Hlustar Guð á bænir þínar?
ÆÐSTI framkvæmdastjóri ríkis eða fyrirtækis ákveður hvort hann annast mál persónulega eða felur það fulltrúa sínum. Á svipaðan hátt getur drottinvaldur alheimsins ákveðið í hvaða mæli hann blandar sér persónulega í hvert mál. Ritningin kennir að Guð hafi kosið að heyra persónulega bænir okkar og bendir okkur þess vegna á að beina þeim til hans. — Sálmur 66:19; 69:14.
Val Guðs í þessu máli ber viti um persónulegan áhuga hans á bænum mennskra þjóna sinna. Frekar en að letja fólk sitt þess að nálgast sig með hugsanir sínar og áhyggjur hvetur hann eindregið: „Biðjið án afláts,“ „verið . . . staðfastir í bæninni,“ „varpaðu byrði þinni á Jehóva,“ „varpið allri áhyggju yðar á [Guð].“ — 1. Þessaloníkubréf 5:17; Rómverjabréfið 12:12; Sálmur 55:22, NW; 1. Pétursbréf 5:7.
Ef Guð hefði ekki viljað gefa gaum að bænum þjóna sinna hefði hann aldrei gert ráðstafanir til þess að þeir hefðu svo greiðan aðgang að sér og hvatt þá til að nota hann óhindrað. Að Guð skyldi kjósa að gera sjálfan sig aðgengilegan fólki sínu er því ein ástæða til að treysta því að hann hlusti í raun og veru. Já, hann íhugar hverja einustu bæn þjóna sinna.
Ekki má líta fram hjá því að Biblían segir skýrum stöfum að Guð hlusti á bænir. Til dæmis skrifaði Jóhannes postuli: „Þetta er sú djörfung, sem vér höfum til hans: Ef vér biðjum um eitthvað eftir hans vilja, þá heyrir hann oss.“ (1. Jóhannesarbréf 5:14) Davíð konungur benti á Jehóva Guð sem þann er „heyrir bænir“ og staðhæfði með öruggri vissu: „Hann heyrir raust mína.“ — Sálmur 55:18; 65:3.
Þótt sú athöfn að biðja sé vafalaust gagnleg í sjálfri sér sýnir Ritningin að bæn réttláts manns sé miklu áhrifameiri en það. Sá er til sem hlustar og það er enginn annar en Guð. — Jakobsbréfið 5:16-18.
Bænir sem voru heyrðar
Biblían er full frásagna af fólki sem fékk í raun og veru áheyrn og bænheyrslu hjá Guði. Reynsla þeirra staðfestir greinilega að gagnsemi bænarinnar er meiri en aðeins þau lækningaáhrif sem það hefur að raða niður hugsunum sínum og tjá þær með orðum. Gildi bænarinnar liggur ekki aðeins í viðleitni einstaklingsins sem er samfara bæn hans.
Til dæmis þegar Davíð konungur stóð andspænis samsæri Absalons um að hrifsa til sín konungdóminn í Ísrael bað hann: „Gjör þú, [Jehóva], ráð Akítófels [ráðgjafa Absalons] að heimsku.“ Hann fór ekki fram á lítið því „þau ráð, er Akítófel réð, þóttu . . . eins góð og gild, sem gengið væri til frétta við Guð, — svo mikils máttu sín öll ráð Akítófels.“ Eftir það hafnaði Absalon þeirri hernaðaráætlun sem Akítófel stakk upp á til að steypa Davíð konungi af stóli. Hvers vegna? „[Jehóva] hafði ákveðið að ónýta hið góða ráð Akítófels, til þess að hann gæti látið ógæfuna koma yfir Absalon.“ Davíð var augljóslega bænheyrður. — 2. Samúelsbók 15:31; 16:23; 17:14.
Eftir að Hiskía grátbændi Guð um björgun frá banvænum sjúkdómi batnaði honum. Var það einfaldlega vegna þeirra sálfræðilegu áhrifa sem Hiskía hafði af bæn sinni? Svo sannarlega ekki! Skilaboð Jehóva til Hiskía, sem Jesaja spámaður bar honum, voru: „Ég hefi heyrt bæn þína og séð tár þín. Sjá, ég mun lækna þig.“ — 2. Konungabók 20:1-6.
Engill Jehóva fullvissaði Daníel sem var bænheyrður seinna en hann kann að hafa átt von á: „Orð þín [eru] heyrð.“ Bænum annarra, svo sem Hönnu, lærisveina Jesú og Kornelíusar hundraðshöfðingja, var svarað á þann veg að ekki er hægt að þakka það mannlegri getu einni saman. Biblían kennir þannig greinilega að Guð taki við, heyri og svari bænum sem eru í samræmi við vilja hans. — Daníel 10:2-14; 1. Samúelsbók 1:1-20; Postulasagan 4:24-31; 10:1-7.
En hvernig bænheyrir Guð trúfasta þjóna sína nú á tímum?
