Lestu orð Guðs og þjónaðu honum í sannleika
„Vísa mér veg þinn, [Jehóva], lát mig ganga í sannleika þínum.“ — SÁLMUR 86:11.
1. Hvað sagði fyrsta tölublað þessa tímarits efnislega um sannleika?
JEHÓVA sendir ljós og sannleika. (Sálmur 43:3, NW) Hann gefur okkur líka hæfni til að lesa orð sitt, Biblíuna, og læra sannleikann. Fyrsta tölublað þessa tímarits — í júlí 1879 — sagði: „Líkt og látlaust, lítið blóm í eyðimörk lífsins er sannleikurinn umkringdur gróskumiklu illgresi villunnar sem næstum kæfir hann. Ef þú vilt finna hann verður þú að vera sívökull. Ef þú vilt sjá fegurð hans verður þú að sópa frá honum illgresi villunnar og klungrum þröngsýninnar. Ef þú vilt eignast hann verður þú að lítillækka þig til að höndla hann. Gerðu þig ekki ánægðan með eitt sannleiksblóm. Ef eitt hefði nægt væru þau ekki fleiri. Haltu áfram að safna þeim og leitaðu að fleirum.“ Lestur og nám í orði Guðs gerir okkur kleift að afla okkur nákvæmrar þekkingar og ganga í sannleika hans. — Sálmur 86:11.
2. Hver varð árangurinn þegar Esra og fleiri lásu lögmál Guðs fyrir Gyðingum í Jerúsalem til forna?
2 Eftir að múrar Jerúsalem voru endurbyggðir árið 455 f.o.t. lásu Esra prestur og fleiri lögmál Guðs fyrir Gyðinga. Síðan var haldin ánægjuleg laufskálahátíð, syndir þjóðarinnar játaðar og gerð ‚föst skuldbinding.‘ (Nehemíabók 8:1–9:38) Við lesum: „Þeir lásu skýrt upp úr bókinni, lögmáli Guðs, og útskýrðu það, svo að menn skildu hið upplesna.“ (Nehemíabók 8:8) Sumir láta að því liggja að Gyðingar hafi ekki skilið hebresku vel og að lögmálið hafi verið endursagt á arameísku. En textinn gefur ekki til kynna að einungis hafi verið um málfarsskýringar að ræða. Esra og félagar útskýrðu lögmálið þannig að fólkið gæti skilið meginreglur þess og farið eftir þeim. Kristnar samkomur og rit ‚útskýra‘ líka orð Guðs. Og útnefndir öldungar, sem eru ‚góðir fræðarar,‘ gera það einnig. — 1. Tímóteusarbréf 3:1, 2; 2. Tímóteusarbréf 2:24.
Varanlegt gagn
3. Nefndu sumt af því gagni sem við höfum af biblíulestri.
3 Þegar kristnar fjölskyldur lesa Biblíuna saman hafa þær trúlega varanlegt gagn af. Þær kynnast lögum Guðs og læra sannleikann um kenningar, spádóma og önnur viðfangsefni. Eftir að biblíukafli hefur verið lesinn gæti höfuð heimilisins spurt: Hvaða áhrif ætti þetta að hafa á okkur? Hvernig tengist þetta öðrum biblíukenningum? Hvernig getum við notað þetta í prédikunarstarfinu? Fjölskyldan eykur innsýn sína í Biblíuna ef hún grúskar með hjálp Efnisskrár Varðturnsfélagsins eða annarra efnislykla. Einnig er mjög gagnlegt að skoða handbókina Innsýn í Ritningarnar.
