Viðhorf kristins manns til æðri yfirvalda
„Sérhver sál skal vera æðri yfirvöldum undirgefin, því ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði; þau yfirvöld sem eru, þau hefur Guð sett í sínar afstæðu stöður.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 13:1, NW.
1, 2. (a) Hvers vegna var Páll fangi í Róm? (b) Hvaða spurningar vekur áfrýjun Páls til keisarans?
PÁLL postuli skrifaði Rómverjum orðin hér að ofan um árið 56. Fáeinum árum síðar var hann fangi í Róm. Hvers vegna? Hann hafði orðið fyrir skrílsárás í Jerúsalem og rómverskir hermenn bjargað honum. Hann var fluttur til Sesareu þar sem hann sætti röngum ákærum en varði sig fagmannlega frammi fyrir Felix, landstjóra Rómverja. Felix vonaðist eftir mútufé og hélt honum föngnum í tvö ár. Loks krafðist Páll þess af næsta landstjóra, Festusi, að mál hans yrði lagt fyrir keisarann. — Postulasagan 21:27-32; 24:1-25:12.
2 Þetta var réttur Páls sem rómversks borgara. En var Páll sjálfum sér samkvæmur að skjóta máli sínu til keisarans þegar haft er í huga að Jesús hafði kallað Satan hinn raunverulega ‚höfðingja heimsins‘ og sjálfur hafði Páll kallað Satan „guð þessarar aldar,“ eða gegndu hin rómversku yfirvöld einhverri ‚afstæðri stöðu‘ sem gerði það viðeigandi fyrir Pál að leita réttar síns hjá þeim? (Jóhannes 14:30; 2. Korintubréf 4:4) Leyfa orðin: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum,“ sem postularnir höfðu sagt áður, kristnum mönnum að hlýða mennskum stjórnendum svo lengi sem það hefur ekki í för með sér óhlýðni við Guð? — Postulasagan 5:29.
3. Hvaða viðhorf lætur Páll í ljós og hvernig er samviskan tengd því?
3 Páll hjálpar okkur, í bréfi sínu til Rómverja, að svara þessum spurningum, en þar kemur hann fram með þroskað viðhorf til stjórnar manna. Í Rómverjabréfinu 13:1-7 kemur skýrt fram hjá Páli hvaða þátt kristin samviska verður að eiga í því að finna jafnvægi milli fullkominnar hlýðni við hið æðsta yfirvald, Jehóva Guð, og afstæðrar hlýðni við ‚æðri yfirvöld.‘
Hver eru hin æðri yfirvöld?
4. Hvernig voru viðhorf leiðrétt árið 1962 og hvaða spurningar vekur það?
4 Um nokkurt árabil, fram til 1962, töldu vottar Jehóva að hin æðri yfirvöld væru Jehóva Guð og Kristur Jesús. Í samræmi við Orðskviðina 4:18 fór ljósið hins vegar vaxandi og þetta viðhorf var leiðrétt. Það kann að vekja spurningar í hugum sumra. Er það réttur skilningur hjá okkur núna að þessi yfirvöld séu konungar, forsetar, forsætisráðherrar, borgarstjórar og aðrir sem fara með veraldlegt, pólitískt vald í heiminum og að við skuldum þeim afstæða undirgefni?
5. Hvernig hjálpar samhengi Rómverjabréfsins 13:1 okkur að vita hver eru hin æðri yfirvöld, og hvernig styðja ýmsar biblíuþýðingar það?
5 Íreneus, rithöfundur sem uppi var á annarri öld okkar tímatals, sagði að á hans dögum hefðu sumir talað um Rómverjabréfið 13:1 „í sambandi við máttarvöld engla eða ósýnilegra stjórnenda.“ Sjálfur leit Íreneus hins vegar á yfirvöldin sem „hin raunverulegu, mennsku yfirvöld.“ Samhengi orða Páls sýnir að Íreneus hafði rétt fyrir ser. Í lokaversum 12. kafla Rómverjabréfsins bendir Páll á hvernig kristnir menn ættu að hegða sér frammi fyrir ‚öllum mönnum‘ og jafnvel að sýna ‚óvinum sínum‘ kærleika og tillitssemi. (Rómverjabréfið 12:17-21) Orðin ‚allir menn‘ vísa augljóslega til manna utan kristna safnaðarins. Hin ‚æðri yfirvöld,‘ sem Páll fer síðan að ræða um, hljóta því líka að vera utan kristna safnaðarins. Við skulum sjá hvernig ýmsar biblíuþýðingar orða fyrsta hluta Rómverjabréfsins 13:1 í samræmi við þetta: „Allir verða að hlýða yfirvöldum ríkisins.“ (Today’s English Version); „Allir verða að beygja sig fyrir stjórnvöldum.“ (New International Version); „Allir ættu að hlýða borgaralegum yfirvöldum.“ — New Testament In Modern English eftir Phillips.
