‚Berum skyn á hvað við erum‘ við minningarhátíð
„Ef við bærum skyn á hvað við erum yrðum við ekki dæmdir . . . til að við verum ekki dæmdir sekir.“ — 1. KORINTUBRÉF 11:31, 32, NW.
1. Hvað vilja sannkristnir menn tvímælalaust forðast og hvers vegna?
HIÐ síðasta sem kristinn maður vill láta henda sig er að hljóta óhagstæðan dóm af hendi Jehóva. Ef við misþóknuðumst ‚dómara alls jarðríkis‘ myndi það verða til þess að við ‚yrðum dæmdir sekir ásamt heiminum‘ og færum á mis við hjálpræði. Einu gildir hvort við vonumst eftir lífi á himnum með Jesú eða ævarandi lífi í jarðneskri paradís. — 1. Mósebók 18:25; 1. Korintubréf 11:32.
2, 3. Í hvaða máli gætum við hlotið óhagstæðan dóm og hvað segir Páll um það?
2 Í 11. kafla 1. Korintubréfs snýr Páll postuli sér að máli þar sem við gætum fengið dóm. Þótt hann beini orðum sínum til smurðra kristinna manna eiga orð hans erindi til allra, einkum á þessum árstíma. Ef við gerum okkur grein fyrir hvað við erum getur það hjálpað okkur að hafa velþóknun Guðs og umflýja dóm. Í umræðu sinni um hina árlegu kvöldmáltíð Drottins skrifaði Páll:
3 „Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð, gjörði þakkir, braut það og sagði: ‚Þetta er minn líkami, sem er fyrir yður. Gjörið þetta í mína minningu.‘ Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: ‚Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu.‘ Svo oft sem þér etið þetta brauð og drekkið af bikarnum, boðið þér dauða Drottins, þangað til hann kemur.“ — 1. Korintubréf 11:23-26.a
4. Hvað mun gerast kvöldið 10. apríl 1990?
4 Vottar Jehóva munu halda minningarhátíðina um dauða Krists eftir sólsetur þann 10. apríl, 1990. Í flestum tilvikum kemur saman einn söfnuður; þannig verður rúm fyrir gesti sem enn eru ekki orðnir vottar. Hvernig fer samkoman fram? Flutt er ræða byggð á Biblíunni. Síðan er brauðið látið ganga frá manni til manns eftir að flutt hefur verið bæn. Eins er flutt bæn áður en bikarinn er látinn ganga mann frá manni. Hér er þó ekki um að ræða helgisið rígbundinn í fast form. Aðstæður mega því ráða hve mörg brauð og hve margir bikarar eru notaðir. Aðalatriðið er að allir viðstaddir hafi aðgang að brauðinu og víninu, þótt flestir munu einfaldlega láta það ganga til næsta manns án þess að neyta af því. En hvað er það sem gengur manna í milli og hvaða merkingu hefur það? Hvað ættum við að hugleiða fyrir hátíðina til að bera skynbragð á stöðu okkar?
‚Þetta merkir líkama minn‘
5, 6. (a) Hvað gerði Jesús við brauðið? (b) Hvers konar brauð notaði hann?
5 Við höfum lesið hvað Páll ‚meðtók af Drottni‘ varðandi minningarhátíðina. Þrír guðspjallamenn segja einnig frá minningarhátíðinni og einn þeirra var viðstaddur þegar Jesús stofnsetti hana. (1. Korintubréf 11:23; Matteus 26:26-29; Markús 14:22-25; Lúkas 22:19, 20) Þessar frásögur lýsa því að Jesús hafi fyrst tekið brauð, beðist fyrir, síðan brotið það og skipt því milli lærisveinanna. Hvers konar brauð var þetta? Hvað notum við nú á dögum sem svarar til þess? Hvað merkir það eða táknar?
6 Sitthvað var við hendina frá páskamáltíðinni, meðal annars ósýrt brauð sem Móse kallaði ‚ósýrt brauð, neyðarbrauð.‘ (5. Mósebók 16:3; 2. Mósebók 12:8) Þetta brauð var gert úr hveiti án súrdeigs, salts eða kryddefna. Með því að það var ósýrt (á hebresku matstsah) var það þunnt og stökkt og þurfti að brjóta það í hæfilega bita til neyslu. — Markús 6:41; 8:6; Postulasagan 27:35.
