Tvær mestu tjáningar kærleikans
„Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir . . . hafi eilíft líf.“ — JÓHANNES 3:16.
1. Hvað er átt við með orðunum „Guð er kærleikur“?
„GUÐ er kærleikur,“ sagði Jóhannes postuli tvívegis. (1. Jóhannesarbréf 4:8, 16) Já, Jehóva Guð er kærleiksríkur í sama mæli og hann er vitur, réttvís og voldugur. Auk þess ER hann kærleikur, sjálf ímynd eða persónugervingur kærleikans. Þú gætir spurt þig: ‚Veit ég hvers vegna þetta er sannleikur? Gæti ég gefið öðrum manni greinargóða skýringu, studda með sönnunargögnum, um að hann sé kærleikur? Og hvernig snertir þetta líf mitt og athafnir?‘
2. Með hvaða hætti birtist kærleikur Guðs meðal annars?
2 Jehóva Guð hefur sýnt okkur mönnunum stórkostlegan kærleika! Leiddu hugann að fegurð og getu augna okkar, hinum sterku beinum í líkama okkar, styrkleika vöðvanna og næmleika snertiskynjunarinnar. Við höfum ærna ástæðu til að enduróma orð sálmaritarans: „Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður.“ Og hvað um tignarleg fjöllin, hjalandi lækina, villiblómin og litadýrð sólsetursins? „Hversu mörg eru verk þín, [Jehóva], þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.“ — Sálmur 139:14; 104:24.
3, 4. Hvaða dæmi um kærleika Guðs er að finna í Hebresku ritningunum?
3 Guð hætti ekki að sýna kærleika sinn þegar fyrstu mennirnir gerðu uppreisn gegn honum. Til dæmis sýndi Jehóva kærleika með því að leyfa þessum hjónum að eignast börn sem áttu þess kost að færa sér í nyt það sem hann myndi gera með ‚sæði‘ fyrirheitisins. (1. Mósebók 3:15) Síðar lét hann Nóa smíða örk til bjargar mannkyninu og öðrum sköpunarverum jarðar. (1. Mósebók 6:13-21) Þá sýndi hann Abraham mikinn kærleika, en hann var nefndur vinur Jehóva. (1. Mósebók 18:19; Jesaja 41:8) Enn birtist kærleikur Guðs þegar hann frelsaði afkomendur Abrahams úr ánauð í Egyptalandi, eins og við lesum í 5. Mósebók 7:8: „Sökum þess að [Jehóva] elskar yður . . . þá leiddi hann yður burt með sterkri hendi.“
4 Þótt Ísraelsmenn hafi sýnt mikið vanþakklæti og síendurtekinn uppreisnarhug sneri Guð ekki baki við þeim þegar í stað. Þess í stað bað hann þá innilega: „Snúið yður, snúið yður frá yðar vondu breytni! Hví viljið þér deyja, Ísraelsmenn?“ (Esekíel 33:11) En þótt Jehóva sé persónugervingur kærleikans er hann líka réttvís og vitur. Því kom að því að uppreisnargjörn þjóð hans gekk svo langt að þolinmæði hans þraut! Þeir gengu svo langt að „eigi mátti við gjöra“ svo að hann lét hneppa þá í fjötra í Babýlon. (2. Kroníkubók 36:15, 16) Jafnvel þá var kærleikur Guðs ekki endanlega horfinn frá þeim. Hann sá til þess að 70 árum síðar fengju leifar þjóðarinnar að snúa heim aftur. Lestu Sálm 126; hann sýnir hvernig þeim sem heim fóru var innanbrjósts.
Jehóva undirbýr mestu tjáningu kærleika síns
5. Hvers vegna má segja að Guð hafi tjáð kærleika sinn með því að senda son sinn til jarðar?
5 Síðar kom að því að Jehóva lét kærleika sinn birtast með stórkostlegri hætti en nokkru sinni fyrr. Til undirbúnings því flutti Guð líf eingetins sonar síns frá andlegu tilverusviði á himnum í móðurkvið gyðingameyjarinnar Maríu. (Matteus 1:20-23; Lúkas 1:26-35) Reyndu að gera þér í hugarlund hve náið samband hefur verið milli Jehóva og sonar hans. Við lesum um fortilveru Jesú þar sem hann gengur fram í persónugervi viskunnar: „Þá stóð ég honum [Guði] við hlið sem verkstýra, og ég var yndi hans dag hvern, leikandi mér fyrir augliti hans alla tíma.“ (Orðskviðirnir 8:30, 31) Ert þú ekki sammála því að það hljóti að hafa verið fórn fyrir Jehóva að láta eingetinn son sinn hverfa úr návist sinni?
