Trú – kraftur sem styrkir okkur
TRÚIN býr yfir gríðarlegum krafti. Sem dæmi má nefna að Satan vill eyðileggja samband okkar við Jehóva en trúin gerir okkur kleift að ,slökkva öll logandi skeyti hins vonda‘. (Ef. 6:16) Með trúnni getum við yfirstigið vandamál sem eru eins og himinhá fjöll. Jesús sagði lærisveinum sínum: „Ef þið hafið trú eins og mustarðskorn getið þið sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað og það mun flytja sig.“ (Matt. 17:20) Fyrst trúin getur styrkt okkar andlega mann ættum við að velta eftirfarandi spurningum fyrir okkur: Hvað er trú? Hvaða áhrif hefur hjarta okkar á trúna? Hvernig getum við styrkt trúna? Og á hvern eigum við að trúa? – Rómv. 4:3.
HVAÐ ER TRÚ?
Trú er meira en bara að trúa sannleikanum eða viðurkenna hann því að jafnvel „illu andarnir trúa [að Guð sé til] og skelfast“. (Jak. 2:19) Hvað er þá trú?
Trú er tvíþætt að sögn Biblíunnar. Í fyrsta lagi er ,trúin fullvissa um það sem menn vona‘. (Hebr. 11:1a) Ef þú trúir ertu algerlega sannfærður um að allt sem Jehóva segir sé satt og muni rætast. Jehóva sagði Ísraelsmönnum til dæmis: „Ef unnt er að rjúfa sáttmála minn við daginn og sáttmála minn við nóttina svo að dagur hætti að taka við af nótt á réttum tíma er unnt að rjúfa sáttmála minn við Davíð, þjón minn.“ (Jer. 33:20, 21) Hefurðu einhvern tíma óttast að sólin hætti að rísa og setjast þannig að dagur og nótt hætti að skiptast á? Ef þú efast ekki um að náttúrulögmálin haldi jörðinni á sporbraut sinni um sólina og láti hana snúast um möndul sinn, ættirðu þá að efast um að skapari náttúrulögmálanna geti staðið við loforð sín? Auðvitað ekki. – Jes. 55:10, 11; Matt. 5:18.
Í öðru lagi er trú „sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá“. Trú er sögð vera „sannfæring“ eða „sannfærandi rök“ um það sem er ósýnilegt en samt raunverulegt. (Hebr. 11:1b; neðanmáls, NW) Á hvaða hátt? Hugsaðu þér að barn spyrji þig: Hvernig vitum við að loftið er til? Þó að þú hafir aldrei séð loftið myndirðu líklega benda barninu á ýmis rök fyrir tilvist þess – við öndum því að okkur, finnum fyrir vindinum og svo framvegis. Þegar barnið hefur meðtekið rökin viðurkennir það að eitthvað geti verið til þó að það sé ósýnilegt. Trúin byggist á sama hátt á góðum og gildum rökum. – Rómv. 1:20.
VIÐ VERÐUM AÐ HAFA RÉTT HJARTALAG
Trú byggist á rökum og þess vegna þarf maður að byrja á því að afla sér „þekkingar á sannleikanum“ til að hljóta trú. (1. Tím. 2:4) En það þarf meira til. Páll postuli skrifaði: „Með hjartanu er trúað til réttlætis.“ (Rómv. 10:10) Það er ekki nóg að trúa sannleikanum, maður þarf líka að kunna að meta hann. Þá fyrst finnur maður sig knúinn til að lifa í samræmi við hann. (Jak. 2:20) Sá sem er ekki þakklátur fyrir sannleikann getur jafnvel hafnað sannfærandi rökum ef hann heldur þrjóskulega í fyrir fram mótaðar hugmyndir eða vill afsaka rangar langanir sínar. (2. Pét. 3:3, 4; Júd. 18) Þetta er ástæðan fyrir því að það trúðu ekki allir á biblíutímanum þótt þeir hefðu orðið vitni að kraftaverkum. (4. Mós. 14:11; Jóh. 12:37) Heilagur andi Guðs kallar bara fram trú í hjörtum fólks sem tekur sannleikann fram yfir lygina. – Gal. 5:22; 2. Þess. 2:10, 11.
HVERNIG BYGGÐI DAVÍÐ UPP STERKA TRÚ?
Davíð konungur var í hópi þeirra sem bjó yfir mjög sterkri trú. (Hebr. 11:32, 33) En það gerðu ekki allir í fjölskyldu hans. Elíab, elsti bróðir Davíðs, sýndi til dæmis merki um veika trú eitt sinn þegar hann skammaði Davíð fyrir að spyrjast fyrir um ögrun Golíats. (1. Sam. 17:26–28) Trú er ekki meðfædd og enginn erfir hana frá foreldrum sínum. Trú Davíðs byggðist því á sambandi hans sjálfs við Guð.
