Sjónarmið Biblíunnar
Hverjir fara til himna?
SPRENGJA hryðjuverkamanns tætir sundur flugvél á flugi og allir farast. Ættingjum og vinum hinna látnu er sagt að ástvinir þeirra séu á himnum, eins og það eigi að bæta þeim upp ótímabæran og voveiflegan dauða.
Vinsæll tónlistarmaður deyr og er sagður ‚leika á lúðra með englunum á himnum.‘
Ungbörn deyja úr sjúkdómum, hungri eða af slysförum og prestar segja þau vera í himneskri alsælu, kannski jafnvel sem englar!
Er Guð að bæta fyrir ranglæti, sem ungir og aldnir verða fyrir, með því að taka þá til himna? Er aðgangur að himnum einfaldlega aðferð Guðs til að varðveita allt sem er gott og lofsvert meðal manna? Hvert er sjónarmið Biblíunnar?
Þeir sem ekki eru á himnum
Biblían segir ótvírætt: „Vitið þér ekki, að ranglátir munu ekki Guðs ríki erfa?“ (1. Korintubréf 6:9) En Biblían talar líka um marga réttláta menn og fórnarlömb ranglætis sem ekki erfa Guðsríki.
Jesús sagði sjálfur um Jóhannes skírara sem dó píslarvættisdauða skömmu síðar: „Sannlega segi ég yður: Enginn er sá af konu fæddur, sem meiri sé en Jóhannes skírari. En hinn minnsti í himnaríki er honum meiri.“ (Matteus 11:11) Hinn illi Heródes konungur myrti alla drengi, tveggja ára og yngri, í Betlehem og nágrenni er hann freistaði þess að drepa Jesú sem barn. (Matteus 2:16) En Jesús sagði: „Enginn [hvorki karl, kona né barn] hefur stigið upp til himins, nema sá er steig niður frá himni, Mannssonurinn [Jesús].“ (Jóhannes 3:13) Af hverju sagði Jesús ekki að þessi fórnarlömb ranglætisins væru á himnum?
Jesús opnaði leiðina
Jesús kallaði sjálfan sig ‚veginn, sannleikann og lífið‘ og Páll postuli talaði um hann sem ‚frumgróða þeirra sem sofnaðir eru.‘ (Jóhannes 14:6; 1. Korintubréf 15:20) Enginn hefur því getað farið á undan honum til himna. En þegar Jesús steig upp til himna um 40 dögum eftir upprisu sína, fylgdu þá verðugir trúmenn, sem látnir voru, á hæla honum? Um tíu dögum síðar sagði Pétur postuli um Davíð konung: „Hann dó og var grafinn, og leiði hans er til hér allt til þessa dags. . . . Ekki steig Davíð upp til himna.“ — Postulasagan 2:29, 34.
Aðgangur að himnum er því meira en uppbót fyrir ranglæti eða jafnvel umbun fyrir trúfesti. Slíkur aðgangur er grundvöllurinn að stofnun himneskrar stjórnar. Undir forystu Krists eru stjórnendurnir valdir úr hópi manna og smurðir heilögum anda. — Rómverjabréfið 8:15-17; Opinberunarbókin 14:1-3.
Himneskt ríki
Jesús talaði um þessa stjórn sem „himnaríki“ eða „Guðs ríki.“ (Matteus 5:3, 20; Lúkas 7:28) Það var ekki ætlunin að meirihluti mannkyns ætti sæti í þessari stjórn. Þess vegna talaði Jesús um hana sem „litla hjörð.“ (Lúkas 12:32) Á frummálinu, sem þessi hluti Biblíunnar var skrifaður á, er orðið ‚lítill‘ (mikrosʹ) andheiti orðsins mikill (meʹgas), og notkun þess í Lúkasi 12:32 vísar til lágrar tölu. Aðild að „himnaríki“ er því ekki opin ótakmörkuðum fjölda. Lýsum þessu með dæmi: Ef þú værir beðinn að hella dálitlu vatni í glas myndirðu gæta þess að yfirfylla það ekki. Á sama hátt getur ‚litla hjörðin‘ ekki verið óteljandi manns. Ríki Guðs hefur ákveðinn (‚lítinn‘) fjölda meðstjórnenda með Kristi.
Jóhannesi postula var opinberuð nákvæm tala þessara stjórnenda, 144.000. (Opinberunarbókin 14:1, 4) Fyrr í Opinberunarbókinni er sagt að þessi sami hópur sé tekinn ‚af sérhverri kynkvísl, tungu, lýð og þjóð til að vera konungsríki og prestar Guðs,‘ og hann er sagður ríkja með konungsvaldi af himnum ofan yfir jörðinni. (Opinberunarbókin 5:9, 10) Ásamt Jesú Kristi er þessi stjórn ríkið sem hann kenndi fylgjendum sínum að biðja um. Hún er líka verkfærið sem notað verður til að binda enda á óstjórnina hér á jörð og koma á réttlæti og friði á heimili mannsins, jörðinni. Jafnframt því mun það veita jarðarbúum eilífan lífsþrótt. — Sálmur 37:29; Matteus 6:9, 10.
Útvalin stjórnarheild
Þar eða mannastjórnirnar, sem Guðsríki víkur úr vegi, eru svo undirlagðar spillingu, hljótum við að gera okkur grein fyrir að Guð þarf að vanda mjög val þeirra sem hann veitir sæti í henni og prófa þá. Það má líkja núverandi stöðu mannkynsins við farþega í laskaðri þotu í vondu veðri. Myndirðu vilja hafa ungt og reynslulítið fólk í áhöfninni við slíkar aðstæður? Varla. Við þessar aðstæður þyrfti áhöfnin að vera vandlega valin samkvæmt ströngustu kröfum.
Það er léttir fyrir okkur að vita að í sambandi við meðstjórnendur Krists Jesú á himnum „hefur Guð sett hvern einstakan lim á líkamann eins og honum þóknaðist.“ (1. Korintubréf 12:18) Persónulegur metnaður eða löngun í stöðu í Guðsríki ræður ekki úrslitum. (Matteus 20:20-23) Guð hefur sett sérstaka staðla um trú og hegðun til að útiloka þá sem ekki eru verðugir. (Jóhannes 6:44; Efesusbréfið 5:5) Upphafsorð Jesú í fjallræðunni sýna að meðstjórnendur Krists verða að vera andlega sinnaðir, hógværir, réttlætisunnendur, miskunnsamir, hjartahreinir og friðsamir. — Matteus 5:3-9; sjá einnig Opinberunarbókina 2:10.
Sem betur fer er meirihluti mannkyns ekki eftir skilinn án vonar þó að hann sé ekki útvalinn til að ríkja á himnum sem fulltrúi mannkyns. Þorri manna mun búa á þessari fallegu jörð og njóta þeirrar blessunar að hafa stjórn Guðs yfir sér. Löngu látin fórnarlömb ranglætis fortíðarinnar verða vakin upp frá dauðum til að búa með þeim sem lifa af til að sjá Guðsríki ‚koma‘ í sínum fyllsta skilningi. Eftirfarandi loforð verður haldið: „Hinir hreinskilnu munu byggja landið, og hinir grandvöru verða eftir í því.“ — Matteus 6:9, 10; Orðskviðirnir 2:21; Postulasagan 24:15.