Að verða hæfur til skírnar
„Hvað hamlar mér að skírast?“ — POSTULASAGAN 8:36.
1, 2. Hvernig kom Filippus af stað samræðum við eþíópískan hirðmann og hvað ber vott um að maðurinn hafi verið andlega hugsandi?
EINU eða tveimur árum eftir dauða Jesú var opinber embættismaður á leið suður eftir veginum frá Jerúsalem til Gasa. Fram undan beið hans langt og þreytandi ferðalag í vagni, sennilega um 1500 kílómetra leið. Þessi guðhræddi maður hafði komið alla leið frá Eþíópíu til að tilbiðja Jehóva í Jerúsalem. Það ber vott um trú mannsins að hann skyldi nota tímann á hinni löngu heimleið til að lesa í orði Guðs. Jehóva tók eftir þessum einlæga manni og fyrir milligöngu engils gaf hann lærisveininum Filippusi fyrirmæli um að prédika fyrir honum. — Postulasagan 8:26-28.
2 Eþíópíski hirðmaðurinn var að lesa upphátt eins og venja var á þeim dögum og því var auðvelt fyrir Filippus að koma af stað samræðum við hann. Filippus heyrði að hann var að lesa úr bókrollu Jesaja og varpaði fram einfaldri spurningu sem vakti áhuga mannsins: „Hvort skilur þú það, sem þú ert að lesa?“ Í kjölfarið ræddu þeir um Jesaja 53:7, 8 og að lokum „boðaði [Filippus] honum fagnaðarerindið um Jesú“. — Postulasagan 8:29-35.
3, 4. (a) Af hverju skírði Filippus Eþíópíumanninn án tafar? (b) Hvaða spurningar ætlum við að skoða nánar?
3 Fljótlega skildi Eþíópíumaðurinn hlutverk Jesú í fyrirætlun Guðs og hve nauðsynlegt væri að láta skírast sem lærisveinn Jesú Krists. „Hvað hamlar mér að skírast?“ spurði hann Filippus þegar þeir komu að vatni nokkru. Að sjálfsögðu var hér um sérstakar aðstæður að ræða. Maðurinn hafði tekið gyðingatrú og tilbað Guð nú þegar. Hann fengi sennilega ekki annað tækifæri í bráð til að skírast. Og síðast en ekki síst skildi hann hvers Guð ætlaðist til af honum og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Filippus var ánægður að geta orðið við bón hans og eftir skírnina fór Eþíópíumaðurinn „fagnandi leiðar sinnar“. Eflaust varð hann kappsfullur boðberi fagnaðarerindisins í heimalandi sínu. — Postulasagan 8:36-39.
4 Það er ekki léttvægt mál að vígjast Guði og láta skírast og þessa ákvörðun ætti ekki heldur að taka í fljótfærni. En dæmið um eþíópíska hirðmanninn sýnir að sumir hafa látið skírast stuttu eftir að hafa heyrt sannleikann í orði Guðs.a Það er því viðeigandi að skoða nánar eftirfarandi spurningar: Hvaða undirbúningur þarf að eiga sér stað fyrir skírnina? Skiptir aldur skírnþegans einhverju máli? Hvaða framförum verður hann að hafa tekið í trúnni áður en hann lætur skírast? Og umfram allt, hvers vegna krefst Jehóva þess að þjónar hans stígi þetta skref?
Hátíðlegt loforð
5, 6. (a) Hvaða áhrif hafði kærleikur Jehóva á þjóna hans til forna? (b) Hvaða nána samband getum við átt við Guð þegar við höfum látið skírast?
5 Eftir að Jehóva frelsaði Ísraelsmenn úr Egyptalandi bauð hann þeim að verða „eiginleg eign“ sín og lofaði að elska þá og vernda og gera að ‚heilögum lýð‘. En til að hljóta þessa blessun þurfti þjóðin að bregðast við kærleika Guðs á ákveðinn hátt. Hún gerði það með því að samþykkja að ‚gera allt það sem Jehóva bauð‘ og gangast undir sáttmálasamband við hann. (2. Mósebók 19:4-9) Á fyrstu öldinni bauð Jesús fylgjendum sínum að gera fólk af öllum þjóðum að lærisveinum og þeir sem tóku við kennslu hans voru skírðir. Til að eiga gott samband við Guð varð fólk að trúa á Jesú Krist og láta skírast. — Matteus 28:19, 20; Postulasagan 2:38, 41.
