11. KAFLI
‚Þeir glöddust og voru fullir af heilögum anda‘
Lærum af samskiptum Páls við andstæðinga sem vildu ekki hlusta
Byggt á Postulasögunni 13:1–52
1, 2. Hvað er sérstakt við fyrirhugaða ferð Barnabasar og Sáls, og hvernig á starf þeirra eftir að stuðla að uppfyllingu Postulasögunnar 1:8?
ÞETTA er spennandi dagur hjá söfnuðinum í Antíokkíu. Af öllum spámönnum og kennurum þar hefur heilagur andi valið Barnabas og Sál til að flytja fagnaðarboðskapinn til fjarlægra staða.a (Post. 13:1, 2) Vissulega höfðu trúboðar verið sendir út áður, en þeir fóru til staða þar sem kristnin hafði þegar skotið rótum. (Post. 8:14; 11:22) Barnabas og Sál eru nú sendir til landa þar sem mjög fáir hafa heyrt fagnaðarboðskapinn og Jóhannes Markús fer með sem aðstoðarmaður þeirra.
2 Um 14 árum áður hafði Jesús sagt við fylgjendur sína: „Þið verðið vottar mínir í Jerúsalem, í allri Júdeu og Samaríu og til endimarka jarðar.“ (Post. 1:8) Með því að skipa Barnabas og Sál trúboða er stuðlað að því að spádómsorð Jesú rætist.b
„Takið frá … þá Barnabas og Sál“ (Post. 13:1–12)
3. Af hverju voru langferðir erfiðar á fyrstu öld?
3 Svo er uppfinningum eins og bílum og flugvélum að þakka að nú á dögum getur fólk ferðast langar vegalengdir á aðeins einum eða tveim tímum. En sú var ekki raunin á fyrstu öld. Ef menn fóru landleiðina á þeim tíma gerðu þeir það aðallega fótgangandi, oft um hrjóstrugt land. Dagleið var oft ekki meira en 30 kílómetrar og var mjög lýjandi.c Þótt Barnabas og Sál hafi eflaust hlakkað til verkefnisins gerðu þeir sér grein fyrir að það myndi kosta heilmikið erfiði og fórnfýsi. – Matt. 16:24.
4. (a) Hvernig voru Barnabas og Sál valdir og hvernig brugðust trúbræður þeirra við því? (b) Hvernig getum við stutt þá sem fá verkefni í söfnuðinum?
4 En af hverju voru það Barnabas og Sál sem voru ‚teknir frá til þessa verks‘? (Post. 13:2) Það er ósagt látið í Biblíunni. Við vitum að heilagur andi sá til þess að þeir voru valdir. Ekkert bendir til þess að spámennirnir og kennararnir í Antíokkíu hafi verið öfundsjúkir eða véfengt þessa ákvörðun. Þeir studdu hana heilshugar. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig Barnabasi og Sál hefur liðið þegar trúbræður þeirra föstuðu og báðust fyrir, ‚lögðu hendur yfir þá og sendu þá af stað‘. (Post. 13:3) Við ættum líka að styðja þá sem fá verkefni í söfnuðinum, þar á meðal bræður sem eru útnefndir umsjónarmenn. Við ættum ekki að öfunda þá sem fá slík verkefni heldur ‚sýna þeim kærleika og hafa sérstakar mætur á þeim fyrir starf þeirra‘. – 1. Þess. 5:13.
5. Lýstu boðunarferð Barnabasar og Sáls um Kýpur.
5 Barnabas og Sál gengu til Selevkíu, hafnarborgar nálægt Antíokkíu, og sigldu þaðan til Kýpur sem var um 200 kílómetra leið.d Barnabas var frá Kýpur og var eflaust spenntur að boða fagnaðarboðskapinn á heimaslóðum sínum. Þegar þeir komu til borgarinnar Salamis á austurströnd eyjarinnar voru þeir fljótir að hefjast handa. Þeir fóru strax „að boða orð Guðs í samkunduhúsum Gyðinga“.e (Post. 13:5) Barnabas og Sál fóru um eyjuna endilanga og boðuðu líklega trúna í helstu borgum sem voru á leið þeirra. Vera má að þeir hafi gengið eina 150 kílómetra á ferð sinni.
6, 7. (a) Hver var Sergíus Páll og hvers vegna reyndi Barjesús að gera hann afhuga fagnaðarboðskapnum? (b) Hvernig brást Sál við andstöðu Barjesú?
