Þegar Jesús kemur í dýrð ríkis síns
„Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Mannssoninn koma í ríki sínu.“ — MATTEUS 16:28.
1, 2. Hvað gerðist skömmu eftir hvítasunnu árið 32 og hvaða tilgangi þjónaði það?
SKÖMMU eftir hvítasunnu árið 32 sáu þrír af postulum Jesú Krists eftirminnilega sýn. Samkvæmt hinni innblásnu frásögu ‚tók Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans og fór með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra.‘ — Matteus 17:1, 2.
2 Ummyndunarsýnin átti sér stað á þýðingarmiklum tíma. Jesús var byrjaður að segja fylgjendum sínum frá því að hann ætti að þjást og deyja í Jerúsalem, en þeir áttu erfitt með að skilja það. (Matteus 16:21-23) Sýnin styrkti trú postulanna þriggja og bjó þá undir væntanlegan dauða hans, og einnig undir það áralanga starf og prófraunir sem kristni söfnuðurinn yrði fyrir í kjölfarið. Getum við sem nú lifum lært eitthvað af sýninni? Já, vegna þess að það sem hún boðaði er raunverulega að gerast á okkar tímum.
3, 4. (a) Hvað sagði Jesús sex dögum fyrir ummyndunina? (b) Lýstu ummynduninni.
3 Sex dögum fyrir ummyndunina sagði Jesús fylgjendum sínum: „Mannssonurinn mun koma í dýrð föður síns með englum sínum, og þá mun hann gjalda sérhverjum eftir breytni hans.“ Þessi orð áttu að uppfyllast við ‚endalok veraldar‘ eða heimskerfisins. Jesús bætti við: „Sannlega segi ég yður: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Mannssoninn koma í ríki sínu.“ (Matteus 16:27, 28; 24:3; 25:31-34, 41; Daníel 12:4) Þessi síðustu orð uppfylltust með ummynduninni.
4 Hvað sáu postularnir þrír eiginlega? Hér er lýsing Lúkasar á atburðinum: „Er [Jesús] var að biðjast fyrir, varð yfirlit ásjónu hans annað, og klæði hans urðu hvít og skínandi. Og tveir menn voru á tali við hann. Það voru þeir Móse og Elía. Þeir birtust í dýrð og ræddu um brottför hans, er hann skyldi fullna í Jerúsalem.“ Þá „kom ský og skyggði yfir [postulana], og urðu þeir hræddir, er þeir komu inn í skýið. Og rödd kom úr skýinu og sagði: ‚Þessi er sonur minn, útvalinn, hlýðið á hann!‘“ — Lúkas 9:29-31, 34, 35.
Trúin styrkist
5. Hvaða áhrif hafði ummyndunin á Pétur postula?
5 Pétur postuli var áður búinn að segja að Jesús væri „Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“ (Matteus 16:16) Orð Jehóva af himni staðfestu að það væri rétt, og ummyndun Jesú Krists var forsmekkur að komu hans í mætti og dýrð sem konungur Guðsríkis til að dæma mannkyn um síðir. Meira en 30 árum eftir ummyndunina skrifaði Pétur: „Ekki fylgdum vér uppspunnum skröksögum, er vér kunngjörðum yður mátt og komu Drottins vors Jesú Krists, heldur vorum vér sjónarvottar að hátign hans. Því að hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð, þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: ‚Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.‘ Þessa raust heyrðum vér sjálfir, koma frá himni, þá er vér vorum með honum á fjallinu helga.“ — 2. Pétursbréf 1:16-18; 1. Pétursbréf 4:17.
