Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir Jóhannesarguðspjalls
JÓHANNES — nefndur lærisveinninn sem Jesús elskaði — var síðastur til að rita innblásna frásögu af ævi og starfi Jesú. (Jóh. 21:20) Hann ritaði hana árið 98. Hann endurtekur fátt af því sem sagt er frá í hinum guðspjöllunum.
Jóhannes postuli skrifar guðspjallið með ákveðið markmið í huga. Hann segir þar um: „Þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þér í trúnni eigið líf í hans nafni.“ (Jóh. 20:31) Boðskapur Jóhannesarguðspjalls hefur mikið gildi fyrir okkur. — Hebr. 4:12.
„SJÁ, GUÐS LAMB“
Jóhannes skírari lýsir yfir öruggur í bragði þegar hann sér Jesú: „Sjá, Guðs lamb, sem ber synd heimsins.“ (Jóh. 1:29) Jesús fer um Samaríu, Galíleu, Júdeu og landið austan Jórdanar, prédikar, kennir og vinnur kraftaverk. „Þarna tóku margir trú á hann,“ segir frásagan. — Jóh. 10:41, 42.
Það vekur mikla athygli þegar Jesús vinnur það kraftaverk að reisa Lasarus upp frá dauðum. Margir trúa á Jesú þegar þeir sjá mann lifna aftur sem hafði verið dáinn í fjóra daga. En æðstuprestarnir og farísearnir afráða að taka Jesú af lífi. Jesús fer þá „til staðar í grennd við eyðimörkina, í þorp sem heitir Efraím“. — Jóh. 11:53, 54.
Biblíuspurningar og svör:
1:35, 40 — Hver var lærisveinninn sem stóð hjá Jóhannesi skírara ásamt Andrési? Þegar sögumaður nefnir „Jóhannes“ á hann ævinlega við Jóhannes skírara. Hann nefnir sjálfan sig aldrei með nafni í guðspjallinu. Þessi ónefndi lærisveinn mun hafa verið Jóhannes guðspjallaritari.
2:20 — Hvaða musteri var „fjörutíu og sex ár í smíðum“? Gyðingar eiga hér við musteri Serúbabels sem Heródes konungur Júdeu endurreisti. Að sögn Jósefusar sagnaritara hófst endurreisnin á 18. stjórnarári Heródesar eða 18-17 f.Kr. Helgidómurinn sjálfur og aðrar helstu byggingar voru reistar á átta árum. En vinnan við musterið var enn í gangi eftir páska árið 30 e.Kr. þegar Gyðingar sögðu að það hefði verið 46 ár í smíðum.
5:14 — Eru sjúkdómar afleiðing þess að fólk syndgar? Svo þarf ekki að vera. Maðurinn, sem Jesús læknaði, hafði verið veikur í 38 ár vegna þess að hann hafði tekið ófullkomleikann í arf. (Jóh. 5:1-9) En nú hafði honum verið miskunnað. Orð Jesú merkja að maðurinn þurfi héðan í frá að ganga braut hjálpræðisins og megi ekki syndga framar af ásettu ráði. Að öðrum kosti gæti eitthvað verra en veikindi hent hann. Maðurinn gæti gert sig sekan um ófyrirgefanlega synd og kallað yfir sig dauða án vonar um upprisu. — Matt. 12:31, 32; Lúk. 12:10; Hebr. 10:26, 27.
5:24, 25 — Hverjir ‚stigu yfir frá dauðanum til lífsins‘? Jesús talar hér um þá sem voru dánir í andlegum skilningi en hættu að ganga á braut syndarinnar eftir að þeir heyrðu hann prédika og tóku trú á hann. Þeir ‚voru stignir yfir frá dauðanum til lífsins‘ í þeirri merkingu að fordæmingu dauðans var létt af þeim. Þeim var gefin von um eilíft líf vegna þess að þeir trúðu á Guð. — 1. Pét. 4:3-6.
