Boðið ríki Jehóva með djörfung!
„Páll . . . tók á móti öllum þeim, sem komu til hans. Hann boðaði Guðs ríki.“ — POSTULASAGAN 28:30, 31.
1, 2. Á hverju sést að Guð studdi við bakið á Páli postula og hvaða fordæmi gaf hann?
JEHÓVA heldur boðberum Guðsríkis alltaf uppi. Þannig styrkti hann Pál postula. Með stuðningi Guðs gekk Páll fyrir valdhafa, stóð af sér skrílsárásir og boðaði ríki Jehóva með djörfung.
2 Jafnvel meðan Páll var fangi í Róm ‚tók hann á móti öllum þeim sem komu til hans. Hann boðaði þeim Guðs ríki.‘ (Postulasagan 28:30, 31) Þetta er gott fordæmi vottum Jehóva nú á tímum! Við getum margt lært af þjónustu Páls eins og Lúkas skýrir frá henni í síðustu köflum Postulasögunnar. — 20:1-28:31.
Trúbræður uppbyggðir
3. Hvað gerðist í Tróas og hvað er hliðstætt því nú á dögum?
3 Eftir að látunum í Efesus linnti hélt Páll áfram þriðju trúboðsferð sinni. (20:1-12) En er hann bjóst til að sigla til Sýrlands komst hann að raun um að Gyðingar brugguðu honum launráð. Ef til vill höfðu þeir áformað að taka sér far með sama skipi og drepa Pál og fór hann því um Makedóníu í staðinn. Hann dvaldist um vikutíma í Tróas til að uppbyggja trúbræður sína, líkt og farandumsjónarmenn gera nú á dögum meðal votta Jehóva. Kvöldið fyrir burtför sína flutti Páll langa ræðu allt fram til miðnættis. Evtýkus, sem sat í glugganum, var greinilega þreyttur eftir erfiði dagsins og sofnaði. Féll hann sofandi ofan af þriðju hæð og beið bana en Páll vakti hann aftur til lífs. Það hlýtur að hafa vakið mikla gleði. Hugsaðu þér þá hvílík gleði mun hljótast af þegar milljónir manna vera reistar upp í hinum komandi nýja heimi. — Jóhannes 5:28, 29.
4. Hvað kenndi Páll öldungunum í Efesus varðandi þjónustuna?
4 Á leiðinni til Jerúsalem kom Páll við í Míletus og hitti þar öldungana í Efesus. (20:13-21) Hann minnti þá á að hann hefði kennt þeim „í heimahúsum“ og ‚vitnað rækilega bæði fyrir Gyðingum og Grikkjum um afturhvarf til Guðs og trú á Drottin vorn Jesú.‘ Þeir sem nú voru orðnir öldungar höfðu iðrast og tekið trú. Postulinn hafði líka þjálfað þá til að boða Guðsríki með djörfung hús úr húsi þeim sem ekki höfðu tekið trú, líkt og vottar Jehóva gera nú á dögum.
5. (a) Hvernig var Páll til fyrirmyndar í því að lúta handleiðslu heilags anda? (b) Hvers vegna þurftu öldungarnir hvatningu til að ‚hafa gát á sjálfum sér og allri hjörðinni‘?
5 Páll var til fyrirmyndar í því að lúta leiðsögn heilags anda Guðs. (20:22-30) „Knúinn af andanum,“ þeirri tilfinningu að honum væri skylt að fylgja leiðsögn hans, ætlaði postulinn til Jerúsalem þótt þar biðu hans fjötrar og þrengingar. Hann mat lífið mikils en ráðvendni við Guð var honum þó mikilvægust eins og ætti að vera einnig hjá okkur. Páll hvatti öldungana til að ‚hafa gát á allri hjörðinni sem heilagur andi fól þeim til umsjónar.‘ Eftir að hann væri „farinn“ (það er að segja dáinn) myndu „skæðir vargar“ rísa upp og „eigi þyrma hjörðinni.“ Slíkir menn myndu rísa upp úr hópi öldunganna sjálfra og lærisveinar, sem ekki hefðu næga dómgreind til að bera, myndu meðtaka rangsnúnar kenningar þeirra. — 2. Þessaloníkubréf 2:6.
6. (a) Hvers vegna gat Páll óhikað falið öldungana Guði á hendur? (b) Hvernig fylgdi Páll meginreglunni í Postulasögunni 20:35?