4. Hvernig átti Jósúa að fara eftir fyrirmælunum í Jósúabók 1:8?
4 Lífsreglur sóttar í Ritninguna geta verið okkur leiðarljós. Og lestur og nám í ‚heilagri ritningu getur veitt okkur speki til sáluhjálpar.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:15) Ef við höfum orð Guðs að leiðarljósi höldum við áfram að framganga í sannleika hans og við fáum að sjá réttmætar óskir okkar rætast. (Sálmur 26:3; 119:130) En við þurfum að leita skilnings eins og Jósúa, eftirmaður Móse. ‚Lögmálsbókin‘ átti ekki að víkja úr munni hans heldur átti að hann að lesa hana um daga og nætur. (Jósúabók 1:8) Að láta ekki ‚lögmálsbókina‘ víkja úr munni sér þýddi að Jósúa átti ekki að hætta að segja öðrum frá þeirri fræðslu sem hún veitti. Að lesa lögmálið dag og nótt þýddi að Jósúa átti að hugleiða það og rannsaka. Páll postuli hvatti Tímóteus einnig til að ígrunda hegðun sína, þjónustu og kennslu. Tímóteus var kristinn öldungur og þurfti að gæta þess sérstaklega að líf hans væri til fyrirmyndar og að hann kenndi sannleika Biblíunnar. — 1. Tímóteusarbréf 4:15.
5. Hvað þarf til að finna sannleika Guðs?
5 Sannleikur Guðs er ómetanlegur fjársjóður. Til að finna hann þarf að grafa og leita af kappi í Ritningunni. Til að öðlast visku og skilja hvað ótti Jehóva er verðum við að vera eins og börn frammi fyrir fræðaranum mikla. (Orðskviðirnir 1:7; Jesaja 30:20, 21) Við ættum auðvitað að sanna hlutina fyrir sjálfum okkur með hjálp Biblíunnar. (1. Pétursbréf 2:1, 2) Gyðingar í Beroju „voru veglyndari . . . en í Þessaloníku. Þeir tóku við orðinu með allri góðfýsi og rannsökuðu daglega ritningarnar, hvort þessu [sem Páll sagði] væri þannig farið.“ Páll fann ekki að þessu heldur hrósaði Berojumönnum. — Postulasagan 17:10, 11.
6. Af hverju gat Jesús sagt að það væri gagnslaust fyrir vissa Gyðinga að rannsaka Ritninguna?
6 Jesús sagði vissum Gyðingum: „Þér rannsakið ritningarnar, því í þeim hyggist þér eiga eilíft líf. Og það eru þær, sem vitna um mig, en þér viljið ekki koma til mín og öðlast lífið.“ (Jóhannes 5:39, 40) Þeir rannsökuðu Ritninguna á réttum forsendum — að hún gæti leitt þá til lífs. Ritningin hafði einmitt að geyma Messíasarspádóma sem bentu á að Jesús væri leiðin til lífsins. En Gyðingarnir höfnuðu honum. Það var því gagnslaust fyrir þá að rannsaka Ritninguna.
7. Hvað þarf til að vaxa í skilningi á Biblíunni og hvers vegna?
7 Til að vaxa í skilningi okkar á Biblíunni þurfum við leiðsögn anda Guðs eða starfskraftar. „Andinn rannsakar allt, jafnvel djúp Guðs,“ til að draga fram merkingu þess. (1. Korintubréf 2:10) Kristnir menn í Þessaloníku áttu að ‚prófa allt‘ í hverjum þeim spádómi sem þeir heyrðu. (1. Þessaloníkubréf 5:20, 21) Þegar Páll skrifaði Þessaloníkumönnum (um árið 50) var Matteusarguðspjall eina bók Grísku ritninganna sem til var. Þessaloníkumenn og Berojumenn gátu því líklega prófað eða fullvissað sig um allt með því að skyggnast í hina grísku Sjötíumannaþýðingu Hebresku ritninganna. Þeir þurftu að lesa og nema Ritninguna og það þurfum við líka að gera.
Nauðsynlegt fyrir alla
8. Hvers vegna ættu útnefndir öldungar að skara fram úr í biblíuþekkingu?
8 Útnefndir öldungar ættu að skara fram úr í biblíuþekkingu. Þeir verða að vera ‚góðir fræðarar‘ og ‚fastheldnir við hið áreiðanlega orð.‘ Umsjónarmaðurinn Tímóteus átti að ‚fara rétt með orð sannleikans.‘ (1. Tímóteusarbréf 3:2; Títusarbréfið 1:9; 2. Tímóteusarbréf 2:15) Evnike móðir hans og Lóis amma hans höfðu kennt honum Heilaga ritningu frá blautu barnsbeini og innrætt honum ‚hræsnislausa trú,‘ þótt faðir hans væri ekki í trúnni. (2. Tímóteusarbréf 1:5; 3:15) Trúaðir feður eiga að ala börn sín upp „með aga og umvöndun“ Jehóva. Sér í lagi má ekki vera hægt að saka „trúuð börn“ öldunga um „gjálífi eða óhlýðni.“ (Efesusbréfið 6:4; Títusarbréfið 1:6) Óháð aðstæðum ættum við því að taka mjög alvarlega þörfina að lesa, nema og fara eftir orði Guðs.
