9. kafli
Máttur upprisuvonarinnar
1. Hvað lægi fyrir hinum dánu ef ekki væri von um upprisu?
HEFURÐU misst ástvini? Ef upprisan kæmi ekki til væri engin von um að sjá þá aftur. Þá yrðu þeir endalaust í því ástandi sem lýst er í Biblíunni í Prédikaranum 9:5, 10: „Hinir dauðu vita ekki neitt . . . í dánarheimum [gröfinni], þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“
2. Hvaða unaðslegu von veitir Jehóva?
2 Í miskunn sinni hefur Jehóva ákveðið að reisa látna upp frá dauðum. Þannig gefur hann óteljandi fjölda látinna dýrmætt tækifæri til að snúa aftur frá dauðanum og hljóta eilíft líf. Þetta þýðir að þú getur átt þá unaðslegu von að sameinast á nýjan leik ástvinum sem eru sofnaðir dauðasvefni. Það mun gerast eftir að nýr heimur Guðs er genginn í garð. — Markús 5:35, 41, 42; Postulasagan 9:36-41.
3. (a) Af hverju er upprisan mikilvægur þáttur í því að vilji Jehóva nái fram að ganga? (b) Undir hvaða kringumstæðum er upprisuvonin sérstaklega styrkjandi?
3 Vegna upprisunnar þurfum við ekki að vera óhóflega hrædd við dauðann. Satan fullyrðir að ‚maðurinn gefi allt sem hann á fyrir líf sitt‘. (Jobsbók 2:4) Jehóva getur, án þess að þjónar hans bíði varanlegt tjón af, leyft Satan að reyna til hins ýtrasta að sanna illgjarna ásökun sína. Jesús var Guði trúr allt til dauða og þess vegna reisti Guð hann upp til himna. Þar gat Jesús borið andvirði fullkominnar fórnar sinnar fram fyrir hásæti föður síns okkur til bjargar. Vegna upprisunnar á ‚lítil hjörð‘ samerfingja Krists þá von að ríkja með honum á himnum. (Lúkas 12:32) Aðrir eiga þá von að hljóta upprisu til að lifa að eilífu í paradís á jörð. (Sálmur 37:11, 29) Upprisuvonin gefur öllum kristnum mönnum „ofurmagn kraftarins“ þegar þeir verða fyrir prófraunum þar sem þeir horfast í augu við dauðann. — 2. Korintubréf 4:7.
Eitt af undirstöðuatriðum kristinnar trúar
4. (a) Í hvaða skilningi er upprisan eitt af „undirstöðuatriðum“ kristninnar? (b) Hvernig hugsar þorri manna um upprisu?
4 Upprisan er eitt af „undirstöðuatriðum“ kristninnar eins og fram kemur í Hebreabréfinu 6:1, 2. Hún er ein af þeim grundvallarkenningum sem er forsenda þess að við þroskumst í trúnni. (1. Korintubréf 15:16-19) En upprisukenning Biblíunnar er flestum framandi. Æ fleiri sjá ekkert nema þetta líf vegna þess að þeir hafa ekki trú. Þeir lifa því fyrir líðandi stund. Þeir sem aðhyllast hefðbundin trúarbrögð, bæði innan kristna heimsins og utan, trúa margir hverjir að þeir hafi ódauðlega sál. En það getur ekki samræmst upprisukenningu Biblíunnar því að upprisa væri óþörf ef mennirnir hefðu ódauðlega sál. Það veldur tómum ruglingi að reyna að samræma þessar kenningar og er ekki til þess fallið að vekja fólki von. Hvernig getum við hjálpað einlægu fólki sem langar til að vita sannleikann?
5. (a) Hvað þarf fólk að skilja áður en það getur glöggvað sig á upprisunni? (b) Hvaða ritningarstaði gætirðu notað til að skýra hvað sálin sé og hvað verði um fólk við dauðann? (c) Hvað er hægt að gera ef sannleikurinn um þessi mál virðist ekki koma skýrt fram í biblíuþýðingu viðmælandans?
5 Áður en fólk getur áttað sig á því hve frábær upprisan er þarf það að skilja hvað sálin er og hvað verður um fólk við dauðann. Oft nægir að benda á fáeina ritningarstaði til að skýra þetta fyrir fólki sem hungrar eftir sannleika Biblíunnar. (1. Mósebók 2:7; Sálmur 146:3, 4; Esekíel 18:4) Sannleikurinn um sálina kemur hins vegar ekki skýrt fram í sumum nýlegum þýðingum eða endursögnum Biblíunnar. Þess vegna getur verið nauðsynlegt að skoða orðin sem notuð eru á frummálum Biblíunnar.
