Spurningar frá lesendum
Nú var mærin María ófullkomin. Hafði það óheppileg áhrif á getnað Jesú?
Hin innblásna frásaga segir um ‚fæðingu Jesú‘: „María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman, reyndist hún þunguð af heilögum anda.“ (Matteus 1:18) Heilagur andi Guðs gegndi vissulega mikilvægu hlutverki í þungun Maríu.
En hvað um Maríu? Var í raun og veru notuð eggfruma frá henni þegar hún varð þunguð? Í ljósi fyrirheitanna við Abraham, Ísak, Jakob, Júda og Davíð konung — sem voru forfeður Maríu — varð barnið að vera ósvikinn afkomandi þeirra. (1. Mósebók 22:18; 26:24; 28:10-14; 49:10; 2. Samúelsbók 7:16) Að öðrum kosti gat barnið, sem María ól, ekki verið réttmætur erfingi að fyrirheitum Guðs. Drengurinn varð að vera raunverulegur sonur hennar. — Lúkas 3:23-34.
Engill Jehóva hafði birst meynni Maríu og sagt: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala, og þú skalt láta hann heita JESÚ.“ (Lúkas 1:30, 31) Til að getnaður eigi sér stað þarf að frjóvga eggfrumu. Ljóst er að Jehóva Guð lét eggfrumu í legi Maríu frjóvgast og gerði það með því að flytja líf eingetins sonar síns frá andlegu tilverusviði niður til jarðar. — Galatabréfið 4:4.
Gat barn, sem var getið með þessum hætti af ófullkominni konu, verið fullkomið og laust við áhrif syndar á líkama sinn? Hvernig verkar erfðalögmálið þegar fullkomleiki og ófullkomleiki mætast? Höfum hugfast að heilögum anda var beitt til að flytja fullkominn lífskraft sonar Guðs og valda getnaði. Það upphóf sérhvern ófullkomleika í eggfrumu Maríu og skapaði þannig erfðamynstur sem var fullkomið frá upphafi.
Hvernig sem eggfruman frjóvgaðist er öruggt að heilagur andi Guðs starfaði þannig að tilgangur hans næði örugglega fram að ganga. Engillinn Gabríel hafði sagt Maríu: „Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur hins hæsta mun yfirskyggja þig. Fyrir því mun og barnið verða kallað heilagt, sonur Guðs.“ (Lúkas 1:35) Það var eins og heilagur andi Guðs myndaði verndarhjúp um hið vaxandi fóstur þannig að enginn ófullkomleiki né skaðleg áhrif kæmust að því eftir getnað.
Ljóst er að fullkomið mannslíf Jesú var himneskum föður hans að þakka en ekki manni. Jehóva ‚bjó honum líkama‘ svo að hann var allt frá getnaði ‚óflekkaður og greindur frá syndurum.‘ — Hebreabréfið 7:26; 10:5.
[Mynd á blaðsíðu 31]
„Þú munt þunguð verða og son ala.“