9. Af hverju ættum við að nema Biblíuna með trúbræðrum okkar?
9 Við ættum líka að nema Biblíuna ásamt trúbræðrum okkar. Páll vildi að kristnir menn í Þessaloníku ræddu ráðleggingar hans sín á meðal. (1. Þessaloníkubréf 4:18) Ekkert er betur til þess fallið að skerpa skilning okkar á sannleikanum en að rannsaka Ritninguna í félagi við aðra dygga biblíunemendur. Það er sannmæli sem orðskviðurinn segir, að „járn brýnir járn, og maður brýnir mann.“ (Orðskviðirnir 27:17) Járnverkfæri getur ryðgað ef það er ekki notað og brýnt. Eins þurfum við að hittast reglulega og brýna hvert annað með því að deila hvert með öðru þeirri þekkingu sem við höfum viðað að okkur með lestri, námi og hugleiðingu um sannleiksorð Guðs. (Hebreabréfið 10:24, 25) Og það er ein leið til að fullvissa okkur um að við njótum góðs af andlegum ljósleiftrum. — Sálmur 97:11; Orðskviðirnir 4:18.
10. Hvað merkir það að lifa og ganga í sannleikanum?
10 Í biblíunámi okkar er viðeigandi að biðja til Guðs eins og sálmaritarinn: „Send ljós þitt og trúfesti þína [„sannleika þinn,“ NW], þau skulu leiða mig.“ (Sálmur 43:3) Ef við þráum að hafa velþóknun Guðs verðum við að lifa og ganga í sannleika hans. (3. Jóhannesarbréf 3, 4) Það felur í sér að fylgja kröfum hans og þjóna honum í trúfesti og einlægni. (Sálmur 25:4, 5; Jóhannes 4:23, 24) Við verðum að þjóna Jehóva í sannleika eins og hann er birtur í orði hans og skýrður í ritum ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ (Matteus 24:45-47) Það útheimtir nákvæma þekkingu á Ritningunni. Hvernig ættum við þá að lesa og nema orð Guðs? Ættum við að hefja lesturinn í 1. Mósebók 1. kafla, 1. versi og lesa allar 66 biblíubækurnar hverja á fætur annarri? Já, sérhver kristinn maður, sem á alla Biblíuna á sinni tungu, ætti að lesa hana frá 1. Mósebók til Opinberunarbókarinnar. Og markmið okkar með lestri Biblíunnar og kristilegra rita ætti að vera að auka skilning okkar á hinu mikla safni biblíusannleika sem Guð hefur veitt okkur aðgang að fyrir atbeina hins ‚trúa þjóns.‘
Lestu orð Guðs upphátt
11, 12. Af hverju er gagnlegt að láta lesa upphátt úr Biblíunni á samkomum?
11 Við getum lesið í hljóði þegar við erum ein. Til forna lásu menn þó upphátt fyrir sjálfa sig. Þess vegna heyrði Filippus trúboði eþíópska hirðmanninn lesa í spádómi Jesaja þar sem hann ók í vagni sínum. (Postulasagan 8:27-30) Hebreska orðið, sem þýtt er „lesa,“ merkir fyrst og fremst að „kalla.“ Finnist mönnum í fyrstu erfitt að lesa í hljóði og skilja hið lesna ættu þeir því að vera ófeimnir að lesa hvert orð upphátt. Aðalatriðið er að læra sannleikann með því að lesa ritað orð Guðs.
12 Það er gagnlegt að heyra Biblíuna lesna upphátt á kristnum samkomum. Páll postuli hvatti samstarfsmann sinn, Tímóteus: „Ver þú, þangað til ég kem, kostgæfinn að lesa [„opinberlega,“ NW] úr Ritningunni, áminna og kenna.“ (1. Tímóteusarbréf 4:13) Páll sagði Kólossumönnum: „Þegar búið er að lesa þetta bréf upp hjá yður, þá látið líka lesa það í söfnuði Laódíkeumanna. Lesið þér og bréfið frá Laódíkeu.“ (Kólossubréfið 4:16) Og Opinberunarbókin 1:3 segir: „Sæll er sá, er les [„upphátt,“ NW] þessi spádómsorð, og þeir, sem heyra þau og varðveita það, sem í þeim er ritað, því að tíminn er í nánd.“ Ræðumenn ættu því að lesa ritningargreinar til stuðnings því sem þeir segja söfnuðinum.