5:26; 6:53 — Hvað merkir það að „hafa líf í sjálfum sér“? Hvað Jesú Krist varðar merkir það að fá mátt frá Guði til að gera tvennt — að geta veitt mönnum velþóknun Guðs og geta veitt þeim líf með því að reisa þá upp frá dauðum. Fyrir fylgjendur Jesú merkir það að „hafa líf í sjálfum sér“ að hljóta líf í fullkomnum skilningi. Andasmurðir kristnir menn hljóta það þegar þeir eru reistir upp til lífs á himnum. Trúir menn með jarðneska von hljóta líf í fullkomnum skilningi með því að standast lokaprófið strax eftir að þúsund ára stjórn Krists tekur enda. — 1. Kor. 15:52, 53; Opinb. 20:5, 7-10.
6:64 — Vissi Jesús strax og hann valdi Júdas Ískaríot að Júdas myndi svíkja hann? Greinilega ekki. Árið 32 sagði Jesús postulunum hins vegar: „Einn yðar [er] djöfull.“ Hugsanlegt er að Jesús hafi þá verið farinn að merkja ‚upphaf‘ þess að Júdas færi út á ranga braut. — Jóh. 6:66-71.
Lærdómur:
2:4. Með þessum orðum bendir Jesús Maríu á að þar sem hann sé skírður og andasmurður sonur Guðs verði hann að taka við fyrirmælum frá föðurnum á himnum. Þótt hann væri rétt að hefja þjónustu sína var honum fullkunnugt um tímann sem honum var falið að starfa og deyja síðan sem fórn. Nákomnir ættingjar eins og María máttu ekki einu sinni trufla hann í að gera vilja Guðs. Við ættum að þjóna Guði af sömu einbeitni.
3:1-9. Draga má tvenns konar lærdóm af Nikódemusi sem var höfðingi meðal Gyðinga. Í fyrsta lagi sýndi hann auðmýkt og innsæi og skynjaði andlega þörf sína. Hann viðurkenndi að sonur óbreytts trésmiðs væri kennari kominn frá Guði. Kristnir menn þurfa að vera auðmjúkir. Í öðru lagi veigraði Nikódemus sér við því að gerast lærisveinn meðan Jesús var á jörðinni. Kannski óttaðist hann menn, vildi halda í stöðu sína í æðstaráðinu eða þótti of vænt um auðæfi sín. Af þessu má draga eftirfarandi lærdóm: Við megum ekki láta neinar slíkar tilhneigingar hindra okkur í að ‚taka kross okkar‘ eða kvalastaur og fylgja Jesú. — Lúk. 9:23.
4:23, 24. Til að tilbeiðsla okkar sé þóknanleg Guði þarf hún að samræmast sannleikanum sem er opinberaður í Biblíunni, og hún þarf að lúta leiðsögn heilags anda.
6:27. Ef við viljum afla okkur fæðu „sem varir til eilífs lífs“ þurfum við að leggja okkur fram um að fullnægja andlegri þörf okkar. Það er forsenda þess að vera hamingjusamur. — Matt. 5:3, NW.
6:44. Jehóva er ákaflega annt um okkur. Hann dregur okkur til sonar síns með því að senda boðbera fagnaðarerindisins til okkar. Þeir geta hjálpað okkur að skilja biblíuleg sannindi og fara eftir þeim. Heilagur andi er þar að verki.
11:33-36. Það er ekki veikleikamerki að láta tilfinningar sínar í ljós.
„FYLG ÞÚ MÉR“
Jesús kemur til Betaníu þegar dregur að páskum árið 33. Hinn 9. nísan ríður hann inn í Jerúsalem á ösnufola. Hinn 10. nísan kemur hann aftur í musterið. Hann biður þess í bæn að nafn föðurins helgist og þá heyrist rödd af himni sem segir: „Ég hef gjört það dýrlegt og mun enn gjöra það dýrlegt.“ — Jóh. 12:28.
