Sonurinn vill opinbera föðurinn
„Enginn veit . . . hver faðirinn er nema sonurinn og sá sem sonurinn vill opinbera hann.“ – LÚK. 10:22.
HVERT ER SVARIÐ?
Af hverju gat Jesús opinberað föðurinn betur en nokkur annar?
Hvernig opinberaði Jesús föður sinn?
Hvernig geturðu líkt eftir Jesú og frætt aðra um föðurinn?
1, 2. Hvaða spurning hefur verið mörgum ráðgáta og af hverju?
HVER er Guð? Svarið við þessari spurningu er mörgum ráðgáta. Flestir, sem kalla sig kristna, trúa að Guð sé þríeinn en viðurkenna margir hverjir að hugmyndin sé óskiljanleg. Prestur nokkur segir í bók sem hann skrifaði að „mannshugurinn sé of takmarkaður til að skilja þessa kennisetningu. Hún er ofviða eðlilegri skynsemi og rökhugsun manna.“ Flestir sem aðhyllast þróunarkenninguna trúa hins vegar ekki að Guð sé til. Þeir ímynda sér að öll hin mörgu undur sköpunarverksins hafi orðið til af hreinni tilviljun. Darwin afneitaði þó ekki tilvist Guðs heldur sagði: „Mér virðist öruggast að álykta sem svo að þetta málefni sé ofvaxið mannlegum skilningi.“
2 Óháð trú sinni hafa flestir velt fyrir sér ótal spurningum um tilvist Guðs. En margir hafa gefist upp og hætt að leita Guðs því að þeim tókst ekki að finna svör við spurningum sínum. Satan hefur „blindað huga vantrúaðra“. (2. Kor. 4:4) Það er engin furða að langflestir skuli vera í óvissu og vita ósköp fátt um föðurinn, skapara alheims. – Jes. 45:18.
3. (a) Hver hefur opinberað okkur skaparann? (b) Hvaða spurningum ætlum við að velta fyrir okkur?
3 Það er engu að síður ákaflega mikilvægt að fólk fái að vita sannleikann um Guð. Af hverju? Af því að enginn verður hólpinn nema hann ákalli nafn Jehóva. (Rómv. 10:13) Til að ákalla nafn Guðs þurfum við að kynnast honum sem persónu. Jesús Kristur kenndi lærisveinum sínum þessi mikilvægu sannindi. Hann opinberaði þeim föðurinn. (Lestu Lúkas 10:22.) Af hverju gat Jesús opinberað föðurinn betur en nokkur annar? Hvernig gerði hann það? Og hvernig getum við líkt eftir Jesú og frætt aðra um föðurinn? Við skulum líta nánar á þessar spurningar.
JESÚS KRISTUR GAT OPINBERAÐ FÖÐURINN BETUR EN NOKKUR ANNAR
4, 5. Af hverju var Jesús betur í stakk búinn en nokkur annar til að opinbera föður sinn?
4 Jesús var betur í stakk búinn en nokkur annar til að opinbera föður sinn. Hvers vegna? Vegna þess að Jesús hafði verið andavera á himnum áður en annað líf var skapað. Hann var ,Guðs sonurinn eini‘. (Jóh. 1:14; 3:18) Hugsaðu þér! Sonurinn var einn með föður sínum áður en nokkuð annað var skapað. Hann naut óskiptrar athygli hans og fræddist um hann og eiginleika hans frá ómunatíð. Faðirinn og sonurinn hljóta að hafa haft mikil og náin samskipti og elskað hvor annan heitt og innilega. (Jóh. 5:20; 14:31) Þú getur rétt ímyndað þér hve vel sonurinn hefur kynnst eiginleikum föður síns. – Lestu Kólossubréfið 1:15-17.
5 Faðirinn valdi soninn til að vera talsmaður sinn. Hann er kallaður „Orðið Guðs“. (Opinb. 19:13) Jesús var þess vegna í kjörinni aðstöðu til að opinbera hann öðrum. Guðspjallaritarinn Jóhannes segir að Jesús eða „Orðið“ sé „í faðmi föðurins“. (Jóh. 1:1, 18) Jóhannes vísar hér óbeint til siðvenju sem tíðkaðist forðum daga. Tveir matargestir hölluðu sér gegnt hvor öðrum á sama legubekk og áttu þar af leiðandi auðvelt með að tala saman. Þar sem sonurinn var „í faðmi föðurins“ gat hann átt innilegar samræður við hann.