6. Hvaða föðurlegan áhuga hlýtur Jehóva að hafa sýnt Jesú fyrstu æviár hans á jörðinni?
6 Vafalaust fylgdist Jehóva af miklum áhuga með vexti sonar síns frá því að hann var getinn. Heilagur andi Guðs var sem verndarhjúpur um Maríu svo að ekkert gæti skaðað fóstrið. Jehóva sá til þess að Jósef og María fóru til Betlehem vegna manntalsins, svo að Jesús gæti fæðst þar til uppfyllingar Míka 5:2. Hann sendi engil til að vara Jósef við morðför Heródesar konungs, svo að Jósef og fjölskylda hans flúði til Egyptalands og bjó þar þangað til Heródes dó. (Matteus 2:13-15) Guð hlýtur að hafa fylgst af athygli með vexti og þroska Jesú. Það hefur verið honum mikil ánægja að sjá Jesú tólf ára gera kennarana og aðra í musterinu forviða með spurningum sínum og svörum! — Lúkas 2:42-47.
7. Hvaða þrjár yfirlýsingar báru vitni um áhuga Guðs á þjónustu Jesú?
7 Átján árum síðar fylgdist Jehóva með þegar Jesús kom til Jóhannesar skírara til að láta skírast. Með gleði lét hann heilagan anda sinn koma yfir Jesú og sagði: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.“ (Matteus 3:17) Sérhver kristinn faðir getur ímyndað sér hve ánægjulegt það hefur verið fyrir Guð að fylgjast með þjónustu Jesú og sjá hvernig hann lofaði himneskan föður sinn í öllum greinum. Einu sinni fór Jesús með nokkra af postulunum upp á hátt fjall. Þar lét Jehóva Krist skína með yfirnáttúrlegum ljóma og sagði: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ (Matteus 17:5) Jehóva lét rödd sína heyrast þriðja sinni þegar hann svaraði beiðni Jesú um að Guð gerði nafn sitt dýrlegt. Jehóva sagði: „Ég hef gjört það dýrlegt og mun enn gjöra það dýrlegt.“ Greinilega var þessum orðum beint fyrst og fremst til Jesú, því að sumir, sem með honum voru, héldu að engill hefði talað en aðrir héldu sig hafa heyrt þrumu. — Jóhannes 12:28, 29.
8. Hvað finnst þér um kærleika Guðs?
8 Hvaða ályktun má draga af þessu stutta yfirliti yfir það sem Guð gerði fyrir son sinn og af áhuganum sem hann sýndi honum? Augljóst er að Jehóva elskar eingetinn son sinn innilega. Með það í huga, svo og þær tilfinningar sem nánast allir foreldrar bera til einkabarns, skulum við athuga það sem gerðist þessu næst — fórnardauða Jesú.
Mesta tjáning kærleikans
9, 10. Hvernig birtist kærleikur Guðs til mannkynsins með stórkostlegustum hætti, og hvaða orð Biblíunnar aukast að vægi við það?
9 Biblían sýnir að okkar himneski faðir finnur til með öðrum. Við lesum í Jesaja 63:9 um þjóð hans, Ísrael: „Ávallt þegar þeir voru í nauðum staddir, kenndi hann nauða, og engill auglitis hans frelsaði þá. Af elsku sinni og vægðarsemi endurleysti hann þá, hann tók þá upp og bar þá alla daga hinna fyrri tíða.“ Það hlýtur að hafa verið Jehóva enn meiri kvöl að heyra og sjá ‚sára kveinstafi og táraföll‘ Jesú. (Hebreabréfið 5:7) Þannig bað Jesús í Getsemanegarðinum. Skömmu síðar var hann handtekinn, leiddur fyrir rétt sem var skrípaleikur einn, barinn og húðstrýktur, og þyrnikórónu þrýst á höfuð honum. Hafðu í huga að ástríkur faðir hans horfði á allt þetta. Hann sá Jesú hníga undir kvalastaurnum og horfði á son sinn festan á staurinn til aftöku. Gleymum ekki að Guð hefði getað komið í veg fyrir að ástkær sonur hans gengi í gegnum þessar þjáningar. Samt leyfði hann það. Þar eð Guð hefur næmar tilfinningar hlýtur það að sjá allt þetta gerast að hafa valdið honum meiri kvöl en nokkuð annað fyrr eða síðar.
10 Með allt þetta í huga skiljum við hve djúp merking liggur í orðum Jesú við Níkódemus: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Orð Jóhannesar, hins ástkæra postula Jesú, gefa svipað til kynna: „Í því birtist kærleikur Guðs meðal vor, að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn . . . til að vera friðþæging fyrir syndir vorar.“ — 1. Jóhannesarbréf 4:9, 10.
