3. KAFLI
„Þeir fylltust … heilögum anda“
Áhrifin af því að heilögum anda var úthellt á hvítasunnu
Byggt á Postulasögunni 2:1–47
1. Lýstu andrúmsloftinu á hvítasunnuhátíðinni.
EFTIRVÆNTINGIN liggur í loftinu í Jerúsalem.a Reykur stígur upp af musterisaltarinu og Levítarnir syngja Hallelsálmana (Sálm 113 til 118), líklega í víxlsöng. Göturnar eru troðfullar af aðkomufólki. Margir eru komnir langt að eins og frá Elam, Mesópótamíu, Kappadókíu, Pontus, Egyptalandi og Róm.b Hvert er tilefnið? Hvítasunnuhátíðin sem einnig er nefnd ‚dagur frumgróðans‘. (4. Mós. 28:26) Þessi árlega hátíð markar endi bygguppskerunnar og upphaf hveitiuppskerunnar. Þetta er mikill gleðidagur.
2. Hvaða stórmerkilegu atburðir eiga sér stað á hvítasunnu árið 33?
2 Um níuleytið á þessum milda vordegi árið 33 gerist nokkuð sem menn hafa undrast æ síðan. Skyndilega heyrist „gnýr af himni eins og stormur væri skollinn á“. (Post. 2:2) Drunurnar fylla húsið þar sem um 120 lærisveinar Jesú eru samankomnir. Því næst gerist stórmerkilegur atburður. Lærisveinunum birtast tungur sem líkjast eldtungum og þær setjast á hvern og einn þeirra.c Síðan ‚fyllast þeir heilögum anda‘ og fara að tala erlend tungumál. Þeir yfirgefa húsið og aðkomumennirnir sem þeir hitta á götum Jerúsalem eru steinhissa að heyra að lærisveinarnir geta talað við þá. Hver og einn heyrir þá tala „á sínu máli“! – Post. 2:1–6.
3. (a) Hvers vegna má segja að orðið hafi tímamót í sögu sannrar tilbeiðslu á hvítasunnu árið 33? (b) Hvernig tengist ræða Péturs ‚lyklum himnaríkis‘?
3 Þessi hrífandi frásaga lýsir tímamótum sem urðu í sögu sannrar tilbeiðslu – upphafi andlegu Ísraelsþjóðarinnar, safnaðar andasmurðra kristinna manna. (Gal. 6:16) En það er ekki allt og sumt. Þegar Pétur ávarpaði mannfjöldann þennan dag notaði hann þann fyrsta af þrem ‚lyklum himnaríkis‘ en þeir opnuðu ólíkum hópum aðgang að sérstakri blessun. (Matt. 16:18, 19) Fyrsti lykillinn gerði Gyðingum og trúskiptingum kleift að taka við fagnaðarboðskapnum og hljóta smurningu heilags anda Guðs.d Þar með yrðu þeir hluti af hinum andlega Ísrael og ættu þá von að verða konungar og prestar í Messíasarríkinu. (Opinb. 5:9, 10) Síðar myndi þessi blessun einnig ná til Samverja og að lokum til fólks af þjóðunum. Hvað geta kristnir menn nú á dögum lært af þessum merku atburðum á hvítasunnu árið 33?
„Allir samankomnir á einum stað“ (Post. 2:1–4)
4. Hvernig var kristni söfnuðurinn á fyrstu öld upphaf þess vaxtar sem á sér stað nú á tímum?
4 Kristni söfnuðurinn myndaðist þar sem um 120 lærisveinar voru „allir samankomnir á einum stað“ – í herbergi á efri hæð – og voru smurðir heilögum anda. (Post. 2:1) Áður en dagurinn var á enda töldust skírðir safnaðarmenn í þúsundum. Það var aðeins upphafið að þeim vexti sem á sér stað í söfnuðinum enn þann dag í dag. Það er samfélag guðhræddra karla og kvenna – kristni söfnuðurinn á okkar tímum – sem ‚boðar fagnaðarboðskapinn um ríkið um alla jörðina til að allar þjóðir fái að heyra hann‘ áður en þessi heimur líður undir lok. – Matt. 24:14.