6. Hvernig er hægt að sýna öðrum fram á hvað sálin er?
6 Í mörgum biblíuþýðingum, til dæmis þeim íslensku, eru hebreska orðið nefes og samsvarandi grískt orð, psykheʹ, stundum þýdd „sál“ en oft breytilega eftir samhengi, til dæmis „vera“, „maður“ eða „líf“, eða þá með persónufornöfnum eins og „ég“ og „þú“.a Í New World Translation eru frummálsorðin tvö hins vegar alltaf þýdd „sál“. Í viðauka hennar er skrá yfir fjölda ritningarstaða þar sem orðin tvö er að finna. Með því að bera saman biblíuþýðingar getur einlægur biblíunemandi áttað sig á því að frummálsorðin, sem þýdd eru „sál“, eru notuð bæði um menn og dýr. En hvergi gefa þessi orð í skyn að sálin sé ósýnileg og óáþreifanleg né að hún geti yfirgefið líkamann við dauðann og átt sér framhaldslíf annars staðar.
7. Hvernig væri hægt að nota Biblíuna til að skýra ástand þeirra sem eru í séol, hades og Gehenna?
7 Í íslenskum biblíum er hebreska orðið séol ýmist þýtt „Hel“, „Helja“, „dánarheimar“ eða „undirheimar“. Gríska orðið hades er alls staðar þýtt „Helja“. Gríska orðið Gehenna er ýmist þýtt „eldsvíti“ eða „helvíti“. Í New World Translation eru frummálsorðin alls staðar umrituð en ekki þýdd. Orðin séol og hades merkja eitt og hið sama. (Sálmur 16:10; Postulasagan 2:27) Ljóst er af Biblíunni að þau eru bæði notuð um sameiginlega gröf mannkyns og þau eru alls staðar sett í samband við dauða en ekki líf. (Sálmur 89:49; Opinberunarbókin 20:13) Í Biblíunni kemur sömuleiðis fram að upprisa er eina vonin sem fólk hefur um að snúa aftur úr hinni sameiginlegu gröf. (Jobsbók 14:13; Postulasagan 2:31) Gehenna táknar ekki vítiseld þar sem syndarar eru kvaldir eftir dauðann. Það táknar einfaldlega útrýmingu. Ólíkt þeim sem eru í séol og hades eiga þeir sem rata í Gehenna enga von um að lifna aftur og hvergi kemur fram að sálin eigi sér vitundarlíf þar. — Matteus 10:28.
8. Hvaða áhrif getur það haft á viðhorf og verk fólks að skilja hvað felst í upprisunni?
8 Eftir að þetta er komið á hreint er hægt að leiða öðrum fyrir sjónir hvaða þýðingu upprisan geti haft fyrir þá. Þá fer að renna upp fyrir þeim hvílíkan kærleika Jehóva sýndi með því að gera þessar ráðstafanir. Hin gleðilega von um að sameinast ástvinum sínum á nýjan leik í nýjum heimi Guðs getur dregið úr sársaukanum sem fylgir því að missa ástvin. Það er líka nauðsynlegt að skilja þetta til að átta sig á því hvaða þýðingu dauði Krists hefur. Kristnir menn á fyrstu öld vissu að upprisa Jesú Krists var ein af undirstöðum kristinnar trúar því að hún var lykillinn að því að aðrir gætu hlotið upprisu. Þeir voru ötulir að segja frá upprisu hans og voninni sem hún veitir. Þeim sem skilja þýðingu upprisunnar er líka mikið í mun að segja frá henni nú á tímum. — Postulasagan 5:30-32; 10:42, 43.
Jesús notar ‚lykla Heljar‘
9. Hvernig notar Jesús fyrst „lykla dauðans og Heljar“?
9 Allir sem verða með Kristi í ríkinu á himnum þurfa að deyja. En þeir þekkja mætavel loforð hans: „Ég dó, en sjá, lifandi er ég um aldir alda, og ég hef lykla dauðans og Heljar.“ (Opinberunarbókin 1:18) Hvað átti hann við? Hann vekur hér athygli á eigin reynslu. Hann hafði líka dáið. En Jehóva lét hann ekki liggja áfram í Helju heldur reisti hann upp frá dauðum sem andaveru á þriðja degi og gaf honum ódauðleika. (Postulasagan 2:32, 33; 10:40) Auk þess gaf Guð honum „lykla dauðans og Heljar“ sem hann átti að nota til að leysa aðra úr sameiginlegri gröf mannkyns og losa þá undan áhrifum syndarinnar sem þeir erfðu frá Adam. Þar sem Jesús hefur lyklana getur hann reist trúa fylgjendur sína upp frá dauðum. Fyrst reisir hann upp hina andasmurðu sem tilheyra söfnuði hans og gefur þeim dýrmæta gjöf — ódauðleika á himnum rétt eins og faðir hans gaf honum. — Rómverjabréfið 6:5; Filippíbréfið 3:20, 21.