6. Hvaða atburðir áttu sér stað eftir ummyndunina?
6 Það sem postularnir þrír sáu styrkir líka trú okkar sem nú lifum. Margt hefur auðvitað gerst síðan árið 32. Árið eftir dó Jesús, var reistur upp og steig upp til hægri handar föður síns. (Postulasagan 2:29-36) Á hvítasunnunni það ár var hinn nýi „Ísrael Guðs“ leiddur fram og mikið prédikunarstarf hófst, fyrst í Jerúsalem og síðar allt til endimarka jarðar. (Galatabréfið 6:16; Postulasagan 1:8) Trú fylgjenda Jesú var reynd næstum þegar í stað. Postularnir voru handteknir og barðir illilega fyrir að vilja ekki hætta að prédika. Skömmu síðar var Stefán myrtur. Síðan var Jakob drepinn, en hann hafði verið sjónarvottur að ummynduninni. (Postulasagan 5:17-40; 6:8–7:60; 12:1, 2) En Pétur og Jóhannes héldu lífi og þjónuðu Jehóva trúfastir í mörg ár til viðbótar. Undir lok fyrstu aldar skrásetti Jóhannes meira að segja fleiri sýnir sem hann sá af himneskri dýrð Jesú. — Opinberunarbókin 1:12-20; 14:14; 19:11-16.
7. (a) Hvenær tók ummyndunarsýnin að uppfyllast? (b) Hvenær endurgalt Jesús sumum eftir breytni þeirra?
7 Allt frá því að ‚Drottins dagur‘ rann upp árið 1914 hafa margar þær sýnir, sem Jóhannes sá, uppfyllst. (Opinberunarbókin 1:10) Hvað um ‚komu Jesú í dýrð föður síns‘ sem ummyndunin boðaði? Þessi sýn tók að uppfyllast við fæðingu Guðsríkis á himnum árið 1914. Þegar Jesús rann upp eins og morgunstjarna á alheimsvettvang sem nýkrýndur konungur var eins og nýr dagur gengi í garð. (2. Pétursbréf 1:19; Opinberunarbókin 11:15; 22:16) Endurgalt Jesús þá einhverjum eftir breytni þeirra? Já. Sterk rök eru fyrir því að himnesk upprisa smurðra kristinna manna hafi hafist skömmu síðar. — 2. Tímóteusarbréf 4:8; Opinberunarbókin 14:13.
8. Hvaða atburðir marka hámarkið að uppfyllingu ummyndunarsýnarinnar?
8 En innan skamms kemur Jesús „í dýrð sinni og allir englar með honum“ til að dæma mannkynið í heild. (Matteus 25:31) Á þeim tíma opinberar hann sig í allri sinni mikilfenglegu dýrð til að veita „sérhverjum“ réttlátt endurgjald eftir breytni hans. Sauðumlíkir menn erfa eilíft líf í ríkinu sem þeim er búið, en þeir sem líkjast höfrum fara til „eilífrar refsingar“ eða tortímingar. Þetta verður stórkostlegur endir á uppfyllingu ummyndunarsýnarinnar! — Matteus 25:34, 41, 46; Markús 8:38; 2. Þessaloníkubréf 1:6-10.
Vegsamlegir félagar Jesú
9. Eigum við að reikna með að Móse og Elía verði með Jesú í uppfyllingu ummyndunarsýnarinnar? Skýrðu svarið.
9 Jesús var ekki einn í ummynduninni. Móse og Elía sáust með honum. (Matteus 17:2, 3) Voru þeir bókstaflega viðstaddir? Nei, því að báðir voru löngu dánir og sváfu dauðasvefni í dufti jarðar og biðu upprisu. (Prédikarinn 9:5, 10; Hebreabréfið 11:35) Birtast þeir með Jesú þegar hann kemur í himneskri dýrð sinni? Nei, því að Móse og Elía voru uppi áður en mönnum veittist himnesk von. Þeir fá hlutdeild í jarðneskri ‚upprisu réttlátra.‘ (Postulasagan 24:15) Það er því táknrænt að þeir skuli birtast í ummynduninni. Táknrænt um hvað?
10, 11. Hverja tákna Elía og Móse í öðru samhengi?
10 Í öðru samhengi eru Móse og Elía spádómlegar persónur. Sem meðalgangari lagasáttmálans táknaði Móse Jesú, meðalgangara nýja sáttmálans. (5. Mósebók 18:18; Galatabréfið 3:19; Hebreabréfið 8:6) Elía táknaði Jóhannes skírara, fyrirrennara Messíasar. (Matteus 17:11-13) Og í Opinberunarbókinni 11. kafla tákna Móse og Elía hinar smurðu leifar á endalokatímanum. Hvernig vitum við það?
