumkunarsamur.“ Slík vitneskja er mjög uppörvandi fyrir auðmjúka þjóna Jehóva, einkum þá sem eru ofsóttir, sjúkir, þunglyndir eða eiga við aðra erfiðleika að glíma!
2. Hvernig lítur heimurinn oft á mildar og blíðar tilfinningar?
2 Margir álíta hinar mildari tilfinningar, svo sem „ástúð og meðaumkun“ Krists, veikleika. (Filippíbréfið 2:1) Undir áhrifum þróunarhugmynda hvetja þeir fólk til að trana sér fram, jafnvel þótt það kosti að traðka á tilfinningum annarra. Fjölmargar hetjufyrirmyndir úr heimi kvikmynda og íþrótta eru karlmennskuímyndir sem fella hvorki tár né sýna blíðu og ástúð. Sumir valdhafar hegða sér ósköp svipað. Stóuspekingurinn Seneca, lærifaðir hins grimma Nerós keisara, lagði áherslu á að „vorkunnsemi væri veikleiki.“ Cyclopædia M’Clintocks and Strongs segir: „Stóuspekin . . . hefur enn þann dag í dag áhrif á hugsun manna.“
3. Hvernig lýsti Jehóva sjálfum sér fyrir Móse?
3 Persónuleiki skapara mannsins er aftur á móti hlýlegur. Hann lýsti sjálfum sér fyrir Móse með þessum orðum: „[Jehóva, Jehóva], miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur, sem . . . fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir, en lætur þeirra þó eigi með öllu óhegnt.“ (2. Mósebók 34:6, 7) Að vísu lauk Jehóva þessari lýsingu á sjálfum sér með því að leggja áherslu á réttvísi sína. Hann lætur þá sem syndga af ásetningi ekki komast undan verðskuldaðri refsingu. Eigi að síður lýsir hann sér fyrst og fremst sem miskunnsömum Guði, bókstaflega „fullum af miskunn.“
4. Hver er hin hlýlega merking hebreska orðsins sem oft er þýtt „miskunn“?
4 Orðið „miskunn“ er stundum skilið aðeins í hreinum réttarfarslegum skilningi og þá svo að það merki einungis að hlífa við refsingu. En samanburður á biblíuþýðingum dregur fram hina mjög svo djúptæku merkingu hebreska lýsingarorðsins sem dregið er af sagnorðinu rachamʹ. Að sögn sumra fræðimanna merkir orðrótin „að vera mjúkur.“ Bókin Synonyms of the Old Testament útskýrir: „Racham lýsir djúpri og innilegri meðaumkun eins og vaknar við það að sjá ástvini okkar eða þá sem þarfnast hjálpar okkar veika eða þjáða.“ Ítarlega lýsingu á þessum eftirsóknarverða eiginleika er að finna í bókinni Insight on the Scriptures (enskri útgáfu), 2. bindi, bls. 375-9.
5. Hvernig birtist miskunnsemi Guðs í Móselögunum?
5 Innileg meðaumkun Guðs kemur greinilega fram í lögmálinu sem hann gaf Ísraelsþjóðinni. Menn áttu að sýna bágstöddum, svo sem ekkjum, munaðarlausum og fátækum, meðaumkun eða miskunn. (2. Mósebók 22:22-27; 3. Mósebók 19:9, 10; 5. Mósebók 15:7-11) Allir, þeirra á meðal þrælar og burðardýr, áttu að njóta góðs af hinum vikulega hvíldardegi. (2. Mósebók 20:10) Og Guð tók eftir þeim sem komu vel fram við lítilmagnann. Orðskviðirnir 19:17 segja: „Sá lánar [Jehóva], er líknar fátækum, og hann mun launa honum góðverk hans.“