5. Hvaða blessun hefur alltaf fylgt því að sækja safnaðarsamkomur, bæði á fyrstu öld og nú á dögum?
5 Kristni söfnuðurinn átti líka eftir að styrkja trú safnaðarmanna, bæði hinna andasmurðu og síðar ‚annarra sauða‘. (Jóh. 10:16) Páll lét í ljós að hann kynni að meta þann stuðning sem safnaðarmenn veittu hver öðrum þegar hann skrifaði kristnum mönnum í Róm: „Ég þrái að sjá ykkur til að geta gefið ykkur andlega gjöf svo að þið styrkist, eða öllu heldur til að við getum uppörvað hvert annað með trú okkar, bæði ykkar og minni.“ – Rómv. 1:11, 12.
6, 7. Hvernig fylgir söfnuðurinn nú á dögum þeim fyrirmælum Jesú að boða öllum þjóðum trúna?
6 Kristni söfnuðurinn hefur sömu markmið núna og á fyrstu öld. Jesús fól lærisveinum sínum krefjandi en spennandi verk að vinna. Hann sagði við þá: „Gerið fólk af öllum þjóðum að lærisveinum, skírið það í nafni föðurins, sonarins og heilags anda og kennið því að halda öll fyrirmæli mín.“ – Matt. 28:19, 20.
7 Það er söfnuður Votta Jehóva sem vinnur þetta verk nú á dögum. Auðvitað er krefjandi verkefni að ná til fólks af alls konar málhópum en Vottar Jehóva hafa gefið út biblíutengt efni á meira en 1.000 tungumálum. Ef þú sækir samkomur að staðaldri og tekur þátt í að boða ríki Guðs og gera fólk að lærisveinum hefurðu ástæðu til að gleðjast. Þú tilheyrir þeim tiltölulega fámenna hópi á jörð sem hefur þann heiður að fá að vitna ítarlega um nafn Jehóva.
8. Hvaða hjálp fáum við í kristna söfnuðinum?
8 Jehóva Guð hefur séð okkur fyrir alþjóðlegu bræðralagi til að hjálpa okkur að halda út og vera glöð á þessum erfiðu tímum. Páll skrifaði kristnum Hebreum: „Berum umhyggju hvert fyrir öðru svo að við hvetjum hvert annað til kærleika og góðra verka. Vanrækjum ekki samkomur okkar eins og sumir eru vanir að gera heldur hvetjum hvert annað og það því meir sem við sjáum að dagurinn nálgast.“ (Hebr. 10:24, 25) Kristni söfnuðurinn er gjöf frá Jehóva til að auðvelda þér að hvetja aðra en líka til að uppörvast sjálfur. Haltu nánum tengslum við trúsystkini þín og vanræktu aldrei safnaðarsamkomurnar.
„Hver og einn heyrði talað á sínu máli“ (Post. 2:5–13)
9, 10. Hvað hafa sumir lagt á sig til að ná til fólks sem talar annað tungumál?
9 Hugsaðu þér spenninginn sem hefur gripið Gyðinga og trúskiptinga á hvítasunnu árið 33. Flestir sem voru á staðnum hafa líklega talað sameiginlegt tungumál, ef til vill grísku eða hebresku. En nú heyrði ‚hver og einn lærisveinana tala á sínu máli‘. (Post. 2:6) Þeir hljóta að hafa verið snortnir að heyra fagnaðarboðskapinn á móðurmáli sínu. Þjónar Guðs nú á dögum geta auðvitað ekki talað erlend tungumál fyrir kraftaverk. Margir hafa hins vegar boðið sig fram til flytja fólki af öllum þjóðernum boðskapinn um ríkið. Hvernig? Sumir hafa lært nýtt tungumál til að geta starfað með erlendum söfnuði í heimalandi sínu eða jafnvel flust til annars lands. Reynslan hefur sýnt að það sem þeir leggja á sig hefur oft sterk áhrif á þá sem þeir tala við.