Að nema fyrirfram valið efni
13. Hver er árangursríkasta aðferðin til að kynnast sannleika Biblíunnar og hvað getur auðveldað okkur að finna ritningarstaði?
13 Árangursríkasta aðferðin til að læra sannindi Biblíunnar er sú að nema fyrirfram valið efni. Orðstöðulykill, þar sem biblíuorðum er raðað í stafrófsröð og þau sýnd í samhengi eftir bók, kafla og versi, auðvelda til muna leitina að ritningargreinum er tengjast ákveðnu viðfangsefni. Og hægt er að samræma slíka ritningarstaði innbyrðis af því að höfundur Biblíunnar er ekki í mótsögn við sjálfan sig. Með heilögum anda innblés hann um 40 mönnum að skrifa Biblíuna á 16 alda tímabili, og það er þrautreynd aðferð til að læra sannleikann að velja sér fyrirfram ákveðið rannsóknarefni í henni.
14. Hvers vegna ætti að nema kristnu Grísku ritningarnar og þær Hebresku sem eina heild?
14 Við ættum að meta sannleika Biblíunnar nóg til þess að lesa og nema kristnu Grísku ritningarnar ásamt þeim Hebresku. Þá sjáum við hvernig Grísku ritningarnar tengjast tilgangi Guðs og varpa ljósi á spádóma Hebresku ritninganna. (Rómverjabréfið 16:25-27; Efesusbréfið 3:4-6; Kólossubréfið 1:26) Hér kemur Nýheimsþýðing heilagrar Ritningar að mjög góðu gagni. Hún var gerð af vígðum þjónum Guðs sem notfærðu sér aukna þekkingu á frumtexta Biblíunnar, uppruna og málvenjum. Biblíunámsritin, sem Jehóva hefur látið í té fyrir atbeina hins ‚trúa og hyggna þjóns,‘ eru einnig mikilvæg hjálpargögn.
15. Hvernig geturðu sýnt fram á að það sé viðeigandi að vitna hingað og þangað í Biblíuna?
15 Sumir segja kannski: ‚Þið vitnið svo sem nógu oft í Biblíuna í ritum ykkar, en af hverju vitnið þið hingað og þangað í hana?‘ Með því að vitna hingað og þangað í hinar 66 bækur Biblíunnar byggja rit okkar á framburði ólíkra, innblásinna vitna til að sanna ákveðna kenningu. Jesús notaði þessa kennsluaðferð. Í fjallræðunni vitnaði hann 21 sinni í Hebresku ritningarnar. Í þessari ræðu eru þrjár tilvitnanir í 2. Mósebók, tvær í 3. Mósebók, ein í 4. Mósebók, sex í 5. Mósebók, ein í 2. Konungabók, fjórar í Sálmana, þrjár í Jesaja og ein í Jeremía. Var Jesús að ‚reyna að sanna bara hvað sem var‘ með þessu? Nei, því að ‚hann kenndi eins og sá er vald hefur og ekki eins og fræðimennirnir.‘ Það stafaði af því að hann studdi kenningar sínar með hinu mynduga, ritaða orði Guðs. (Matteus 7:29) Eins gerði Páll postuli.