6 Öldungarnir þyrftu að halda andlegri vöku sinni til að standa vörð gegn fráhvarfi. (20:31-38) Postulinn hafði kennt þeim hebresku Ritningarnar og kenningu Jesú sem gat með helgunarmætti sínum hjálpað þeim að öðlast hið himneska ríki, „arfleifð með öllum þeim, sem helgaðir eru.“ Með því að vinna til að sjá sér og samferðamönnum sínum farborða hafði Páll einnig hvatt öldungana til að vera iðjusamir. (Postulasagan 18:1-3; 1. Þessaloníkubréf 2:9) Ef við fylgjum sömu stefnu og hjálpum öðrum að öðlast eilíft líf, þá munum við meta að verðleikum orð Jesú: „Sælla er að gefa en þiggja.“ Hugmyndina að baki þessum orðum er að finna í guðspjöllunum en Páll einn hefur þau orðrétt eftir. Vera má að hann hafi haft þau eftir öðrum eða vitrast þau vegna innblásturs. Við getum uppskorið mikla hamingju ef við erum jafnfórnfús og Páll. Hann hafði gefið svo af sjálfum sér að öldungarnir í Efesus hryggðust mjög er hann kvaddi þá!
Vilji Jehóva skal verða
7. Hvernig setti Páll fordæmi í því að lúta vilja Guðs?
7 Er þriðja trúboðsferð Páls var næstum á enda (um árið 56) gaf hann gott fordæmi í því að lúta vilja Guðs. (21:1-14) Í Sesareu dvöldu hann og ferðafélagar hans hjá Filippusi en hann átti fjórar ógiftar dætur gæddar „spádómsgáfu“ sem fólst í því að þær sögðu fyrir atburði með hjálp heilags anda. Þar batt spámaðurinn Agabus fætur sínar og hendur með belti Páls og sagði fyrir atbeina heilags anda að þannig myndu Gyðingar binda eiganda beltisins í Jerúsalem og selja hann í hendur heiðingjum. „Ég er eigi aðeins reiðubúinn að láta binda mig, heldur og að deyja í Jerúsalem fyrir nafn Drottins Jesú,“ sagði Páll. Lærisveinarnir róuðust og sögðu: „Verði [Jehóva] vilji.“
8. Hvað getum við haft í huga ef okkur finnst stundum erfitt að fylgja góðum ráðum?
8 Páll sagði öldungunum í Jerúsalem frá því sem Guð hafði gert meðal heiðingjanna vegna þjónustu hans. (21:15-26) Ef við eigum einhvern tíma erfitt með að þiggja góð ráð skulum við rifja upp hvernig Páll þáði þau. Til að sanna að hann var ekki að kenna Gyðingum meðal heiðinna þjóða „að hverfa frá Móse“ fór hann að ráði öldunganna og lét hreinsast trúarlega ásamt fjórum öðrum mönnum og bar af því kostnaðinn. Þótt dauði Jesú hafi vikið lögmálinu úr vegi gerði Páll ekki rangt í því að framfylgja ákvæðum þess um heit. — Rómverjabréfið 7:12-14.
Óbugaður þrátt fyrir skrílsárás
9. Hvað er hliðstætt með reynslu Páls og votta Jehóva nú á dögum?
9 Vottar Jehóva hafa oft varðveitt ráðvendni við Guð er æstur skríll hefur gert árás á þá. (Sjá til dæmis Árbók votta Jehóva 1975, bls. 180-90.) Gyðingar frá Litlu-Asíu æstu til uppþots gegn Páli. (21:27-40) Er þeir sáu Trófímus frá Efesus með honum sökuðu þeir postulann ranglega um að saurga musterið með því að taka þangað með sér Grikki. Þeir voru að því komnir að lífláta Pál er rómverski hersveitarforinginn Kládíus Lýsías og menn hans bældu uppþotið niður. Eins og sagt var fyrir lét Lýsías fjötra Pál (en að undirlagi Gyðinga). (Postulasagan 21:11) Verið var að leiða postulann inn í búðir hermannanna við musterisforgarðinn er Lýsías komst að raun um að Páll var ekki undirróðursmaður heldur Gyðingur sem leyfðist að fara inn á musterissvæðið. Páll fékk leyfi til að tala og ávarpaði mannfjöldann á hebresku.