Í 27. sálminum lýsir Davíð hvernig hann eignaðist svona sterka trú. (1. vers) Hann hugleiddi það sem hann hafði upplifað og hvernig Jehóva hafði tekist á við óvini hans. (2. og 3. vers) Hann hafði miklar mætur á fyrirkomulagi Jehóva varðandi tilbeiðsluna. (4. vers) Davíð tilbað Guð ásamt trúsystkinum sínum við tjaldbúðina. (6. vers) Hann leitaði einlæglega til Jehóva í bæn. (7. og 8. vers) Davíð vildi líka að Guð leiðbeindi sér í lífinu. (11. vers) Trúin var honum svo mikilvæg að hann sagði við sjálfan sig: „Hvar væri ég ef ég hefði ekki trú?“ – 13. vers, NW.
HVERNIG STYRJKUM VIÐ TRÚNA?
Við getum eignast trú eins og Davíð með því að tileinka okkur það hugarfar og venjur sem lýst er í 27. sálminum. Þar sem trú byggist á nákvæmri þekkingu er auðveldara að sýna þennan ávöxt anda Guðs ef við erum dugleg að stunda biblíunám og lesa biblíutengd rit. (Sálm. 1:2, 3) Gefðu þér tíma til að hugleiða þegar þú lest í Biblíunni og ritunum okkar. Hugleiðing er sá jarðvegur þar sem þakklætið vex. Því meiri mætur sem þú færð á Jehóva því sterkari verður löngun þín til að sýna trú með því að tilbiðja hann á samkomum og boða öðrum vonina sem þú berð í brjósti. (Hebr. 10:23–25) Við sýnum líka að við trúum þegar við ,biðjum stöðugt og þreytumst ekki‘. (Lúk. 18:1–8) Þess vegna skulum við ,biðja án afláts‘ og treysta að Jehóva ,beri umhyggju fyrir okkur‘. (1. Þess. 5:17; 1. Pét. 5:7) Trúin knýr okkur til verka og verkin styrkja trúna. – Jak. 2:22.
TRÚÐU Á JESÚ
Kvöldið áður en Jesús dó sagði hann við lærisveina sína: „Trúið á Guð og trúið á mig.“ (Jóh. 14:1) Við þurfum sem sagt að trúa bæði á Jehóva og Jesú. Hvað felst í því að trúa á Jesú? Skoðum þrennt.
Í fyrsta lagi ættirðu að líta á lausnarfórnina sem persónulega gjöf Guðs til þín. Páll postuli sagði: ,Ég lifi í trúnni á Guðs son sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.‘ (Gal. 2:20) Ef þú trúir á Jesú trúirðu staðfastlega að lausnarfórnin nái til þín, sé grundvöllurinn að því að þú fáir syndir þínar fyrirgefnar, veiti þér von um eilíft líf og sé skýrasta merki þess að Guðs elski þig. (Rómv. 8:32, 38, 39; Ef. 1:7) Það hjálpar þér að bægja frá þér neikvæðum hugsunum um sjálfan þig. – 2. Þess. 2:16, 17.
Í öðru lagi ættirðu að styrkja sambandið við Jehóva með því að biðja en það geturðu gert vegna fórnar Jesú. Hennar vegna getum við beðið til Jehóva „með djörfung“ og hlotið „miskunn og náð þegar við erum hjálparþurfi“. (Hebr. 4:15, 16; 10:19–22) Bænin hjálpar okkur að vera ákveðin í að standast freistingar og syndga ekki. – Lúk. 22:40.
Í þriðja lagi skaltu hlýða Jesú. Jóhannes postuli skrifaði: „Sá sem trúir á soninn hefur eilíft líf en sá sem óhlýðnast syninum mun ekki öðlast líf heldur varir reiði Guðs yfir honum.“ (Jóh. 3:36) Þú tekur eftir að Jóhannes stillir því upp sem andstæðum að trúa og að óhlýðnast. Þú sýnir sem sagt að þú trúir á Jesú þegar þú hlýðir honum. Að hlýða Jesú felur í sér að fylgja ,lögmáli Krists‘, það er að segja öllu sem hann kenndi og sagði að við ættum að gera. (Gal. 6:2) Þú hlýðir líka Jesú með því að fara eftir leiðbeiningunum sem hann gefur fyrir milligöngu ,hins trúa og hyggna þjóns‘. (Matt. 24:45) Þegar við hlýðum Jesú fáum við styrk til að halda út í stormum og mótlæti lífsins. – Lúk. 6:47, 48.
„BYGGIÐ YKKUR SJÁLF UPP Í HELGUSTU TRÚ YKKAR“
Maður hrópaði eitt sinn til Jesú: „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.“ (Mark. 9:24) Maðurinn hafði trú að vissu marki en viðurkenndi auðmjúkur að hann þyrfti sterkari trú. Á einhverjum tímapunkti eigum við öll eftir að þurfa sterkari trú, rétt eins og þessi maður. Við getum öll styrkt trúna núna. Eins og við höfum séð styrkjum við hana þegar við lesum og hugleiðum Biblíuna en þannig lærum við að meta Jehóva enn meir. Trú okkar vex líka þegar við tilbiðjum Jehóva með trúsystkinum okkar, segjum frá von okkar og biðjum stöðugt. Þegar við styrkjum trúna hljótum við líka bestu laun sem hugsast getur. Í orði Guðs fáum við þessa hvatningu: „Þið elskuðu, byggið ykkur sjálf upp í helgustu trú ykkar.“ Þannig látum við ,kærleika Guðs varðveita okkur‘. – Júd. 20, 21.