7. Hvers konar brauð nota vottar Jehóva á minningarhátíðinni?
7 Jesús notaði ósýrt brauð við kvöldmáltíð Drottins, þannig að vottar Jehóva nú á tímum gera það einnig. Nota má venjulegt matsó-brauð Gyðinga ef ekki eru í því fleiri efni svo sem malt, laukur eða egg. (Með slíkri viðbót gæti brauðið tæplega kallast „neyðarbrauð.“) Eins gætu safnaðaröldungarnir látið baka ósýrt brauð úr hveiti og vatni. Ef hveiti er ekki fáanlegt mætti nota byggmjöl, hrísmjöl, maísmjöl eða annað mjöl. Deigið er flatt þunnt og bakað á plötu sem smurð hefur verið lítillega með olíu eða feiti.
8. Hvers vegna er ósýrt brauð viðeigandi tákn og hvað merkir það að neyta af því? (Hebreabréfið 10:5-7; 1. Pétursbréf 4:1)
8 Slíkt brauð er viðeigandi vegna þess að það inniheldur ekki súrdeig (ger) sem Biblían notar til tákns um spillingu eða synd. Páll sagði varðandi siðlausan mann í einum safnaðanna: ‚Lítið súrdeig sýrir allt deigið. Hreinsið burt gamla súrdeigið, til þess að þér séuð nýtt deig. Páskalambi voru er slátrað, sem er Kristur. Höldum því hátíð, ekki með gömlu súrdeigi né með súrdeigi illsku og vonsku, heldur með ósýrðum brauðum hreinleikans og sannleikans.‘ (1. Korintubréf 5:6-8; samanber Matteus 13:33; 16:6, 12.) Ósýrt brauð er viðeigandi tákn mannslíkama Jesú því að hann var „heilagur, svikalaus, óflekkaður, greindur frá syndurum.“ (Hebreabréfið 7:26) Jesús var viðstaddur í fullkomnum mannslíkama sínum er hann sagði við postulana: „Takið og etið þetta [brauð], það merkir líkama minn.“ (Matteus 26:26, A New Translation of the Bible eftir James Moffat) Sá sem neytir brauðsins gefur með því í skyn að hann trúi að fórn Jesú sé honum til gagns og viðurkennir hana. En er meira í því fólgið?
Vín sem hefur merkingu
9. Hvaða annað tákn sagði Jesús að nota ætti?
9 Jesús notaði annað tákn: „Og hann tók kaleik, gjörði þakkir, gaf þeim og sagði: ‚Drekkið allir hér af. Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda.‘“ (Matteus 26:27, 28) Hvað var í þessum bikar sem hann lét ganga milli lærisveina sinna og hvað merkir það fyrir okkur þegar við kappkostum að bera skyn á hvað við erum?
10. Hvernig var vínið tilkomið á páskahátíð Gyðinga?
10 Þegar Móse gaf fyrirmæli um páskamáltíðina á sínum tíma nefndi hann engin drykkjarföng. Margir fræðimenn telja að farið hafi verið að nota vín við páskamáltíðina miklu síðar, ef til vill á annarri öld f.o.t.b Að minnsta kosti var algengt að hafa vín með þessari máltíð á fyrstu öldinni og Jesús hafði ekkert við það að athuga. Hann notaði páskavínið er hann stofnsetti minningarhátíðina.
11. Hvers konar vín er viðeigandi að nota við kvöldmáltíð Drottins?
11 Þar eð páskar Gyðinga voru haldnir löngu eftir vínberjauppskeruna hlaut Jesús að hafa notað rautt vín sem var eðlilegt tákn blóðs hans, ekki ógerjaðan safa. (Samanber Opinberunarbókina 14:20.) Blóð Krists þarfnaðist engrar viðbótar þannig að við hæfi er að nota einfalt rauðvín í stað víntegunda sem bættar eru með koníaki (svo sem púrtvín, sérrí eða múskatvín) eða kryddvín (svo sem vermút, Dubonnet eða ýmsir lystaukar). Við þurfum þó ekki að gera okkur áhyggjur af því með hvaða hætti vínið var gert, til dæmis hvort bætt var í það sykri á gerjunarstigi til að ná fram vissu bragði eða vínandamagni eða hvort bætt hafi verið í það eilitlum brennisteini til að verja það skemmdum.c Margir söfnuðir nota rauðvín sem fást á almennum markaði (svo sem Chianti, Burgundy, Beaujoulais eða Bordeauxvín) eða einfalt heimagert rauðvín. Vínið og brauðið eru einfaldlega tákn og því má taka heim það sem ekki er notað og nota síðar sem hverjar aðrar matar- og drykkjarvörur.
