Foreldrar náið til hjartna barnanna
„Alið [börnin] upp með aga og umvöndun [Jehóva].“ — EFESUSBRÉFIÐ 6:4.
1. Hvaða atvik átti sér stað á sérlega erfiðu tímabili í ævi Jesú?
JESÚS Kristur og lærisveinar hans voru á leið til Jerúsalem. Tvívegis skömmu áður hafði Jesús sagt lærisveinunum að hann myndi ganga í gegnum miklar þjáningar og verða líflátinn þar í borg. (Markús 8:31; 9:31) Á þessum sérlega erfiða tíma í ævi Jesú gerðist það að „menn færðu . . . til hans ungbörnin, að hann snerti þau.“ — Lúkas 18:15.
2. (a) Hvers vegna skyldu lærisveinarnir hafa reynt að bægja fólkinu frá? (b) Hvernig brást Jesús við?
2 Lærisveinarnir átöldu fólkið og reyndu að bægja því frá. Þeir héldu vafalaust að þeir væru að gera Jesú greiða með því að vernda hann fyrir óþarfa ónæði og álagi. En Jesús reiddist lærisveinunum og sagði: „‚Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi‘ . . . og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.“ (Markús 10:13-16) Þrátt fyrir allt það sem hvíldi á huga Jesú og hjarta tók hann sér tíma fyrir lítil börn.
Hvað geta foreldrar lært af því?
3. Hvaða lærdóm ættu foreldrar að draga af þessu atviki?
3 Þetta ætti að minna foreldra á að þeir ættu að taka sér tíma til að vera með börnunum, óháð öllum öðrum skyldum eða erfiðleikum sem þeir standa frammi fyrir. Þeir ættu að láta það hafa forgang fram yfir annað. Þann tíma, sem varið er með börnunum, er hægt að nota til að innræta þeim andleg verðmæti sem munu vernda hjörtu þeirra og marka þeim rétta stefnu. (5. Mósebók 6:4-9; Orðskviðirnir 4:23-27) Evníke og Lóis, móðir og amma Tímóteusar, tóku sér tíma til að fræða hann og sú fræðsla náði til hjarta hans og mótaði líf hans þannig að hann óx upp sem dyggur þjónn Guðs. — 2. Tímóteusarbréf 1:5; 3:15.
4. Hve dýrmæt eru börnin og hvernig ættu foreldrar að sýna að þau kunni að meta þau?
4 Kristnir foreldrar hafa ekki efni á að vanrækja börnin sem Jehóva Guð hefur gefið þeim. Börn eru dýrmæt gjöf frá Jehóva. (Sálmur 127:3) Taktu þér því tíma til að vera með þeim — náðu til hjartna þeirra — alveg eins og móðir Tímóteusar og amma gáfu fyrirmynd um. Þú ættir ekki aðeins að taka þér tíma til að tala við þau um hegðun þeirra og aga þau heldur líka að matast með þeim, lesa með þeim, leika við þau og hjálpa þeim að búa sig undir svefninn á kvöldin. Allur þessi tími, sem þú eyðir með börnum þínum, er þýðingarmikill.
5. Nefndu dæmi um föður sem sýndi að hann tók ábyrgð sína alvarlega.
5 Háttsettur kaupsýslumaður í Japan, sem gerðist vottur Jehóva, gerði sér það ljóst. Undir fyrirsögninni „Einn æðsti stjórnandi járnbrautanna segir upp til að geta verið með fjölskyldunni,“ sagði dagblaðið Mainizchi Daily News þann 10. febrúar 1986: „Einn æðsti stjórnandi japönsku ríkisjárnbrautanna hefur kosið að segja starfi sínu lausu frekar en að þurfa að vera mikið frá fjölskyldunni . . . Tamura segir: ‚Hver sem er getur gegnt starfi aðalforstjóra, en ég er einasti faðir barna minna.‘“ Tekur þú ábyrgð þína sem foreldri svona alvarlega?
Hvers vegna sérstaks átaks er þörf núna
6. Hvers vegna er svona erfitt að ala upp börn núna?
6 Trúlega hefur aldrei í sögu mannkynsins verið jafnerfitt og núna að ala upp börn á þann veg sem orð Guðs fyrirskipar, það er að segja „í aga og umvöndun [Jehóva].“ (Efesusbréfið 6:4) Orsökin er sú að við lifum „á síðustu dögum“ og Satan og illir andar hans valda miklum erfiðleikum í reiði sinni yfir þeim stutta tíma sem þeir hafa til umráða. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Opinberunarbókin 12:7-12) Hið táknræna ‚loft,‘ sem Satan drottnar yfir, vinnur þannig á móti viðleitni foreldra til að ala börnin sín upp sem guðrækna einstaklinga. Þetta ‚loft,‘ andi eigingirni og óhlýðni, þrengir sér alls staðar alveg eins og hið bókstaflega loft sem við öndum að okkur. — Efesusbréfið 2:2.
