Ertu „ríkur hjá Guði“?
„Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði.“ — LÚKAS 12:21.
1, 2. (a) Hvað hefur fengið marga til að færa miklar fórnir? (b) Hvað þurfa kristnir menn að gera en hvaða hætta fylgir því?
FJÁRSJÓÐSLEIT er ekki bara leikur sem börn hafa gaman af. Ótal margir hafa í aldanna rás leitað að fólgnum fjársjóðum víða um lönd. Gullæðið á 19. öld í Ástralíu, Suður-Afríku, Kanada og Bandaríkjunum er dæmi um það. Fólk var tilbúið til að yfirgefa heimili og ástvini og ferðast um langan veg til að freista gæfunnar á ókunnum slóðum og oft við erfið skilyrði. Já, margir eru fúsir til að taka mikla áhættu og færa gríðarlegar fórnir til að eignast auðæfin sem hjörtu þeirra girnast.
2 Þótt fæstir séu að leita að fólgnum fjársjóðum nú á dögum þurfa þeir að leggja mikið á sig til að sjá fyrir sér. Í heimi nútímans getur það verið erfitt, krefjandi og íþyngjandi. Það er auðvelt að verða svo upptekinn af fæði, klæði og húsnæði að það sem skiptir meira máli sitji á hakanum eða gleymist jafnvel. (Rómverjabréfið 14:17) Jesús sagði dæmisögu sem lýsir einmitt þessari tilhneigingu hjá mönnum. Hana er að finna í Lúkasi 12:16-21.
3. Endursegðu í stuttu máli dæmisögu Jesú í Lúkasi 12:16-21.
3 Jesús sagði þessa dæmisögu við sama tækifæri og hann talaði um nauðsyn þess að forðast ágirnd en ítarlega var rætt um það í greininni á undan. Eftir að hafa varað við ágirnd sagði Jesús dæmisögu um ríkan mann sem gerir sig ekki ánægðan með fullar hlöður sínar heldur rífur þær og byggir aðrar stærri til að safna enn meiru. Um leið og hann heldur að hann geti slakað á og notið lífsins segir Guð honum að líf hans sé á enda og að einhver annar fái öll þau auðæfi sem hann hefur safnað. Síðan segir Jesús: „Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði.“ (Lúkas 12:21) Hvaða lærdóm getum við dregið af þessari dæmisögu? Hvernig getum við nýtt okkur hana í okkar eigin lífi?
Maður í vanda staddur
4. Hvers konar manni má ætla að verið sé að lýsa í dæmisögu Jesú?
4 Við þekkjum vel þessa dæmisögu Jesú. Tökum eftir að hún byrjar einfaldlega svona: „Maður nokkur ríkur átti land, er hafði borið mikinn ávöxt.“ Jesús sagði ekki að maðurinn hefði orðið ríkur á ólöglegan hátt eða með undirferli. Með öðrum orðum var honum ekki lýst sem slæmum manni. Það má jafnvel álykta af orðum Jesú að hann hafi verið dugnaðarmaður. Að minnsta kosti má ætla að þetta hafi verið forsjáll maður sem lagði fyrir, ef til vill með velferð fjölskyldunnar í huga. Frá veraldlegu sjónarhorni má því segja að hann lýsi duglegum manni sem rækir skyldur sínar vel.
5. Í hvaða vanda var maðurinn í dæmisögunni staddur?
5 Jesús sagði að maðurinn í dæmisögunni væri ríkur, það er að segja að hann ætti miklar eignir nú þegar. En eins og Jesús lýsir stöðunni var maðurinn í vanda staddur. Landið hans gaf miklu meira af sér en hann hafði vænst, langt umfram það sem hann þarfnaðist eða var fær um að annast. Hvað hefði hann átt að gera?