6 Þessar frásögur í Biblíunni sýna að Jehóva blessar þá sem gefa hátíðlegt loforð um að þjóna honum og standa við það. Kristnir menn verða að vígja sig Jehóva og láta skírast til að hljóta blessun hans. Við erum staðráðin í að fylgja mælikvarða hans og leita leiðsagnar hans. (Sálmur 48:15) Þá tekur Jehóva í vissum skilningi í hönd okkar og leiðir okkur þann veg sem við eigum að ganga. — Sálmur 73:23; Jesaja 30:21; 41:10, 13.
7. Af hverju verður vígsla og skírn að vera persónuleg ákvörðun?
7 Hvötin að baki þessari ákvörðun ætti að vera kærleikur til Jehóva og löngun til að þjóna honum. Það ætti enginn að láta skírast aðeins vegna þess að einhver segir honum að hann hafi stundað biblíunám nógu lengi eða vegna þess að vinir hans eru að láta skírast. Að sjálfsögðu geta foreldrar og aðrir þroskaðir kristnir menn hvatt fólk til að leiða hugann að vígslu og skírn. Pétur postuli hvatti þá sem hlustuðu á hann á hvítasunnunni til að láta skírast. (Postulasagan 2:38) En vígslan er persónuleg ákvörðun hvers og eins og enginn getur vígst Guði fyrir okkur. Við verðum sjálf að taka ákvörðun um að gera vilja Guðs. — Sálmur 40:9.
Nægur undirbúningur fyrir skírn
8, 9. (a) Af hverju samræmist ungbarnaskírn ekki Biblíunni? (b) Hvaða trúarþroska verða börn og unglingar að hafa náð áður en þau láta skírast?
8 Eru börn fær um að taka ákvörðun um vígslu og skírn? Í Biblíunni er ekki að finna neitt aldurstakmark fyrir skírnþega. En ungbörn geta að sjálfsögðu ekki tekið trú, iðkað trú sína eða vígst Guði. (Postulasagan 8:12) Sagnfræðingurinn Augustus Neander segir um kristna menn á fyrstu öld í bók sinni General History of the Christian Religion and Church: „Í fyrstu létu aðeins fullorðnir skírast því að menn voru vanir því að skírn og trú færu alltaf saman.“
9 Börn og unglingar geta sum hver verið andlega sinnuð á frekar ungum aldri en önnur þurfa lengri tíma. Áður en börn og unglingar láta skírast þurfa þau samt að uppfylla sömu kröfur og fullorðnir skírnþegar. Þau verða að eiga persónulegt samband við Jehóva, hafa góðan skilning á grundvallarkenningum Biblíunnar og vita nákvæmlega hvað er fólgið í því að vígjast Guði.
10. Hvaða skref þarf fólk að stíga áður en það vígir sig Guði og lætur skírast?
10 Jesús sagði lærisveinunum að kenna nýjum allt það sem hann hafði boðið þeim. (Matteus 28:20) Hinir nýju þurfa því í fyrsta lagi að hafa nákvæma þekkingu á sannleikanum því að það gerir þeim kleift að öðlast trú á Jehóva og orð hans. (Rómverjabréfið 10:17; 1. Tímóteusarbréf 2:4; Hebreabréfið 11:6) Síðan þegar sannleikurinn í Biblíunni snertir hjarta þeirra finna þeir hjá sér hvöt til að iðrast og snúa sér frá fyrri lífsstefnu. (Postulasagan 3:19) Að lokum kemur að því að þeir vilja vígja sig Jehóva og láta skírast eins og Jesús hvatti til.
11. Af hverju er mikilvægt að taka reglulega þátt í boðunarstarfinu áður en maður lætur skírast?
11 Annað sem er mikilvægt að gera áður en maður lætur skírast er að taka þátt í boðunarstarfinu. Þetta er mikilvægasta starfið sem Jehóva hefur falið fólki sínu núna á síðustu dögum. (Matteus 24:14) Óskírðir boðberar geta notið þeirrar gleði að segja öðrum frá trú sinni. Boðunarstarfið býr þá líka undir að verða iðnir og reglusamir boðberar eftir skírnina. — Rómverjabréfið 10:9, 10, 14, 15.
Er eitthvað sem hamlar þér að láta skírast?
12. Hvað gæti staðið í vegi fyrir því að sumir láti skírast?
12 Sumir láta ekki skírast af því að þeir eru tregir til að taka á sig þá ábyrgð sem því fylgir. Þeir vita að þeir verða að gera róttækar breytingar á lífi sínu ef þeir ætla að fylgja mælikvarða Jehóva. Þeir gætu líka verið hræddir um að eiga erfitt með að fylgja kröfum Guðs eftir skírnina. Sumir gætu jafnvel hugsað með sér: Kannski á ég eftir að gera eitthvað af mér og þá verður mér vikið úr söfnuðinum.