7, 8. (a) Hvað getur sjónvarpið komið með inn á heimilið en hvað gera margir foreldrar samt? (b) Hvers vegna eru þeir að vanrækja foreldraábyrgð sína sem nota sjónvarpið sem ‚barnapíu‘?
7 Þessi ‚andi heimsins,‘ þetta eitraða ‚loft,‘ þrengir sér inn á heimilið sérstaklega í gegnum sjónvarpið. (1. Korintubréf 2:12) Talsverður hluti þess efnis, sem sýnt er í sjónvarpinu, er gert undir sterkum áhrifum siðlausra og stundum kynvilltra manna í skemmtanaheiminum. (Rómverjabréfið 1:24-32) Börn eru sérstaklega móttækileg fyrir óguðlegri hugsun og siðferðilegum sóðaskap, sem fylgir miklu af skemmtiefni sjónvarpsins, alveg eins og þau eru fyrir bókstaflegri loftmengun. En hvað gera margir foreldrar?
8 Þeir nota gjarnan sjónvarpið sem ‚barnapíu.‘ „Ekki núna, elskan. Ég er upptekinn. Farðu og horfðu á sjónvarpið,“ segja þeir við börnin sín. Kunnur, bandarískur sjónvarpsmaður segir að þetta séu „algengustu orðin á mörgum bandarískum heimilum.“ En það að senda börnin sín til að horfa á hvað sem vera kann í sjónvarpinu jafngildir í raun að láta þau sjá um sig sjálf. (Orðskviðirnir 29:15) Það jafngildir því að vanrækja ábyrgð sína sem foreldri. Þessi sjónvarpsmaður sagði um uppeldi barna: „Foreldrahlutverkið er tímafrekt og mikið ábyrgðarstarf og það má ekki fela það öðrum — allra síst sjónvarpinu.“
9. Gegn hvaða mengun þarf sérstaklega að vernda börnin?
9 Sökum hins mikla álags nútímans höfum við kannski tilhneigingu til að ýta börnunum til hliðar, líkt og lærisveinarnir, þannig að við getum sinnt því sem okkur finnst mikilvægara. En hvað er mikilvægara en þín eigin börn? Andlegt líf þeirra er í húfi! Þegar kjarnorkuslysið varð í Tsjernobyl í Sovétríkjunum árið 1986 voru börn flutt frá svæðinu til að forða þeim frá geislun. Ef þú ætlar að standa vörð um andlega heilsu barna þinna þarft þú líka að vernda þau gegn eitruðu ‚lofti‘ heimsins sem streymir svo oft út úr sjónvarpstækinu. — Orðskviðirnir 13:20.
10. Hvaðan getur hið eitraða ‚loft‘ einnig komið og hvaða dæmi úr Biblíunni sýnir það?
10 Hið eitraða ‚loft,‘ sem getur rifið niður siðferðisgildi barnanna og spillt huga þeirra, getur borist víðar að. Óviðeigandi og óhóflegur félagsskapur við börn í hverfinu eða skólanum getur líka kæft þau biblíusannindi sem verið er að gróðursetja í hjörtum þeirra. (1. Korintubréf 15:33) Draga má lærdóm af því sem henti hina ungu dóttur Jakobs, Dínu, sem hafði tamið sér að ‚ganga út að sjá dætur landsins.‘ Afleiðingin af því varð sú að einn af ungu mönnunum tók hana með valdi. (1. Mósebók 34:1, 2) Börnin þurfa að fá góða fræðslu og ögun til að geta forðast hinar siðferðilegu gildrur heims sem er enn spilltari núna en hann var þá.
Hvers vegna ber að fræða börnin frá unga aldri
11. (a) Hvenær ættu foreldrarnir að hefja kennsluna? (b) Hvaða góðs árangurs mega þeir vænta?