Meðaumkun Guðs takmörk sett
6. Af hverju sendi Jehóva spámenn og sendiboða til þjóðar sinnar?
6 Ísraelsmenn báru nafn Guðs og tilbáðu í musterinu í Jerúsalem sem var „musteri nafni [Jehóva].“ (2. Kroníkubók 2:4; 6:33) En þegar fram liðu stundir fóru þeir að umbera siðleysi, skurðgoðadýrkun og morð og smánuðu nafn Jehóva mjög. Í samræmi við meðaumkun sína reyndi Guð með þolinmæði að bæta úr þessu slæma ástandi án þess að leiða ógæfu yfir alla þjóðina. Hann „sendi þeim stöðugt áminningar fyrir sendiboða sína, því að hann vildi þyrma lýð sínum og bústað sínum. En þeir smánuðu sendiboða Guðs, fyrirlitu orð hans og gjörðu gys að spámönnum hans, uns reiði [Jehóva] við lýð hans var orðin svo mikil, að eigi mátti við gjöra.“ — 2. Kroníkubók 36:15, 16.
7. Hvað varð um Júdaríkið þegar meðaumkun Jehóva þraut?
7 Enda þótt Jehóva sé meðaumkunarsamur og seinn til reiði sýnir hann þó réttláta reiði þegar nauðsyn ber til. Þegar þarna var komið sögu var meðaumkun hans á þrotum. Við lesum um afleiðingarnar: „[Jehóva] lét Kaldeakonung fara herför gegn þeim, og drap hann æskumenn þeirra með sverði í helgidómi þeirra. Þyrmdi hann hvorki æskumönnum né ungmeyjum, öldruðum né örvasa — allt gaf Guð honum á vald.“ (2. Kroníkubók 36:17) Jerúsalem og musterið voru lögð í rúst og þjóðin flutt í fjötrum til Babýlonar.
Umhyggja fyrir nafni sínu
8, 9. (a) Af hverju lýsti Jehóva yfir að honum væri umhugað um nafn sitt? (b) Hvernig var þaggað niður í óvinum Jehóva?
8 Þjóðirnar umhverfis fögnuðu þessari ógæfu. Þær sögðu háðslega: „Þetta er lýður [Jehóva], og þó urðu þeir að fara burt úr landi sínu!“ Jehóva tók þessar háðsglósur nærri sér og lýsti yfir: „Mig tók það sárt, að Ísraelsmenn skyldu svo vanhelga heilagt nafn mitt . . . Og ég mun helga mitt hið mikla nafn, . . . til þess að þjóðirnar viðurkenni, að ég er [Jehóva].“ — Esekíel 36:20-23.
9 Eftir að þjóðin hafði verið í ánauð í 70 ár leysti hinn meðaumkunarsami Guð, Jehóva, hana úr haldi og leyfði henni að snúa heim aftur til að endurbyggja musterið í Jerúsalem. Þetta þaggaði niður í þjóðunum umhverfis sem horfðu á í forundrun. (Esekíel 36:35, 36) En Ísrael fór því miður aftur út á illskubraut. Trúfastur Gyðingur, Nehemía að nafni, átti þátt í að bæta úr því. Í opinberri bæn rifjaði hann upp meðaumkun Guðs með þjóðinni og sagði:
10. Hvernig lagði Nehemía áherslu á meðaumkun Jehóva?
10 „Þegar þeir voru í nauðum staddir, hrópuðu þeir til þín, og þú heyrðir þá af himnum og gafst þeim frelsara af mikilli miskunn þinni, er frelsuðu þá úr höndum óvina þeirra. En er þeir höfðu fengið hvíld, tóku þeir aftur að gjöra það sem illt var fyrir augliti þínu. Þá ofurseldir þú þá óvinum þeirra, svo að þeir drottnuðu yfir þeim. Þá hrópuðu þeir aftur til þín, og þú heyrðir þá af himnum og bjargaðir þeim af miskunn þinni mörgum sinnum. . . . Þú umbarst þá í mörg ár.“ — Nehemía 9:26-30; sjá einnig Jesaja 63:9, 10.