11 Flettu upp í Opinberunarbókinni 11:1-6. Í 3. versi lesum við: „Vottana mína tvo mun ég láta flytja spádómsorð í eitt þúsund tvö hundruð og sextíu daga, sekkjum klædda.“ Þessi spádómur uppfylltist á leifum smurðra kristinna manna í fyrri heimsstyrjöldinni.a Hvers vegna voru vottarnir tveir? Vegna þess að hinar smurðu leifar vinna verk sem eru í andlegum skilningi lík verkum Móse og Elía. Vers 5 og 6 segja: „Ef einhver vill granda þeim [vottunum tveim], gengur eldur út úr munni þeirra og eyðir óvinum þeirra. Ef einhver skyldi vilja granda þeim, skal hann með sama hætti deyddur verða. Þeir hafa vald til að loka himninum, til þess að eigi rigni um spádómsdaga þeirra. Og þeir hafa vald yfir vötnunum, að breyta þeim í blóð og slá jörðina með hvers kyns plágu, svo oft sem þeir vilja.“ Þannig erum við minnt á kraftaverk sem Elía og Móse unnu. — 4. Mósebók 16:31-34; 1. Konungabók 17:1; 2. Konungabók 1:9-12.
12. Hverja tákna Móse og Elía í ummynduninni?
12 Hverja tákna þá Móse og Elía í ummynduninni? Lúkas segir að þeir hafi birst „í dýrð“ með Jesú. (Lúkas 9:31) Þeir tákna greinilega kristna menn sem eru smurðir heilögum anda sem „samarfar“ Jesú og öðlast þar af leiðandi þá dásamlegu von að verða „vegsamlegir með honum.“ (Rómverjabréfið 8:17) Upprisnir, smurðir menn verða með Jesú þegar hann kemur í dýrð föður síns til að „gjalda sérhverjum eftir breytni hans.“ — Matteus 16:27.
Vottar líkir Móse og Elía
13. Hvað gerir Móse og Elía að viðeigandi spádómlegum táknmyndum um smurða samerfingja Jesú sem verða vegsamlegir með honum?
13 Eftirtektarverð atriði sýna að Móse og Elía eru viðeigandi spádómlegar táknmyndir um samerfingja Jesú. Bæði Móse og Elía voru talsmenn Jehóva um langt árabil. Báðir áttu í höggi við reiðan valdhafa. Á neyðarstund var báðum haldið uppi af erlendri fjölskyldu. Báðir spáðu djarflega fyrir konungum og stóðu einarðir gegn falsspámönnum. Bæði Móse og Elía sáu mátt Jehóva birtast á Sínaífjalli (einnig kallað Hóreb). Báðir tilnefndu sér arftaka austan við Jórdan. Og á tímum Móse (ásamt Jósúa) og Elía (ásamt Elísa) voru unnin flest kraftaverk ef frá eru talin þau sem gerðust á ævi Jesú Krists.b
14. Hvernig hafa hinir smurðu þjónað sem talsmenn Jehóva líkt og Móse og Elía?
14 Minnir ekki allt þetta á Ísrael Guðs? Jú, vissulega. Jesús sagði trúföstum fylgjendum sínum: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matteus 28:19, 20) Hlýðnir þessum orðum hafa smurðir kristnir menn þjónað sem talsmenn Jehóva frá hvítasunnunni árið 33 allt fram á okkar dag. Líkt og Móse og Elía hafa þeir átt í höggi við reiða valdhafa og borið vitni fyrir þeim. Jesús sagði postulum sínum 12: „Þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna þeim og heiðingjunum til vitnisburðar.“ (Matteus 10:18) Orð hans hafa ræst margsinnis í sögu kristna safnaðarins. — Postulasagan 25:6, 11, 12, 24-27; 26:3.
15, 16. Hvað er hliðstætt með hinum smurðu annars vegar og Móse og Elía hins vegar í sambandi við (a) óttalausa afstöðu með sannleikanum? (b) hjálp frá mönnum af öðrum þjóðum?