10. Hvernig tóku Gyðingar í Jerúsalem máli Páls og hvers vegna var hann ekki húðstrýktur?
10 Páll bar djarflega vitni. (22:1-30) Hann sagði frá því að hann væri sjálfur Gyðingur og hefði fræðst hjá hinum virta Gamalíel. Postulinn skýrði frá því að hann hafði verið á leið til Damaskus til að ofsækja þá sem fylgdu veginum er hann blindaðist við að sjá hinn dýrlega gerða Jesú Krist í sýn. Ananías hafði síðan veitt honum sjónina á ný. Síðar hafði Drottinn sagt Páli: „Far þú, því að ég mun senda þig til heiðingja langt í burtu.“ Þessi orð voru eins og olía á eld. Mannfjöldinn æpti að Páll væri ekki þess verður að lifa, vingsaði klæðum sínum og þyrlaði ryki í loft upp í reiði sinni. Lýsías lét því fara með Pál inn í búðir hermannanna til að hýða hann og kúga til sagna um það hvers vegna Gyðingar væru á móti honum. Við hýðingu var notuð leðursvipa með hnútum eða göddum úr málmi eða beini. Páll kom í veg fyrir hýðingu er hann spurði: ‚Leyfist ykkur að hýða rómverskan mann án dóms og laga?‘ Er Lýsías uppgötvaði að Páll var rómverskur borgari varð hann hræddur og lét leiða hann fyrir æðstaráðið til að komast að raun um hvers vegna Gyðingar ákærðu hann.
11. Í hvaða skilningi var Páll farísei?
11 Er Páll hóf vörn sína fyrir æðstaráðinu með þeim orðum að hann hefði „í öllu breytt með góðri samvisku fyrir Guði“ skipaði Ananías æðsti prestur að hann skyldi sleginn. (23:1-10) Páll sagði þá: „Guð mun ljósta þig, kalkaði veggur.“ „Smánar þú æðsta prest Guðs?“ spurðu sumir. Vera kann að Páll hafi ekki þekkt Ananías sökum sjóndepru. Er hann komst að raun um að farísear og saddúkear sátu í ráðinu sagði hann: ‚Ég er farísei, lögsóttur fyrir vonina um upprisu dauðra.‘ Við það klofnaði æðstaráðið því að farísear trúðu á upprisu en saddúkear ekki. Svo hörð varð deilan að Lýsías þurfti að skerast í leikinn og bjarga postulanum.
12. Hvernig bjargaðist Páll er Gyðingar ætluðu sér að ráða hann af dögum?
12 Síðan gerðist það að Páll komst undan Gyðingum er bundist höfðu samtökum um að ráða hann af dögum. (23:11-35) Fjörutíu Gyðingar höfðu strengt þess heit að eta hvorki né drekka fyrr en þeir hefðu drepið hann. Systursonur Páls frétti af því og skýrði honum og Lýsíasi frá. Páll var þá fluttur með hervernd til Antóníusar Felixar landstjóra í Sesareu en þar var stjórnarsetur Rómverja yfir Júdeu. Eftir að Felix hafði heitið Páli áheyrn lét hann hann vera í gæslu í höll Heródesar mikla, aðalstöðvum landstjórans.
Djörfung frammi fyrir valdhöfum
13. Um hvað bar Páll vitni fyrir Felix og með hvaða afleiðingum?
13 Postulinn fékk fljótlega að bera af sér rangar ákærur og bar djarflega vitni fyrir Felix. (24:1-27) Í viðurvist Gyðinga, sem ákærðu hann, sýndi Páll fram á að hann hafði ekki æst til skrílsláta. Hann sagðist trúa því sem stæði í lögmálinu og spámönnunum og hefði þá von ‚að upp myndu rísa bæði réttlátir og ranglátir.‘ Páll hafði farið til Jerúsalem með „ölmusugjafir“ (samskot til fylgjenda Jesú sem ef til vill höfðu komist í nauðir vegna ofsókna) og látið hreinsast í helgidóminum. Felix skaut dómi sínum á frest en Páll fékk síðar að prédika fyrir honum og konu hans, Drúsillu (dóttur Heródesar Agrippa I), um Krist, réttlæti, sjálfsögun og komandi dóm. Slíkt tal skelfdi Felix svo að hann lét Pál fara. Eftir það lét hann oft kalla postulann fyrir sig þar eð hann vonaðist eftir mútufé frá honum. Felix vissi að Páll var saklaus en hélt honum eigi að síður föngnum í von um að afla sér hylli Gyðinga. Tveim árum síðar tók Porkíus Festus við af Felix.