11. Hvað sagði Páll postuli um mestu tjáningu kærleika Guðs?
11 Þér má því ljóst vera hvers vegna Páll postuli lagði svo þunga áherslu á kærleika Jehóva Guðs, í Rómverjabréfinu 5:6-8: „Meðan vér enn vorum óstyrkir, dó Kristur á settum tíma fyrir óguðlega. Annars gengur varla nokkur í dauðann fyrir réttlátan mann, — fyrir góðan mann kynni ef til vill einhver að vilja deyja. — En Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum.“ Sannarlega lét Jehóva Guð kærleika sinn birtast með mikilfenglegri hætti en nokkru sinni fyrr, í því að láta eingetinn son sinn koma til jarðar, þjást og deyja smánarlegasta dauðdaga sem hugsast gat.
Næstmesta tjáning kærleikans
12, 13. (a) Á hvaða hátt var kærleikur Jesú einstakur? (b) Hvernig vekur Páll athygli á hinum mikla kærleika Jesú?
12 Í hverju fólst þá næstmesta tjáning kærleikans? Jesús Kristur sagði: „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“ (Jóhannes 15:13) Að vísu hafa verið til menn út í gegnum mannkynssöguna sem hafa fórnað lífi sínu fyrir aðra. Líf þeirra var þó takmarkað að verðmæti, því að fyrr eða síðar hefðu þeir hvort sem er dáið. Jesús Kristur var hins vegar fullkominn maður og hafði rétt til að lifa. Hann átti ekki fyrir sér, eins og allir aðrir menn, að deyja erfðadauðanum, og enginn hefði getað tekið líf hans með valdi án þess að hann hefði leyft það. (Hebreabréfið 7:26) Mundu eftir orðum hans: „Hyggur þú, að ég geti ekki beðið föður minn að senda mér nú meira en tólf sveitir engla?“ — Matteus 26:53; Jóhannes 10:17, 18.
13 Við getum skilið betur þann kærleika, sem Jesús sýndi, með því að hugleiða eftirfarandi: Hann yfirgaf háa stöðu sem andavera á himnum þar sem hann hafði lifað og starfað í nánu félagi við drottinvald alheimsins og konung eilífðarinnar. Samt sem áður gerði Jesús af óeigingjörnum kærleika eins og Páll postuli segir okkur: „Þótt hann væri í Guðs mynd, hugsaði [hann] ekki um rán, það er að verða jafn Guði. Nei, hann tæmdi sjálfan sig og tók á sig þræls mynd og varð mönnum líkur. Auk þess, þegar hann var í mannsmynd, lítillækkaði hann sig og varð hlýðinn allt fram í dauða, já dauða á kvalastaur.“ — Filippíbréfið 2:6-8, NW.
14. Hvernig bar Jesaja spámaður vitni um hinn mikla kærleika Jesú?
14 Bar þetta ekki vott um kærleika? Jú, svo sannarlega. Aðeins Jehóva Guð, himneskur faðir hans, sýndi meiri kærleika en þetta. Spádómsorð hans í Jesaja 53. kafla bera vitni um allt sem Jesús þoldi: „Hann var fyrirlitinn, og menn forðuðust hann, harmkvælamaður og kunnugur þjáningum . . . en vorar þjáningar voru það, sem hann bar, og vor harmkvæli, er hann á sig lagði. Vér álitum hann refsaðan, sleginn af Guði og lítillættan, en hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða. . . . Fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir. . . . Hann gaf líf sitt í dauðann.“ — Jesaja 53:3-5, 12.
15, 16. Hvaða orð Jesú sýna að það var fórn fyrir hann að gefa líf sitt?
15 Vegna alls þess sem valt á dauða Jesú bað hann í Getsemanegarðinum: „Faðir minn, ef verða má, þá fari þessi kaleikur fram hjá mér. Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt.“ (Matteus 26:39) Hvað var Jesús að biðja um með þessum orðum? Vildi hann komast hjá því að vera „Guðs lamb, sem ber synd heimsins“? (Jóhannes 1:29) Nei, það getur ekki verið, því að Jesús hafði margsinnis sagt lærisveinum sínum að hann myndi þjást og deyja. Meira að segja hafði hann gefið í skyn með hvaða hætti hann myndi deyja. (Matteus 16:21; Jóhannes 3:14) Jesús hlýtur því að hafa haft eitthvað annað í huga þegar hann bað með þessum orðum.