15 Smurðir kristnir menn hafa enn fremur staðið jafnóttalausir og Móse og Elía með sannleikanum og gegn trúarlegri villu. Mundu hvernig Páll fordæmdi falsspámanninn og Gyðinginn Barjesú, og hve háttvíslega en einbeitt hann afhjúpaði að guðir Aþeninga væru falsguðir. (Postulasagan 13:6-12; 17:16, 22-31) Mundu líka að á okkar tímum hafa hinar smurðu leifar afhjúpað kristna heiminn djarfmannlega og þjakað hann með slíkum vitnisburði. — Opinberunarbókin 8:7-12.c
16 Þegar Móse flúði undan reiði Faraós leitaði hann hælis á heimili manns af annarri þjóð, Regúels nokkurs sem einnig er nefndur Jetró. Síðar fékk Móse verðmæt ráð hjá Regúel um skipulagsmál, og Hóbab sonur hans var leiðsögumaður Ísraelsmanna í eyðimörkinni.d (2. Mósebók 2:15-22; 18:5-27; 4. Mósebók 10:29) Hafa andlegir Ísraelsmenn notið svipaðrar hjálpar manna sem ekki eru andasmurðir og tilheyra ekki Ísrael Guðs? Já, þeir hafa notið stuðnings ‚mikils múgs‘ ‚annarra sauða‘ sem hafa komið fram á sjónarsviðið núna á síðustu dögum. (Opinberunarbókin 7:9; Jóhannes 10:16; Jesaja 61:5) Jesús sagði í spádómi hve hlýlegan og kærleiksríkan stuðning þessir ‚sauðir‘ myndu veita smurðum bræðrum hans: „Hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín. . . . Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.“ — Matteus 25:35-40.
17. Hvernig urðu hinir smurðu fyrir svipaðri reynslu og Elía á Hórebfjalli?
17 Og Ísrael Guðs hefur orðið fyrir sambærilegri reynslu og Elía á Hórebfjalli.e Líkt og Elía var á flótta undan Jesebel drottningu á þeim tíma, eins héldu hinar hræddu, smurðu leifar að starf þeirra væri á enda við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Þá, líkt og Elía, áttu þeir samfund við Jehóva sem var kominn til að dæma þau samtök sem sögðust vera ‚hús Guðs.‘ (1. Pétursbréf 4:17; Malakí 3:1-3) Kristna heiminum reyndist áfátt en hinar smurðu leifar voru viðurkenndar sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ og voru settar yfir allar jarðneskar eigur Jesú. (Matteus 24:45-47) Á Hóreb heyrði Elía ‚blíðan vindblæ hvísla‘ en það var rödd Jehóva sem fékk honum meira verk að vinna. Á kyrrðartímunum eftir stríðið heyrðu trúfastir, smurðir þjónar Jehóva rödd hans tala á síðum Biblíunnar. Þeir skildu líka að þeir höfðu verk að vinna. — 1. Konungabók 19:4, 9-18; Opinberunarbókin 11:7-13.
18. Hvernig hefur máttur Jehóva birst með einstökum hætti fyrir milligöngu Ísraels Guðs?
18 Og að síðustu má spyrja hvort máttur Jehóva hafi birst með einstökum hætti fyrir milligöngu Ísraels Guðs. Eftir dauða Jesú unnu postularnir mörg kraftaverk, en smám saman liðu þau undir lok. (1. Korintubréf 13:8-13) Núna sjáum við ekki bókstafleg kraftaverk eiga sér stað. Hins vegar sagði Jesús fylgjendum sínum: „Sannlega segi ég yður: Sá sem trúir á mig, mun einnig gjöra þau verk, sem ég gjöri. Og hann mun gjöra meiri verk en þau.“ (Jóhannes 14:12) Þetta rættist upphaflega þegar lærisveinar hans prédikuðu fagnaðarerindið um allt Rómaveldi á fyrstu öld. (Rómverjabréfið 10:18) Enn meiri verk hafa verið unnin núna undir forystu hinna smurðu leifa í sambandi við prédikun fagnaðarerindisins „um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar.“ (Matteus 24:14) Og hver er árangurinn? Á 20. öldinni hefur verið safnað fleiri vígðum, trúföstum þjónum Jehóva en nokkru sinni fyrr í sögunni. (Opinberunarbókin 5:9, 10; 7:9, 10) Þetta er stórbrotið merki um mátt Jehóva! — Jesaja 60:22.