6. Hvernig sýna orð Páls um greiðslu skatta og tolla að yfirvöldin hljóta að vera veraldleg?
6 Páll segir síðan í framhaldinu að þessi yfirvöld heimti skatta og tolla. (Rómverjabréfið 13:6, 7) Kristni söfnuðurinn heimtar ekki skatta eða tolla, og það gera ekki heldur Jehóva eða Jesús eða nokkrir aðrir ‚ósýnilegir stjórnendur.‘ (2. Korintubréf 9:7) Skattar eru greiddir einungis veraldlegum yfirvöldum. Það kemur heim og saman við þennan skilning að grísku orðin fyrir „skattur“ og „tollur,“ sem Páll notar í Rómverjabréfinu 13:7, vísa sérstaklega til fjármuna sem greiddir eru ríkinu.a
7, 8. (a) Hvernig taka ýmsir ritningarstaðir undir það viðhorf að kristnir menn ættu að vera undirgefnir pólitískum yfirvöldum þessa heims? (b) Hvenær aðeins ætti kristinn maður ekki að hlýða fyrirskipunum ‚yfirvalda‘?
7 Hvatning Páls um að sýna æðri yfirvöldum undirgefni er enn fremur í samræmi við boð Jesú um að ‚gjalda keisaranum það sem keisarans er,‘ en þar er ‚keisarinn‘ tákn veraldlegra yfirvalda. (Matteus 22:21) Það kemur einnig heim og saman við orð Páls til Títusar síðar meir: „Minn þá á að vera undirgefnir höfðingjum og yfirvöldum, hlýðnir og reiðubúnir til sérhvers góðs verks.“ (Títusarbréfið 3:1) Þegar því stjórnvöld fyrirskipa kristnum mönnum að taka þátt í þegnskylduvinnu gera þeir það með réttu, svo lengi sem sú vinna er ekki merki undanláts og talin koma í stað óbiblíulegrar þjónustu eða brýtur með öðrum hætti gegn meginreglum Ritningarinnar, svo sem í Jesaja 2:4.
8 Pétur staðfesti líka að við ættum að vera undirgefin veraldlegum yfirvöldum þessa heims er hann sagði: „Verið Drottins vegna undirgefnir allri mannlegri skipan, bæði keisara, hinum æðsta, og landshöfðingjum, sem hann sendir til að refsa illgjörðamönnum og þeim til lofs er breyta vel.“ (1. Pétursbréf 2:13, 14) Í samræmi við þetta fara kristnir menn líka eftir hvatningu Páls til Tímóteusar: „Fyrst af öllu áminni ég um að bera fram ákall, bænir, fyrirbænir og þakkargjörðir fyrir öllum mönnum, fyrir konungum og öllum þeim, sem hatt eru settir, til þess að vér fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi.“b — 1. Tímóteusarbréf 2:1, 2.
9. Hvers vegna rýrir það ekki dýrð Jehóva þótt mennsk yfirvöld séu kölluð „æðri“?
9 Drögum við á einhvern hátt úr þeim heiðri sem Jehóva tilheyrir, með því að kalla veraldleg yfirvöld „æðri“? Nei, vegna þess að Jehóva er miklu meira en æðri einhverjum öðrum. Hann er „alvaldur Drottinn,“ ‚hinn hæsti.‘ (Sálmur 73:28, NW; Daníel 7:18, 22, 25, 27; Opinberunarbókin 4:11; 6:10) Tilhlýðileg undirgefni við mennsk yfirvöld dregur á engan hátt úr tilbeiðslu okkar á hinu æðsta yfirvaldi, alvöldum Drottni Jehóva. Að hvaða marki eru þá þessi yfirvöld æðri? Aðeins gagnvart öðrum mönnum og á sínu eigin áhrifasviði. Þau bera ábyrgð á því að stjórna og vernda mannleg samfélög, og í þeim tilgangi setja þau reglur um stjórn almennra málefna.
‚Guð hefur sett þær í sínar afstæðu stöður‘
10. (a) Hvað sanna orð Páls, um að yfirvöldin séu ‚sett‘ í stöðu sína, um yfirvald Jehóva sjálfs? (b) Hvað hefur Jehóva leyft í sambandi við suma valdhafa og hvernig reynir það á þjóna hans?