6 Falsguðadýrkun var í miklum blóma á Kýpur á fyrstu öld. Það sýndi sig vel þegar Barnabas og Sál komu til Pafos á vesturströnd eyjarinnar. Þar hittu þeir ‚Barjesú en hann var galdramaður og falsspámaður. Hann var hjá Sergíusi Páli landstjóra, skynsömum manni.‘f Á fyrstu öld var algengt að framámenn meðal Rómverja leituðu til galdramanna eða stjörnuspekinga þegar þeir þurftu að taka mikilvægar ákvarðanir og Sergíus Páll gerði það greinilega. En boðskapurinn um ríkið vakti forvitni hans og hann „var ákafur að heyra orð Guðs“. Það fór ekki vel í Barjesú sem var einnig þekktur undir starfsheiti sínu Elýmas en það merkir ‚galdramaður‘. – Post. 13:6–8.
7 Barjesús var andsnúinn fagnaðarboðskapnum. Hann vildi verja áhrifastöðu sína sem ráðgjafi Sergíusar Páls og eina leiðin sem hann hafði til þess var „að koma í veg fyrir að landstjórinn tæki trú“. (Post. 13:8) En Sál ætlaði ekki að horfa upp á galdramann hafa áhrif á Sergíus Pál. Hvað gerði hann í málinu? Í frásögunni segir: „Sál, einnig kallaður Páll, fylltist þá heilögum anda, hvessti á hann [Barjesú] augun og sagði: ‚Þú sonur Djöfulsins og óvinur alls sem er rétt, fullur alls konar svika og illsku, ætlarðu aldrei að hætta að rangsnúa réttum vegum Jehóva? Jehóva ætlar að refsa þér og þú verður blindur og sérð ekki sólarljós um tíma.‘ Samstundis lagðist yfir hann þoka og myrkur og hann reikaði um í leit að einhverjum til að leiða sig.“g Hvaða áhrif hafði þetta kraftaverk? „Þegar landstjórinn sá hvað hafði gerst tók hann trú því að hann var djúpt snortinn af því sem hann lærði um Jehóva.“ – Post. 13:9–12.
8. Hvernig getum við líkt eftir hugrekki Páls?
8 Páll var ekki hræddur við Barjesú. Við þurfum að vera hugrökk eins og hann þegar andstæðingar reyna að grafa undan trú þeirra sem sýna áhuga á boðskapnum. Við eigum auðvitað ‚alltaf að vera vingjarnleg í tali og krydda mál okkar með salti‘. (Kól. 4:6) Við gerum þó allt sem við getum til að hjálpa áhugasömum að halda áfram að kynnast Jehóva, jafnvel þótt öðrum mislíki það. Við ættum ekki heldur að veigra okkur við að afhjúpa falstrú sem ‚rangsnýr réttum vegum Jehóva‘ eins og Barjesús gerði. (Post. 13:10) Líkt og Páll skulum við boða sannleikann hugrökk og reyna að ná til hjartna einlægs fólks. Og jafnvel þótt stuðningur Jehóva sé ekki jafn augljós og hann var hjá Páli getum við treyst að hann beiti heilögum anda sínum til að draga þá til sannleikans sem eru þess verðugir. – Jóh. 6:44.
„Eitthvað hvetjandi fram að færa“ (Post. 13:13–43)
9. Hvernig eru Páll og Barnabas góð fyrirmynd þeirra sem fara með forystu í söfnuðinum nú á dögum?
9 Svo virðist sem ákveðin breyting hafi átt sér stað þegar mennirnir lögðu úr höfn í Pafos og sigldu til Perge í Litlu-Asíu sem er um 250 kílómetra sjóleið. Í Postulasögunni 13:13 er talað um ‚Pál og félaga hans‘. Orðalagið bendir til þess að nú hafi Páll farið með forystu fyrir hópnum. Ekkert gefur þó til kynna að Barnabas hafi öfundað Pál. Mennirnir tveir héldu áfram að vinna saman að verkefnum sínum í þjónustu Guðs. Páll og Barnabas eru góð fyrirmynd þeim sem fara með forystu í söfnuðinum nú á dögum. Þeir keppa ekki hver við annan um áberandi stöður í söfnuðinum heldur muna eftir orðum Jesú: „Þið eruð öll bræður og systur.“ Hann bætti við: „Hver sem upphefur sjálfan sig verður auðmýktur og hver sem auðmýkir sjálfan sig verður upphafinn.“ – Matt. 23:8, 12.
10. Lýstu leiðinni frá Perge til Antíokkíu í Pisidíu.
10 Jóhannes Markús yfirgaf Pál og Barnabas þegar þeir komu til Perge og sneri aftur til Jerúsalem. Ekki er útskýrt hvers vegna hann yfirgaf þá skyndilega. Páll og Barnabas héldu ferðinni áfram frá Perge til Antíokku í Pisidíu, borgar í skattlandinu Galatíu. Þetta var ekki auðveld leið því að Antíokkía í Pisidíu er í 1.100 metra hæð yfir sjávarmáli. Leiðin var líka varasöm fyrir þá sök að ræningjar sátu um vegina. Til að bæta gráu ofan á svart er líklegt að Páll hafi átt við veikindi að stríða á þeim tíma.h
11, 12. Hvernig höfðaði Páll til áheyrenda sinna í samkunduhúsinu í Antíokkíu í Pisidíu?