11. Hve ólíkur er Jehóva guðum manna?
11 Loks, eftir að Gyðingaþjóðin hafði hafnað ástkærum syni Guðs mjög svo grimmilega, missti hún sérréttindastöðu sína endanlega. Guð hafði haldið tryggðartengslum við hana í meira en 1500 ár. Það er eilífur vitnisburður um þá staðreynd að Jehóva er svo sannarlega miskunnsamur Guð. Hve ólíkur er hann ekki hinum grimmu guðum og tilfinningalausu guðdómum sem eru hugarfóstur syndugra manna! — Sjá ramma bls. 14.
Mesta tjáning meðaumkunar Guðs
12. Hver var mesta tjáning meðaumkunar Guðs?
12 Mesta tjáning meðaumkunar Guðs átti sér stað er hann sendi ástkæran son sinn til jarðar. Ráðvönd lífsstefna Jesú veitti Jehóva vissulega mikla gleði og færði honum í hendur fullkomið svar við falskærum djöfulsins. (Orðskviðirnir 27:11) En um leið þurfti hann að horfa upp á ástkæran son sinn deyja á kvalafullan og auðmýkjandi hátt. Það olli Jehóva áreiðanlega meiri sársauka en nokkurt mennskt foreldri hefur fundið fyrir. Þetta var mjög kærleiksrík fórn sem opnaði mannkyninu leið til hjálpræðis. (Jóhannes 3:16) Eins og Sakaría, faðir Jóhannesar skírara, sagði fyrir miklaði hún „hjartans miskunn [„meðaumkun,“ NW] Guðs vors.“ — Lúkas 1:77, 78.
13. Á hvaða þýðingarmikinn hátt hefur Jesús endurspeglað persónuleika föður síns?
13 Með því að senda son sinn til jarðar gaf Jehóva mannkyninu líka gleggri mynd af persónuleika sínum. Hvernig þá? Á þann hátt að Jesús endurspeglaði persónuleika föður síns fullkomlega, einkum með hjartans meðaumkun sinni gagnvart lítilmagnanum! (Jóhannes 1:14; 14:9) Þegar guðspjallaritararnir þrír, Matteus, Markús og Lúkas, lýsa samkennd Jesú með fólki nota þeir grísku sögnina splagkhniʹsomai sem kemur af grísku orði er merkir „iður.“ Biblíufræðingurinn William Barclay segir: „Af uppruna orðsins má sjá að það lýsir engri venjulegri vorkunn eða meðaumkun heldur tilfinningu sem snertir innstu kenndir mannsins. Það er sterkasta orð grískunnar fyrir meðaumkun.“ Það er því oft þýtt ‚að kenna í brjósti um.‘ — Markús 6:34; 8:2.
Þegar Jesús kenndi í brjósti um fólk
14, 15. Hvernig kenndi Jesús í brjósti um fólk í bæjum í Galíleu og hvað sýnir það?
14 Í bæ í Galíleu kemur maður „altekinn líkþrá“ til Jesú án þess að hrópa hin venjulegu viðvörunarorð. (Lúkas 5:12) Ávítar Jesús hann hranalega fyrir að hrópa ekki „óhreinn, óhreinn,“ eins og lögmál Guðs krafðist? (3. Mósebók 13:45) Nei, Jesús hlustar á örvæntingarfulla beiðni mannsins: „Ef þú vilt, getur þú hreinsað mig.“ Jesús ‚kennir í brjósti um manninn,‘ réttir út höndina, snertir hann og segir: „Ég vil, verð þú hreinn!“ Maðurinn læknast þegar í stað. Þannig sýnir Jesús ekki bara þann undraverða mátt, sem Guð gaf honum, heldur einnig þær innilegu tilfinningar sem koma honum til að beita þessum mætti. — Markús 1:40-42.