10 Drottinvald Jehóva Guðs jafnvel yfir veraldlegum yfirvöldum sést á því að „þau hefur Guð sett í sínar afstæðu stöður.“ Þessi orð vekja hins vegar upp spurningu. Nokkrum árum eftir að Páll skrifaði þessi orð hóf Neró Rómarkeisari heiftuga ofsóknarherferð gegn kristnum mönnum. Hafði Guð persónulega sett Neró í embætti? Því fór fjarri! Það er ekki svo að Guð velji hvern einstakan valdhafa og skipi hann í emæbtti ‚af Guðs náð.‘ Stundum kemur Satan grimmum mönnum í valdastöður og Jehóva leyfir það, ásamt þeim prófraunum sem slíkir valdhafar leiða yfir ráðvanda þjóna hans. — Samanber Jobsbók 2:2-10.
11, 12. Hvaða dæmi eru um að Jehóva hafi prsónulega sett veraldleg yfirvöld í eða úr embætti?
11 Jehóva hefur hins vegar persónulega hlutast til um málefni vissra valdhafa eða ríkisstjórna í þeim tilgangi að stjórna háleitum tilgangi sínum. Til dæmis var Kanverjum leyft að búa í Kanaanlandi á tímum Abrahams. Síðar upprætti Jehóva þá og gaf afkomendum Abrahams landið. Á eyðimerkurgöngu Ísraelsmanna leyfði Jehóva þeim ekki að leggja undir sig Ammon, Móab og Seírfjöll. Hins vegar fyrirskipaði hann þeim að eyða ríkjum Síhons og Ógs. — 1. Mósebók 15:18-21; 24:37; 2. Mósebók 34:11; 5. Mósebók 2:4, 5, 9, 19, 24; 3:1, 2.
12 Eftir að Ísraelsmenn settust að í Kanaanlandi hélt Jehóva áfram að hlutast beint til um málefni þeirra yfirvalda sem höfðu áhrif á þjóð hans. Stundum, þegar Ísrael hafði syndgað, leyfði Jehóva að þjóðin kæmist undir heiðin yfirráð. Þegar Ísraelsmenn iðruðust aflétti hann þeim yfirraðum. (Dómarabókin 2:11-23) Að lokum leyfði hann að Júda, ásamt mörgum fleiri þjóðum, kæmist undir yfirráð Babýlonar. (Jesaja 14:28-19:17; 23:1-12; 39:5-7) Eftir að Ísraelsmenn voru fluttir ı útlegð til Babýlonar sagði Jehóva fyrir uppgang og fall heimsvelda er myndu hafa áhrif á þjóð hans frá tímum Babýlonar allt til okkar daga. — Daníel 2., 7., 8. og 11. kafli.
13. (a) Hvers vegna setti Jehóva þjóðunum landamæri að því er Móse söng? (b) Hvers vegna leiddi Guð Ísrael aftur heim í land sitt?
13 Móse song um Jehóva: „Þá er hinn hæsti skipti óðulum meðal þjóðanna, þá er hann greindi í sundur mannanna börn, þá skipaði hann löndum þjóðflokkanna eftir tölu Ísraels sona. Því að hlutskipti [Jehóva] er lýður hans, Jakob úthlutuð arfleifð hans.“ (5. Mósebók 32:8, 9; samanber Postulasöguna 17:26.) Já, þarna úrskurðaði Guð hvaða yfirvöld ættu að standa og hverjum yrði tortímt, í þeim tilgangi að láta tilgang sinn ná fram að ganga. Á þennan hátt úthlutaði hann afkomendum Abrahams landi til erfðar og kom þeim síðan aftur heim í það land, þannig að hið fyrirheitna sæði gæti komið fram þar síðar eins og spáð hafði verið. — Daníel 9:25, 26; Míka 5:2.
14. Í hvaða skilningi setur Jehóva hin mannlegu yfirvöld oftast í sínar afstæðu stöður?
14 Í flestum tilvikum setur Jehóva valdhafa í sínar afstæðu stöður í þeim skilningi að hann leyfir mönnum að fara með afstæðar valdastöður hver gagnvart öðrum, en þó alltaf óæðri honum sjálfum. Þannig sagði Jesús Pontíusi Pílatusi er hann stóð frammi fyrir honum: „Þú hefðir ekkert vald yfir mér, ef þér væri ekki gefið það að ofan.“ (Jóhannes 19:11) Þessi orð merktu ekki að Guð hefði persónulega sett Pílatus í valdastöðu, heldur merkti það að hann hefði vald yfir lífi og dauða Jesú einungis vegna þess að Guð leyfði það.