11 Páll og Barnabas gengu inn í samkunduhúsið í Antíokkíu í Pisidíu á hvíldardegi. Frásagan segir: „Eftir upplestur úr lögunum og spámönnunum sögðu samkundustjórarnir við þá: ‚Menn, bræður, takið til máls ef þið hafið eitthvað hvetjandi fram að færa.‘“ (Post. 13:15) Páll stóð þá upp til að tala.
12 Páll ávarpaði áheyrendur með þessum orðum: „Ísraelsmenn og þið aðrir sem óttist Guð.“ (Post. 13:16) Áheyrendur Páls voru Gyðingar og trúskiptingar. Hvernig höfðaði Páll til þessa fólks sem vissi ekki hvaða hlutverki Jesús gegndi í fyrirætlun Guðs? Hann byrjaði á því að rekja sögu Gyðingaþjóðarinnar. Hann nefndi hvernig Jehóva „upphóf fólkið meðan það bjó sem útlendingar í Egyptalandi“ og hvernig hann „umbar það um 40 ára skeið í óbyggðunum“ eftir að hafa leyst það úr ánauð. Hann nefnir líka hvernig Jehóva hjálpaði Ísraelsmönnum að leggja undir sig fyrirheitna landið og ‚gaf þeim það til eignar‘. (Post. 13:17–19) Hugsanlegt er að Páll hafi vísað hér í ritningarstaði sem fólkið hafði heyrt rétt áður í hvíldardagslestrinum. Ef það er rétt er það enn eitt dæmi sem sýnir að Páll kunni að vera „öllum allt“. – 1. Kor. 9:22.
13. Hvernig getum við höfðað til viðmælandans?
13 Við ættum líka að reyna að höfða til þeirra sem við boðum trúna. Ef við þekkjum til dæmis trúarlegan bakgrunn viðmælandans getur það hjálpað okkur að velja umræðuefni sem hann gæti haft áhuga á. Við gætum líka vitnað í biblíuvers sem hugsanlegt er að hann kannist við. Það gæti verið áhrifaríkt að biðja hann að lesa upp úr sinni eigin biblíu. Reyndu að finna leið til að ná til hjarta viðmælanda þíns.
14. (a) Hvernig kom Páll fagnaðarboðskapnum um Jesú á framfæri og við hverju varaði hann? (b) Hvernig brást fólkið við ræðu Páls?
14 Páll ræðir því næst um hvernig ‚frelsari, Jesús,‘ kom af konungum Ísraels, en Jóhannes skírari hafði undirbúið komu hans. Síðan lýsti Páll hvernig Jesús var tekinn af lífi og reistur upp frá dauðum. (Post. 13:20–37) „Þið skuluð því vita,“ segir Páll, „að vegna hans er ykkur boðað að þið getið fengið syndir ykkar fyrirgefnar og að allir sem trúa geti réttlæst vegna hans.“ Páll segir síðan áheyrendum sínum hvers vegna þeir þurfi að taka þennan boðskap til sín: „Gætið ykkar svo að það sem stendur í spámönnunum komi ekki yfir ykkur: ‚Lítið á það verk sem ég vinn á ykkar dögum, þið smánarar. Undrist og tortímist því að þetta er verk sem þið mynduð ekki trúa þótt einhver segði ykkur ítarlega frá því.‘“ Ræða Páls hafði sterk áhrif á áheyrendur. ‚Fólkið bað þá um að ræða þessi mál aftur næsta hvíldardag,‘ segir Biblían. Frásagan heldur áfram: „Eftir að samkomunni var slitið fylgdu margir Gyðingar og trúskiptingar sem tilbáðu Guð þeim Páli og Barnabasi.“ – Post. 13:38–43.
‚Við snúum okkur að þjóðunum‘ (Post. 13:44–52)
15. Hvað gerðist á hvíldardeginum viku síðar?
15 Næsta hvíldardag „komu næstum allir borgarbúar saman“ til að hlusta á Pál. Gyðingar voru sumir hverjir verulega ósáttir og „andmæltu orðum Páls með guðlasti“. Páll og Barnabas sögðu þeim óhræddir: „Það þurfti að flytja ykkur orð Guðs fyrst. En þar sem þið hafnið því og teljið ykkur ekki þess verðuga að hljóta eilíft líf snúum við okkur að þjóðunum. Jehóva hefur gefið okkur þessi fyrirmæli: ‚Ég hef útvalið þig til að vera ljós fyrir þjóðirnar og veita frelsun til endimarka jarðar.‘“ – Post. 13:44–47; Jes. 49:6.
