Réttur sess tilbeiðslunnar á Jehóva í lífi okkar
„Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.“ — SÁLMUR 145:2.
1. Hvers krefst Jehóva í sambandi við tilbeiðslu?
„ÉG, JEHÓVA Guð þinn, er Guð sem krefst óskiptrar hollustu.“ (2. Mósebók 20:5, NW) Móse heyrði Jehóva lýsa þessu yfir og endurtók það síðar er hann ávarpaði Ísraelsþjóðina. (5. Mósebók 5:9) Enginn vafi lék á því í huga Móse að Jehóva ætlaðist til þess að þjónar hans tilbæðu hann einan.
2, 3. (a) Hvað sýndi Ísraelsmönnum greinilega að atburðirnir við Sínaífjall væru óvenjulegir? (b) Hvaða spurningar munum við skoða í sambandi við guðsdýrkun Ísraelsmanna og þjóna Guðs nú á dögum?
2 Ísraelsmennirnir og hinn ‚mikli fjöldi af alls konar lýð,‘ sem hafði yfirgefið Egyptaland með þeim, urðu nú vitni að óvenjulegum atburði þar sem þeir lágu í búðum í grennd við Sínaífjall. (2. Mósebók 12:38) Hann líktist í engu tilbeiðslunni á guðum Egypta sem höfðu verið auðmýktir í plágunum tíu. Er Jehóva birti Móse nærveru sína áttu ógnvekjandi fyrirbæri sér stað: þrumur, eldingar og ærandi lúðurþytur sem allar búðirnar nötruðu undan. Því næst sást eldur og reykur þegar allt fjallið skalf. (2. Mósebók 19:16-20; Hebreabréfið 12:18-21) Ef Ísraelsmaður þurfti að fá frekari sönnun fyrir því að þetta væru óvenjulegir atburðir kom hún innan skamms. Stuttu síðar gekk Móse ofan af fjallinu eftir að hafa fengið annað eintak af lögmáli Guðs. Hinn innblásna frásaga segir að ‚geislar hafi staðið af andlitshörundi Móse og fólkið ekki þorað að koma nærri honum.‘ Þetta var svo sannarlega ógleymanleg og yfirnáttúrleg lífsreynsla! — 2. Mósebók 34:30.
3 Enginn vafi lék á hvaða sess tilbeiðslan á Jehóva skipaði hjá þjóð Guðs til forna. Hann var frelsari hennar. Hún átti honum líf sitt að launa. Hann var einnig löggjafi hennar. En lét hún tilbeiðsluna á Jehóva ganga fyrir öðru í lífi sínu? Og hvað um nútímaþjóna Guðs? Hvaða sess skipar tilbeiðslan á Jehóva í lífi þeirra? — Rómverjabréfið 15:4.
Tilbeiðsla Ísraels á Jehóva
4. Hvernig voru búðir Ísraelsmanna skipulagðar á eyðimerkurgöngu þeirra, og hvað var í búðunum miðjum?
4 Hvað hefðirðu séð ef þú hefðir getað virt búðir Ísraels í eyðimörkinni fyrir þér úr lofti? Víðáttumikla en skipulega tjaldborg fyrir einar þrjár milljónir manna eða fleiri, raðað þannig að þrjár ættkvíslir voru norðanmegin, þrjár sunnanmegin, þrjár austanmegin og þrjár vestanmegin. Við nánari athugun hefðirðu einnig séð fjórar minni tjaldþyrpingar nálægt búðunum miðjum. Í þeim bjuggu fjölskyldur Levíættkvíslar. Nákvæmlega í miðjum búðunum stóð óvenjulegt tjald á svæði umgirtu tjalddúk. Þetta var „samfundatjaldið“ eða tjaldbúðin (sáttmálsbúðin) sem „hagleiksmenn“ meðal Ísraelsmanna höfðu gert samkvæmt fyrirsögn Jehóva. — 4. Mósebók 1:52, 53; 2:3, 10, 17, 18, 25; 2. Mósebók 35:10.