6. Hvað stendur mörgum þjónum Guðs til boða nú á dögum?
6 Margir þjónar Jehóva standa í svipuðum sporum og ríki maðurinn. Sannkristnir menn leggja sig fram um að vera heiðarlegir, iðjusamir og samviskusamir. (Kólossubréfið 3:22, 23) Hvort sem þeir eru launþegar eða starfa við eigin rekstur gengur þeim yfirleitt vel í starfi og skara jafnvel fram úr. Þegar þeim býðst stöðuhækkun eða ný tækifæri þurfa þeir að taka ákvörðun. Ættu þeir að þiggja stöðuhækkunina eða auka umsvifin? Margir ungir vottar standa sig með prýði í skóla. Þar af leiðandi fá þeir ef til vill verðlaun eða þeim eru boðnir styrkir til að stunda framhaldsnám við virtar menntastofnanir. Ættu þeir að gera eins og flestir myndu gera og þiggja boðið?
7. Hvernig brást maðurinn í dæmisögu Jesú við vanda sínum?
7 Snúum okkur nú aftur að dæmisögu Jesú. Hvað gerði ríki maðurinn þegar landið gaf svo mikið af sér að hann hafði ekki rúm fyrir afurðirnar? Hann ákvað að rífa hlöðurnar sem hann átti og byggja aðrar stærri til að geyma allt kornið og auðæfin. Þessi áform veittu honum slíka öryggiskennd og ánægju að hann hugsaði með sér: „Ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.‘“ — Lúkas 12:19.
Af hverju er hann kallaður „heimskingi“?
8. Hvaða mikilvægu atriði gleymdi maðurinn í dæmisögu Jesú?
8 En eins og Jesús benti á veittu áform ríka mannsins honum aðeins falska öryggiskennd. Þótt áformin hafi virst skynsamleg gleymdi maðurinn einu mikilvægu atriði — vilja Guðs. Hann hugsaði eingöngu um sjálfan sig, hvernig hann gæti átt náðuga daga, borðað, drukkið og verið glaður. Hann ímyndaði sér að fyrst hann ætti „mikinn auð“ myndi hann líka eiga ‚mörg ár‘ ólifuð. En því miður fyrir hann fór það á annan veg. Rétt eins og Jesús hafði áður sagt þiggur enginn „líf af eigum sínum, þótt auðugur sé“. (Lúkas 12:15) Þessa sömu nótt glataði maðurinn öllu því sem hann hafði unnið fyrir vegna þess að Guð sagði við hann: „Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað?“ — Lúkas 12:20.
9. Af hverju var maðurinn í dæmisögunni kallaður heimskingi?
9 Hér komum við að kjarnanum í dæmisögu Jesú. Guð kallaði manninn heimskingja. Í orðabókinni Exegetical Dictionary of the New Testament kemur fram að mynd gríska orðsins, sem hér er notað, „feli alltaf í sér skilningsleysi“. Hún bendir á að í þessari dæmisögu sé Guð látinn nota orðið til að afhjúpa „hve tilgangslaus framtíðaráform hinna ríku séu“. Orðið vísar ekki til manns sem skortir gáfur heldur til „manns sem vill ekki viðurkenna að hann sé háður Guði“. Lýsing Jesú á ríka manninum minnir á það sem hann sagði seinna við kristna menn í söfnuðinum í Laódíkeu í Litlu-Asíu á fyrstu öld: „Þú segir: ‚Ég er ríkur og orðinn auðugur og þarfnast einskis.‘ Og þú veist ekki, að þú ert vesalingur og aumingi og fátækur og blindur og nakinn.“ — Opinberunarbókin 3:17.
10. Af hverju er ‚mikill auður‘ engin trygging fyrir því að eiga ‚mörg ár‘?
10 Við ættum að draga lærdóm af þessu. Er hugsanlegt að við séum eins og maðurinn í dæmisögunni? Leggjum við hart að okkur til að eignast „mikinn auð“ en gerum ekki það sem þarf til að eiga von um ‚mörg ár‘? (Jóhannes 3:16; 17:3) Í Biblíunni segir: „Auðæfi stoða ekki á degi reiðinnar“ og „sá sem treystir á auð sinn, hann fellur.“ (Orðskviðirnir 11:4, 28) Jesús lauk því dæmisögunni með eftirfarandi viðvörun: „Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði.“ — Lúkas 12:21.