12. Hvað sagði Jesús vínið tákna?
12 Það að Jesús skyldi tala um blóð sitt á páskakvöldinu kann vel að hafa minnt á lambsblóðið í Egyptalandi til forna. En veitum athygli hvernig Jesús notaði annan samanburð er hann sagði: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt.“ (Lúkas 22:20) Guð hafði áður gert sáttmála við Ísraelsmenn að holdinu og hann var fullgiltur með blóði dýrafórna. Samsvörun var milli blóðs Jesú og blóðs þessara fórna. Í báðum tilvikum var blóðið tengt fullgildingu Guðs á sáttmála við þjóð þjóna sinna. (2. Mósebók 24:3-8; Hebreabréfið 9:17-20) Í lagasáttmálanum var ákvæði þess efnis að Ísrael að holdinu ætti í vændum að verða þjóð prestkonunga. (2. Mósebók 19:5, 6) Eftir að Ísrael brást þeirri skyldu sinni að halda sáttmála Jehóva sagðist hann hins vegar láta ‚fyrri sáttmálann‘ víkja fyrir ‚nýjum sáttmála.‘ (Hebreabréfið 9:1, 15; Jeremía 31:31-34) Vínbikarinn, sem Jesús lét nú ganga milli trúfastra postula sinna, táknaði þennan nýja sáttmála.
13, 14. (a) Hvað merkir það að eiga aðild að nýja sáttmálanum? (b) Hvað er táknað með því að neyta brauðsins og vínsins?
13 Kristnir menn, sem fá aðild að þessum nýja sáttmála, mynda andlega þjóð prestkonunga. (Galatabréfið 6:16) Pétur postuli skrifaði: „Þér eruð ‚útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“ (1. Pétursbréf 2:9) Ljóst er hvers konar hjálpræði þeir hljóta — líf á himnum sem meðstjórnendur Jesú. Opinberunarbókin 20:6 staðfestir það: „Sæll og heilagur er sá, sem á hlut í fyrri upprisunni. . . . Munu þeir vera prestar Guðs og Krists og þeir munu ríkja með honum um þúsund ár.“
14 Eftir að Jesús sagði postulunum að neyta hins táknræna brauðs og víns sagði hann þeim meira að segja að þeir myndu ‚eta og drekka við borð hans í ríki hans, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.‘ (Lúkas 22:28-30) Það að neyta brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni táknar því meira en aðeins að trúa á fórn Jesú. Sérhver kristinn maður verður að viðurkenna lausnargjaldið og iðka trú ef hann á að hljóta eilíft líf annaðhvort á himni eða jörð. (Matteus 20:28; Jóhannes 6:51) Það að neyta af brauðinu og víninu er tákn þess að neytandinn sé aðili að nýja sáttmálanum, útvalinn til að vera með Jesú í ríki hans.
Nauðsynlegt að bera skyn á stöðu sína við minningarhátíð
15. Hvernig kom Jesús fram með nýja von handa þjónum Guðs?
15 Eins og fram kom í greininni á undan höfðu drottinhollir þjónar Guðs fyrir daga Jesú enga von um að fara til himna. Þeir horfðu fram til þess að hljóta eilíft líf á jörðinni, hinu upprunalega heimili mannkyns. Jesús Kristur var reistur upp sem andi fyrstur manna og sá fyrsti sem tekinn var til himna. (Efesusbréfið 1:20-22; 1. Pétursbréf 3:18, 22) Páll staðfesti það og sagði: „Vér megum nú, bræður, fyrir Jesú blóð með djörfung ganga inn í hið heilaga, þangað sem hann vígði oss veginn, nýjan veg og lifandi.“ (Hebreabréfið 10:19, 20) Hverjir áttu að fylgja á eftir þegar Jesús hafði opnað þá leið?
16. Hvaða framtíð bíður þeirra sem neyta af brauðinu og víninu?
16 Kvöldið sem Jesús stofnsetti kvöldmáltíð Drottins sagði hann trúföstum postulum sínum að hann myndi búa þeim stað á himnum. (Jóhannes 14:2, 3) En Jesús sagði líka að þeir sem tækju af brauðinu og víninu yrðu með honum í ríki hans og myndu sitja í hásætum til að dæma. Yrðu það einungis postularnir? Nei, því að Jóhannes postuli komst síðar að raun um að aðrir kristnir menn ættu að sigra og ‚sitja hjá Jesú í hásæti hans‘ og saman myndu þeir verða ‚konungsríki og prestar og ríkja yfir jörðinni.‘ (Opinberunarbókin 3:21; 5:10) Jóhannes fékk einnig að vita heildartölu þeirra kristnu manna sem „út eru leystir frá jörðunni“ — 144.000. (Opinberunarbókin 14:1-3) Með því að þetta er tiltölulega smár hópur, ‚lítil hjörð‘ í samanburði við alla þá sem hafa dýrkað Guð í aldanna rás, ber nauðsyn til að bera sérstakt skyn á stöðu sína og köllun þegar minningarhátíðin nálgast. — Lúkas 12:32.