5. Hvaða tilgangi þjónaði tjaldbúðin í Ísrael?
5 Á öllum þeim hér um bil 40 stöðum, þar sem Ísraelsmenn slógu upp tjöldum á eyðimerkurgöngu sinni, reistu þeir tjaldbúðina sem miðpunkt búðanna. (4. Mósebók 33. kafli) Það á vel við að Biblían skuli lýsa því svo að Jehóva hafi búið meðal fólks síns í miðjum búðunum. Dýrð hans fyllti samfundatjaldið eða tjaldbúðina. (2. Mósebók 29:43-46; 40:34; 4. Mósebók 5:3; 11:20; 16:3) Bókin Our Living Bible segir: „Þessi færanlegi helgidómur gegndi gífurlega mikilvægu hlutverki því að hann var trúarlegur samkomustaður ættkvíslanna. Hann varðveitti þannig einingu þeirra á margra ára eyðimerkurgöngu og gerði sameiginlegt átak mögulegt.“ Auk þess var tjaldbúðin Ísraelsmönnum stöðug áminning um að tilbeiðslan á skaparanum væri þungamiðjan í lífi þeirra.
6, 7. Hvaða tilbeiðsluhús tók við af tjaldbúðinni og hvernig þjónaði það Ísraelsþjóðinni?
6 Eftir að Ísraelsmenn komu til fyrirheitna landsins var tjaldbúðin áfram tilbeiðslumiðstöð þeirra. (Jósúabók 18:1; 1. Samúelsbók 1:3) Síðar áformaði Davíð konungur að láta reisa varanlega byggingu. Það var musterið sem Salómon sonur hans byggði síðar. (2. Samúelsbók 7:1-10) Við vígslu þess steig niður ský sem gaf til kynna að Jehóva viðurkenndi það. „Nú hefi ég byggt þér hús til bústaðar,“ bað Salómon, „aðseturstað handa þér um eilífð.“ (1. Konungabók 8:12, 13; 2. Kroníkubók 6:2) Hið nýreista musteri varð nú tilbeiðslumiðstöð þjóðarinnar.
7 Þrisvar á ári fóru allir ísraelskir karlmenn upp til Jerúsalem og héldu gleðihátíðir í musterinu til að sýna að þeir kynnu að meta blessun Guðs. Þessir samfundir voru réttilega nefndir „löghátíðir [Jehóva]“ og beindu athyglinni að tilbeiðslunni á Guði. (3. Mósebók 23:2, 4) Guðræknar konur og börn sóttu einnig hátíðirnar. — 1. Samúelsbók 1:3-7; Lúkas 2:41-44.
8. Hvernig ber Sálmur 84:2-13 vitni um mikilvægi tilbeiðslunnar á Jehóva?
8 Undir innblæstri játuðu sálmaritaranir fagurlega hve veglegan sess tilbeiðslan skipaði í lífi þeirra. „Hversu yndislegir eru bústaðir þínir, [Jehóva] hersveitanna,“ sungu synir Kóra. Þeir voru ekki bara að lofsyngja einhverja mikilfenglega byggingu. Þeir hófu upp raust sína til lofs Jehóva Guði og sögðu: „Nú fagnar hjarta mitt og hold fyrir hinum lifanda Guði.“ Þjónusta Levítanna veitti þeim mikla gleði. „Sælir eru þeir, sem búa í húsi þínu,“ lýstu þeir yfir, „þeir munu ætíð lofa þig.“ Reyndar gat allur Ísrael sungið: „Sælir eru þeir menn, sem finna styrk hjá þér, er þeir hugsa til helgigöngu. . . . Þeim eykst æ kraftur á göngunni og fá að líta Guð á Síon.“ Þótt Ísraelsmaður þyrfti að leggja í langt og strangt ferðalag til Jerúsalem endurnýjuðust kraftar hans er hann kom til höfuðborgarinnar. Hjarta hann fylltist gleði er hann lofsöng þau sérréttindi sín að tilbiðja Jehóva: „Því að einn dagur í forgörðum þínum er betri en þúsund aðrir, heldur vil ég standa við þröskuldinn í húsi Guðs míns en dvelja í tjöldum óguðlegra. . . . [Jehóva] hersveitanna, sæll er sá maður, sem treystir þér.“ Orð sem þessi sýna hvílíkan sess tilbeiðslan á Jehóva skipaði í lífi þessara Ísraelsmanna. — Sálmur 84:2-13.