„Guð þessarar aldar“
15. Á hvaða hátt fer Satan með yfirvald í þessum heimi?
15 En hvað um þá staðhæfingu Biblíunnar að Satan sé guð eða höfðingi þessa heims? (Jóhannes 12:31; 2. Korintubréf 4:4) Já, hvað um sjálfshól Satans er hann sýndi Jesú öll ríki heims og gortaði: „Allt þetta veldi . . . mér er það í hendur fengið, og ég get gefið það hverjum sem ég vil.“ (Lúkas 4:6) Jesús andmælti ekki gorti Satans, og orð Satans koma heim og saman við það sem Páll skrifaði Efesusmonnum síðar: „Baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum.“ (Efesusbrefið 6:12) Enn fremur lýsir Opinberunarbókin Satan sem miklum dreka er gefur dýri, sem táknar stjórnmálakerfi heims, „mátt sinn og hásæti sitt og vald mikið.“ — Opinberunarbókin 13:2.
16. (a) Á hverju sést að yfirvald Satans er takmarkað? (b) Hvers vegna leyfir Jehóva Satan að fara með yfirvald meðal manna?
16 En taktu þó eftir að orð Satans við Jesú, „allt þetta veldi . . . mér er það í hendur fengið,“ sýna að hann fer líka með vald aðeins af því að honum er leyft það. Hvers vegna leyfir Guð slíkt? Ferill Satans sem heimsdrottnari hófst í Edengarðinum er hann ásakaði Guð opinberlega um að ljúga og beita drottinvaldi sínu ranglátlega. (1. Mósebók 3:1-6) Adam og Eva fylgdu Satan og óhlýðnuðust Jehóva Guði. Á þvi stigi hefði Jehóva í fullri réttvísi getað líflátið Satan og hans tvo nýju fylgjendur, en orð Satans voru í raun persónuleg ögrun við Jehóva. (1. Mósebók 2:16, 17) Í visku sinni lét Guð því Satan lifa um hríð, og Adam og Evu var leyft að auka kyn sitt áður en þau dóu. Með þeim hætti gaf Guð tíma og tækifæri til að láta koma í ljós hve fölsk ákæra Satans væri. — 1. Mósebók 3:15-19.
17, 18. (a) Hvers vegna getum við sagt að Satan sé guð þessa heims? (b) Í hvaða skilningi er ‚ekkert yfirvald‘ í þessum heimi „nema frá Guði“?
17 Atburðirnir síðan Edengarðurinn var og hét hafa sýnt að ákærur Satans voru hreinar og beinar lygar. Afkomendur Adams hafa ekki fundið hamingju, hvorki undir stjórn Satans né manna. (Prédikarinn 8:9) Á hinn bóginn hafa samskipti Guðs við þjóna sína sýnt yfirburði stjórnar Guðs. (Jesaja 33:22) Úr því að fæstir afkomendur Adams viðurkenna drottinvald Jehóva þjóna þeir hins vegar Satan sem guði, annaðhvort vitandi eða óafvitandi. — Sálmur 14:1; 1. Jóhannesarbréf 5:19.
18 Bráðlega munu þau deilumál, sem upp komu í Eden, verða útkljáð. Ríki Guðs mun að fullu yfirtaka stjórnina yfir málefnum manna og Satan verða varpað í undirdjúp. (Jesaja 11:1-5; Opinberunarbókin 20:1-6) Uns það gerist hefur þó einhvers konar tilhögun eða fyrirkomulag verið nauðsynlegt meðal manna, þannig að hægt væri að lifa regluföstu lífi. Jehóva „er ekki Guð truflunarinnar, heldur friðarins.“ (1. Korintubréf 14:33) Þess vegna hefur hann leyft að ýmiss konar valdakerfi yrðu til í þeim samfélögum manna sem þróuðust utan Edengarðsins, og hefur leyft mönnum að fara með vald samkvæmt þeirri tilhögun. Í þeim skilningi er ‚ekki neitt yfirvald til nema frá Guði.‘