17, 18. (a) Hvaða venju höfðu sumir kristnir menn í Korintu tamið sér? (b) Hvers vegna var það svona alvarlegt að neyta matar og drykkjar í óhófi? (Hebreabréfið 10:28-31)
17 Páll vakti máls á því í bréfi sínu til Korintumanna meðan sumir postulanna voru enn á lífi og Guð var að kalla kristna menn ‚til að vera heilagir.‘ Páll sagði að slæmur siður hefði þróast meðal þeirra þar í borg sem skylt var að neyta brauðsins og vínsins. Sumir höfðu matast áður og þá etið og drukkið of mikið, þannig að þeir voru syfjaðir og sljóir. Þar af leiðandi ‚dæmdu þeir ekki rétt um líkamann,‘ það er að segja holdslíkama Jesú sem brauðið táknaði. Var það svona alvarlegt? Já! Með því að neyta óverðuglega urðu þeir ‚sekir við líkama og blóð Drottins.‘ Ef þeir væru hugarfarslega og andlega vakandi gætu þeir ‚borið skyn á hvað þeir væru og ekki verið dæmdir.‘ — 1. Korintubréf 1:2; 11:20-22, 27-31.
18 Hvað þurftu þessir kristnu menn að bera skyn á og hvernig? Fyrst og fremst þurftu þeir að meta réttilega í hjarta og huga köllun sína til að tilheyra hinum 144.000 erfingjum himnesks lífs. Hvernig báru þeir skyn á köllun sína og ættu margir nútímamenn að telja sig tilheyra þessum litla hópi sem Guð hefur verið að útvelja frá dögum postulanna?
19. Hvað var athyglisvert varðandi minningarhátíðina árið 1989?
19 Í reynd er það aðeins agnarlítill minnihluti sannkristinna manna nú á dögum sem finnur til slíkrar köllunar. Við kvöldmáltíð Drottins árið 1989 komu saman liðlega 9.479.000 saman í söfnuðum votta Jehóva um víða veröld. Um 8700 játuðu sig hafa þá von að verða ‚hólpnir leiddir inn í hið himneska ríki.‘ (2. Tímóteusarbréf 4:18) Yfirgnæfandi meirihluti — já, milljónir annarra trúfastra kristinna manna sem saman komu — fundu í hjarta sér til þeirrar réttmætu vonar að lifa eilíflega á jörðinni.
20. Hvernig vita hinar 144.000 að þær eru kallaðar? (1. Jóhannesarbréf 2:27)
20 Á hvítasunnunni árið 33 byrjaði Guð að útvelja hinar 144.000 til lífs á himnum. Hvernig gátu þeir sem voru útvaldir vitað af eða verið vissir um þessa von, þar eð hún var ný og óþekkt þjónum Guðs fyrir daga Jesú? Þeir gátu gert það vegna vitnisburðar heilags anda. Það ber ekki að skilja svo að þeir hafi í raun og veru séð andann (hann er ekki persóna) eða með einhverjum hætti séð andann í huga sér tala við sig eða heyrt rödd af andlegu tilverusviði. Páll skýrir það þannig: „Sjálfur andinn vitnar með vorum anda, að vér erum Guðs börn. En ef vér erum börn, þá erum vér líka erfingjar, og það erfingjar Guðs, en samarfar Krists, því að vér líðum með honum, til þess að vér einnig verðum vegsamlegir með honum.“ — Rómverjabréfið 8:16, 17.
21. (a) Hvernig vita hinir smurðu að þeir hafa himneska von? (1. Korintubréf 10:15-17) (b) Hvers konar einstaklingar eru smurðir og hvernig bera þeir háttvíslega vitni um von sína?