16. Hvernig vitnaði Páll í aðrar biblíubækur í Rómverjabréfinu 15:7-13?
16 Í Rómverjabréfinu 15:7-13 vitnar Páll í þrjá hluta Hebresku ritninganna — lögmálið, spámennina og Sálmana. Hann bendir á að Gyðingar og heiðingjar myndu lofa Guð og að kristnir menn eigi þar af leiðandi að taka fólki af öllum þjóðum opnum örmum. Páll segir: „Takið því hver annan að yður, eins og Kristur tók yður að sér, Guði til dýrðar. Ég segi, að Kristur sé orðinn þjónn hinna umskornu til að sýna orðheldni Guðs, til þess að staðfesta fyrirheitin, sem feðrunum voru gefin, en heiðingjarnir vegsami Guð sakir miskunnar hans, eins og ritað er [í Sálmi 18:50]: ‚Þess vegna skal ég játa þig meðal heiðingja og lofsyngja þínu nafni.‘ Og enn segir [í 5. Mósebók 32:43]: ‚Fagnið, þér heiðingjar, með lýð hans,‘ og enn [í Sálmi 117:1]: ‚Lofið [Jehóva], allar þjóðir, og vegsami hann allir lýðir,‘ og enn segir Jesaja [11:1, 10]: ‚Koma mun rótarkvistur Ísaí og sá, er rís upp til að stjórna þjóðum, á hann munu þjóðir vona.‘ Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni, svo að þér séuð auðugir að voninni í krafti heilags anda.“ Með því að vitna þannig í Biblíuna sýndi hann fram á hvernig staðfesta ætti biblíusannindi með tilvitnunum.
17. Hvaða fordæmi hafa kristnir menn fyrir því að vitna hingað og þangað í Biblíuna?
17 Í fyrra innblásna bréfi sínu vitnar Pétur 34 sinnum í tíu bækur í lögmálinu, spámönnunum og Sálmunum. Í síðara bréfinu vitnar hann sex sinnum í þrjár bækur. Í Matteusarguðspjalli eru 122 tilvitnanir í biblíubækur allt frá 1. Mósebók til Malakí. Hinar 27 bækur Grísku ritninganna vitna 320 sinnum beint í Ritninguna frá 1. Mósebók til Malakí og vísa að auki mörg hundruð sinnum óbeint í Hebresku ritningarnar. Í samræmi við fordæmi Jesú, sem postular hans fylgdu, vitna kristnir menn nú á tímum hingað og þangað í Biblíuna þegar þeir rannsaka eitthvert viðfangsefni í henni. Það er sérstaklega vel við hæfi nú „á síðustu dögum“ þegar stærstur hluti Hebresku og Grísku ritninganna er að uppfyllast. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Hinn ‚trúi þjónn‘ notar Biblíuna þannig í ritum sínum, en hann bætir engu við orð Guðs og tekur aldrei neitt burt úr því. — Orðskviðirnir 30:5, 6; Opinberunarbókin 22:18, 19.
Gakktu alltaf í sannleikanum
18. Af hverju eigum við að „ganga fram í sannleika“?
18 Við megum ekki taka neitt út úr Biblíunni því að hinar kristnu kenningar orðs Guðs í heild eru ‚sannleikurinn‘ eða „sannleiki fagnaðarerindisins.“ Það er forsenda hjálpræðis okkar að halda okkur við þennan sannleika — „ganga fram“ í honum. (Galatabréfið 2:5; 2. Jóhannesarbréf 4; 1. Tímóteusarbréf 2:3, 4) Þar eð kristnin er ‚vegur sannleikans‘ verðum við „samverkamenn sannleikans“ með því að hjálpa öðrum að efla hag hans. — 2. Pétursbréf 2:2; 3. Jóhannesarbréf 8.
19. Hvernig getum við haldið áfram að ‚lifa í sannleikanum‘?
19 Ef við eigum að ‚lifa í sannleikanum‘ verðum við að lesa Biblíuna og notfæra okkur hina andlegu hjálp sem Guð veitir fyrir milligöngu hins ‚trúa þjóns.‘ (3. Jóhannesarbréf 4) Megum við gera það sjálfum okkur til góðs þannig að við séum í aðstöðu til að fræða aðra um Jehóva Guð, Jesú Krist og tilgang Guðs. Og verum þakklát fyrir að andi Jehóva skuli hjálpa okkur að skilja orð hans og gera okkur fært að þjóna honum í sannleika.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvaða varanlegt gagn höfum við af biblíulestri?
◻ Hvers vegna ættum við að nema Biblíuna ásamt trúbræðrum okkar?
◻ Af hverju er rétt að vitna hingað og þangað í Biblíuna?
◻ Hvað merkir það að lifa eða ganga í sannleikanum og hvernig getum við gert það?
[Mynd á blaðsíðu 25]
Foreldrar, kennið börnum ykkar Ritninguna.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Jesús vitnaði víða í Hebresku ritningarnar í fjallræðu sinni.