6, 7. Hvernig hélt sambandið milli föðurins og sonarins áfram að þroskast?
6 Tengsl föðurins og sonarins styrktust jafnt og þétt. Sonurinn „var yndi hans dag hvern“. (Lestu Orðskviðina 8:22, 23, 30, 31.) Það er rökrétt að tengslin hafi styrkst þegar þeir unnu saman og sonurinn lærði að líkja eftir eiginleikum föður síns. Þegar aðrar vitsmunaverur voru skapaðar sá sonurinn hvernig faðir hans, Jehóva, kom fram við hverja og eina, og það jók á virðinguna fyrir honum.
7 Þegar Satan gerði uppreisn og véfengdi rétt Jehóva til að stjórna sá sonurinn hvernig Jehóva sýndi kærleika sinn, réttlæti, visku og mátt við flóknar aðstæður. Það hefur eflaust búið Jesú undir þá erfiðleika sem urðu á vegi hans síðar meir þegar hann var á jörð. – Jóh. 5:19.
8. Hvað getum við lært um eiginleika föðurins af guðspjöllunum?
8 Þar sem sonurinn átti svona náin tengsl við föðurinn gat hann opinberað hann með skýrari hætti en nokkur annar. Er til betri leið til að kynnast föðurnum en skoða það sem einkasonur hans sagði og gerði? Lýsum þessu með dæmi. Ætli væri ekki erfitt að skilja fyllilega hvað orðið „kærleikur“ þýðir með því að lesa bara skilgreiningu í orðabók? Í Biblíunni segir: „Guð er kærleikur.“ (1. Jóh. 4:8, 16) Við skiljum betur hvað þessi orð merkja ef við lesum og hugleiðum frásögur Biblíunnar af þjónustu Jesú og umhyggju hans fyrir fólki. Hið sama er að segja um aðra eiginleika Guðs sem Jesús opinberaði lærisveinunum meðan hann var á jörð.
HVERNIG OPINBERAÐI JESÚS FÖÐUR SINN?
9. (a) Á hvaða tvo vegu opinberaði Jesús föður sinn? (b) Nefndu dæmi sem sýnir hvernig Jesús opinberaði föðurinn með kennslu sinni.
9 Hvernig opinberaði Jesús föðurinn fyrir lærisveinum sínum og þeim sem áttu eftir að verða fylgjendur hans? Hann gerði það aðallega með tvennum hætti, það er að segja með kennslu sinni og breytni. Lítum fyrst á kennsluna. Það sem Jesús kenndi fylgjendum sínum vitnaði um næman skilning hans á huga, tilfinningum og starfsháttum föður síns. Hann líkti til dæmis föður sínum við mann sem á hundrað sauði. Einn af sauðunum villist frá hjörðinni og í umhyggju sinni fer eigandinn að leita hans. Hann finnur sauðinn og „fagnar meir yfir honum en þeim níutíu og níu sem villtust ekki frá“. Jesús heimfærði síðan dæmisöguna og sagði: „Þannig er það eigi vilji yðar himneska föður að nokkur þessara smælingja glatist.“ (Matt. 18:12-14) Hvað má læra um Jehóva af þessari dæmisögu? Stundum finnst þér þú kannski vera einskis virði og öllum gleymdur. En faðirinn á himnum lætur sér annt um þig. Í augum hans ertu einn „þessara smælingja“ sem Jesús nefndi.
10. Hvernig opinberaði Jesús föðurinn með breytni sinni?
10 Jesús opinberaði föðurinn einnig fyrir lærisveinunum með breytni sinni. Þegar Filippus bað Jesú: „Sýn þú okkur föðurinn,“ gat hann svarað með réttu: „Sá sem hefur séð mig hefur séð föðurinn.“ (Jóh. 14:8, 9) Við skulum líta á nokkur dæmi sem sýna hvernig Jesús endurspeglaði eiginleika föður síns. Holdsveikur maður kom til hans og sárbændi hann um að lækna sig. Jesús snerti þá manninn, sem var „altekinn líkþrá“, og sagði: „Ég vil, verð þú hreinn!“ Holdsveiki maðurinn gerði sér eflaust grein fyrir að það var Jehóva sem gaf Jesú kraftinn til að lækna. (Lúk. 5:12, 13) Og lærisveinarnir hljóta að hafa skynjað umhyggju Jehóva þegar Lasarus dó og Jesús ,komst við og grét‘. Jesús vissi að hann ætlaði að reisa Lasarus upp frá dauðum. Engu að síður fann hann til með ættingjum hans og vinum. (Jóh. 11:32-35, 40-43) Þú átt þér ábyggilega uppáhaldssögu í Biblíunni sem minnir þig á hvernig Jesús opinberaði miskunn föðurins með breytni sinni.