16. Hvernig tóku Gyðingar hvössum orðum trúboðanna og hvernig brugðust trúboðarnir við andstöðunni?
16 Áheyrendur af þjóðunum glöddust og „allir sem höfðu það hugarfar sem þurfti til að hljóta eilíft líf tóku trú“. (Post. 13:48) Orð Jehóva breiddist hratt út um allt landið. En viðbrögð Gyðinga voru allt önnur. Trúboðarnir sögðu þeim efnislega að þótt þeir hefðu fengið að heyra orð Guðs fyrst hefðu þeir kosið að hafna Messíasi og ættu þess vegna dóm Guðs yfir höfði sér. Gyðingar æstu upp hefðarkonur og fyrirmenn borgarinnar, „hleyptu af stað ofsóknum gegn Páli og Barnabasi og ráku þá burt úr héraðinu“. Hvernig brugðust bræðurnir við? Þeir ‚hristu rykið af fótum sér, þeim til viðvörunar, og fóru til Íkóníum‘. Var kristninni þá úthýst úr Antíokkíu? Síður en svo! Lærisveinarnir sem eftir voru „glöddust áfram og voru fullir af heilögum anda“. – Post. 13:50–52.
17–19. Hvernig getum við líkt eftir góðu fordæmi Páls og Barnabasar og hvernig stuðlar það að því að við höldum gleði okkar?
17 Við getum dregið lærdóm af því hvernig Páll og Barnabas brugðust við andstöðu. Við hættum ekki að boða trúna, jafnvel þótt valdamikið fólk reyni að leggja stein í götu okkar. Þegar Antíokkíumenn höfnuðu boðskap Páls og Barnabasar „hristu þeir rykið af fótum sér“. Með þessu voru þeir ekki að tjá reiði heldur lýsa yfir að þeir bæru ekki ábyrgð á gerðum fólksins. Trúboðarnir skildu að þeir gátu ekki stjórnað viðbrögðum annarra. Þeir gátu hins vegar ákveðið að halda áfram að boða trúna. Og það gerðu þeir þegar þeir héldu til Íkóníum.
18 Hvað um lærisveinana sem urðu eftir í Antíokkíu? Umhverfið var vissulega fjandsamlegt en gleði þeirra var ekki háð jákvæðum viðbrögðum fólks. Jesús sagði: „Þeir sem heyra orð Guðs og fara eftir því, þeir eru hamingjusamir.“ (Lúk. 11:28) Og það var einmitt það sem lærisveinarnir í Antíokkíu í Pisidíu ákváðu að gera.
19 Munum, eins og Páll og Barnabas, að það er verkefni okkar að boða fagnaðarboðskapinn. Viðmælendur okkar verða sjálfir að ákveða hvort þeir taka við boðskapnum eða hafna honum. Ef viðbrögðin virðast dræm getum við dregið lærdóm af lærisveinunum á fyrstu öld. Við skulum meta sannleikann að verðleikum og láta heilagan anda leiða okkur. Þá getum við haldið gleði okkar, jafnvel þegar við mætum andstöðu. – Gal. 5:18, 22.
a Sjá rammann „Barnabas – ‚huggunarsonur‘“.
b Þegar hér er komið sögu hafa verið stofnaðir söfnuðir á fjarlægum slóðum, til dæmis í Antíokkíu í Sýrlandi sem er um 550 kílómetra norður af Jerúsalem.
c Sjá rammann „Að ferðast landleiðina“.
d Skip á fyrstu öld gat siglt um 150 kílómetra leið á dag í góðum byr. Ef vindar voru óhagstæðir gat þó tekið miklu lengri tíma að sigla sömu vegalengd.
e Sjá rammann „Í samkunduhúsum Gyðinga“.
f Kýpur var undir stjórn rómverska öldungaráðsins. Æðsti stjórnandi eyjarinnar var skattlandsstjóri sem var titlaður prókonsúll.
g Héðan í frá er Sál nefndur Páll. Sumir telja að hann hafi tekið sér rómverska nafnið til heiðurs Sergíusi Páli. En Páll notaði nafnið áfram eftir að hann fór frá Kýpur og það bendir til þess að skýringin sé önnur – hann hafi einfaldlega ákveðið að nota rómverska nafnið þar sem hann var „postuli meðal þjóðanna“. Einnig er hugsanlegt að hann hafi notað nafnið Páll af því að hebreska nafnið Sál er mjög líkt grísku orði sem hefur óheppilega aukamerkingu. – Rómv. 11:13.