Fylgjum Jesú Kristi
1 Margir láta lífið snúast um að þóknast sjálfum sér en eru samt sem áður óhamingjusamir. Sú lífsstefna, sem Jesús hvatti fólk hins vegar til að fylgja, felur í sér óeigingirni og fórnfýsi og færir sanna hamingju. (Post. 20:35) Hann sagði: „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér . . . og fylgi mér.“ (Mark. 8:34) Þetta útheimtir meira en aðeins að neita sér um vissan munað öðru hverju. Það merkir að nota hverja stund til að þóknast Jehóva en ekki okkur sjálfum. — Rómv. 14:8; 15:3.
2 Tökum Pál postula sem dæmi. Hann leit á það sem ‚yfirburði að þekkja Jesú Krist‘ og hætti þar af leiðandi að hugsa fyrst og fremst um að fullnægja eigin löngunum og þrám og einbeitti sér að því að starfa í þágu Guðsríkis. (Fil. 3:7, 8) Hann sagðist vera fús til að verja því sem hann ætti og leggja sjálfan sig í sölurnar fyrir aðra. (2. Kor. 12:15) Hvert og eitt okkar ætti því að spyrja sig: Hvernig nota ég tíma minn, krafta, hæfileika, fjármuni og eignir? Hugsa ég fyrst og fremst um að sinna eigin áhugamálum eða leitast ég við að gleðja Jehóva?
3 Tækifæri til að gefa: Á hverju ári verja vottar Jehóva meira en milljarði klukkustunda til að prédika fagnaðarerindið sem getur bjargað mannslífum. Í söfnuðinum sinna jafnt ungir sem aldnir margs konar verkefnum sem koma öðrum að gagni. Einnig er mikið starf unnið í tengslum við mót, byggingarstarf og viðhald á byggingum sem notaðar eru til að efla sanna tilbeiðslu. Og ekki má gleyma kærleiksríkri aðstoð þeirra bræðra sem starfa í spítalasamskiptanefndum. Slík fórnfýsi er bræðrafélaginu til mikillar blessunar. — Sálm. 110:3.
4 Við fáum tækifæri til að veita hjálp með ýmsum hætti þegar náttúruhamfarir verða eða aðrar hörmungar dynja yfir. En oftar en ekki getum við gefið af okkur með því að vera vakandi fyrir því þegar trúsystkini þurfa á aðstoð eða hvatningu að halda. (Orðskv. 17:17) Við fylgjum fordæmi Jesú þegar við bjóðum okkur fúslega fram til að hjálpa öðrum og starfa í þágu Guðsríkis. (Fil. 2:5-8) Höldum áfram á þeirri braut.