11. (a) Hvaða eiginleika Jehóva opinberaði Jesús þegar hann hreinsaði til í musterinu? (b) Af hverju er hughreystandi fyrir okkur að lesa þessa frásögu?
11 En hvaða lærdóm má draga af því þegar Jesús hreinsaði til í musterinu? Sjáðu söguna fyrir þér. Jesús gerði sér svipu úr köðlum og rak út þá sem seldu sauði og naut. Hann tvístraði peningum víxlaranna og velti um koll borðum þeirra. (Jóh. 2:13-17) Þessi sterku viðbrögð hans minntu lærisveinana á orð Davíðs konungs: „Vandlæting vegna húss þíns hefur tært mig upp.“ (Sálm. 69:10) Með því að beita sér af festu sýndi Jesús að honum var mikið í mun að verja sanna tilbeiðslu. Sérðu persónuleika Jehóva endurspeglast í því sem Jesús gerði? Frásagan minnir á að Jehóva hefur bæði meira en nógan kraft til að afmá illskuna af jörðinni og jafnframt brennandi löngun til þess. Í ljósi þessarar frásögu getum við rétt ímyndað okkur hvernig Jehóva hlýtur að vera innanbrjósts þegar hann horfir upp á alla illskuna sem er á jörðinni núna. Það er ákaflega hughreystandi að muna eftir þessu þegar við erum órétti beitt.
12, 13. Hvað lærum við um Jehóva af framkomu Jesú við lærisveina sína?
12 Lítum á eitt dæmi í viðbót um það hvernig Jesús opinberaði föður sinn. Lærisveinar hans voru sífellt að metast um hver þeirra væri mestur. (Mark. 9:33-35; 10:43; Lúk. 9:46) Jesús hafði verið nógu lengi með föður sínum til að vita hvernig hann leit á stolt og framagirni. (2. Sam. 22:28; Sálm. 138:6) Hann hafði auk þess séð hvernig slíkar tilhneigingar komu fram í fari Satans djöfulsins. Satan var sjálfselskur og hrokafullur og hugsaði fyrst og fremst um stöðu og frama. Það hlýtur að hafa hryggt Jesú að sjá hve lífseig framagirnin var meðal lærisveinanna sem hann hafði kennt. Postularnir, sem hann hafði valið, sýndu meira að segja slíka framagirni. Síðasta daginn, sem Jesús var á lífi hér á jörð, voru þeir enn að metast um hver væri mestur. (Lúk. 22:24-27) En Jesús hélt áfram að leiðrétta þá vinsamlega og missti aldrei vonina um að þeir lærðu með tímanum að tileinka sér sama auðmjúka hugarfarið og hann. – Fil. 2:5-8.
13 Sérðu eiginleika Jehóva endurspeglast í því hvernig Jesús leiðrétti lærisveinana mildilega þegar þeir sýndu rangar tilhneigingar? Jehóva yfirgefur ekki þjóna sína þrátt fyrir að þeir geri oft mistök. Tekurðu eftir hvernig sömu eiginleikar birtust í fari Jesú? Ef við hugleiðum hvernig Guð kemur fram við þjóna sína er það óneitanlega hvatning fyrir okkur til að leita til hans í bæn og biðjast fyrirgefningar þegar okkur verður eitthvað á.
SONINN LANGAÐI TIL AÐ OPINBERA FÖÐUR SINN
14. Hvernig sýndi Jesús að hann langaði til að opinbera föður sinn?
14 Margir einræðisherrar reyna að hafa vald yfir þegnum sínum með því að veita þeim takmarkaðar upplýsingar. Jesús var hins vegar fús til að fræða aðra um föður sinn og opinbera þeim allt sem þeir þurftu að vita um hann. (Lestu Matteus 11:27.) Auk þess gaf hann lærisveinunum ,skilning til þess að þeir þekktu sannan Guð‘. (1. Jóh. 5:20) Það þýðir að Jesús opnaði hugi þeirra þannig að þeir gátu skilið það sem hann kenndi þeim um föðurinn. Hann sveipaði ekki föðurinn dulúð með óskiljanlegum kenningum eins og þeirri að hann væri þríeinn.