21 Þessi vitnisburður eða vitund mótar von þeirra og hugsun að nýju. Þeir eru enn þá menn og njóta gæða hinna jarðnesku sköpunar Jehóva, en þó snýst meginstefna þeirra í lífinu og hugðarefni um það að vera samerfingjar með Kristi. Þetta viðhorf stjórnast ekki af tilfinningasemi. Þeir eru venjulegt fólk, öfgalaust í viðhorfum og háttum. En þar eð þeir eru helgaðir með anda Guðs eru þeir sannfærðir um köllun sína og hafa ekki þrálátar efasemdir um hana. Þeir gera sér ljóst að hjálpræði þeirra verður til himna ef þeir reynast trúfastir. (2. Þessaloníkubréf 2:13; 2. Tímóteusarbréf 2:10-12) Þeir gera sér grein fyrir hvað fórn Jesú þýðir fyrir þá og er ljóst að þeir eru andagetnir kristnir menn, og því neyta þeir hæversklega af brauðinu og víninu við minningarhátíðina.
22. Hverju munu flestir sem sækja kvöldmáltíð Drottins gera sér grein fyrir?
22 Flestir þeirra, sem koma saman þann 10. apríl hlýðnir boði Krists, hafa ekki þessa von því að Guð hefur ekki smurt þá andanum og kallað þá til lífs á himnum. Eins og við höfum nefnt byrjaði Guð að útvelja hinar 144.000 á dögum postulanna. Eftir að þeirri köllun lauk er þess að vænta að aðrir, sem gerast tilbiðjendur hans, öðlist sömu von og Móse, Davíð, Jóhannes skírari og aðrir trúfastir menn höfðu, menn sem dóu áður en Jesús opnaði leiðina til lífs á himnum. Því taka milljónir trúfastra og kostgæfra kristinna nútímamanna ekki af brauðinu og víninu á minningarhátíðinni. Þeir gera sér grein fyrir stöðu sinni frammi fyrir Guði í þeim skilningi að þeir bera skyn á von sína sem er fullgild. Þeir njóta góðs af blóði Jesú og líkama á þann hátt að syndir þeirra eru fyrirgefnar og þeir munu síðar hljóta eilíft líf á jörð. — 1. Pétursbréf 1:19; 2:24; Opinberunarbókin 7:9, 15.
23. Hvers vegna verður minningarhátíðin gleðirík hátíð? (Samanber 2. Kroníkubók 30:21.)
23 Við skulum því hlakka til þess að halda ánægjulega minningarhátíð þann 10. apríl. Hún er tími fyrir okkur að bera skyn á köllun okkar en einnig gleðitími. Hún er gleðitími fyrir þann litla hóp sem hefur himneska köllun og tekur með réttu og í hlýðni af brauðinu og víninu. (Opinberunarbókin 19:7) Hún er líka gleðihátíð fyrir þá hamingjusömu kristnu menn sem munu fylgjast með hátíðinni þetta kvöld og fræðast, fyrir þá sem vonast til að geta minnst þessarar merkingarþrungnu hátíðar um eilífð á jörðinni. — Jóhannes 3:29.
[Neðanmáls]
a „Nóttina sem Drottinn Jesús var framseldur tók hann brauð, færði þakkir, braut það og sagði: ‚Þetta er líkami minn sem er fyrir yður, gerið þetta til minningar um mig.‘ Á sama hátt tók hann bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: ‚Þessi bikar er nýi sáttmálinn, innsiglaður í mínu blóði, ávallt er þið drekkið hann, gerið það til minningar um mig.‘“ — An Expanded Paraphrase of the Epistles of Paul eftir F. F. Bruce.
b Fræðimaður slær fram þessari skýringu á því hvers vegna víni hafi verið bætt við: „[Páskarnir] skyldu ekki lengur vera alvarleg hátíð er fullvaxta karlmenn voru kallaðir saman, heldur áttu þeir að vera fjölskylduhátíð þar sem eðlilegt var að neyta víns.“ — The Hebrew Passover — From the Earliest Times to A.D. 70 eftir J. B. Segal.
c Frá fornu fari hefur verið notað salt, eggjahvíta eða önnur efni til að hreinsa vín eða fá fram vissan lit eða bragð, og Rómverjar notuðu jafnvel brennistein sem sótthreinsiefni við víngerð.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvers vegna er ósýrt brauð látið ganga manna í milli á minningarhátíðinni og hvað táknar það?
◻ Hvað er bikarinn sem borinn er fram við kvöldmáltíð Drottins og hvað táknar hann?
◻ Hvers vegna er góðrar dómgreindar þörf í tengslum við minningarhátíðina?
◻ Hvers vegna hlakkar þú til væntanlegrar minningarhátíðar?