10 Tökum Christine sem dæmi. Hún sótti námskeið í gujarati ásamt sjö öðrum vottum. Hún hitti unga konu sem talaði gujarati á vinnustað sínum og heilsaði henni á móðurmáli hennar. Konan var stórhrifin og langaði til að vita hvers vegna Christine legði það á sig að læra svona erfitt tungumál. Christine fékk tækifæri til að vitna fyrir ungu konunni. Hún hlustaði og sagði svo: „Þetta hlýtur að vera mjög mikilvægur boðskapur sem þið flytjið.“
11. Hvernig getum við búið okkur undir að boða öðrum málhópum fagnaðarboðskapinn?
11 Auðvitað geta ekki allir lært erlent tungumál. Við getum samt búið okkur undir að boða öðrum málhópum fagnaðarboðskapinn. Hvernig? Ein leið er að nota appið JW Language® til að læra að heilsa fólki á tungumáli sem er algengt á svæðinu. Þú getur lært fáeinar setningar á því máli sem geta vakið áhuga. Kannski geturðu vísað viðmælandanum á jw.org og bent honum á myndbönd og rit á hans máli. Með því að nota þessi hjálpargögn í boðuninni getum við uppskorið sömu gleði og trúsystkini okkar á fyrstu öld þegar þau gátu boðað aðkomufólki trúna og það var forviða að heyra boðskapinn ‚á sínu eigin máli‘.
„Pétur steig þá fram“ (Post. 2:14–37)
12. (a) Hvernig hafði Jóel spámaður ýjað að því sem átti sér stað á hvítasunnu árið 33? (b) Af hverju áttu lærisveinar Jesú von á að spádómur Jóels rættist á þeim tíma?
12 Pétur steig fram og talaði til mannfjöldans. (Post. 2:14) Hann útskýrði fyrir öllum sem heyra vildu að hæfileikinn til að tala erlend tungumál fyrir kraftaverk væri gjöf frá Guði og uppfylling spádómsins sem Jóel bar fram: „[Ég] úthelli … anda mínum yfir alls konar fólk.“ (Jóel 2:28) Áður en Jesús steig upp til himna sagði hann við lærisveinana: „Ég mun biðja föðurinn og hann mun senda ykkur annan hjálpara.“ Jesús nefndi síðan að hjálparinn væri heilagur andi. – Jóh. 14:16, 17.
13, 14. Hvernig reyndi Pétur að ná til hjartna fólks og hvernig getum við líkt eftir honum?
13 Lokaorð Péturs voru skýr og ákveðin: „Öll Ísraelsætt skal því vita með vissu að Guð gerði þennan Jesú, sem þið staurfestuð, bæði að Drottni og Kristi.“ (Post. 2:36) Fæstir af áheyrendum Péturs voru á staðnum þegar Jesús var tekinn af lífi á kvalastaur. En þjóðin bar sameiginlega ábyrgð á þessum verknaði. Tökum samt eftir að Pétur ávarpar samlanda sína af virðingu og reynir að höfða til þeirra. Markmið Péturs var að hvetja áheyrendur sína til að iðrast en ekki að fordæma þá. Móðgaðist fólkið út af því sem Pétur sagði? Síður en svo. Það fékk „sting í hjartað“ og spurði: „Hvað eigum við að gera?“ Jákvæð nálgun Péturs átti líklega sinn þátt í því að hann náði til hjartna margra svo að þeir iðruðust. – Post. 2:37.
14 Við getum líkt eftir Pétri þegar við reynum að ná til hjartna fólks. Við þurfum ekki að bregðast við öllum óbiblíulegum skoðunum sem viðmælandi okkar kann að láta í ljós þegar við boðum trúna. Við ættum frekar að byggja samræður okkar á því sem við erum sammála um. Ef við finnum sameiginlegan grundvöll getum við hjálpað fólki með nærgætni að skilja orð Guðs. Þegar við kynnum sannleika Biblíunnar með jákvæðum hætti er líklegra að fólk með rétt hjartalag bregðist vel við.
„Látið öll skírast“ (Post. 2:38–47)
15. (a) Hvað sagði Pétur og hver voru viðbrögðin? (b) Hvernig gátu þúsundir manna sem heyrðu fagnaðarboðskapinn á hvítasunnu verið hæfar til að láta skírast samdægurs?