15. Af hverju opinberaði Jesús ekki allt sem hann vissi um föðurinn?
15 Opinberaði Jesús allt sem hann vissi um föðurinn? Nei, hann sýndi þá visku að segja ekki frá ýmsu sem hann vissi. (Lestu Jóhannes 16:12.) Af hverju? Af því að lærisveinarnir gátu ekki skilið það á þeim tíma. Jesús sagði þeim hins vegar að þeir yrðu leiddir „í allan sannleikann“ þegar „hjálparinn“ kæmi, það er að segja heilagur andi. (Jóh. 16:7, 13) Skynsamir foreldrar bíða stundum með að segja börnunum frá ýmsu þangað til þau eru orðin nógu gömul til að skilja það. Jesús beið sömuleiðis með að segja lærisveinunum ýmislegt um föðurinn þar til þeir höfðu náð nægum trúarþroska til að meðtaka það. Hann gerði sér grein fyrir takmörkum þeirra.
LÍKTU EFTIR JESÚ OG HJÁLPAÐU FÓLKI AÐ KYNNAST JEHÓVA
16, 17. Af hverju ert þú í aðstöðu til að segja öðrum frá Jehóva?
16 Þegar við kynnumst einhverjum vel og lærum að meta hann sem persónu langar okkur yfirleitt til að segja öðrum frá honum. Þegar Jesús var á jörð talaði hann oft um kærleiksríkan föður sinn. (Jóh. 17:25, 26) Getum við líkt eftir honum og opinberað Jehóva fyrir öðrum?
17 Eins og fram hefur komið hafði Jesús mun djúpstæðari þekkingu en aðrir á föður sínum. Hann var engu að síður fús til að segja frá sumu af því sem hann vissi. Hann gerði fylgjendum sínum meira að segja kleift að skilja ýmis djúptæk sannindi um eðli Guðs. Hefurðu ekki lært með hjálp Jesú að meta föðurinn meir en flestir aðrir nú á dögum? Við getum verið þakklát fyrir að Jesús skyldi vera fús til að opinbera okkur föður sinn með kennslu sinni og breytni. Það er svo mikill heiður að mega þekkja Jehóva að við getum með réttu hrósað okkur af því. (Jer. 9:23; 1. Kor. 1:31) Við höfum lagt okkur fram um að nálægja okkur Jehóva og hann hefur nálgast okkur. (Jak. 4:8) Þess vegna erum við núna í aðstöðu til að miðla öðrum af þekkingu okkar. Hvernig getum við gert það?
18, 19. Hvernig geturðu opinberað öðrum föðurinn? Skýrðu svarið.
18 Við þurfum að líkja eftir Jesú með því að opinbera föðurinn bæði með orðum okkar og verkum. Hafðu hugfast að margir sem við hittum í boðunarstarfinu vita ekki hver Guð er. Ef til vill hafa þeir ranghugmyndir um hann vegna falskra kenninga sem þeir hafa lært. Við getum sagt fólki frá nafni Guðs, vilja hans með mennina og persónuleika hans eins og hann er opinberaður í Biblíunni. Og stundum rekumst við kannski á eitthvað í Biblíunni þar sem eiginleikar Guðs birtast okkur með öðrum hætti en við þekktum áður. Það getur verið hvetjandi fyrir trúsystkini okkar ef við segjum þeim frá því.
19 Við ættum að líkja eftir Jesú og opinbera föðurinn með breytni okkar. Þegar fólk sér kærleika Krists birtast í verkum okkar laðast það bæði að honum og föðurnum. (Ef. 5:1, 2) Páll postuli hvatti: „Breytið eftir mér eins og ég breyti eftir Kristi.“ (1. Kor. 11:1) Það er ánægjulegt að geta gefið fólki rétta mynd af Jehóva með breytni okkar. Við skulum öll líkja eftir Jesú með því að opinbera öðrum föðurinn.