9. Hvernig fór fyrir Ísraelsþjóðinni þegar hún lét tilbeiðsluna á Jehóva ekki skipa fyrsta sætið?
9 Ísraelsmönnum mistókst því miður að hafa sanna tilbeiðslu í fyrirrúmi. Þeir leyfðu falsguðadýrkun að grafa undan kostgæfni sinni gagnvart Jehóva. Þar af leiðandi ofurseldi Jehóva þá óvinum þeirra og leyfði að þeir væru fluttir í útlegð til Babýlonar. Þegar Ísraelsmönnum var veitt heimfararleyfi 70 árum síðar lét Jehóva hina trúföstu spámenn Haggaí, Sakaría og Malakí hvetja þá til dáða. Esra prestur og Nehemía landstjóri örvuðu fólk Guðs til að endurbyggja musterið og hefja sanna guðsdýrkun þar á ný. En þegar aldirnar liðu varð sönn tilbeiðsla aftur útundan hjá þjóðinni.
Kostgæfni gagnvart sannri tilbeiðslu á fyrstu öld
10, 11. Hvaða sess skipaði tilbeiðslan á Jehóva í lífi trúfastra manna þegar Jesús var á jörðinni?
10 Á tilsettum tíma Jehóva kom Messías fram. Trúfastir menn væntu hjálpræðis frá Jehóva. (Lúkas 2:25; 3:15) Guðspjall Lúkasar segir frá hinni 84 ára Önnu sem var ekkja og „vék eigi úr helgidóminum, en þjónaði Guði nótt og dag með föstum og bænahaldi.“ — Lúkas 2:37.
11 „Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans,“ sagði Jesús. (Jóhannes 4:34) Mundu hvernig Jesús brást við þegar hann stóð augliti til auglitis við víxlarana í musterinu. Hann velti um borðum þeirra og stólum dúfnasalanna. Markús geinir svo frá: „Engum leyfði [Jesús] að bera neitt um helgidóminn. Og hann kenndi þeim og sagði: ‚Er ekki ritað: „Hús mitt á að vera bænahús fyrir allar þjóðir?“ En þér hafið gjört það að ræningjabæli.‘“ (Markús 11:15-17) Já, Jesús leyfði ekki einu sinni að menn styttu sér leið gegnum forgarð musterisins þegar þeir báru hluti milli borgarhverfa. Framganga Jesú undirstrikaði það ráð sem hann hafði áður gefið: „Leitið fyrst ríkis [Guðs] og réttlætis.“ (Matteus 6:33) Jesús gaf okkur frábært fordæmi um að sýna Jehóva óskipta hollustu. Hann stundaði virkilega það sem hann prédikaði. — 1. Pétursbréf 2:21.
12. Hvernig sýndu lærisveinar Jesú að þeir létu tilbeiðsluna á Jehóva ganga fyrir?
12 Jesús gaf lærisveinum sínum líka fyrirmynd til eftirbreytni með því hvernig hann rækti það hlutverk sitt að leysa kúgaða en trúfasta Gyðinga undan oki falstrúariðkana. (Lúkas 4:18) Hlýðnir fyrirmælum Jesú um að gera menn að lærisveinum og skíra þá boðuðu frumkristnir menn djarflega vilja Jehóva með upprisinn Drottin þeirra. Jehóva hafði velþóknun á því hvernig þeir létu tilbeiðsluna á honum ganga fyrir. Af þeim sökum leysti engill Guðs postulana Pétur og Jóhannes úr haldi á undraverðan hátt og fyrirskipaði þeim: „Farið og gangið fram í helgidóminum og talið til lýðsins öll þessi lífsins orð.“ Þeir hlýddu með endurnýjuðum krafti. Daglega, bæði í musterinu í Jerúsalem og hús úr húsi, „létu þeir eigi af að kenna . . . og boða fagnaðarerindið um, að Jesús sé Kristur.“ — Postulasagan 1:8; 4:29, 30; 5:20, 42; Matteus 28:19, 20.