14. Hvað notfærði Páll sér er hann kom fram fyrir Festus og hvaða hliðstæða er fólgin í því?
14 Páll varði mál sitt einnig djarflega fyrir Festusi. (25:1-12) Ef postulinn var dauðasekur skoraðist hann ekki undan því að deyja en enginn maður gat selt hann Gyðingum á vald til að þóknast þeim. „Ég skýt máli mínu til keisarans,“ sagði Páll, og notfærði sér þar rétt sinn sem rómverskur borgari til að verja mál sitt í Róm (fyrir Neró sem var keisari þá). Áfrýjun Páls var tekin til greina og Páll skyldi „vitna í Róm“ eins og sagt var fyrir. (Postulasagan 23:11) Vottar Jehóva notfæra sér einnig þau ráð sem þeir hafa til að ‚verja fagnaðarerindið og staðfesta með lögum.‘ — Filippíbréfið 1:7.
15. (a) Hvaða spádómur rættist þegar Páll kom fyrir Agrippa konung og keisarann? (b) Hvernig ‚spyrnti Sál gegn broddunum‘?
15 Heródes Agrippa II, konungur í norðurhluta Júdeu, og systir hans Berníke (sem hann bjó með í blóðskömm), hlýddu á mál Páls er þau heimsóttu Festus í Sesareu. (25:13-26:23) Með því að bera vitni fyrir Agrippa og keisaranum uppfyllti Páll þann spádóm að hann myndi bera nafn Drottins fram fyrir konunga. (Postulasagan 9:15) Hann sagði Agrippa hvað hefði gerst á veginum til Damaskus og gat þess að Jesús hefði sagt: „Erfitt verður þér að spyrna móti broddunum.“ Líkt og þrjóskur uxi meiðir sig á því að spyrna gegn broddum, sem ýta við honum, eins hafði Páll meitt sig á því að berjast gegn fylgjendum Jesú sem áttu sér stuðning Guðs.
16. Hvernig brugðust Festus og Agrippa við vitnisburði Páls?
16 Hver urðu viðbrögð Festusar og Agrippa? (26:24-32) Festus skildi ekki upprisukenninguna en undraðist sannfæringu Páls og sagði: „Þitt mikla bókvit gjörir þig óðan.“ Sumir saka votta Jehóva nú á dögum um það að vera vitskertir þótt þeir ‚mæli sannleiksorð af fullu viti‘ eins og Páll. „Þú þykist ekki vera lengi að gjöra mig kristinn,“ sagði Agrippa sem lauk yfirheyrslunni en viðurkenndi að láta hefði mátt Pál lausan ef hann hefði ekki skotið máli sínu til keisarans.
Sjávarháski
17. Lýstu þeim hættum sem Páll lenti í á ferð sinni til Rómar.
17 Á leiðinni til Rómar lenti Páll í ‚háska á sjó.‘ (2. Korintubréf 11:24-27) Hersveitarforingi er Júlíus hér bar ábyrgð á föngunum sem sigldu frá Sesareu til Rómar. (27:1-26) Er skipið kom í höfn í Sídon var Páli leyft að heimsækja trúbræður sína sem hresstu hann andlega. (Samanber 3. Jóhannesarbréf 14.) Í Mýru í Litlu-Asíu lét Júlíus fangana taka skip er flutti kornfarm til Ítalíu. Þrátt fyrir sterkan mótvind komust þeir til Góðhafna í grennd við borgina Laseu á Krít. Eftir að hafa lagt úr höfn á leið til Fönix lenti skipið í norðaustan hvassviðri. Skipverjar óttuðust að skipið myndi bera inn á Syrtuflóa út af Norður-Afríku og stranda þar (í kviksyndi) og ‚felldu segl‘ og ef til vill einnig möstur. Skipsskrokkurinn var síðar reyrður köðlum til að skipið myndi ekki liðast í sundur. Er skipið hrakti áfram undan vindinum næsta dag var það létt með því að varpa hluta farmsins fyrir borð. Á þriðja degi vörpuðu þeir útbyrðis búnaði skipsins (seglum og varabúnaði). Er lítil von virtist um björgun birtist engill Páli og sagði honum að óttast ekki því að hann myndi standa frammi fyrir keisaranum. Það var mikill léttir er postulinn sagði að alla á skipinu myndi bera á land á eyju einni!