11. Hvers vegna er það til einskis að setja vonir sínar og traust á efnislegar eigur?
11 Þegar Jesús sagði „svo fer þeim“ var hann að benda á að örlög ríka mannsins í dæmisögunni verði líka örlög þeirra sem byggja líf sitt — vonir sínar og traust — eingöngu á efnislegum eigum. Mistökin eru ekki endilega fólgin í því að ‚safna sér fé‘ heldur hinu að vera ekki „ríkur hjá Guði“. Lærisveinninn Jakob kom með svipaða viðvörun þegar hann skrifaði: „Heyrið, þér sem segið: ‚Í dag eða á morgun skulum vér fara til þeirrar eða þeirrar borgar, dveljast þar eitt ár og versla þar og græða!‘ — Þér vitið ekki hvernig líf yðar mun verða á morgun.“ Hvað ættu þeir að gera? „Í stað þess ættuð þér að segja: ‚Ef Drottinn vill, þá bæði lifum vér og þá munum vér gjöra þetta eða annað.‘“ (Jakobsbréfið 4:13-15) Það skiptir ekki máli hve ríkir menn eru eða hve mikið þeir eiga, það er allt til einskis ef þeir eru ekki ríkir hjá Guði. En hvað þýðir það að vera ríkur hjá Guði?
Að vera ríkur hjá Guði
12. Hvað gerir okkur rík hjá Guði?
12 Jesús talar um það sem andstæður að vera ríkur hjá Guði og að safna sér fé. Líf okkar ætti með öðrum orðum ekki að snúast um það að safna efnislegum auði eða að njóta þess sem við eigum. Við ættum miklu frekar að nota eigur okkar til að auðga eða byggja upp sambandið við Jehóva. Þá verðum við rík hjá Guði. Hvers vegna? Vegna þess að þá hljótum við margvíslega blessun frá honum. Í Orðskviðunum 10:22 segir: „Blessun Drottins, hún auðgar, og erfiði mannsins bætir engu við hana.“
13. Hvernig auðgar blessun Jehóva þjóna hans?
13 Þegar Jehóva blessar fólk sitt gefur hann því alltaf það besta. (Jakobsbréfið 1:17) Hann gaf til dæmis Ísraelsmönnum land sem ‚flaut í mjólk og hunangi‘. Þótt Egyptalandi hafi verið lýst með sömu orðum var landið sem Jehóva gaf þeim öðruvísi að minnsta kosti að einu mikilvægu leyti. Það var „land, sem Drottinn Guð þinn annast,“ eins og Móse sagði. Með öðrum orðum myndi þeim vegna vel af því að Jehóva sæi um þá. Hann blessaði þá ríkulega meðan þeir voru trúfastir honum. Líf þeirra og líferni var augljóslega betra en þjóðanna í kring. Já, það er blessun Jehóva sem auðgar. — 4. Mósebók 16:13; 5. Mósebók 4:5-8; 11:8-15.
14. Hvers njóta þeir sem eru ríkir hjá Guði?
14 Orð Jesú, „ríkur hjá Guði“, hafa einnig verið þýdd „ríkur í augum Guðs“. (Today’s English Version) Þeir sem eru efnaðir hugsa yfirleitt töluvert um það hvernig þeir líta út í augum annarra. Þetta kemur oft fram í líferni þeirra. Þeir vilja vekja hrifningu annarra með „auðæfa-oflæti“ sínu eins og Biblían kallar það. (1. Jóhannesarbréf 2:16) Þeir sem eru ríkir hjá Guði njóta aftur á móti ríkulegrar velþóknunar hans, hylli og óverðskuldaðrar gæsku og eiga náið samband við hann. Þetta veitir þeim miklu meiri vellíðan og öryggiskennd en nokkur efnislegur auður getur gert. (Jesaja 40:11) En eftir stendur spurningin: Hvað verðum við að gera til að vera rík í augum Guðs?
Rík í augum Guðs
15. Hvað verðum við að gera til að vera rík hjá Guði?
15 Í dæmisögu Jesú gerði maðurinn áætlanir og lagði hart að sér til þess eins að verða ríkari, og hann var kallaður heimskingi. Til að vera rík hjá Guði verðum við því að leggja hart að okkur og taka sem mestan þátt í verkefnum sem hafa raunverulegt gildi í augum Guðs. Þeirra á meðal er verkefnið sem Jesús sagði lærisveinunum að vinna að: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum.“ (Matteus 28:19) Það má líkja því við fjárfestingu að nota tíma sinn, krafta og gáfur til að boða Guðsríki og gera menn að lærisveinum í stað þess að hugsa aðeins um eigin hag. Þeir sem hafa gert það hafa uppskorið mikla andlega blessun eins og eftirfarandi dæmi sýna. — Orðskviðirnir 19:17.