15 Þurfa menn sjálfir að eiga frumkvæðið til að Jesús sýni þeim hluttekningu og meðaumkun? Nei, nokkru síðar gengur hann fram á líkfylgd á leið út úr borginni Nain. Vafalaust hefur Jesús mörgum sinnum áður horft upp á líkfylgd en þessi er sérstaklega sorgleg. Hinn látni er einkasonur ekkju nokkurrar. Jesús ‚kennir í brjósti um hana,‘ gengur til hennar og segir: „Grát þú eigi!“ Síðan vinnur hann það einstæða kraftaverk að reisa son hennar upp frá dauðum. — Lúkas 7:11-15.
16. Hvers vegna kenndi Jesús í brjósti um mannfjöldann sem elti hann?
16 Af ofangreindum atburðum má draga þann lærdóm að þegar Jesús ‚kennir í brjósti um‘ fólk gerir hann eitthvað til að hjálpa því. Síðar virðir Jesús fyrir sér mikinn mannfjölda sem eltir hann á röndum. Matteus segir svo frá að hann hafi ‚kennt í brjósti um fólk, því það var hrjáð og umkomulaust eins og sauðir, er engan hirði hafa.‘ (Matteus 9:36) Farísearnir gera lítið til að seðja andlegt hungur almennings. Þeir íþyngja heldur auðmjúku fólki með mörgum óþörfum reglum. (Matteus 12:1, 2; 15:1-9; 23:4, 23) Viðhorf þeirra til almennings kom upp á yfirborðið þegar þeir sögðu um þá sem hlustuðu á Jesú: „Þessi almúgi, sem veit ekkert í lögmálinu, hann er bölvaður!“ — Jóhannes 7:49.
17. Hvað kom meðaumkun Jesú gagnvart mannfjöldanum honum til að gera og hvaða áhrifamikla leiðsögn veitti hann þar?
17 Jesús er hins vegar djúpt snortinn af andlegri neyð mannfjöldans. En hinir áhugasömu eru hreinlega of margir til að hann geti sinnt þeim hverjum og einum. Hann segir því lærisveinunum að biðja um fleiri verkamenn. (Matteus 9:35-38) Í samræmi við slíkar bænir sendir Jesús postula sína út með boðskapinn: „Himnaríki er í nánd.“ Fyrirmælin, sem Jesús gaf við það tækifæri, hafa verið verðmæt leiðsögn fyrir kristna menn allt fram á þennan dag. Vafalaust er það meðaumkun Jesú sem fær hann til að seðja andlegt hungur manna. — Matteus 10:5-7.
18. Hvernig bregst Jesús við þegar mannfjöldinn gerist ágengur og hvaða lærdóm drögum við af því?
18 Við annað tækifæri sýnir Jesús aftur umhyggju fyrir andlegum þörfum mannfjöldans. Þessu sinni eru hann og postularnir þreyttir eftir annasama prédikunarferð og leita sér að stað til að hvílast. En fólkið finnur þá fljótt. Jesús lætur þessa ágengni ekki fara í taugarnar á sér heldur segir Markús að hann hafi ‚kennt í brjósti um fólkið.‘ Og af hverju fann Jesús svona til með mönnum? „Þeir voru sem sauðir, er engan hirði hafa.“ Enn lætur Jesús tilfinningar sínar birtast í verki og byrjar að kenna mannfjöldanum „um Guðs ríki.“ Já, hann var svo djúpt snortinn af andlegu hungri manna að hann fórnaði nauðsynlegri hvíld til að kenna þeim. — Markús 6:34; Lúkas 9:11.