15 Á hvítasunnudeginum fræga árið 33 sagði Pétur við þessa Gyðinga og trúskiptinga: „Iðrist og látið öll skírast.“ (Post. 2:38) Í framhaldinu létu um 3.000 manns skírast, líklega í laugum í Jerúsalem og nágrenni.e Gerði fólk þetta í hita augnabliksins? Er þessi frásaga hvatning fyrir biblíunemendur og börn kristinna foreldra til að flýta sér að láta skírast áður en þau eru tilbúin? Alls ekki. Munum að þessir Gyðingar og trúskiptingar sem skírðust á hvítasunnu árið 33 höfðu lesið orð Guðs vel og tilheyrðu þjóð sem var vígð Jehóva. Þeir sýndu líka að þeir höfðu brennandi áhuga á sannri tilbeiðslu, sumir hverjir með því að ferðast langar leiðir til að vera viðstaddir þessa árlegu hátíð. Eftir að hafa skilið í meginatriðum hvaða hlutverki Jesús Kristur gegndi í fyrirætlun Guðs voru þeir tilbúnir til að halda áfram að þjóna Guði – en nú sem skírðir fylgjendur Krists.
16. Hvernig sýndu kristnir menn á fyrstu öld fórnfýsi?
16 Það er greinilegt að Jehóva blessaði þennan hóp. Frásagan segir: „Allir sem tóku trú héldu hópinn og höfðu allt sameiginlegt. Þeir seldu eignir sínar og muni og skiptu andvirðinu milli allra, eftir þörfum hvers og eins.“f (Post. 2:44, 45) Allir sannkristnir menn vilja líkja eftir kærleika þeirra og fórnfýsi.
17. Hvaða skref þarf að stíga til að geta látið skírast?
17 Samkvæmt Biblíunni þarf að stíga viss skref áður en hægt er að vígjast Jehóva og skírast. Það fyrsta er að afla sér þekkingar á orði Guðs. (Jóh. 17:3) Maður þarf að trúa og iðrast fyrri lífsstefnu, það er að segja að harma það ranga sem maður hefur gert. (Post. 3:19) Síðan þarf maður að snúa við blaðinu og fara að gera það sem er rétt og í samræmi við vilja Guðs. (Rómv. 12:2; Ef. 4:23, 24) Eftir það er hægt að vígjast Guði í bæn og láta skírast. – Matt. 16:24; 1. Pét. 3:21.
18. Hvaða tækifæri hafa skírðir lærisveinar Krists?
18 Ertu vígður og skírður lærisveinn Jesú Krists? Vertu þá þakklátur fyrir það tækifæri sem þú hefur fengið. Þú getur verið öflugt verkfæri í hendi Jehóva, gert vilja hans og vitnað ítarlega um ríki hans eins og lærisveinarnir á fyrstu öld sem voru fullir af heilögum anda.
a Sjá rammann „Jerúsalem – miðstöð gyðingdómsins“.
b Sjá rammana „Róm – höfuðborg heimsveldis,“ „Gyðingar í Mesópótamíu og Egyptalandi,“ og „Kristin trú í Pontus“.
c ‚Tungurnar‘ voru ekki bókstaflega úr eldi heldur ‚líktust eldtungum‘. Þetta gefur til kynna að það sem lærisveinarnir sáu setjast á hvern og einn hafi litið út og lýst eins og eldur.
d Sjá rammann „Hverjir voru trúskiptingarnir?“
e Til samanburðar skírðust 7.402 í sex skírnarlaugum 7. ágúst 1993 á alþjóðamóti Votta Jehóva í Kíev í Úkraínu. Það tók tvær klukkustundir og korter að skíra allan fjöldann.
f Þetta var tímabundið fyrirkomulag til að fullnægja þörfum aðkomumanna sem stöldruðu við í Jerúsalem til að fræðast meira um sína nýfundnu trú. Menn gáfu af fúsum og frjálsum vilja þannig að ekki var um að ræða kommúnisma af neinu tagi eins og sumir hafa haldið fram. – Post. 5:1–4.