16, 17. Hvers konar lífsstefna getur gert mann ríkan í augum Guðs? Lýstu með dæmi.
16 Lítum á reynslu kristins manns í Austurlöndum fjær. Hann var í vel launuðu starfi í tölvuiðnaðinum. En vinnan tók nánast allan hans tíma og hann fann hvernig hann veiktist í trúnni. Í stað þess að reyna að ná lengra í starfi ákvað hann að lokum að segja upp vinnunni. Hann fór að búa til ís og selja hann úti á götu til að hafa meiri tíma aflögu til að sinna andlegum þörfum sínum og skyldum. Fyrrverandi vinnufélagar gerðu grín að honum. En hvernig vegnaði honum? „Raunin var sú að fjárhagurinn varð betri en þegar ég vann við tölvur,“ segir hann. „Ég er ánægðari vegna þess að ég er laus við álagið og áhyggjurnar sem fylgdu fyrra starfi. Síðast en ekki síst finn ég að sambandið við Jehóva er nánara.“ Þessi breyting gerði bróðurnum fært að gerast boðberi í fullu starfi og hann þjónar núna á deildarskrifstofu Votta Jehóva í landi sínu. Það má með sanni segja að blessun Jehóva auðgar.
17 Tökum annað dæmi. Kona nokkur ólst upp í fjölskyldu þar sem mikil áhersla var lögð á menntun. Hún stundaði háskólanám í Frakklandi, Mexíkó og Sviss og sá fram á glæstan starfsframa. „Velgengnin blasti við mér, ég naut virðingar og mér buðust einstök tækifæri,“ segir hún. „En ég fann ekki til lífsfyllingar heldur var ég gagntekin tómleikatilfinningu.“ Síðan kynntist hún Jehóva Guði. Hún segir: „Þegar ég tók framförum í trúnni fór mig að langa til að endurgjalda hluta af því sem Jehóva hafði gefið mér. Það hjálpaði mér að sjá skýrt hvaða stefnu ég átti að taka — að þjóna honum í fullu starfi.“ Hún sagði upp stöðu sinni og lét skírast skömmu síðar. Síðastliðin 20 ár hefur hún þjónað Jehóva í fullu starfi. „Sumum finnst ég hafa kastað hæfileikum mínum á glæ,“ segir hún, „en þeir sjá að ég er ánægð og þeir dást að þeim lífsreglum sem ég lifi eftir. Ég bið Jehóva á hverjum degi að hjálpa mér að vera auðmjúk til að hafa velþóknun hans.“
18. Hvernig getum við verið rík hjá Guð líkt og Páll?
18 Sál, sem varð seinna Páll postuli, átti mikinn frama í vændum. Síðar skrifaði hann þó: „Ég [met] allt vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú, Drottin minn.“ (Filippíbréfið 3:7, 8) Sá auður, sem Páll eignaðist fyrir atbeina Krists, var langtum meiri en nokkuð sem heimurinn gat boðið upp á. Ef við látum af allri framagirni og ástundum guðrækni getum við líka verið rík í augum Guðs. Orð hans fullvissar okkur: „Laun auðmýktar, ótta Drottins, eru auður, heiður og líf.“ — Orðskviðirnir 22:4.
Geturðu svarað?
• Í hvaða vanda var maðurinn í dæmisögu Jesú?
• Af hverju var ríki maðurinn í dæmisögunni kallaður heimskingi?
• Hvað merkir það að vera ríkur hjá Guði?
• Hvernig getum við orðið rík hjá Guði?
[Mynd á blaðsíðu 28]
Af hverju var ríki maðurinn kallaður heimskingi?
[Mynd á blaðsíðu 29]
Hvernig geta tækifæri í atvinnulífinu verið prófraun fyrir okkur?
[Mynd á blaðsíðu 30, 31]
„Blessun Drottins, hún auðgar.“