16 Vafalaust vissi Jesús að hann yrði sakaður um guðlast, og það var versti glæpur sem Gyðingur gat gerst sekur um. En hvers vegna skyldi hann hafa gert sér áhyggjur af falskri ákæru? Vegna þess að dauði hans við þessar aðstæður myndi leiða háðung yfir himneskan föður hans. Hinn flekklausi sonur Guðs, sem elskaði réttlæti og hataði ranglæti og var kominn til jarðar til að gera nafn föður síns dýrlegt, vissi að Guðs eigin þjóð myndi innan tíðar taka hann af lífi fyrir guðlast. — Hebreabréfið 1:9; Jóhannes 17:4.
17. Hvers vegna var það prófraun fyrir Jesú að hljóta slíkan dauðdaga?
17 Fyrr á þjónustuferli sínum hafði Jesús sagt: „Skírn á ég að skírast. Hversu þungt er mér, uns hún er fullnuð.“ (Lúkas 12:50) Hann stóð núna frammi fyrir þessari skírn. Það var vafalaust þess vegna sem sviti hans varð eins og blóðdropar þegar hann baðst fyrir. (Lúkas 22:44) Þetta kvöld hvíldi á honum ógnarþung byrði, langtum þyngri en við fáum skilið. Hann vissi að hann yrði að reynast trúfastur, því það yrði sem hnefahögg í andlit Jehóva ef hann brygðist honum! Satan myndi staðhæfa að hann hefði rétt fyrir sér og Jehóva Guð rangt. En það var Satan djöfullinn sem fékk hnefahögg í andlitið því að Jesús reyndist trúfastur allt til dauða! Þar með afhjúpaði hann Satan sem auvirðilegan, grófan og svívirðilegan lygara. — Orðskviðirnir 27:11.
18. Hvers vegna hvíldi þung byrði á Jesú þessa nótt?
18 Jehóva Guð bar slíkt traust til sonar síns að hann hafði sagt fyrir að hann myndi reynast honum drottinhollur. (Jesaja 53:9-12) Jesús vissi þó að sú byrði að varðveita ráðvendni hvíldi á honum. Hann hefði getað brugðist. Hann hefði getað syndgað. (Lúkas 12:50) Eilíft líf hans sjálfs og alls mannkynsins var á vogarskálunum þessa nótt. Vitneskjan um það hlýtur að hafa verið gífurlegt álag! Ef Jesús hefði gefist upp og syndgað hefði hann ekki getað beðist miskunnar vegna annarrar fórnar, eins og við ófullkomnir menn getum gert.
19. Hverju áorkaði Jesús með óeigingjarnri lífsstefnu sinni?
19 Enginn maður hefur nokkurn tíma sýnt meiri kærleika en Jesús gerði með þolgæði sínu þann 14. nísan árið 33. Aðeins Jehóva Guð hefur sýnt meiri kærleika. Og það er ekki lítið sem hann gaf okkur með dauða sínum! Hann varð „Guðs lamb, sem ber synd heimsins.“ (Jóhannes 1:29) Hann opnaði 144.000 fylgjendum sínum leiðina til að verða konungar og prestar og ríkja með honum um þúsund ár. (Opinberunarbókin 20:4, 6) Auk þess nýtur mikill múgur ‚annarra sauða‘ núna góðs af fórn Krists og ber í brjósti þá von að lifa af endalok þessa gamla heimskerfis. Þeir verða fyrstir til að njóta jarðneskrar paradísar. Vafalaust verða milljarðar manna reistir upp frá dauðum vegna þess sem Jesús gerði. Þeir munu líka fá tækifæri til að hljóta endalaust líf á jörð sem verður paradís. (Opinberunarbókin 7:9-14; Jóhannes 10:16; 5:28, 29) Já, „því að svo mörg sem fyrirheit Guðs eru, þá er játun þeirra í honum,“ það er að segja Jesú Kristi. — 2. Korintubréf 1:20.
20. Hver ættu að vera viðbrögð okkar við tveim mestu tjáningum kærleikans?
20 Það er sannarlega við hæfi að við sýnum að við kunnum að meta allt sem Jehóva Guð og Jesús Kristur hafa gert fyrir okkur. Þeir hafa sýnt okkur kærleika sinn með stórkostlegasta hætti sem hugsast getur. Við skuldum þeim þakklæti okkar, og til að njóta fulls gagns af því sem þeir gerðu þarf það að birtast í verki. Eftirfarandi grein bendir á nokkrar bestu leiðirnar til að gera það.
Manst þú þetta?
◻ Hvaða merki um kærleika Guðs geta allir menn séð?
◻ Hvernig vitum við að Jehóva þjáðist þegar hann sá son sinn þjást?
◻ Hvað var ólíkt með dauða Jesú og annarra sem hafa fórnað lífi sínu?
◻ Hvaða áhrif ætti kærleikur Jehóva og Jesú að hafa á okkur?