Bræður Jesú koma í dýrð
19. Hvenær sjást smurðir bræður Jesú með honum í dýrð?
19 Þegar leifar smurðra bræðra Jesú ljúka jarðnesku lífsskeiði sínu eru þeir gerðir vegsamlegir með honum. (Rómverjabréfið 2:6, 7; 1. Korintubréf 15:53; 1. Þessaloníkubréf 4:14, 17) Þar með verða þeir ódauðlegir konungar og prestar í ríkinu á himnum. Ásamt Jesú ‚stjórna þeir þjóðum með járnsprota eins og leirker eru moluð.‘ (Opinberunarbókin 2:27; 20:4-6; Sálmur 110:2, 5, 6) Ásamt Jesú sitja þeir í hásætum og dæma „tólf ættkvíslir Ísraels.“ (Matteus 19:28) Sköpunin, sem stynur, hefur beðið þessara atburða með óþreyju en þeir eru þáttur í því að „Guðs börn verði opinber.“ — Rómverjabréfið 8:19-21; 2. Þessaloníkubréf 1:6-8.
20. (a) Í sambandi við hvaða framtíðarvon styrkti ummyndunin trú Péturs? (b) Hvernig styrkir ummyndunin kristna menn nú á tímum?
20 Páll talaði um opinberun Jesú í ‚þrengingunni miklu‘ þegar hann skrifaði: „Hann kemur til að vegsamast meðal sinna heilögu og hljóta lof meðal allra, sem trú hafa tekið.“ (Matteus 24:21; 2. Þessaloníkubréf 1:10) Hvílíkar framtíðarhorfur fyrir Pétur, Jakob, Jóhannes og alla aðra andasmurða kristna menn! Ummyndunin styrkti trú Péturs. Að lesa um hana styrkir vissulega líka trú okkar og eflir það traust að Jesús ‚gjaldi sérhverjum eftir breytni hans‘ bráðlega. Trúfastir, smurðir kristnir menn, sem hafa lifað fram á þennan dag, sjá það traust sitt staðfest að þeir verði vegsamlegir með Jesú. Hinir aðrir sauðir styrkjast í vitneskjunni um að hann bjargi þeim gegnum endalok þessa illa heimskerfis inn í hinn dýrlega nýja heim. (Opinberunarbókin 7:14) Það er okkur mikil hvatning til að vera staðföst allt til enda! Og þessi sýn getur kennt okkur margt fleira eins og fram kemur í greininni á eftir.
[Neðanmáls]
a Sjá bækurnar „Helgist þitt nafn,“ bls. 313-14 og Opinberunarbókin — hið mikla hámark hennar er í nánd!, bls. 164-5, útgefnar af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
b 2. Mósebók 2:15-22; 3:1-6; 5:2; 7:8-13; 8:18; 19:16-19; 5. Mósebók 31:23; 1. Konungabók 17:8-16; 18:21-40; 19:1, 2, 8-18; 2. Konungabók 2:1-14.
c Sjá bókina Opinberunarbókin — hið mikla hámark hennar er í nánd!, bls. 133-41.
d Sjá bókina Þú getur lifað Harmagedón inn í nýjan heim Guðs, bls. 281-3, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
e Sjá bókina „Helgist þitt nafn,“ bls. 317-20.
Manstu?
◻ Hverjir birtust með Jesú í ummynduninni?
◻ Hvernig styrkti ummyndunin trú postulanna?
◻ Hverja táknuðu Móse og Elía þegar þeir birtust „í dýrð“ með Jesú í ummynduninni?
◻ Hvað er hliðstætt með Móse og Elía annars vegar og Ísrael Guðs hins vegar?
[Mynd á blaðsíðu 10]
Ummyndunin hefur styrkt trú kristinna manna fyrr og nú.