Lítur þú á Jehóva sem föður?
„DROTTINN, kenndu okkur að biðja.“ Þegar einn af lærisveinum Jesú kom með þessa beiðni svaraði hann: „Þegar þér biðjist fyrir, þá segið: Faðir, helgist þitt nafn.“ (Lúk. 11:1, 2) Jesús hefði getað hvatt þá til að ávarpa Jehóva með tilkomumiklum titlum eins og ,almáttugur Guð‘, „lærifaðir“, „skapari“, „hinn aldni“, eða ,konungur eilífðar‘. (1. Mós. 49:25; Jes. 30:20; 45:18; Dan. 7:9; 1. Tím. 1:17) Þess í stað valdi hann að ávarpa hann ,föður‘. Hvers vegna? Kannski vegna þess að hann vill að við nálgumst æðstu tignarpersónu í alheiminum á sama hátt og hógvært barn nálgast kærleiksríkan föður sinn.
Sumum finnst þó erfitt að hugsa um Guð sem föður sinn. Kristin kona að nafni Atsukoa segir: „Í mörg ár eftir að ég lét skírast fannst mér erfitt að nálgast Jehóva og biðja til hans sem föður.“ Ástæðan var eins og hún segir: „Ég man aldrei eftir því að pabbi hafi sýnt mér ástúð.“
Á þessum síðustu og verstu tímum er eðlilegri ástúð eða kærleika, sem búast mætti við frá föður, verulega ábótavant. (2. Tím. 3:1, 3) Það er því ekki óalgengt að mörgum líði eins og Atsuko. Samt sem áður er uppörvandi að vita að við höfum ríka ástæðu til að líta á Jehóva sem kærleiksríkan föður okkar.
Jehóva — gjafmildur faðir
Til að geta litið á Jehóva sem föður okkar verðum við að kynnast honum vel. „Enginn þekkir soninn nema faðirinn,“ sagði Jesús, „né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann“. (Matt. 11:27) Besta leiðin til að kynnast því hvernig Jehóva er sem faðir er að hugleiða það sem Jesús kenndi um hinn sanna Guð. Hvað opinberaði Jesús okkur um föðurinn?
Jesús viðurkenndi að Jehóva er höfundur lífsins þegar hann sagði: ,Faðirinn veitir mér líf‘. (Jóh. 6:57) Við eigum föðurnum einnig líf okkar að þakka. (Sálm. 36:10; Post. 17:28) Hvað fékk Jehóva til að gefa okkur lífið? Var það ekki kærleikur hans? Slíka gjöf ættum við að sjálfsögðu að endurgjalda himneskum föður okkar með kærleika.
Besta dæmið um kærleika Jehóva til mannanna er sú ráðstöfun hans að gefa Jesú sem lausnargjald. Þetta kærleiksverk gerir syndugu mannkyni kleift að eiga náið samband við Jehóva fyrir milligöngu ástkærs sonar hans. (Rómv. 5:12; 1. Jóh. 4:9, 10) Og vegna þess að okkar himneski faðir stendur við öll loforð sín getum við verið þess fullviss að þeir sem elska hann og hlýða honum muni að lokum fá „frelsið í dýrðinni með börnum Guðs“. — Rómv. 8:21.
Himneskur faðir okkar „lætur sól sína renna upp“ á hverjum degi. (Matt. 5:45) Okkur finnst ekki nauðsynlegt að biðja um að sólin komi upp. En þörfnumst við ekki og njótum hlýju sólarinnar? Jehóva er óviðjafnanlegur gjafari og veit hvers við þörfnumst jafnvel áður en við biðjum hann. Ættum við því ekki að taka okkur tíma til þess að hugleiða og velta fyrir okkur með þakklæti hvernig himneskur faðir okkar annast sköpun sína? — Matt. 6:8, 26.
Himneskur faðir okkar — „umhyggjusamur verndari“
Í spádómi Jesaja var þjóð Guðs til forna gefið eftirfarandi loforð: „Þótt fjöllin bifist og hæðirnar haggist mun kærleikur minn til þín ekki bifast og friðarsáttmáli minn ekki haggast, segir Drottinn sem miskunnar þér [„umhyggjusamur verndari þinn“, The Bible in Living English]“. (Jes. 54:10) Síðustu nóttina, sem Jesús lifði hér á jörð, undirstrikaði hann í bæn að Jehóva er vissulega „umhyggjusamur verndari“. Þegar Jesús bað fyrir fylgjendum sínum sagði hann: „Þeir eru í heiminum en ég kem til þín. Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni.“ (Jóh. 17:11, 14) Jehóva hefur vakað yfir og varðveitt fylgjendur Jesú.
Eitt af því sem Jehóva gerir til að vernda okkur gegn brögðum Satans er að láta okkur í té tímabæra andlega fæðu fyrir milligöngu hins ,trúa og hyggna þjóns‘. (Matt. 24:45) Það er nauðsynlegt að nærast á þessari styrkjandi fæðu til að geta ,klæðst alvæpni Guðs‘. Hugsum til dæmis um „skjöld trúarinnar“ sem við getum „slökkt með öll logandi skeyti hins vonda“. (Ef. 6:11, 16) Sterk trú verndar okkur fyrir andlegum skaða og hún sýnir að við viðurkennum mátt Jehóva.