Bænheyrsla
Bænum þeirra, sem getið var hér á undan, var svarað á áhrifamikinn hátt með kraftaverki. En hafðu þó hugfast að jafnvel á biblíutímanum var bænheyrsla oftast nær ekki svona áberandi. Það er vegna þess að bænir lutu að því að fá siðferðilegan styrk og þekkingu sem gerir þjónum Guðs kleift að halda sér á braut réttlætisins. Sérstaklega hjá kristnum mönnum varðar bænheyrslan að mestu andleg mál, ekki tilkomumikil máttarverk. — Kólossubréfið 1:9.
Vertu þess vegna ekki vonsvikinn ef þú ert ekki alltaf bænheyrður á þann veg sem þú væntir eða hefðir kosið. Til dæmis gæti Guð, í stað þess að forða þér úr prófraun, kosið að gefa þér „ofurmagn kraftarins“ til að halda út. (2. Korintubréf 4:7; 2. Tímóteusarbréf 4:17) Við skulum aldrei gera lítið úr gildi slíks kraftar, né álykta að Jehóva hafi ekki hirt um að bænheyra okkur.
Íhugum sem dæmi sjálfan son Guðs, Jesú Krist. Honum þótti miður að deyja eins og hann væri guðlastari og bað: „Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér!“ Fékk hann bænheyrslu hjá Guði? Já, eins og staðfest er í Hebreabréfinu 5:7. Jehóva hlífði syni sínum ekki við því að deyja á kvalastaur. Þess í stað „birtist honum engill af himni, sem styrkti hann.“ — Lúkas 22:42, 43.
Þetta hefði verið áhrifamikil kraftaverkabænheyrsla í okkar augum. En í augum Jehóva Guðs, uppsprettu slíks kraftar, var þetta ekkert kraftaverk. Og Jesús var, frá sinni fyrri tilveru á himnum, vel kunnugur því þegar englar birtust mönnum áður fyrr. Það hafði ekki þau mikilfenglegu áhrif á Jesú þegar engill birtist honum eins og það myndi hafa á okkur. Samt sem áður hjálpaði þessi engill, sem Jesús þekkti að öllum líkindum persónulega frá fortilveru sinni áður en hann varð maður, til að styrkja hann fyrir þá prófraun sem var skammt undan.
Jehóva bænheyrir trúfasta þjóna sína nú á tímum oft með því að gefa þeim þann kraft sem þarf til að halda út. Þessi stuðningur gæti verið í mynd uppörvunar frá meðbræðrum okkar sem við höfum persónuleg tengsl við. Myndi einhver okkar hafna þeirri uppörvun og álykta sem svo að þeir séu ekki í neinni aðstöðu til að styrkja okkur þar sem þeir hafa ekki lent í sömu prófraunum og við? Jesús hefði getað hugsað þannig um engilinn sem birtist honum. Þess í stað tók hann við uppörvuninni sem bænheyrslu frá Jehóva og var þess vegna megnugur að uppfylla trúfastlega vilja föður síns. Við viljum líka taka fúslega á móti þeim styrk sem Guð gefur til svars við bænum okkar. Munum líka að slíkum tímabilum, sem útheimta þolinmæði og þrautseigju, fylgja oft ótal blessanir. — Prédikarinn 11:6; Jakobsbréfið 5:11.
Verum sannfærð um að Guð heyri
Misstu aldrei tiltrú þína á áhrifamátt bænarinnar ef henni er ekki svarað strax. Svör við sumum bænum, eins og um hvíld frá erfiðleikum eða um aukna ábyrgð í þjónustunni við Guð, gætu þurft að bíða þess tíma sem Guð veit að er réttur og bestur. (Lúkas 18:7, 8; 1. Pétursbréf 5:6) Ef þú ert að biðja varðandi mál er snertir þig mjög persónulega, sýndu þá Guði með staðfestu þinni að löngun þín sé sterk og hvatir þínar hreinar og einlægar. Jakob lét þetta viðhorf í ljós þegar hann sagði við engil eftir langa glímu við hann: „Ég sleppi þér ekki, nema þú blessir mig.“ (1. Mósebók 32:24-32) Við verðum að hafa svipaða sannfæringu um að við munum fá blessun þegar þar að kemur ef við höldum áfram að biðja. — Lúkas 11:9.
Eitt að lokum. Það eru dýrmæt sérréttindi að fá áheyrn hjá drottinvaldi alheimsins. Með það í huga, hlustum við gaumgæfilega þegar Jehóva Guð talar til okkar gegnum orð sitt um kröfur sínar? Þar eð bænir okkar gefa okkur mjög innilegt samband við skapara okkar ætti okkur að langa til að gefa alvarlegan gaum að hverju því sem hann hefur að segja okkur.
[Mynd á blaðsíðu 6]
Guð hlustar á bænir okkar. Hlustum við á hann þegar hann talar til okkar í orði sínu?