11 En hvenær ættu foreldrarnir að hefja fræðsluna? Biblían segir að Tímóteus hafi hlotið kennslu „frá blautu barnsbeini.“ (2. Tímóteusarbréf 3:15) Gríska orðið brefos, sem hér er notað, er oft notað um ófætt barn, svo sem í Lúkasi 1:41, 44. Þar er sagt að Jóhannes hafi tekið viðbragð í kviði móður sinnar. En brefos er líka notað um hin nýfæddu, ísraelsku börn sem voru í lífshættu í Egyptalandi um þær mundir er Móse fæddist. (Postulasagan 7:19, 20) Eins og þetta orð er notað um Tímóteus er greinilega átt við ungbarn í vöggu, ekki aðeins lítið barn. Tímóteus hafði fengið fræðslu frá heilagri Ritningu svo lengi sem hann gat munað eftir sér, frá því að hann var ungbarn, og árangurinn var sannarlega góður! (Filippíbréfið 2:19-22) En er það í raun til einhvers gagns að kenna nýfæddum börnum?
12. (a) Hvenær geta ungbörn byrjað að drekka í sig lærdóm og áhrif frá umhverfinu? (b) Hvenær og hvernig ættu foreldrar að byrja að veita börnum sínum andlega fræðslu?
12 „Einhver athyglisverðasta þróunin innan sálfræðinnar er nýr skilningur okkar á hinni miklu hæfni ungbarna til að læra,“ sagði dr. Edward Zigler árið 1984, en hann er prófessor við Yale-háskóla. Tímaritið Health segir jafnvel: „Nýjar rannsóknir benda til að börn í móðurkviði geti hugsanlega séð, heyrt, fundið bragð — og orðið fyrir geðshræringum.“ Ljóst er að foreldrar geta ekki byrjað of snemma að kenna börnum sínum. (5. Mósebók 31:12) Þeir geta byrjað á því að sýna börnunum myndir úr bókum og segja þeim sögur. Masaru Ibuka, höfundur bókarinnar Kindergarten Is Too Late (Það er of seint í forskólanum) segir: „Þau ár sem skipta sköpum eru árin frá fæðingu fram til þriggja ára.“ Það stafar af því að hugur barnanna er þá sérstaklega móttækilegur og á sérlega auðvelt með að drekka í sig upplýsingar, samanber hæfni ungbarnsins til að ná tökum á nýju tungumáli. Prófessor við New York-háskóla, með ungbarnafræðslu sem sérgrein, segir jafnvel að „foreldrar ættu að byrja að kenna krökkunum að lesa um leið og þeir koma með þau heim af spítalanum!“
13. Hvað sýnir að ungbörn hafa afbragðshæfileika til að læra?
13 Móðir frá Kanada segir um hæfni sonar síns til að læra: „Dag einn var ég að lesa sögu úr Biblíusögubókinni minni fyrir Shaun, son minn, sem er fjögurra og hálfs árs. Þegar ég gerði smáhvíld á einum stað heyrði ég mér til undrunar að hann hélt sögunni áfram orð fyrir orð eins og hún stendur í Biblíusögubókinni. . . . Ég reyndi aðra og síðan þá þriðju og hann kunni þær líka utan að. . . . Það kom í ljós að hann hafði lært fyrstu 33 sögurnar utan að orð fyrir orð, meðal annars erfið staðar- og mannanöfn.“a
14. (a) Hverjir eru ekki undrandi á hæfileikum ungra barna? (b) Hvert ætti að vera markmið kristinna foreldra? (c) Fyrir hvað þurfa börnin að vera undirbúin og hvers vegna?
14 Þeir sem þekkja vel hæfni barnshugans til að læra eru ekki undrandi á slíkum afrekum. „Heimurinn gæti verið fullur af ofurmennum andans líkt og Einstein, Shakespeare, Beethoven og Leonardo da Vinci ef við kenndum börnunum nógu ungum,“ fullyrðir dr. Glenn Doman sem er forstöðumaður Uppeldisfræðistofnunarinnar (The Institutes for the Achievement of Human Potential). Það er auðvitað ekki markmið kristinna foreldra að gera börnin sín að ofurmennum andans heldur að ná til hjartna þeirra þannig að þau snúi aldrei baki við þjónustunni við Guð. (Orðskviðirnir 22:6) Þessa vinnu þarf að hefja löngu áður en börnin hefja skólagöngu, til að búa þau undir þær prófraunir sem munu mæta þeim þar. Í forskóla, leikskóla og á dagvistunarstofnunum er til dæmis haldið upp á afmæli og ýmsa hátíðisdaga sem getur verið skemmtilegt fyrir börnin. Þau þurfa því að skilja hvers vegna þjónar Jehóva taka ekki þátt í slíku. Ella kynnu þau að fá hatur á trú foreldra sinna.