10. Hvenær hljóta andasmurðir þjónar Guðs upprisu?
10 Hvenær áttu andasmurðir kristnir menn að hljóta upprisu til himna? Af Biblíunni má sjá að þessi upprisa er hafin. Páll postuli talaði um að hinir andasmurðu yrðu reistir upp „við komu“ Krists, það er að segja á nærverutíma hans sem hófst árið 1914. (1. Korintubréf 15:23) Þegar andasmurðir þjónar Guðs, sem eru uppi á nærverutíma Jesú, ljúka jarðneskri vegferð sinni þurfa þeir ekki að sofa dauðasvefni og bíða endurkomu Drottins. Þeir eru reistir upp sem andar jafnskjótt og þeir deyja. Þeir „umbreytast í einni svipan, á einu augabragði“. Það er einkar gleðilegt fyrir þá því að góð „verk þeirra fylgja þeim“. — 1. Korintubréf 15:51, 52; Opinberunarbókin 14:13.
11. Hvaða upprisa bíður fólks almennt og hvenær hefst hún?
11 En upprisa þeirra sem eiga að erfa ríkið á himnum er ekki eina upprisan. Í Opinberunarbókinni 20:6 er hún kölluð ‚fyrri upprisan‘ og það gefur til kynna að önnur upprisa komi í kjölfarið. Þeir sem hljóta síðari upprisuna eiga það fyrir sér að hljóta eilíft líf og hamingju í paradís á jörð. Hvenær verður þessi upprisa? Í Opinberunarbókinni kemur fram að hún á sér stað eftir að „himinn og jörð“ eru liðin undir lok en þar er átt við hinn illa heim, sem nú er, ásamt valdhöfum sínum. Endalok hins gamla heims eru mjög nærri og þegar nýr heimur er genginn í garð hefst jarðneska upprisan. — Opinberunarbókin 20:11, 12.
12. Nefndu dæmi um trúa þjóna Guðs sem hljóta upprisu hér á jörð. Af hverju er spennandi að hugsa til þeirra?
12 Hverjir hljóta upprisu hér á jörð? Meðal þeirra verða trúir þjónar Jehóva allt frá öndverðu, bæði karlar og konur sem „þágu ekki lausn“ af því að þau trúðu á upprisuna. Þau voru ekki tilbúin til að fórna ráðvendni sinni við Guð til þess að umflýja grimmilegan og ótímabæran dauða. Hugsaðu þér að fá að kynnast þeim persónulega og heyra þau segja frá atburðum sem er aðeins sagt frá í stuttu máli í Biblíunni. Meðal hinna upprisnu hér á jörð verða Abel, fyrsti trúi vottur Jehóva, og Enok og Nói sem fluttu boðskap Guðs óhræddir fyrir flóðið. Þarna verða Abraham og Sara sem fengu engla í heimsókn, Móse sem tók við lagasáttmálanum á Sínaífjalli, hugrakkir spámenn eins og Jeremía sem sá Jerúsalem eytt árið 607 f.Kr. og Jóhannes skírari sem heyrði sjálfan Guð lýsa yfir að Jesús væri sonur sinn. Og þarna verða ótalmargir dyggir karlar og konur sem dóu á síðustu dögum þessa illa heims. — Hebreabréfið 11:4-38; Matteus 11:11.
13, 14. (a) Hvað verður um Helju og hina dánu sem eru í henni? (b) Hverjir verða meðal hinna upprisnu og hvers vegna?
13 Smám saman verða aðrir reistir upp frá dauðum svo að enginn verður eftir í sameiginlegri gröf mannkyns. Ljóst er að Jesús tæmir Helju algerlega þegar hann notar ‚lykla Heljar‘. Þetta má sjá af sýn Jóhannesar postula þar sem hann sá Helju „kastað í eldsdíkið“. (Opinberunarbókin 20:14) Þetta merkir að Helju, sameiginlegri gröf mannkyns, verður útrýmt. Hún verður ekki lengur til heldur verður hún tæmd algerlega. Jesús reisir ekki aðeins upp frá dauðum alla trúa tilbiðjendur Jehóva heldur sýnir hann líka þá miskunn að reisa upp hina ranglátu. Í orði Guðs er lofað „að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir“. — Postulasagan 24:15.