19. Hvernig var umhyggja Jesú fyrir fólki ekki einskorðuð við það að fullnægja andlegum þörfum þess?
19 Enda þótt Jesús hafi fyrst og fremst látið sér annt um andlegar þarfir manna gleymdi hann aldrei líkamlegum frumþörfum þeirra. Við sama tækifæri ‚læknaði hann einnig þá er lækningar þurftu.‘ (Lúkas 9:11) Síðar hafði mannfjöldinn verið með honum lengi og var langt að heiman. Jesús gerði sér grein fyrir líkamlegri þörf áheyrenda sinna og sagði lærisveinunum: „Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Þeir hafa nú hjá mér verið þrjá daga og hafa ekkert til matar. Ég vil ekki láta þá fara fastandi frá mér, þeir gætu örmagnast á leiðinni.“ (Matteus 15:32) Síðan gerir Jesús eitthvað til að afstýra hugsanlegum þjáningum. Með kraftaverki sér hann þúsundum karla, kvenna og barna fyrir máltíð af sjö brauðum og fáeinum smáfiskum.
20. Hvað lærum við af síðustu skráðu frásögninni af því að Jesús hafi kennt í brjósti um fólk?
20 Síðasta skráða frásögnin af því að Jesús hafi kennt í brjósti um fólk er frá síðustu ferð hans til Jerúsalem. Mikill mannfjöldi er honum samferða þangað til að halda páska. Á veginum í grennd við Jeríkó hrópa tveir blindir beiningamenn til hans í sífellu: „Herra, miskunna þú okkur.“ Mannfjöldinn reynir að þagga niður í þeim en Jesús kallar á þá og spyr hvað þeir vilji. „Herra, lát augu okkar opnast,“ sárbæna þeir hann. Jesús ‚kennir í brjósti um þá,‘ snertir augu þeirra og þeir fá sjónina. (Matteus 20:29-34) Við drögum þýðingarmikinn lærdóm af þessu! Síðasta þjónustuvika Jesú er í þann mund að hefjast. Hann á mikið ógert áður en hann útsendarar Satans taka hann af lífi á grimmilegan hátt. Samt lætur hann ekki álag þessara örlagaríku tíma hindra sig í að sýna öðrum innilega meðaumkun, þó svo að þarfir þeirra hafi skipt minna máli í þessu samhengi.
Líkingar sem leggja áherslu á meðaumkun
21. Hvað sýnir dæmisagan um húsbóndann sem gaf þjóni sínum upp mikla skuld?
21 Gríska sagnorðið splagkhniʹsomai, sem notað er í þessum frásögum af ævi Jesú, er líka notað í þrem af dæmisögum hans. Í einni sögunni sárbænir þjónn húsbónda sinn um frest til að endurgreiða mikla skuld. Húsbóndi hans ‚kennir í brjósti um hann‘ og fellir niður skuldina. Þessi dæmisaga lýsir því hvernig Jehóva Guð hefur sýnt mikla meðaumkun með því að fella niður háa syndaskuld hvers einstaks kristins manns sem trúir á lausnarfórn Jesú. — Matteus 18:27; 20:28.
22. Hverju lýsir dæmisagan um glataða soninn?
22 Svo er það sagan um glataða soninn. Mundu hvað gerðist þegar vegvillti sonurinn sneri aftur heim. „Er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann.“ (Lúkas 15:20) Þetta sýnir að þegar kristinn maður, sem hefur villst af réttri braut, iðrast einlæglega kennir Jehóva í brjósti um hann og tekur hlýlega við honum aftur. Þannig sýnir Jesús með þessum tveim dæmisögum að faðir okkar, Jehóva, „er mjög ástúðlegur og meðaumkunarsamur.“ — Jakobsbréfið 5:11, NW, neðanmáls.
23. Hvaða lærdóm drögum við af dæmisögu Jesú um miskunnsama Samverjann?
23 Þriðja dæmisagan, þar sem splagkhniʹsomai er notað, er sagan um miskunnsama Samverjann er „kenndi . . . í brjósti um“ Gyðing sem hafði verið rændur og skilinn eftir dauðvona. (Lúkas 10:33) Samverjinn lét þessa tilfinningu birtast í verki og gerði allt sem í hans valdi stóð til að hjálpa ókunna manninum. Þetta sýnir að Jehóva og Jesús ætlast til að sannkristnir menn fylgi fordæmi þeirra í að sýna hjartagæsku og meðaumkun. Í greininni á eftir er fjallað um nokkrar leiðir til að gera það.