13. Hvað kom í veg fyrir að sumir gerðust fylgjendur Jesú á fyrstu öldinni?
13 Á dögum Jesú leyfðu sumir persónulegum metnaðarmálum og fjölskyldunni að koma í veg fyrir að þeir gerðust lærisveinar. Fræðimaður nokkur sagðist myndi fylgja Jesú hvert sem hann færi. En Jesús benti á að oft hefði hann sjálfur ekki einu sinni samastað fyrir nóttina. Þegar Jesús bauð öðrum áheyranda að gerast fylgjandi sinn sagðist maðurinn fyrst þurfa að „jarða“ föður sinn. Líklega vildi hann búa heima þar til faðir hans létist í stað þess að fylgja Jesú og sinna þessari fjölskylduábyrgð þegar þar að kæmi. Þriðji maðurinn, sem Jesús talaði við, sagðist þurfa að „kveðja“ heimafólk sitt áður en hann gæti fylgt honum. Jesús líkti því að slá hlutum svona á frest við það að horfa aftur fyrir sig. Það virðist því sem sumir geti alltaf fundið afsakanir til að koma sér undan þeirri ábyrgð sem kristnir menn þurfa að axla. — Lúkas 9:57-62.
14. (a) Hver voru viðbrögð Péturs, Andrésar, Jakobs og Jóhannesar þegar Jesús bauð þeim að veiða menn? (b) Af hverju ættum við ekki að hika við að taka á okkur ok Jesú?
14 Fordæmi Péturs, Andrésar, Jakobs og Jóhannesar er hins vegar allt annað. Þegar Jesús bauð þeim að fylgja sér og veiða menn segir Biblían: „Þegar í stað yfirgáfu þeir netin og fylgdu honum.“ (Matteus 4:19-22) Þar sem þeir tóku þessa ákvörðun tafarlaust fengu þeir að upplifa það sem Jesús sagði þeim síðar: „Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matteus 11:29, 30) Þó að ábyrgðin, sem fylgir skírninni, geti í vissum skilningi verið eins og ok fullvissar Jesús okkur um að þetta ok sé ljúft og létt, og muni veita okkur hvíld og endurnæringu.
15. Hvernig sýna dæmin um Móse og Jeremía að við getum treyst því að fá styrk frá Jehóva?
15 Það er eðlilegt að finnast maður ekki fyllilega hæfur. Bæði Móse og Jeremía töldu sig í fyrstu óhæfa um að sinna verkefninu sem Jehóva fól þeim. (2. Mósebók 3:11; Jeremía 1:6) En hvernig uppörvaði Guð þá? „Sannlega mun ég vera með þér,“ sagði hann við Móse. Og hann lofaði Jeremía: „Ég er með þér til þess að frelsa þig.“ (2. Mósebók 3:12; Jeremía 1:8) Við getum líka treyst því að fá styrk frá Jehóva. Kærleikur og traust til Guðs getur hjálpað okkur að yfirstíga þrálátar efasemdir um það hvort við getum staðið við vígsluheit okkar. „Ótti er ekki í elskunni,“ skrifaði Jóhannes postuli. „Fullkomin elska rekur út óttann.“ (1. Jóhannesarbréf 4:18) Lítill drengur er kannski hræddur þegar hann þarf að ganga einn og óstuddur en þegar hann heldur í hönd föður síns er hann öruggur. Ef við treystum Jehóva af öllu hjarta lofar hann sömuleiðis að ‚gera stigu okkar slétta‘ þegar við göngum honum við hlið. — Orðskviðirnir 3:5, 6.
Virðuleg athöfn
16. Af hverju þurfa skírnþegar að vera færðir alveg í kaf í vatn?
16 Á undan skírninni sjálfri er yfirleitt flutt biblíuleg ræða þar sem er fjallað um mikilvægi skírnarinnar. Við lok ræðunnar eru skírnþegar beðnir um að tjá trú sína opinberlega með því að svara tveimur spurningum. (Rómverjabréfið 10:10; sjá ramma á bls. 24.) Eftir það er skírnþegunum dýft í kaf í vatn að fyrirmynd Jesú. Í Biblíunni segir að Jesús hafi stigið „upp úr vatninu“ eftir skírnina. (Matteus 3:16; Markús 1:10) Jóhannes skírari hefur greinilega fært Jesú alveg í kaf í vatnið.b Alger niðurdýfing er viðeigandi tákn þeirra miklu breytinga sem við höfum gert á lífi okkar — í táknrænni merkingu deyjum við okkar fyrri lífsstefnu og hefjum nýtt líf í þjónustu Guðs.