Hvernig á að ná til barnshjartans
15, 16. Hvað geta foreldrar notfært sér sem hjálp til að ná til hjartna barnanna og hvernig er hægt að nota þessi hjálpargögn sem best?
15 Til að hjálpa foreldrum að ná til hjartna barnanna hafa vottar Jehóva gefið út bækur svo sem Hlýðum á kennarann mikla. Þessi bók talar um veislur og hvernig getur verið „gaman að vera í veislu“ í kaflanum „Tveir menn, sem héldu upp á afmælisdaga sína.“ En kaflinn bendir á að Biblían getur aðeins um tvær afmælisveislur og báðir mennirnir, sem héldu þær, voru heiðingjar sem tilbáðu ekki Jehóva, og að í þeim báðum ‚voru menn hálshöggnir.‘ (Markús 6:17-29; 1. Mósebók 40:20-22) Hvernig getur þú notað þessar upplýsingar til að ná til hjarta barnsins?
16 Þú getur notað hina aðlaðandi aðferð Kennarabókarinnar með því að segja: „Við vitum að það er gild ástæða fyrir öllu sem stendur í Biblíunni.“ Síðan skaltu spyrja: „Hvað heldur þú að Guð sé að segja okkur um afmælisveislur?“ Þannig hjálpar þú barninu þínu að rökhugsa um málið og draga rétta ályktun. Auk Kennarabókarinnar hefur foreldrum verið séð fyrir öðrum bókum svo sem Biblíusögubókinni minni og greinaröðinni „Ævi og þjónusta Jesú“ sem hefur birst í hverju tölublaði Varðturnsins frá apríl 1985 (þó ekki á íslensku). Hefur þú notað þessi gögn til að kenna börnum þínum — og sjálfum þér?
17. Hvaða tillaga er foreldrum gefin hér?
17 Þú þarft að fara með barninu þínu aftur og aftur yfir efni sem fjallar um aðstæður og ágreiningsmál sem munu mæta því í skólanum. Láttu barnið vita að bæði börn og fullorðnir séu ábyrgir gagnvart Jehóva. (Rómverjabréfið 14:12) Dragðu fram hið góða sem Jehóva gerir fyrir okkur og örvaðu þannig hjarta barnsins til að langa til að þóknast Jehóva. (Postulasagan 14:17) Gerðu kennslustundirnar að ánægjustundum. Börn elska sögur og því skalt þú vinna að því að koma fræðslunni á framfæri með líflegum hætti þannig að hún nái til hjartans. Margar fjölskyldur missa af afbragðstækifæri til þessa af því þær hafa ekki fastan matmálstíma þar sem allir hittast. Sameinast þín fjölskylda við matarborðið? Ef ekki, getur þú þá breytt því? — Samanber Postulasöguna 2:42, 46, 47.
18, 19. (a) Hvernig ættu foreldrar að skipuleggja tíma til að kenna börnum sínum og hvað er ekki hægt að undirstrika nógsamlega? (b) Hér er nefnt nútímadæmi um vel heppnað uppeldi. Hvaða atriði vekja sérstaka athygli þína og hver heldur þú að árangurinn yrði ef foreldrar notuðu þau?
18 Aðlaga þarf námsstundirnar aldri barnsins. Þegar barnið er mjög lítið og það einbeitir sér sjaldan lengi að einum hlut er best að hafa þær daglega og stuttar í hvert sinn. Síðan skalt þú smám saman lengja þær og auka við námsefnið. Það er einfaldlega ekki hægt að leggja of mikla áherslu á mikilvægi þess að hafa reglulegar námsstundir með börnunum. (1. Mósebók 18:19; 5. Mósebók 11:18-21) Faðir, sem nú er kominn yfir sjötugt, gaf gott fordæmi í því að fræða son sinn sem núna er kristinn öldungur. Fyrir mörgum árum lýsti hann kennsluáætlun sinni með þessum hætti:
19 „Þegar drengurinn okkar var um það bil ársgamall fór ég að segja honum biblíusögur undir svefninn. Ég reyndi að gera þær sérstaklega litríkar og lifandi til að hann myndi þær vel. Jafnskjótt og hann byrjaði að tala á öðru árinu krupum við saman við rúmstokkinn og ég lét hann hafa eftir mér ‚Faðirvorið‘ setningu fyrir setningu. . . . Þegar hann var þriggja ára fór ég að hafa reglulegt biblíunám með honum. . . . Hann fylgdist með í bókinni sinni og endurtók orðin eftir mér. Þannig lærði hann að bera orðin vel fram, einnig löng orð. . . . Til að sannindi Biblíunnar næðu að festast í hjarta hans fórum við að láta hann leggja einfaldar ritningargreinar á minnið þegar hann var þriggja ára. Þegar hann fór í forskóla kunni hann um 30 ritningargreinar, og í september síðastliðnum, þegar hann byrjaði í fyrsta bekk, hafði hann lært utan að 70 ritningarstaði. . . . Áður en drengurinn okkar fer að sofa læt ég hann endurtaka suma af ritningarstöðunum. Þegar hann fer á fætur á morgnana fer hann oft með nokkrar ritningargreinar um leið og hann býður góðan daginn.“