Upprifjunarspurningar
◻ Hvað merkir það að vera miskunnsamur?
◻ Hvernig sýndi Jehóva umhyggju fyrir nafni sínu?
◻ Hver er mesta tjáning meðaumkunar Guðs?
◻ Á hvaða einstakan hátt endurspeglar Jesús persónuleika föður síns?
◻ Hvað lærum við af miskunnarverkum Jesú og dæmisögum?
[Rammi á blaðsíðu 12, 13]
LÝSANDI ORÐ FYRIR „ÁSTRÍKA UMHYGGJU“
„Iður mín, iður mín!“ hrópaði spámaðurinn Jeremía. Var hann að kvarta undan iðrakveisu út af einhverju sem hann hafði borðað? Nei, Jeremía greip hér til hebresks myndmáls til að lýsa djúpum áhyggjum sínum af ógæfunni sem átti að koma yfir Júdaríkið. — Jeremía 4:19.
Þar eð Jehóva Guð hefur djúpstæðar tilfinningar er hebreska orðið fyrir „iður“ (meʽimʹ) einnig notað til að lýsa blíðum tilfinningum hans. Tökum dæmi: Áratugum fyrir daga Jeremía var tíuættkvíslaríkið Ísrael hernumið af Assýríukonungi. Jehóva leyfði það til að refsa Ísraelsmönnum fyrir ótrúmennsku þeirra. En gleymdi hann þeim í útlegðinni? Nei, honum þótti enn mjög vænt um þá því að þeir tilheyrðu sáttmálaþjóð hans. Jehóva kallaði þá eftir helstu ættkvíslinni, Efraím, og spurði: „Er Efraím mér þá svo dýrmætur sonur eða slíkt eftirlætisbarn, að þótt ég hafi oft hótað honum, þá verð ég ávallt að minnast hans að nýju? Fyrir því kemst hjarta mitt [„iður mín,“ NW] við vegna hans, ég hlýt að miskunna mig yfir hann.“ — Jeremía 31:20.
Þegar Jehóva sagði ‚iður sín hafa komist við‘ var hann að nota myndmál til að lýsa innilegri ást á útlægri þjóð sinni. Biblíufræðingurinn E. Henderson, sem uppi var á síðustu öld, sagði í skýringum við þetta vers: „Ekkert tekur fram hinni hrífandi föðurást sem Jehóva tjáir hér iðrunarfullum syni. . . . Þótt hann hefði talað gegn [skurðgoðadýrkun Efraímíta] og refsað þeim . . . gleymdi hann þeim aldrei heldur gladdist þvert á móti í voninni um afturhvarf þeirra síðar.“
Gríska orðið fyrir „iður“ er notað á svipaðan hátt í kristnu Grísku ritningunum. Þegar það er ekki notað í bókstaflegri merkingu, eins og í Postulasögunni 1:18, lýsir það innilegri ástúð eða meðaumkun. (Fílemonsbréfið 12) Orðið er stundum tengt gríska orðinu sem merkir „góður“ eða „mjög.“ Postularnir Pétur og Páll notuðu samsetta orðið þegar þeir hvöttu kristna menn til að vera innilega „meðaumkunarsamir,“ bókstaflega að „hneigjast mjög til samúðar.“ (Efesusbréfið 4:32, Bi 1859; 1. Pétursbréf 3:8, Bi 1859) Gríska orðið fyrir „iður“ er einnig hægt að tengja gríska orðinu polyʹ. Samsetta orðið merkir bókstaflega „með mikil iður.“ Þetta mjög svo sjaldgæfa orð er aðeins notað einu sinni í Biblíunni og þá um Jehóva Guð. Nýheimsþýðingin þýðir það þannig: „Jehóva er mjög ástúðlegur.“ — Jakobsbréfið 5:11.