17. Hvernig geta bæði skírnþegar og áhorfendur stuðlað að því að skírnin verði virðuleg athöfn?
17 Skírnin er alvarlegur atburður en jafnframt gleðilegur. Biblían gefur til kynna að Jesús hafi beðið til Guðs þegar Jóhannes færði hann í kaf í ánni Jórdan. (Lúkas 3:21, 22) Skírnþegar nú á dögum ættu að fylgja fyrirmynd hans og sýna viðeigandi háttvísi. Og þar sem Biblían hvetur okkur til að klæða okkur alltaf á sómasamlegan hátt ættum við að leggja okkur sérstaklega fram um að fylgja þessum leiðbeiningum á skírnardeginum. (1. Tímóteusarbréf 2:9) Áhorfendur geta einnig sýnt viðeigandi virðingu með því að hlusta vandlega á skírnarræðuna og gæta að framkomu sinni þegar þeir fylgjast með skírninni. — 1. Korintubréf 14:40.
Blessun sem skírðir lærisveinar hljóta
18, 19. Hvaða blessun og heiður hljótum við eftir skírnina?
18 Þegar við höfum vígt okkur Guði og látið skírast verðum við hluti af einstakri fjölskyldu. Í fyrsta lagi verður Jehóva faðir okkar og vinur. Við vorum fjarlæg Guði fyrir skírnina en nú er búið að sætta okkur við hann. (2. Korintubréf 5:19; Kólossubréfið 1:20) Vegna lausnarfórnar Krists getum við nálægst Guð og hann nálgast okkur. (Jakobsbréfið 4:8) Malakí spámaður lýsir því hvernig Jehóva gefur gætur að þeim sem nota og bera nafn hans og hlýðir á þá. Hann segir einnig að Jehóva riti nöfn þeirra í minnisbók sína. „Þeir skulu vera mín eign,“ segir Guð, „og ég mun vægja þeim, eins og maður vægir syni sínum, sem þjónar honum.“ — Malakí 3:16-18.
19 Eftir skírnina verðum við líka hluti af alþjóðlegu bræðralagi. Þegar Pétur postuli spurði hvaða blessun lærisveinar Krists myndu hljóta vegna þeirra fórna sem þeir hefðu þurft að færa, lofaði Jesús: „Hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá margfalt aftur og öðlast eilíft líf.“ (Matteus 19:29) Mörgum árum síðar skrifaði Pétur um „bræðrafélagið“ sem var þá til staðar „um allan heim“. Pétur hafði sjálfur notið stuðnings og blessana þessa ástríka bræðrafélags og við getum gert það líka. — 1. Pétursbréf 2:17; 5:9.
20. Hvaða yndislegu framtíðarvon hljóta þeir sem láta skírast?
20 Jesús sagði einnig að fylgjendur sínir myndu „öðlast eilíft líf“. Já, vígsla og skírn veita okkur möguleika á að höndla „hið sanna líf“ — eilíft líf í nýjum heimi Guðs. (1. Tímóteusarbréf 6:19) Við getum ekki lagt betri grunn að framtíð okkar og fjölskyldunnar. Þessi yndislega framtíðarvon gerir okkur kleift að ganga „í nafni Drottins, Guðs vors, æ og ævinlega“. — Míka 4:5.
[Neðanmáls]
a Þeir 3000 Gyðingar og trúskiptingar, sem hlustuðu á ræðu Péturs á hvítasunnunni, skírðust einnig þegar í stað. Eins og eþíópíski hirðmaðurinn þekktu þeir fyrir meginreglur Biblíunnar og grundvallarkenningar hennar. — Postulasagan 2:37-41.
b Gríska orðið baptisma (skírn) merkir „að dýfa, færa í kaf og koma upp aftur,“ segir í orðabókinni Vine’s Expository Dictionary of New Testament Words.
Geturðu útskýrt?
• Hvað ætti kærleikur Jehóva að fá okkur til að gera og hvers vegna?
• Hvaða framförum verðum við að hafa tekið í trúnni áður en við látum skírast?
• Af hverju ættum við ekki að vera svo hrædd við að gera mistök eða hikandi við að taka á okkur ábyrgð að það standi í vegi fyrir því að við látum skírast?
• Hvaða einstöku blessun geta skírðir lærisveinar Jesú Krists hlotið?
[Mynd á blaðsíðu 28]
„Hvað hamlar mér að skírast?“
[Myndir á blaðsíðu 31]
Skírnin er alvarlegur atburður en jafnframt gleðilegur.