18. Hvernig björguðust Páll og samferðamenn hans?
18 Sæfarendurnir lifðu af. (27:27-44) Um miðnætti á 14. degi þóttust skipverjar verða þess varir að land væri í nánd. Þeir staðfestu það með grunnsökku og köstuðu akkerum til að skipið bæri ekki upp á kletta. Páll hvatti alla á skipinu, 276 talsins, til að matast. Síðan var létt á skipinu með því að kasta hveitinu fyrir borð. Í dögun hjuggu skipverjar á akkerin, leystu stýrisböndin og undu upp framseglið. Skipið strandaði á rifi og skuturinn tók að liðast í sundur. En allir komust á land.
19. Hvað kom fyrir Pál á Möltu og hvað gerði hann fyrir aðra þar?
19 Skipverjar, þreyttir og gegnblautir, komust að raun um að þeir voru á eynni Möltu og eyjarskeggjar sýndu þeim „einstaka góðmennsku.“ (28:1-16) Er Páll lagði hrís á eld vaknaði naðra af vetrardvala og festi sig á hönd hans. (Nú eru engar eiturnöðrur á Möltu en þetta var eitursnákur.) Möltubúar héldu að Páll hlyti að vera morðingi úr því að „refsinornin“ leyfði honum ekki að lifa, en er hann hvorki bólgnaði upp né datt niður dauður sögðu þeir að hann væri guð. Páll læknaði marga síðar meir, meðal annars föður Públíusar, æðsta manns á eynni. Þrem mánuðum síðar lögðu Páll, Lúkas og Aristarkus úr höfn á skipi með stafnslíkneski „Tvíburanna“ (sona Seifs, þeirra Kastors og Pollux, en þeir áttu að vera tvíburar og verndarguðir sjófarenda). Júlíus hélt áfram með fanga sína eftir að skipið hafði tekið land í Púteólí. Páll þakkaði Guði og hughreystist er kristnir menn frá höfuðborg Rómar komu til móts við hann á Appíusartorgi og Þríbúðum á Appíusarvegi. Í Róm var Páli leyft að búa út af fyrir sig með hermanni er gætti hans.
Haldið áfram að boða ríki Jehóva
20. Við hvað var Páll önnum kafinn í húsnæði sínu í Róm?
20 Í húsakynnum sínum í Róm boðaði Páll ríki Jehóva með djörfung. (28:17-31) Hann sagði framámönnum Gyðinga: „Vegna vonar Ísraels ber ég þessa hlekki.“ Sú von fól það í sér að viðurkenna Messías sem við verðum einnig að vera fús til að þjást fyrir. (Filippíbréfið 1:29) Enda þótt fæstir þessara Gyðinga hafi trúað höfðu margir heiðingjar og sumir Gyðingar rétt hjartalag. (Jesaja 6:9, 10) Í tvö ár (um 59-61) tók Páll á móti öllum sem komu til hans, „boðaði Guðs ríki og fræddi um Drottin Jesú Krist með allri djörfung, tálmunarlaust.“
21. Hvaða fordæmi gaf Páll allt þar til lífi hans á jörðu lauk?
21 Ljóst er að Neró lýsti Pál saklausan og lét hann lausan. Postulinn tók upp að nýju starf sitt í félagi við Tímóteus og Títus. Síðar var hann aftur hnepptur í fangelsi í Róm (um árið 65) og dó líklega píslarvættisdauða fyrir hendi Nerós. (2. Tímóteusarbréf 4:6-8) Allt til enda var Páll gott fordæmi sem hugrakkur boðberi Guðsríkis. Megi allir sem eru vígðir Guði nú á síðustu dögum boða ríki Jehóva djarflega með sama anda.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvernig þjálfaði Páll öldungana í Efesus í þjónustunni?
◻ Hvernig gaf Páll gott fordæmi í því að lúta vilja Guðs?
◻ Hvað er líkt með skrílslátum, sem Páll mátti þola, og þeim sem vottar Jehóva verða fyrir nú á dögum?
◻ Hvaða rétt notfærði Páll sér er hann kom fyrir Festus landstjóra og hvaða nútímahliðstæðu á það sér?
◻ Við hvaða starf var Páll önnum kafinn í húsnæði sínu í Róm og hvaða fordæmi gaf hann?