Sannsýn yfirvöld
19. Er hver einasti mannlegur valdhafi undir beinni stjórn Satans?
19 Síðan atvikin gerðust í Eden hefur Satan notið víðtæks frelsis meðal mannkyns og hann hefur notað þetta frelsi til að stjórna atburðum á jörðinni í samræmi við fullyrðingu sína við Jesú. (Jobsbók 1:7; Matteus 4:1-10) Þetta merkir þó ekki að hver einasti valdhafi í þessum heimi lúti beint stjórn Satans. Sumir — líkt og Neró og Adolf Hitler á okkar öld — hafa sannarlega látið í ljós anda Satans, en aðrir hafa sýnt annað viðmót. Sergíus Páll, landstjóri á Kýpur, var ‚hygginn maður‘ sem „fýsti að heyra Guðs orð.“ (Postulasagan 13:7) Gallíón, landstjóri í Akkeu, neitaði að láta Gyðingana, sem ákærðu Pál, þvinga sig. (Postulasagan 18:12-17) Margir aðrir valdhafar hafa með heiðvirðum hætti beitt valdi sínu eftir bestu samvisku. — Samanber Rómverjabréfið 2:15.
20, 21. Hvaða atburðir 20. aldar sýna og sanna að mennskir valdhafar ganga ekki alltaf erinda Satans?
20 Opinberunarbókin sagði fyrir að „á Drottins degi,“ sem hófst árið 1914, myndi Jehóva jafnvel stýra mennskum yfirvöldum svo að þau ónýttu fyrirætlanir Satans. Opinberunarbókin lýsir flóðbylgju ofsókna frá Satan gegn smurðum kristnum mönnum sem „jörðin“ átti að svelgja. (Opinberunarbókin 1:10; 12:16) Öfl innan ‚jarðarinnar,‘ hins mannlega samfélags sem nú er á jörðinni, myndu vernda þjóna Jehóva gegn ofsóknum Satans.
21 Hefur þetta gerst í raun? Já. Á fjórða og fimmta áratug þessarar aldar sættu vottar Jehóva í Bandaríkjunum til dæmis miklum þrýstingi, skrílsárasum og oft ranglátum handtökum. Því linnti er hæstiréttur Bandaríkjanna felldi fjölmarga dóma er staðfestu lögmæti starfs þeirra. Víða annars staðar hafa yfirvöld líka komið þjónum Guðs til hjálpar. Fyrir um það bil 40 árum réðst rómversk-kaþólskur mannfjöldi á tvo votta í bænum Cork á Írlandi. Lögregluþjónn þar á staðnum kom vottunum til hjálpar og dómstóll agaði árasarmennina. Fyrir tveim árum héldu háttsettir höfðingjar á Fitsíeyjum fund þar sem til umræðu var tillaga um að banna starf votta Jehóva. Einn höfðingjanna talaði máli vottanna djarflega og tillagan hlaut lítið fylgi.
22. Hvaða spurningar verður fjallað um næst?
22 Nei, veraldleg yfirvöld þjóna ekki alltaf markmiðum Satans. Kristnir menn geta verið undirgefnir hinum æðri yfirvöldum án þess að vera undirgefnir Satan sjálfum. Þeir lúta þessum yfirvöldum svo lengi sem Guð leyfir yfirvöldunum að standa. En hvað er fólgið í slíkri undirgefni? Og hvers mega kristnir menn vænta frá yfirvöldunum í staðinn? Þessar spurningar verða ræddar í námgreinunum tveim sem hér fara á eftir.
[Neðanmáls]
a Sjá til dæmis notkun orðsins „skattur“ (foros) í Lúkasi 20:22. Sjá einnig notkun gríska orðsins telos, sem hér er þýtt „tollur,“ í Matteusi 17:25.
b Gríska orðið hyperokhe, þýtt „sem hátt eru settir,“ er skylt sagnorðinu hyperekho. Orðið „æðri“ í ‚æðri yfirvöld‘ er mynd af sömu grísku sögn sem eru enn ein rök fyrir því að yfirvöldin í Rómverjabréfinu 13:1 séu hin veraldlegu yfirvöld. Þýðing The New English Bible, „sérhver maður verður að lúta hinum æðstu yfirvöldum,“ er ekki rétt. Menn, „sem hátt eru settir,“ eru ekki í æðstu stöðu þótt þeir kunni að vera æðri öðrum mönnum.
Hverju svarar þú?
◻ Hver eru hin æðri yfirvöld?
◻ Hvernig má segja að ‚ekki sé neitt yfirvald til nema frá Guði‘?
◻ Hvers vegna leyfir Jehóva að heimurinn sé undir valdi Satans?
◻ Á hvaða hátt setur Guð mannleg yfirvöld „í sínar afstæðu stöður“?
[Mynd á blaðsíðu 21]
Neró sýndi sannarlega anda Satans eftir að Róm brann.