Við ættum að vera mjög þakklát fyrir að voldugasta persóna alheimsins, Jehóva Guð, skuli vera svona ólíkur þeim grimmu guðum sem eru hugarfóstur umhyggjulausra manna! Sannkristnir menn líkja eftir ‚meðaumkunarsömum‘ Guði sínum og finna hjá sér hvöt til að sýna innilega meðaumkun í samskiptum hver við annan. — Efesusbréfið 5:1.
[Rammi á blaðsíðu 14]
GRIMMIR GUÐIR MANNA
GUÐUM fornþjóðanna er oft lýst sem blóðþyrstum og lostafullum. Foreldrar brenndu jafnvel börn sín lifandi til að blíðka þá. (5. Mósebók 12:31) Heiðnir heimspekingar fóru út í hinar öfgarnar og kenndu að Guð hefði ekki tilfinningar á borð við reiði eða meðaumkun.
Viðhorf þessara heimspekinga, sem voru innblásin af illum öndum, höfðu áhrif á Gyðinga er kváðust vera þjóð Guðs. Heimspekingurinn Fílon, sem var Gyðingur og samtíðarmaður Jesú, fullyrti að Guð „sýndi ógjarnan nokkra ástríðu.“
Hinn strangi sértrúarflokkur faríseanna slapp jafnvel ekki undan áhrifum grískrar heimspeki. Farísearnir tóku kenningar Platóns um að maðurinn sé ódauðleg sál fjötruð í mannslíkama upp á arma sína. Og að sögn sagnaritarans Jósefusar á fyrstu öld trúðu farísearnir að sálir óguðlegra „hlytu eilífa refsingu.“ En Biblían gefur ekkert tilefni til slíkra skoðana. — 1. Mósebók 2:7; 3:19; Prédikarinn 9:5; Esekíel 18:4.
Hvað um fylgjendur Jesú? Leyfðu þeir heiðinni heimspeki að hafa áhrif á sig? Páll postuli gerði sér grein fyrir hættunni og varaði kristna menn við: „Gætið þess, að enginn verði til að hertaka yður með heimspeki og hégómavillu, sem byggist á mannasetningum, er runnið frá heimsvættunum, en ekki frá Kristi.“ — Kólossubréfið 2:8; sjá einnig 1. Tímóteusarbréf 6:20.
Því miður höfðu margir umsjónarmenn á annarri og þriðju öld, sem kváðust vera kristnir, þessa viðvörun að engu og kenndu að Guð hefði ekki tilfinningar. The Encyclopedia of Religion segir: „Á heildina litið skynjuðu menn eiginleika Guðs mjög líkt og þeir voru settir fram í hugmyndafræði Gyðinga þess tíma og samtíðarheimspeki . . . Sú hugmynd að Guð faðirinn gæti haft tilfinningar svo sem meðaumkun . . . hefur almennt verið talin óaðgengileg að minnsta kosti fram á síðari hluta tuttugustu aldar.“
Þannig tók kristni heimurinn upp falskenninguna um grimman guð sem refsar syndurum með því að láta þá kveljast að eilífu. Jehóva Guð segir hins vegar skýrt og greinilega í orði sínu, Biblíunni, að ‚laun syndarinnar séu dauði,‘ ekki eilífar, meðvitaðar kvalir. — Rómverjabréfið 6:23.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Þegar meðaumkun Jehóva var á þrotum leyfði hann Babýloníumönnum að sigra vegvillta þjóð sína.
[Mynd á blaðsíðu 11]
Að horfa upp á son sinn deyja hlýtur að hafa valdið Jehóva Guði mesta sársauka sem nokkur hefur fundið fyrir.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Jesús endurspeglaði meðaumkunarsemi föður síns fullkomlega.