13, 14. (a) Hvað hefur Satan reynt að gera þjónum Guðs allt frá tímum frumkristninnar? (b) Hverju hafa trúfastir þjónar Guðs haldið áfram?
13 Þegar andstaðan gegn prédikuninni jókst sá Guð um að trúfastir þjónar hans færðu tímabærar ráðleggingar í letur. „Varpið allri áhyggju yðar á [Jehóva], því að hann ber umhyggju fyrir yður,“ skrifaði Pétur skömmu eftir árið 60. „Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt. Standið gegn honum, stöðugir í trúnni, og vitið, að bræður yðar um allan heim verða fyrir sömu þjáningum.“ Þessi orð hughreystu frumkristna menn vafalaust. Þeir vissu að Guð myndi fullkomna þjálfun þeirra eftir að þeir hefðu þjáðst um stuttan tíma. (1. Pétursbréf 5:7-10) Á þessum lokadögum Gyðingakerfisins náði tilbeiðslan á Jehóva nýjum hátindi meðal sannkristinna manna. — Kólossubréfið 1:23.
14 Eins og Páll postuli hafði spáð varð mikið fráhvarf frá sannri guðsdýrkun. (Postulasagan 20:29, 30; 2. Þessaloníkubréf 2:3) Fjöldamargt bar vitni um það á síðustu áratugum fyrstu aldar. (1. Jóhannesarbréf 2:18, 19) Satan tókst að sá gervikristnum mönnum meðal hinna ósviknu þannig að erfitt var að þekkja þetta „illgresi“ frá ‚hveitinu‘ eða sannkristnum mönnum. Í aldanna rás létu sumir tilbeiðsluna á Guði engu að síður ganga fyrir öðru í lífi sínu, jafnvel þótt það gæti kostað þá lífið. En það var ekki fyrr en á síðustu áratugum ‚heiðingjatímanna‘ sem Guð safnaði þjónum sínum saman á ný til að upphefja sanna guðsdýrkun. — Matteus 13:24-30; 36-43; Lúkas 21:24.
Tilbeiðslan á Jehóva upphafin nú á dögum
15. Hvernig hafa spádómarnir í Jesaja 2:2-4 og Míka 4:1-4 uppfyllst frá 1919?
15 Árið 1919 fól Jehóva hinum smurðu leifum að hefja djarfa vitnisburðarherferð um heim allan sem hefur hátt upphafið tilbeiðsluna á hinum sanna Guði. Eftir að hinir táknrænu ‚aðrir sauðir‘ tóku að streyma að, frá og með árinu 1935, hefur þeim sem ganga í andlegum skilningi upp á „fjall það, er hús [Jehóva] stendur á,“ fjölgað jafnt og þétt. Á þjónustuárinu 1994 lofuðu 4.914.094 vottar Jehóva hann með því að bjóða öðrum að taka þátt í hinni háleitu tilbeiðslu hans. Hún er sannarlega ólík andlegri auvirðingu sértrúarhæðanna í heimsveldi falskra trúarbragða, einkum kristna heiminum. — Jóhannes 10:16; Jesaja 2:2-4; Míka 4:1-4.
16. Hvað þurfa allir þjónar Guðs að gera í ljósi þess sem spáð er í Jesaja 2:10-22?
16 Áhangendur falstrúarbragðanna horfa með stolti á kirkjubyggingar sínar og hlaða hljómmiklum titlum og heiðursnafnbótum á klerka sína. En taktu eftir því sem Jesaja spáði: „Hin drembilegu augu mannsins skulu lægjast og hroki mannanna beygjast, og [Jehóva] einn skal á þeim degi háleitur vera.“ Hvenær gerist það? Í þrengingunni miklu, sem nálgast óðfluga, þegar ‚það verður með öllu úti um falsguðina.‘ Með tilliti til þess hve nálægur þessi ógurlegi dagur er verða allir þjónar Guðs að skoða alvarlega hvaða sess tilbeiðslan á Jehóva skipar í lífi þeirra. — Jesaja 2:10-22.