14 Enginn þessara ranglátu er reistur upp til þess eins að hljóta dauðadóm að nýju. Hið réttláta umhverfi, sem verður um alla jörðina undir stjórn Guðsríkis, hjálpar þeim að laga sig að vilja Jehóva. Í sýninni kemur fram að „lífsins bók“ er lokið upp. Þeir fá því tækifæri til að fá nöfn sín skrifuð í hana. Þeir verða allir dæmdir ‚samkvæmt verkum sínum‘ sem þeir vinna eftir að þeir eru reistir upp. (Opinberunarbókin 20:12, 13) Sé litið á endanlega útkomu getur upprisa þeirra orðið „til lífsins“. Enginn þarf að rísa upp „til dómsins“ í þeirri merkingu að hann deyi að nýju. — Jóhannes 5:28, 29.
15. (a) Hverjir hljóta ekki upprisu? (b) Hvaða áhrif ætti vitneskjan um upprisuna að hafa á okkur?
15 En það verða ekki allir reistir upp sem hafa lifað og dáið. Sumir hafa drýgt syndir sem ekki er hægt að fyrirgefa. Þeir eru ekki í Helju heldur Gehenna sem táknar endalega eyðingu. Þangað fara líka þeir sem láta lífið í „þrengingunni miklu“ sem fram undan er. (Matteus 12:31, 32; 23:33; 24:21, 22; 25:41, 46; 2. Þessaloníkubréf 1:6-9) Enda þótt Jehóva sýni einstaka miskunn með því að leysa hina dánu úr Helju gefur upprisuvonin okkur ekki tilefni til þess að vera kærulaus um það hvernig við lifum núna. Þeir sem gera vísvitandi uppreisn gegn drottinvaldi Jehóva eiga ekki kost á upprisu. Þessi vitneskja ætti að vera okkur hvöt til að sýna að við metum óverðskuldaða gæsku Guðs mikils og lifum í samræmi við vilja hans.
Upprisuvonin styrkir
16. Hvernig getur upprisuvonin styrkt okkur?
16 Þeir sem trúa á upprisuvonina geta sótt mikinn styrk í hana. Eins og staðan er núna vitum við að þegar aldurinn færist yfir getum við ekki frestað dauðanum óendanlega, og gildir þá einu hvaða læknisaðferðum er beitt. (Prédikarinn 8:8) En ef við höfum þjónað Jehóva dyggilega með söfnuði hans getum við horft með trúartrausti til framtíðar. Við vitum að vegna upprisunnar getum við lifnað á ný þegar þar að kemur. Og það verður unaðslegt líf. Páll postuli kallaði það „hið sanna líf“. — 1. Tímóteusarbréf 6:19; Hebreabréfið 6:10-12.
17. Hvað getur hjálpað okkur að vera Jehóva trú?
17 Þar sem við vitum af upprisunni og vitum hver veitir hana getum við verið sterk í trúnni. Það gefur okkur styrk til að vera Guði trú jafnvel þó að ofbeldis- og ofsóknarmenn hóti okkur dauða. Satan hefur löngum notað ótta við dauðann til að hafa tangarhald á fólki og halda því í þrælkun. En Jesús óttaðist ekki dauðann heldur var hann trúr Jehóva allt til dauða. Með lausnarfórn sinni gerði hann öðrum kleift að losna úr fjötrum þessa ótta. — Hebreabréfið 2:14, 15.
18. Hvað hefur hjálpað þjónum Jehóva að vera honum ráðvandir?
18 Þjónar Jehóva hafa sýnt og sannað að þeir eru ráðvandir honum. Trú þeirra á fórn Krists og upprisuna hefur gert þeim það kleift. Þeir hafa sannað undir álagi að þeim þykir vænna um Jehóva en líf sitt. (Opinberunarbókin 12:11) Þeir sýna þá skynsemi að brjóta ekki meginreglur Jehóva til að reyna að bjarga núverandi lífi sínu. (Lúkas 9:24, 25) Þeir vita að Jehóva launar þeim með upprisu þó að tryggð við drottinvald hans kosti þá lífið. Býrð þú yfir slíkri trú? Þú gerir það ef þú elskar Jehóva í raun og sannleika, kannt að meta upprisuvonina og skilur þýðingu hennar.
[Neðanmáls]
a Í orðaskýringum við Biblíuna 2007 segir undir flettunni „sál“: „Á hebresku nefes. Merkir persónuna alla, líkama og anda mannsins.“
Til upprifjunar
• Af hverju er nauðsynlegt að skilja hvað sálin er og hvar hinir dánu eru áður en hægt er að skilja upprisuna?
• Hverjir hljóta upprisu og hvaða áhrif ætti sú vitneskja að hafa á okkur?
• Hvernig styrkir upprisuvonin okkur?
[Mynd á blaðsíðu 84, 85]
Jehóva lofar því að upp rísi bæði réttlátir og ranglátir.