Við getum lært meira um umhyggju föður okkar á himnum með því að hugleiða vel hvernig Jesús kom fram þegar hann var hér á jörð. Taktu eftir hvað segir í frásögunni í Markúsarguðspjalli 10:13-16. Þar er vitnað í orð Jesú til lærisveina sinna: „Leyfið börnunum að koma til mín.“ Börnin söfnuðust saman í kringum Jesú og hann tók þau blíðlega í faðm sér og blessaði þau. Þau hafa örugglega ljómað af ánægju! Og þar sem Jesús sagði: „Sá sem hefur séð mig hefur séð föðurinn,“ vitum við að hinn sanni Guð vill að við nálgumst sig. — Jóh. 14:9.
Jehóva Guð er ótakmörkuð uppspretta kærleika. Hann er óviðjafnanlegur gjafari og einstakur verndari sem vill að við séum honum náin. (Jak. 4:8) Jehóva er án nokkurs vafa besti faðir sem hægt er að hugsa sér.
Við njótum góðs af
Það er okkur til góðs að treysta Jehóva sem ástríkum og umhyggjusömum föður okkar. (Orðskv. 3:5, 6) Jesús naut góðs af því að treysta fullkomlega á föður sinn. „Ég er ekki einn,“ sagði hann við lærisveina sína, „með mér er faðirinn sem sendi mig.“ (Jóh. 8:16) Jesús var ávallt sannfærður um stuðning Jehóva. Við skírn sína fékk hann til dæmis kærleiksríka hughreystingu frá föðurnum sem lýsti yfir: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ (Matt. 3:15-17) Og aðeins örfáum andartökum áður en hann dó kallaði hann: „Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn!“ (Lúk. 23:46) Jesús bar ætíð bjargfast traust til föður síns.
Við getum borið sama traust til Jehóva. Þegar hann er með okkur höfum við ekkert að óttast. (Sálm. 118:6) Atsuko, sem getið var um í byrjun greinarinnar, var vön að treysta á eigin styrk þegar upp komu vandamál. En svo fór hún að kynna sér betur ævi Jesú og þjónustu hans og einbeitti sér sérstaklega að sambandi hans við himneskan föður sinn. Hver var árangurinn? „Ég uppgötvaði hvaða þýðingu það hefur að eiga föður og setja traust sitt á hann,“ segir Atsuko. Hún bætir við: „Ég fann fyrir sönnum friði og hamingju. Við höfum í raun og veru enga ástæðu til að hafa áhyggjur af neinu.“
Hvernig getum við haft enn meira gagn af að líta á Jehóva sem föður okkar? Yfirleitt elska börn foreldra sína og vilja þóknast þeim. Vegna kærleika gerði sonur Guðs ,ætíð það sem föðurnum þóknaðist‘. (Jóh. 8:29) Kærleikurinn, sem við berum til föðurins á himnum, getur á sama hátt fengið okkur til að breyta viturlega og vegsama hann. — Matt. 11:25; Jóh. 5:19.
Faðirinn ,heldur í hægri hönd okkar‘
Himneskur faðir okkar hefur líka séð okkur fyrir „hjálpara“ — heilögum anda sínum. „Hann [mun] leiða yður í allan sannleikann,“ sagði Jesús. (Jóh. 14:15-17; 16:12, 13) Heilagur andi Guðs getur leiðbeint okkur þannig að við fáum betri skilning á föðurnum. Hann getur hjálpað okkur að „brjóta niður vígi“ eins og fyrirfram mótaðar skoðanir, rangar hugmyndir eða brenglaðar hugsmíðar þannig að við getum ,hertekið hverja hugsun til hlýðni við Krist‘. (2. Kor. 10:4, 5) Við skulum þess vegna biðja Jehóva um hinn fyrirheitna „hjálpara“ í þeirri fullvissu að ,faðirinn himneski gefi þeim heilagan anda sem biðja hann‘. (Lúk. 11:13) Það er einnig viðeigandi að biðja um að heilagur andi hjálpi okkur að bindast Jehóva enn nánari böndum.
Barn finnur til öryggis og verndar og er hvergi hrætt þegar pabbinn heldur í hönd þess. Ef þú lítur í raun og veru á Jehóva sem föður þinn geturðu treyst á þessi hughreystandi orð: „Ég, Drottinn, er Guð þinn, ég held í hægri hönd þína og segi við þig:,Óttast eigi, ég bjarga þér.‘“ (Jes. 41:13) Þú getur hlotið þann stórkostlega heiður að „ganga“ með Guði að eilífu. (Míka 6:8, Biblían 1981) Haltu áfram að gera vilja hans og þú munt njóta kærleikans, gleðinnar og þeirrar öryggistilfinningar sem hlýst af því að líta á Jehóva sem föður.
[Neðanmáls]
a Nafninu hefur verið breytt.