17. Hvernig sýna þjónar Jehóva nú á tímum að þeir láta tilbeiðsluna á honum ganga fyrir?
17 Sem alþjóðlegt bræðrafélag eru vottar Jehóva velþekktir fyrir kostgæfni sína í að prédika Guðsríki. Guðsdýrkun þeirra er ekki málamyndatilbeiðsla eina klukkustund í viku eða svo. Nei, hún er allt líf þeirra. (Sálmur 145:2) Á síðasta ári komu meira en 630.000 vottar málum sínum þannig fyrir að þeir gætu tekið þátt í hinni kristnu þjónustu í fullu starfi. Hinir vanrækja vissulega ekki tilbeiðsluna á Jehóva. Hún skipar veglegan sess bæði í daglegum samræðum þeirra og opinberri prédikun, jafnvel þótt fjölskylduskuldbindingar útheimti að þeir leggi hart að sér í veraldlegri vinnu.
18, 19. Nefndu dæmi um hvernig ævisögur einstakra votta hafa ef til vill verið þér til hvatningar.
18 Ævisögur votta, sem hafa birst í Varðturninum, gefa innsýn í það hvernig ýmsir bræður og systur hafa látið tilbeiðsluna á Jehóva ganga fyrir í lífi sínu. Ung systir, sem vígði Jehóva líf sitt sex ára gömul, setti sér það markmið að verða trúboði. Þið ungu bræður og systur, hvaða markmið getið þið sett ykkur sem hjálpar ykkur að láta tilbeiðsluna á Jehóva ganga fyrir öðru í lífinu? — Sjá greinina „Pursuing a Goal Set at Six Years of Age“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. mars 1992, bls. 26-30.
19 Öldruð systir, sem er ekkja, er annað gott fordæmi um að láta tilbeiðsluna á Jehóva skipa réttan sess í lífinu. Hún sótti mikla hvatningu til þeirra sem hún hafði hjálpað að kynnast sannleikanum og það hjálpaði henni að vera þolgóðri. Þeir voru „fjölskylda“ hennar. (Markús 3:31-35) Ef þú ert í svipaðri aðstöðu, ætlar þú þá að þiggja stuðning og hjálp hinna yngri í söfnuðinum? (Sjáðu hvernig systir Winifred Remmie tjáði sig í greininni „I Responded in Harvesttime“ sem birtist í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. júlí 1992, bls. 21-3.) Þið sem þjónið í fullu starfi, sýnið að tilbeiðslan á Jehóva hefur sannarlega forgang í lífi ykkar með því að þjóna auðmjúkir hvar sem ykkur er falið að starfa, og með því að lúta guðræðislegri forystu fúslega. (Takið eftir fordæmi bróður Roys Ryans sem sagt er frá í greinini „Sticking Close to God’s Organization“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. desember 1991, bls. 24-7.) Munið að þegar við látum tilbeiðsluna á Jehóva ganga fyrir höfum við tryggingu fyrir því að hann annist okkur. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því hvaðan lífsnauðsynjar komi. Reynsla systranna Olive og Soniu Springate sýnir það. — Sjá greinina „We Have Sought First the Kingdom“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. febrúar 1994, bls. 20-5.
20. Hvaða áleitinna spurninga ættum við að spyrja okkur núna?
20 Ættum við þá ekki hvert og eitt að spyrja okkur nokkurra áleitinna spurninga? Hvaða sess skipar tilbeiðslan á Jehóva í lífi mínu? Lifi ég í samræmi við það að ég hef vígt mig Guði til að gera vilja hans sem best ég get? Á hvaða sviðum lífsins get ég bætt mig? Vandleg athugun á næstu grein mun gefa okkur tækifæri til að ígrunda hvernig við notum krafta okkar og fjármuni til að framfylgja því sem við höfum kosið að láta ganga fyrir í lífi okkar — tilbeiðslunni á alvöldum Drottni Jehóva, ástríkum föður okkar. — Prédikarinn 12:13; 2. Korintubréf 13:5.
Upprifjun
◻ Hvers krefst Jehóva í sambandi við tilbeiðslu?
◻ Á hvað minnti tjaldbúðin?
◻ Hverjir voru afbragðsfordæmi um kostgæfni gagnvart sannri guðsdýrkun á fyrstu öld og hvernig?
◻ Hvernig hefur tilbeiðslan á Jehóva verið upphafin frá 1919?