Vertu viðbúinn — stórkostleg framtíð er í nánd
‚VERIÐ viðbúnir,‘ hvatti Jesús. (Lúkas 12:40) Ef við erum það þegar Kristur kemur „með mætti og mikilli dýrð,“ þá getum við fylgt fyrirmælum hans með gleði: „Réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd.“ — Lúkas 21:27, 28.
Hvers konar lausn? Sams konar og Nói og fjölskylda hans hlutu — já, við getum bjargast þegar þessi heimur líður undir lok! „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans,“ skrifaði Jóhannes postuli, „en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:17.
Í nýjum heimi Jehóva munu jarðneskir þegnar konungsins, Jesú Krists, lifa að eilífu. „Hinir réttlátu fá landið til eignar,“ segir Biblían, „og búa í því um aldur.“ (Sálmur 37:29) Það er stórkostleg framtíð sem Guð heitir fólki sínu. „Guð sjálfur mun vera hjá þeim,“ segir orð hans. „Hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ Þetta er sannur spádómur. — Opinberunarbókin 21:3, 4.
Til að eiga slíka framtíð fyrir þér verður þú að láta hendur standa fram úr ermum. Hið fyrsta er að afla sér þekkingar. Biblían segir: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ — Jóhannes 17:3.
Þú þarft líka að koma reglulega saman með öðrum sem eru að leita þessarar þekkingar, eins og postulinn hvatti til: „Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.“ (Hebreabréfið 10:24, 25) Fólk Jehóva sér frelsunardaginn vissulega nálgast, þegar það mun ganga inn í nýjan heim Guðs, og það er þekkt fyrir að sækja safnaðarsamkomur sínar og mót.
Lundúnablaðið Sunday Telegraph segir um eitt slíkt mót er haldið var á stórum leikvangi: „Hér er ekki sá drungi sem yfirleitt einkennir þá er boða að ‚endirinn sé í nánd.‘ Endirinn er kannski í nánd. En allir virðast njóta lífsins á heilnæman hátt, í réttlæti, guðsótta og gleði.“ Síðan sagði blaðið: „Ef núverandi heimsskipan er virkilega að leggja upp laupana virðast vottarnir í Twickenham vel í stakk búnir til að skipuleggja hina nýju.“
Að vera viðbúinn merkir að vera önnum kafinn, að vinna sams konar verk og Nói er þjónaði sem ‚prédikari réttlætisins‘ dagana fyrir flóðið. (2. Pétursbréf 2:5) Að vera viðbúinn merkir líka að „ganga fram í heilagri breytni og guðrækni.“ Þú ert eindregið hvattur til að að slást í lið með fólki Jehóva í því að ‚vænta eftir komu Guðs dags‘ og hafa hann öllum stundum ofarlega í huga. — 2. Pétursbréf 3:11, 12.