Að skilnaði leiðbeinir Jesús fylgjendum sínum meðan þeir neyta páskamáltíðarinnar og biður fyrir þeim. Hann er síðan handtekinn, leiddur fyrir rétt, líflátinn og reistur upp frá dauðum.
Biblíuspurningar og svör:
14:2 — Hvernig ætlaði Jesús að „búa . . . stað“ á himnum handa dyggum fylgjendum sínum? Það fólst meðal annars í því að Jesús fullgilti nýja sáttmálann með því að ganga fram fyrir Guð og afhenda honum andvirði blóðs síns. Síðar myndi Jesús taka við konungdómi og þá yrði byrjað að reisa andasmurða fylgjendur hans upp til himna. — 1. Þess. 4:14-17; Hebr. 9:12, 24-28; 1. Pét. 1:19; Opinb. 11:15.
19:11 — Var Jesús að tala um Júdas Ískaríot þegar hann nefndi við Pílatus manninn sem hefði framselt hann? Líklegt er að Jesús hafi ekki haft í huga ákveðinn mann heldur alla sem báru sameiginlega ábyrgð á þeirri synd að taka hann af lífi. Í þeirra hópi voru Júdas, „æðstu prestarnir og allt ráðið“ og jafnvel ‚múgurinn‘ sem lét telja sig á að biðja um að Barabbas yrði leystur úr haldi. — Matt. 26:59-65; 27:1, 2, 20-22.
20:17 — Af hverju sagði Jesús Maríu Magdalenu að snerta sig ekki? Gríska sögnin, sem er yfirleitt þýdd „snerta“, merkir einnig „halda sér fast við, halda sér í, grípa, handleika“. Það virðist ekki rökrétt að Jesús hafi haft eitthvað á móti því að María Magdalena snerti hann því að hann leyfði hinum konunum, sem voru við gröfina, að ‚faðma fætur sína‘. (Matteus 28:9) María virðist hafa haldið sér fast við Jesú vegna þess að hún hélt að hann væri í þann mund að stíga upp til himna og hún myndi ekki sjá hann framar. Til að fullvissa hana um að hann væri ekki á förum sagði Jesús henni að hætta því. Hún átti að fara og segja lærisveinunum frá því að hann væri upprisinn.
Lærdómur:
12:36. Við þurfum að hafa nákvæma þekkingu á orði Guðs, Biblíunni, til að vera „börn ljóssins“ eða ljósberar. Síðan verðum við að nota þekkinguna til að laða aðra út úr andlega myrkrinu inn í ljósið frá Guði.
14:6. Við getum ekki haft velþóknun Guðs nema fyrir atbeina Jesú Krists. Við þurfum að trúa á Jesú og fylgja fordæmi hans til að nálægja okkur Jehóva. — 1. Pét. 2:21.
14:15, 21, 23, 24; 15:10. Ef við hlýðum Guði getum við varðveitt okkur í kærleika hans og sonar hans. — 1. Jóh. 5:3.
14:26; 16:13. Heilagur andi Jehóva kennir okkur og hann hjálpar okkur að muna það sem við höfum lært. Hann hefur einnig það hlutverk að opinbera sannleika Guðs. Þess vegna getur hann hjálpað okkur að byggja upp þekkingu, visku, innsæi, dómgreind og skýra hugsun. Við ættum því að vera bænrækin og biðja Guð sérstaklega um að gefa okkur anda sinn. — Lúk. 11:5-13.
21:15, 19. Jesús spurði Pétur hvort hann elskaði sig meira en fiskinn sem þeir voru með fyrir framan sig. Þannig leggur hann áherslu á að Pétur þurfi að nota allan tíma sinn í þjónustu hans í stað þess að stunda fiskveiðar. Megi guðspjöllin styrkja okkur í þeim ásetningi að elska Jesú heitar en nokkuð annað sem gæti togað í okkur. Höldum áfram að fylgja honum heilshugar.
[Mynd á blaðsíðu 31]
Hvaða lærdóm er hægt að draga af Nikódemusi?