20. Hvað ætti að vera hluti af kennsluáætluninni og hvernig getur barn notið þjónustunnar hús úr húsi?
20 Slík markviss kennsluáætlun, samfara góðu fordæmi foreldranna og aga sem er sjálfum sér samkvæmur, mun gefa barninu þína góða byrjun í lífinu sem það mun alltaf vera þér þakklátt fyrir. (Orðskviðirnir 22:15; 23:13, 14) Þýðingarmikill hluti í þessari áætlun ætti að vera þjálfun í þjónustunni á akrinum frá unga aldri. Gerðu þátttöku í þjónustunni ánægjulega fyrir börnin með því að búa þau undir þátttöku sem einhverju skiptir. Faðirinn, sem getið er hér á undan, sagði um son sinn: „Hæfni hans til að vitna í Ritninguna gerir hann mjög góðan í þjónustunni hús úr húsi, því að húsráðendur undrast gjarnan kunnáttu hans og standast ekki boð hans um biblíurit. Hann hefur tekið þátt í þessari kristnu þjónustu síðan hann var þriggja ára og tekst núna [sex ára] oft að útbreiða meira af biblíuritum en konunni minni og mér.“ — Vaknið! (ensk útgáfa) 22. janúar 1965, bls. 3-4.
21. (a) Hver er besta gjöfin sem foreldrar geta gefið börnum sínum? (b) Hvaða hvatning er foreldrum gefin og hvers ættu allir foreldrar að gæta?
21 Þið kristnir foreldrar eigið ómetanlega arfleifð sem ykkur ber að láta renna til barna ykkar, þekkingu á Jehóva, og ásamt henni von um óendanlegt líf, frið og hamingju í dýrlegum nýjum heimi. (Orðskviðirnir 3:1-6, 13-18; 13:22) Framar öllu öðru skuluð þið byggja upp í hjörtum barna ykkar trú á það að þessi framtíð verði veruleiki, ásamt löngun til að þjóna Jehóva. Láttu sanna guðsdýrkun vera þeim eðlilega og ánægjulega. (1. Tímóteusarbréf 1:11) Innrættu þeim traust til Jehóva frá blautu barnsbeini. Og vanræktu aldrei, nei, aldrei, að kenna þeim reglulega! Láttu það ganga fyrir öllu öðru og skoðaðu aftur og aftur hvaða upplýsingar börnin þín þurfa að fá og hvernig þú getur best látið þær ná til hjartna þeirra. Þú hefur mikið að gera og þarft að standast mikið álag; Satan og heimur hans sjá til þess. En mundu eftir fordæmi Jesú! Vertu aldrei of upptekinn til að hafa reglulegt nám með börnum þínum!
[Neðanmáls]
a Löngu áður en hann lærði að lesa hafði hann lært sögurnar einfaldlega með því að hlusta á segulbönd með upplestri úr bókinni.
Hverju svarar þú?
◻ Hvaða frásaga Biblíunnar sýnir að foreldrar ættu að láta þarfir barna sinna hafa forgang?
◻ Hvers vegna þurfa foreldrar að leggja sig sérstaklega fram núna til að vernda börnin sín?
◻ Hvers vegna er svona þýðingarmikið að börnunum sé kennt frá blautu barnsbeini?
◻ Nefndu nokkrar hagnýtar tillögur um hvernig foreldrar geta náð til hjartna barna sinna.
◻ Hvað ættu kristnir foreldrar aldrei að vanrækja?
[Mynd á blaðsíðu 8]
Foreldrar geta ekki byrjað of snemma að kenna börnum sínum.